SAMKVÆMUR FORSETI.

Forsetinn kvað í dag upp sinn úrskurð.  Sjálfur átti ég von á þessari niðurstöðu og fagna því að hinn nýji icesavesamningur skuli nú falla undir þjóðardóm eins og hinn fyrri.  Þjóðarvilji mun nú liggja til grundvallar framtíðinni sem hlýtur að vera gott veganesti.  Dómadagsspár um viðbrögð viðsemjenda falla vonandi niður dauðar eins og hinar fyrri.   En hvað um það, forsetinn hefur gefið þjóðinni boltann og þar með veitt henni aðgang til áhrifa.  Frábært mál.


KULNUÐ LÝÐRÆÐISÁST.

Andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslu um icesave segja að við eigum að treysta lýðræðislega kjörnum fulltrúum til ákvarðanna.  Umboðið sé þeirra og þeir kosnir af þjóðinni.  Gallinn er bara sá að ríkisstjórnarflokkarnir sem nú hafna þjóðaratkvæðagreiðslu sögðu fyrir kjördag vilja sjá aukið lýðræði og aukna aðkomu fólksins að ákvarðanatöku í landinu.  Á þeim grundvelli fékk þetta fólk sitt umboð.  Breytt afstaða nú er því í engra umboði.  Aukinheldur eru þau rök fráleit  að icesave snúist um skattaálögur.  Icesave snýst um grundvallaratriði, þ.e. hvort þjóð eigi að taka á sig skuldir einkaaðila.  Og við losnum ekki við icesave með samþykkt heldur þvert á móti verða þessi leiðindi á okkur fram undir miðja öldina.  Verst þykir mér þó sundrungin  með og á móti þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hvar er eiginlega lýðræðisþroski þessarar eyþjóðar?  Getum við ekki einu sinni sameinast um þjóðarvilja í þessu deilumáli og sætt okkur við niðurstöðuna?  Er lýðræðið  bara hentistefna?  Forsetinn mun að mínum dómi neita undirskrift þessara laga af þeirri einföldu ástæðu að geri hann það ekki verður icesave áfram óútkljáð.  Sátt við breta og holllendinga er góð en sátt hér heima gengur fyrir.


ÞOKA YFIR HELGUVÍK.

Kísilverksmiðja í Helguvík voru gleðifréttir kvöldfréttanna.  Loksins erlend fjárfesting á Íslandi, verktakastarfsemi og 90 störf.  Raforkan tryggð og samningar undirritaðir undir rorri kvikmyndavélanna, brosandi ráðherrar og kaupsýslumenn.  Allt uppi á borðum nema raforkuverðið.  Afsteypa hrunflokkanna afturgengin, landsmenn sviknir enn eina ferðina, nú af þeim aðilum sem fordæmdu nákvæmlega sömu vinnubrögð forvera sinna.  Er raforkan á svo miklu gjafverði að ríkisstjórnin getur ekki gefið það upp eða ráða kaupsýslumenn siðferðisstöðlum heillar þjóðar?  Hvað fær ráðamenn til að ganga í sömu skítableyjunni og hrunflokkarnir, hvað?
 


RAUNALEG ÞINGSAMKUNDA.

Alþingi íslendinga er í frjálsu falli.  Sól þess gjörsamlega kulnuð, þar ríkir skálmöld og vitrænar ákvarðanir fátíðar orðnar.  Þessi svokallaða æðsta stofnun lýðveldisins hefur í firringu sinni slitið tengslin við almenning og þjónkar annaðhvort ægivaldi hér heima eða erlendis.   Aðkoma fólks að landsmálum er annaðhvort dæmd sem glæpur eins og í málum nímenninganna eða ógilt eins og í tilfelli stjórnlagaþingsins.  Alþingismenn aftaka þjóðaratkvæðagreiðslu um risamál eins og icesave og segjast með því vera að axla ábyrgð.  Er fólk búið að gleyma fyrri loforðum um valddreifingu og lýðræði?  Var samfylkingin ekki einmitt kosin m.a. á þeim forsendum að aðkoma fólks væri tryggð þegar mikið lægi við?  Og í ljósi kortlagningar þessarar ríkisstjórnar á icesave hingað til veitir ríkisstjórninni  svo sannarlega ekki af aðstoð almennings.   Skrum liðsmanna hrunstjórnarinnar gjaldfellir svo þessa raunalegu þingsamkundu enn frekar enda viðhöfðu þeir nákvlæmlega sömu vinnubrögð þegar valdataumarnir voru þeirra.  Og gegndarlaus hræðsluáróður gegn dómstólaleiðinni kalla ég evrópuþjónkun, ekki endilega vegna þess að við eigum sigur vísan fyrir dómstólum heldur vegna þess að við, sem sjálfstæð þjóð, eigum að halda til streitu því sem við teljum rétt.  Fólkið sem veðjaði á icesave gerði það í gróðaskyni og þeirra að taka afleiðingunum, ekki íslenzkra ríkisborgara.  Komi síðan í ljós að lög séu svo broguð að heil þjóð verði sakfelld vegna ræningjagjörninga örfárra er alþjóðasamfélagið illa statt.  En hvað sem öllum vangaveltum líður er ólíðandi fyrir íslenzka þjóð að taka á sig þessar byrðar nema hún ákveði það sjálf.  Annað er hreinasti yfirgangur og vona ég innilega að forseti vor sé sömu skoðunar.
 
LÁ 

LÍFSGANGA Á LAUGARDAGSKVELDI.

Af sem áður var að setjast að sumbli á laugardagskvöldum og njóta vinaspjalls og meyja.  Kemur þó fyrir einstaka sinnum.  Nýliðið laugardagskvöld var að vanda arkað með hundinn og fengu heimasæturnar að fljóta með.  Lá leiðin út með Setbergshlíð og inn í Kaldársel.  Göngustuðið var mikið og taldi húsbóndinn 7 kílómetra áður en yfir lauk.  Þó nokkur skilti átöldu lausagöngu hunda en hvuttinn óð sármóðgaður yfir freðmýrarnar og sinnti í engu reglugerðum.    Snarkið í snjónum blandaðist smátt og smátt kyrrðinni og fögur nýsmíði fannar og náttúru fyllti hugann friði og landsást.  Enginn var sími með í för, enginn ljósvaki, hvorki klukkur né tónferjur og engan hittum við lögfræðing.   Aðeins eina raflínu.  Fór ég með stúlkunum yfir sjálfstæðishetjurnar, byrjaði á Jóni Hreggviðssyni og endaði á Unni Brá.  Benti ennfremur á birkið og sagði frá fjalldrapanum.  Mæli eindregið með slíkum lífsgöngum endrum og eins, helst í óljósmenguðu umhverfi þar sem samhljómur sálar og náttúru er hvað tærastur.  Bíngó.


ÍSLAND, KRAUMANDI MANNLÍFSPOTTUR.

Daglega les maður um hrunverja sem skildu eftir sig sviðinn akur.  Það eru þó ekki fangelsissögur heldur frásagnir af glæsihúsum, nýjum viðskiptaáætlunum eða málssóknum á hendur  ríkisins.  Þessir sömu aðilar jafnvel taldir vænir fjárfestingarkostir samhliða því að alþingi samþykkir icesave. Menn gleyma viljandi eða óviljandi orsakasamhenginu og hleypa aftur inn í samfélagið sama fúla loftinu.  Á vinnumarkaðnum glímir þjóðin við þrönghagsmunahópa og stjórnmálafólki gengur illa að losa sig úr viðjum hagsmunatengsla og samkrulls.  Völdin viðhalda sér sjálf.  Þess vegna er mjög aðkallandi að fá ómengað fólk hvaðanæva úr þjóðfélaginu, landsbyggðarfólk og þéttbýlinga,  háskólakonur og grásleppukarla, presta og pulsugerðarmenn til innspýtingar.  Kerfið má ekki leggja ný drög að þjóðarsáttmála því þá verður engu breytt. 
 


BELGINGUR BÆJARSTJÓRA.

Sautján bæjarstjórar víðsvegar á landinu kveða sér hljóðs og segja svokallaða sáttaleið í sjávarútvegi eina vit fiskveiðistjórnunar, þessa leið eigi að fara tafarlaust til að eyða allri óvissu í sjávarútvegi.  Er reyndar sammála að ríkisstjórnin hefur með yfirlýsingum sínum en aðgerðaleysi í kvótamálunum skapað óþarfa óvissu engu til framdráttar, hvorki fylgjendum kvótans né andstæðingum.   En yfirlýsing bæjarstjóranna er merkileg fyrir þær sakir að hún sýnir vel samtvinnun hin opinbera valds og óopinbera.  Að frambjóðendur sjávarbyggðanna skuli aldrei benda á neinn agnúa í kvótakerfinu sætir stórfurðu miðað við hversu umdeilanlegt það er meðal íbúanna og fólksins í landinu.  Að aldrei skuli heyrast pústur í þessu fólki nema kerfinu til stuðnings vekur í ljósi reynslunnar upp stórar spurningar.  Stuðningur atvinnulífs við einstaka frambjóðendur er á tíðum augljós á þessum litlu stöðum og  hvet ég fólk til að skoða samhengið í því ljósi.


HVAÐ FÁ ÞEIR Í STAÐINN?

Fljótt skipast veður í lofti.  Þingmeirihluti fyrir icesave.  Úps...  Hvað gerðist?  Sjálfstæðismenn hafa breytt grundvellinum um skuldir óreiðumanna þannig að þær skuli ekki borga nema að einhverju hámarki.  Þannig að nú á að ríkisvæða rányrkju einkavæðingarinnar.   Spádómar um að ekki væri hægt að ná fram betri samningi, alþjóðasamfélagið yrði vitlaust og markaðir myndu lokast gengu engir eftir.  Ennfremur væru viðsemjendur okkar vissir í sinni sök væri málsókn af þeirra hendi löngu hafin, þeir treysta einfaldlega á eftirgjöf þingsins hér heima sem nú er í sjónmáli.   Icesavemálið á að fara fyrir dóm nema þjóðaratkvæðagreiðsla ákveði annað.   Vona forsetinn sé þessa meðvitaður.  Hinsvegar er maður hugsi varðandi skoðanaskipti sjálfstæðismanna....   Hvað fá þeir í staðinn?


FAGNA BER ÞÁ ÞJÓÐIN DETTUR.

Fögnuður sumra þingmanna stjórnarandstöðunnar vegna ógildingar stjórnlagaþingskosninga er sérkennilegur.  Augljóslega verður peningasóunin, sem þeir töldu stjórnlagaþing vera, nú enn meiri.   Úrskurðurinn raskar lýðrlæðislegu ferli réttkjörinnar ríkisstjórnar og bætir svo sannarlega ekki ímynd okkar út á við.  Skiptir svo miklu máli að klekkja á andstæðingnum að hagsmunir þjóðarinnar gleymast? Eða er lýðræðisástin að sliga menn?  Er andstaðan við aðkomu fólksins í landinu að eigin stjórnarskrá þá lýðræðisást?   Voru dómararáðningar þarsíðustu ríkisstjórnar kannski líka lýðræðisást?  Eru einokunartilburðir alþingis varðandi gerð nýrrar stjórnarskrár lýðræðisást?  Eru fagnaðarlæti þingmanna vegna þessarar  niðurstöðu hæstaréttar lýðræðisást?  Þjóðhollur stjórnmálamaður teldi þennan úrskurð hæstaréttar hryggilegan fyrir land sitt og þjóð.   
 


HÆSTIRÉTTUR ÍSLANDS VAR EKKI Í ENGLANDI.

Fyrrverandi formaður landskjörstjórnar mætti galvaskur í kastljósi kvöldsins og útskýrði sína sýn á úrskurði hæstaréttar um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings.  Fórst honum vel, reyndar afburðavel.  Kom fram í máli Ástráðs að honum þætti mikillar strangtúlkunnar gæta í mati hæstaréttar og úrskurðinn óígrundaðan í heild sinni.  Í raun véfengdi hann dómgreind sexmenninganna sem ógiltu kosningarnar þó hann segði það ekki berum orðum.  Hæstiréttur er æðsta dómsstig þjóðarinnar og á að vera endanlegur.  Í honum kristallast siðferðisgrunnur þjóðarinnar, vizka og almannaheill.  Því er ógilding kosninga vegna ágalla sem ekki hafa áhrif á úrslitin á skjön við heilbrigða skynsemi, a.m.k. er það svo hjá öðrum þjóðum.   Hvers vegna var þessi leið farin þegar rétturinn gat hæglega farið aðra og rökréttari leið?  Hvers á þjóðin að gjalda?  Sagt er að virða beri niðurstöðu hæstaréttar, annað storki lýðræðinu.  En þegar úrskurður þessa æðstadóms ber einmitt þennan sama storkandi keim, hvað skal þá til bragðs taka?   Allt ber að sama brunni, jarðvegur kærendanna, jarðvegur dómendanna, ráðning dómendanna, viðbrögð þingmannanna sem réðu dómarana og afstaða þessa samkrulls alls til stjórnlagaþings, auðlindanýtingar og skiptingu landsins gæða.  Öll þessi atriði skýra vel orð forsætisráðherra sem kvað íhaldið skíthrætt við stjórnlagaþingið.   Sjálfur vil ég kalla úrskurð hæstaréttar útspil og hefur það svo sannarlega veikt trú mína á þessari stofnun sem endanlegu dómstigi þjóðarinnar.   Held mig ekki einan um það.
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband