BARÁTTAN UM AUÐLINDIRNAR.

Samkvæmt fréttum kvöldsins vilja útgerðarmenn fá 40-65 ára nýtingarrétt á veiði landhelginnar sem ætti að upplýsa fólk eilítið hvers er að vænta verði svokölluð samningaleið farin.  Samnefnarinn var samningur Magma nýverið um 65 ára nýtingarrétt á orkuauðlindum í iðrum jarðar.  Ekki veit ég til að þessi árafjöldi eigi að vera einskonar viðmið og tel svo langan tíma fráleitan.  Aukinheldur er Magmasamningurinn mjög umdeildur og það svo að ríkið hyggst jafnvel ganga inn í kaupin.  Gegndarlaus áróður um gjaldþrot sjávarútvegs verði önnur leið farin en einstigi hagsmunaaðila er mótsögn við tal sömu manna um besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.  Það er einmitt ánauð þessara sömu aðila sem raskar öllu rekstrarumhverfi greinarinnar, öllum framförum og framtaki.  Og ekki bara á sjó heldur einnig í landi.   Rétt leið í sjávarútvegi er nægilega langur nýtingartími núverandi kvótahafa til að greiða upp sína fjárfestingu.  Dugi 20 ár ekki til er fjárfestingin hvort eð er glórulaus.  Samfara gefa strandveiðar frjálsar svo nýliðun geti átt sér stað.  Ágætt innlegg Kristins Péturssona í Silfri dagsins upplýsti svo ekki bara um gegndarlausa yfirveðsetningu aflaheimilda heldur líka um ólögmæti hennar samkvæmt lögum um veðrétt.   Yfirgangi hagsmunaaðila sjávarútvegsins verður að linna og ríkisstjórnin á að fara þá leið sem hún boðaði kjósendum sínum en ekki einhverja uppkokkaða sáttaleið hagsmunaaðila og pólitískra viðriðna.  

LÁ 


FOS.

Tónlistarskólar verða nú fyrir fallöxinni og segir einn forsvarsmaður að erfitt verði að halda uppi tónlistarkennslu þegar af er höfuðið.  Samtímis spígspora menn og velja mublur, parket og flygla í hið rándýra tónlistarhús á hafnarbakkanum.   Enn og aftur hlamma glæsihallir sér ofan á grasrótina og kæfa.  Heilbrigðisstarfsfólki og starfsemi er sömuleiðis hvarvetna úthýst og rekið inn í Landspítalaréttina sem á svo að stækka.  Væri ekki nær að leyfa fénu að vera í friði á fjalli?  Áframhaldandi afhausanir einungis til að stækka búkinn munu einungis leiða til FOS (full of shit). 
 
LÁ 

LÝÐRÆÐI OG ANDLÝÐRÆÐI.

Sjávarútvegsráðherra Hrunstjórnarinnar segir ógildingu kosninga til stjórnlagaþings eitt hið mesta áfall sem lýðræðisþjóð getur orðið fyrir.   Váááá...   Þrátt fyrir þennan hæstaréttarúrskurð hef ég ekki séð neina lýðræðislega annmarka á starfi kjörstjórnar né alþingis í þessu máli öllu.  Hinsvegar tel ég óhætt að flokka ráðningar dómara til hæstaréttar í stjórnartíð þessa sama þingmanns undir andlýðræðislega stjórnarhætti.   Sem kannski skýrir núverandi stöðu mála.


ÚTRÁS ELDRI BORGARA.

Ærleg útrás, er hún til?  Komið og sjáið undrið með berum augum í Bíó Paradís á Hverfisgötu, annaðhvort klukkan 16 í dag (laugardag) eða klukkan 20 á morgun (sunnudag).

senior citizen


ALLT OKKAR VEGNA.

Eftir heimsókn stórútgerðarmanna fá Akureyringar nú opinn bæjarfund um þá þjóðfjandsamlegu stefnu sem ríkisstjórnin boðar í sjávarútvegi. Eftir fræðsluna munu Akureyringar eflaust halda vöku sinni gagnvart breytingum fiskveiðistjórnunar því ekki gengur að hætta efnahagslífi bæjarins. Heppnir, Akureyringar, að hafa svona árvökula bæjarfulltrúa. Sömuleiðis á Tálknafjarðarhreppur láni að fagna varðandi forsvarsmenn. Oddvitinn sér til þess að byggðakvóti hafi þar árlega viðkomu og ekki skaðar svo sú forsjálni að láta eigin útgerð sjá um endurúthlutun. Þessi snilldarlega umhyggja fyrir velferð íbúanna hlýtur að tryggja oddvitanum þingsæti í næstu kosningum. Og í karphúsinu sjá menn ekki samhengið í helstefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi og almennra lífskjara í landinu. Launþegasamtökin loka augum fyrir þeirri augljósu staðreynd að kvótakerfið hefur tryggt þjóðinni gjaldeyristekjur umliðin ár og verði því umbylt er sjálfgefið að fiskurinn í sjónum hverfi héðan í fússi. Svona vitlaus þjóð á ekki skilið 200 þúsund krónur í lágmarkslaun. Enda vænlegra að hafa ekkert lágmark og ekkert hámark. Þannig nýtur frelsi einstaklingsins sín bezt.


STJÓRNLAGAÞING ORÐIÐ AÐ LÖGSPEKINGAFÓÐRI.

Stjórnlagaþing sem fjalla á um nýjan sáttmála íslenks samfélags er orðið að ófriðarbáli.  Andstæðingar þessa framtaks fagna og líta á hæstarétt sem bjargvætt og kærendurna sem þjóðhetjur.  Fylgjendur þingsins ásaka hæstarétt um of náin tengsl við fyrrum framkvæmdavald og líta á kærendurna sem þjóðníðinga.  Lungi þjóðarinnar fylgist svo með skrípaleiknum.   Í stað uppbyggilegra umræðna um grundvöll samfélagsins er stjórnlagaþingið orðið að lögspekingafóðri.  Hver á eftir öðrum túlka þeir niðurstöðuna á sinn hátt.  Eitt liggur þó fyrir:  Kosningin er dæmd ógild vegna ágalla við framkvæmd.  Hæstiréttur hefur úrskurðað að þessir ágallar dugi til ógildingar. Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, bendir á að eigi skuli ógilda kosningar nema ágallarnir hafi áhrif á úrslitin.   Þannig er ljóst að lagatúlkun er fyrir hendi, vigt og mat.  Hvort dómur hæstaréttar sé dauðadómur stjórnlagaþings kemur í ljós á næstu dögum.  Hann skerðir þó í engu rétt manna til að halda uppi kyndlinum.  
 


KLÚÐUR Í LÝÐRÆÐISÁTT.

Hæstaréttardómur um ógildingu stjórnlagaþings er staðreynd.   Umræða í netheimum er í öllum regnbogans litum og gjá andstæðra fylkinga dýpri í dag en í gær.  Trúandi á nauðsyn þessa verks, þ.e. endurskoðun stjórnarskrárinnar, er þessi úrskurður hæstaréttar vonbrigði.  Auðvitað hef ég á honum skoðun en beini þó ábyrgðinni til þeirra sem skipulögðu kosninguna, landskjörstjórnar.  Í þeirra verkahring var að leiða málið til lykta og gefa engin færi á falli þess vegna formgalla.  Hreint og klárt kosningasvindl hefði verið ásættanlegra.   Þessu klúðri til lýðræðisáttar er vitanlega klínt á ríkisstjórnina, hvert annað?  Löngu er ljóst að sterk öfl í þjóðfélaginu eru andvíg stjórnlagaþingi.  Þessi sömu öfl fögnuðu í dag.  Löglega kjörin ríkisstjórn heldur þó enn umboði sínu þó stjórnlagaþingið nýkjörna geri það ekki.    Og eini raunhæfi kostur þessarar ríkisstjórnar, ætli hún sér að sitja áfram, er halda fast við sinn keip og undirbúa þegar í stað kosningar til nýs stjórnlagaþings.   Þannig stendur hún og fellur með sínum loforðum og gjörðum og þannig kemur hún til móts við dómsorð hæstaréttar í dag.   Hvort lýðræðið sé peninganna virði kemur svo í hlut kjósenda að skera úr um við næstu alþingiskosningar.   En hopi ríkisstjórnin frá stjórnlagaþingi er alveg eins gott að hleypa að Hrunflokkunum. 


STEYPUVÉL VINNUVEITENDASAMBANDSINS.

Enn og aftur birtist almenningi hin raunverulega ríkisstjórn Íslands.  Í kvöldfréttum sátu forkólfar atvinnulífsins við samningaborðið og sögðu ekkert slíkt koma til greina nema lögboðnir valdhafar beygðu sig undir þeirra vilja í fiskveiðistjórnunarmálum.  Vilhjálmur Egilsson sagði ólíðandi að bregða fæti fyrir helstu útflutningsgrein íslendinga, sjávarútveginn, með kerfisbreytingum.  Talaði um gamlan flota sem þyrfti að endurnýja en óvissan sem fylgdi þeim Jóhönnu og Steingrími hamlaði öllum slíkum fjárfestingum.  Þegar vel undirbúinn fréttamaður stöðvar tvö spurði hvort togarasmíði væri ekki hvort sem er öll í höndum erlendra aðila  fór steypuvélin í gang.  Staðreyndin er sú að lítill línubátur veiðir fjórðung þess sem risavaxinn frystitogari halar upp árlega en er 30 sinnum ódýrari, að ekki sé talað um veiðitíma, mannskap og eldsneyti .  Margumtalaðri hagræðingu og fjárfestingu í sjávarútvegi er ekki haldið niðri af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur heldur einmitt af þessum sömu þrönghagsmunaseggjum sem kvaka hæst.   Úrkula er að þessir sjálfkjörnu ráðamenn vinnuveitendasambandsins munu nokkurn tíma koma auga á yfirgang sinn en með illu skal illt út reka og næsta skref réttkjörinna ráðamanna ætti hikstalaust að vera lagasetning sem tryggði frið á vinnumarkaði meðan unnið væri að nauðsynlegum og löngu tímabærum úrbótum á gjaldþrota fiskveiðistjórnun.  


FJÖLMENNING OG SÉRSTAÐA.

Talsmaður rasista kveðst vera fórnarlamb fordóma og formaður anti-rasista hefur sömu sögu að segja.  Annar vill fjölmenningu, hinn ekki.  Eilíflega þarf mannskepnan að falla í þennan pytt:  Ég er góður en þú vondur.  Margar ástæður geta verið fyrir ást á fjölmenningu sem og margar ástæður geta verið fyrir ást á sérstöðu.  Sérstaða þýðir ekki einangrun eða forheimskan.  Sérstaða er eitt helsta aðdráttarafl veraldarinnar og heillar marga.  Í sérstöðunni fóstrast menningin, tungumálin og fjölbreytileikinn.  Framfarir verða einnig oft til í ýktu umhverfi.  Þegar svona hugsandi fólk er spyrt við einangrun og kynþáttahatur finnst mér ansi mikið alhæft.  Það skondna er að fjölmenning inniber nákvæmlega sömu hluti og sérstaðan, menningu, tungumál og fjölbreytileika, framfarir.  Fjölmenning er kraumandi mannlífspottur sem sumum finnst heillandi en öðrum síður.   Held t.d. að afstaða til ESB-aðildar markist nokkuð af þessum ólíku viðhorfum.  Í hnotskurn er hætta sérstöðunnar sú að hún getur leitt til fábreytni í mannlífi.  Hætta fjölmenningarinnar er útvötnun með nákvæmlega sömu niðurstöðu:  Fábreytni.   Því held ég þessum ólíku hópum hópum væri hollt að hrista það besta fram úr ermum og búa til samfélag þar sem báðir molar fá að njóta sín.

LÁ   


STAÐGÖNGUMÆÐRUN.

Þorstinn í barn býður oft upp á langa og stranga eyðimerkurgöngu þeirra sem einhverra hluta vegna er fyrirmunað að kveikja lífsneista.  Frjósemislyf, glasafrjóvgun, sæðisgjöf og ættleiðing eru þekkt hjálparmeðul en staðgöngumæðrun meira á kantinum.  En bara það að fyrirbærið skuli vera til er lýsandi fyrir hversu langt fólk er tilbúið að ganga.   Nicole Kidman, leikkona, sló tvær flugur í einu höggi, eignaðist barn án röskunar á eigin líkama, og notaði til þess staðgöngumóður.  Kröfur núsins eru orðnar óseðjandi, við kunnum ekki að stoppa og teljum allt sjálfsagt nema að eldast.  Í raun er tilverunni snúið á hvolf, það sjálfsagða orðið ósjálfsagt og öfugt.   Engu að síður er staðgöngumæðrun kostur í stöðunni og illt fyrir fólk að þurfa að leita út fyrir landsteinanna.  Sjálfur tel ég staðgöngumæðrun afarkost og betra að fara ættleiðingarleiðina.   Ég get þó ekki ætlast til sömu viðhorfa af öðrum.   Blindgatan er kunnugleg í umræðu fóstureyðinga, þar stangast á eigið valfrelsi og annarra.   Fokk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband