EINS BRAUÐ ER ANNARS DAUÐI.

Kapteinn á fiskiskipi í Barentshafinu kveðst aldrei hafa lent í þvílíku fiskeríi á öllum sínum ferli, bæði hvað magn varðar og stærð.  Um er að ræða þorsk.  Á sama tíma er rifist um makrílveiðar.  Er hugsanlegt samhengi þarna á milli?  Lengi höfum við íslendingar veitt smærri fisktegundir eins og loðnu, kolmunna, síld og undanfarin ár makríl.  Megnið fer í gúanó, dýrafóður.  Einnig krefst fiskeldi stærri fiska að gengið sé í þennan brunn.  Gæti gríðarleg fiskgengd í Barentshafi skýrst af miklu æti á þeim slóðum?  Kannski er minnkandi þorskafli á Íslandsmiðum loðnuveiðinni um að kenna.  Verðugt athugunarefni fyrir fiskifræðinga.
 


SKIPULAGS- OG FUNDAFÍKN.

Sameingaráform endasendast nú vítt og breitt um þjóðfélagið, hagræðing markmiðið.  Sjúkrastofnanir og menntastofnanir eru nú hver af annari hengdar til þerris og látnar drippa í einn risastóran bala.  Skrímsli sem kallar sig stjórnsýsla stendur að þessum aðgerðum og löngu orðið ljóst að orsök allra þessara sparnaðarráðstafanna er einmitt viðhaldskostnaður þessarar sömu stjórnsýslu.  Íslenskt samfélag rekst ekki á reiknilíkönum, súluritum og uppsetningarforritum heldur fólkinu sem passar börnin okkar, kennir þeim og sinnir feðrum okkar og mæðrum í ellinni.  Allir þessir skipulags- og fundafíklar mega unnvörpum missa sín.  Niðurskurður og einföldun stjórnsýslunnar hefði átt vera verkefni þessarar ríkisstjórnar og borgarstjórnar en ljóst að þau falla næstu valdhöfum í skaut hverjir sem þeir verða.
 


AFTURHALDSBJÖLLUR KLINGJA.

Hræðsla sumra við nýja stjórnarskrá samda af úrtaki almennings er auðskýrð: Valda- og hagsmunaklíkur vilja síður sjá ókunnuga færa til hluti í herbergjum sínum.   Gardínur dregnar frá og birtu hleypt inn, skvett úr næturgagninu og dauni til margra ára hleypt út.   Flestum er eiginlegt að forðast breytingar, ekki sízt þeir sem hafa forráð.  Allt frá lýðveldisstofnun hafa verið í gangi einhverskonar tilburðir til stjórnarskrárbreytinga og mannréttindakaflinn eina búbótin hingað til.  Ákvæði um stjórnskipun, stjórnsýslubreytingar, auðlindir, umhverfi og þjóðaratkvæðagreiðslur eru enn óbreytt eða ekki til.  Sömu öfl og fögnuðu ógildingu kosninga til stjórnlagaþings nýverið hafa hamlað breytingum í allan þennan tíma og hamast enn.  Alltaf þegar færa á þegnunum aukna aðkomu að stjórn eigin lands klingja þessar afturhaldsbjöllur.  Þær vilja sín herbergi í friði og enga röskun þar á.  Stjórnlagaþing verður því alltaf ógn í þeirra hugum, ekki þó vegna fánýti né kostnaðar heldur vegna þeirrar augljósu hættu að þjóðin taki nýrri stjórnarskrá fagnandi.


NEI VIÐ ICESAVE.

Útlistingum varðandi icesave rignir nú yfir landslýð og ágætt að fá yfirlit yfir hugsanlegar útkomur.  Já við hinum nýju icesavesamningum þýðir aðgengi að lánamörkuðum, afnám gjaldeyrishafta, þjóð meðal þjóða og vinsemd í garð ESB-aðildar.  Nei þýðir lánafrystingu, áfram gjaldeyrishöft, útskúfun alþjóðasamfélagsins og útilokun frá ESB.   Já þýðir 69 milljarðar lágmark og hitt fer eftir gengisþróun og endanlegu verðmati á þrotabúi Landsbankans.  Nei þýðir hugsanlega 690 milljarðar, takk fyrir.  Jæja.  Samhliða berast svo fregnir af aðaleigenda þessa sama banka, sem reyndar er enn ógreiddur, vasast sem aðaleigandi lyfjarisans Actavis, rekandi símafyrirtækið NOVA á Íslandi og viðskiptaaðili Verners Holdings gagnavers sem vill ná fótfestu á suðurnesjum.   Væri ekki nær að kauði gengist við landráðum sínum og gerði þau upp áður en haldið er lengra.  Um þetta snýst iceasave sem og þann öfugsnúning að þjóðin borgi skuldir slíkra manna.  Og ekki bara þjóðin heldur þjóðir almennt, hví skyldi nokkur þjóð fórna eigin velferð vegna rányrkju örfárra ómerkinga?  Komum alþjóðasamfélaginu í skilning um þetta og þá verður pálminn í okkar höndum hvernig sem fer.


NIÐURSTAÐA STJÓRNLAGANEFNDAR.

Nefnd um stjórnlagaþing skilaði áliti síðdegis og kvað á um beina skipan þeirra 25 sem kjöri náðu í kosningunum sem svo voru ógiltar.  Umboð 25-menninganna verður því ekki þjóðvarið samkvæmt lögum heldur þingvarið samþykki alþingi tillögu nefndarinnar.  Nálgun á upphaflegt markmið væri þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðu stjórnlagaþings (nefndar).  Þannig fengi þjóðin að segja sitt um útkomuna.  Vona alþingi sjái þennan flöt og hamli ekki jafn sjálfsögðu ferli.  


SLAKTAUMASTJÓRN.

Leitin að víðtækri samstöðu tekur sinn toll.  Það sést berlega á glímu þessa þingmeirihluta við minnihlutann en þrefið er á góðri leið með að rústa kjörtímabilinu.  Við getum deilt um réttur og röngur en útkoma endalausra samræðustjórnmála er kyrrstaða.  Í hnotskurn hafa sjálfstæðismenn drepið helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar á dreif og hindrað þeirra framgang.  Farsinn í kringum stjórnlagaþingið er glöggt dæmi og öfgafull túlkun á lögum um þessa ráðgefandi samkundu ekkert annað en skemmdarverk.  Með þessa augljósu staðreynd að leiðarljósi á ríkisstjórnin að leysa þetta mál í samvinnu við fólkið í landinu en ekki sjálfstæðisflokkinn.  Kvótamálin eru svo annað stórmál hvurs framganga er engin.  Þar hefur þjóðarvilji margsinnis komið fram en aftur kýs ríkisstjórnin að ná sátt við sjálfstæðisflokkinn, sátt sem er ekki til.  Sé ekki ætlunin að nota stjórnartaumana er alveg eins gott að afhenda hrunflokkunum þá aftur. 
 


MÁLSKOT.

Fjölgandi er þeim þingliðum sem er í nöp við málskotsrétt forsetans.  Jafnvel hörðustu fylgismenn snúist til andlags.   Allt út af bankaránsreikningum þeirra landsbankamanna sem Davíð séról á sínum tíma og þó þeir hafi ekki einu sinni borgað bankann er hugsanlegt að gengið verði til samninga um nýtt gagnaver sem tengist forsprakka þessa sjálfumhverfa hóps.  Við höfum hreinlega ekki efni á öðru segir hægri höndin meðan sú vinstri borgar icesave.  Er furða þó forsetinn vísi boltanum til þjóðarinnar þó vitlaus sé, skiptir ekki máli hvor.  
 


SÍÐASTA HÁLMSTRÁ RÍKISSTJÓRNARINNAR.

Dagar óbreytts kvótakerfis eru senn taldir.  Meðvitund almennings hefur stóraukist hvað þessi mál áhrærir enda tala staðreyndir sínu máli.  Málsvarar engra breytinga hafa misst trúverðugleikann og í öllum flokkum er vaxandi vilji til breytinga.  Því verður fróðlegt að fylgjast með útspili sjávarútvegsráðherra á næstu dögum og hvernig breytingar hann boðar.   Lánleysi ríkisstjórnarinnar hefur verið algjört á síðustu mánuðum og henni lífsnauðsynlegt að koma einhverju stefnumála sinna sómasamlega frá sér.  Við blasir að örva atvinnulíf um land allt með frjálsum strandveiðum og einnig er lag að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar með auknum heildarkvóta og yrði viðbótinni úthlutað með nýju sniði.  Ríkisstjórnin hefur tvö ár til að sannreyna boðaða leið í sjávarútvegi og gengur vonandi óhrædd þann veg.  Í þessu er allt að vinna, bæði fyrir þjóð og stjórn.
 
LÁ 

EINHLIÐA RÉTTUR RÍKIS SAMKVÆMT EES.

Strax heyrum við hótanir um efnahagslega þrautagöngu framundan vegna ákvörðunar forsetans.  Furðulegt að virða ekki lýðréttindi ríkja og raunar umhugsunarvert hvers vegna bretar og hollendingar hrís svona hugur við dómstólum.  Kannski er það vegna eftirfarandi klásúlu úr EES-samningnum: 

Ef hætta er á alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum sem líklegt er að verði viðvarandi, getur aðildarríki gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana.

Gerum okkur grein fyrir að miðað við mannfjölda toppaði fyrri icesavesamningurinn kröfur þær sem gerðar voru á þjóðverja eftir fyrra stríð og höfðu þó lagt alla Evrópu í rúst.   Og samt sögðu stjórnvöld ekki völ á öðrum betri.  Sú afstaða hefði við eðlilegar þjóðfélagsaðstæður verið frágangssök.  Nú er sami söngurinn kyrjaður, í mínum huga evrópuþjónkun sem taka ber með varúð.  

LÁ 

 

 


STEINGRÍMUR ODDSSON.

Ráðherrar og þingmenn lasta nú margir  forsetann og segja ákvörðun hans í dag einhverskonar skrumskælingu á lýðræðinu.   Forsetinn bendir hinsvegar á stjórnarskrárvarinn málskotsrétt sinn og rökstuddi vel úrskurðinn.  Þjóðin er enn klofin í afstöðu sinni gagnvart icesave og því eðlilegt að hún fylgi málinu eftir.  Orð fjármálaráðherra í dag og forundran eru afsteypa fyrrum forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, þegar fjölmiðlafrumvarpið fékk sömu útreið.  Vangaveltur Steingríms um málskotsréttinn ættu að vera víti til varnaðar og ráðherrann gangandi sönnun þess að vald spillir fljótt og vel.  En að meirihluti alþingis hafi varnað þjóðaratkvæðagreiðslu og ætlað að troða hentilýðræði sínu á þjóðina er ekki bara yfirgangur heldur ber einnig dómgreindarleysi vott.  Enn lætur þingheimur forsetann hafa vit fyrir sér og grefur hressilega undan eigin trausti.  Vona ríkisstjórnin gefi nú þjóðinni nokkra mánuði til að glöggva sig á því sem í boði er og hrapi ekki að neinu.  Nóg er nú samt.
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband