Færsluflokkur: Bloggar

KARLAKÓR REYKJAVÍKUR.

Stjórnlagaþing hélt fund í gær og byrjaði snemma.  Spunnust upp líflegar umræður vegna eins og annars og strax ljóst að hér er ekki um hefðbundið þinglið að ræða.  En að þessu loknu drifum við frúin okkur á tónleika Karlakórs Reykjavíkur enda þrábeðin af 1sta tenór.  Skömmustuleg og aðeins of sein trítluðum við kirkjuendanna á milli undir ásakandi augum hinna stundvísu, m.a.s Pálínu.  Settumst svo langaftast og köstuðum mæðinni undir hátíðleik, söng og orgelspili.  Kyngikraftur kórsins jókst með hverju lagi og ekki leið á löngu uns konan fékk hríðar.  Laumuðumst við þá út bakdyramegin með hjálp kirkjuvarðarins.  En undir himnafestingunni var sem hendi væri veifað og herpingurinn hvarf.  Þótti okkur kornunum óráð að koma 2svar of seint og skelltum okkur þess í stað á ljósmyndasýningu.  Ekki bar á frekari fyrirvörum en vilji mæður vera aðeins fyrr á ferðinni gætu tónleikar Karlakórs Reykjavíkur verið málið.


HVAR ER STÓLLINN SEM Á AÐ VERA FYRIR DYRUNUM?

Skuldavandi heimilanna, forgangsatriði númer eitt í hugum margra, fékk loksins einhverskonar lendingu ríkisstjórnarinnar í gær.  Margir eru orðnir langeygir eftir einhverjum lausnum enda búið að eyða ótæpilegum tíma í icesave og ESB.   Góð lausn er að vísu ekki til enda erfitt að grípa prump og mála það grænt.  Þó virðist vera að þeir sem "sukkuðu" mest, þ.e. tóku 100% lán hagnist mest en hinir sem létu eigin fjármuni af hendi í skjólshús sín tapi því öllu.  Og yfirveðsetning ver bankastofnanir.   Held að miklu meiri inngripa sé þörf þó það kosti lagasetningu.   Og í þá veru að markaðsverð fasteigna og lánin haldist í hendur.  Annars kokgleypa bankarnir fasteignamarkaðinn ásamt gömlu óhófsseggjunum og fólki gert að þræla ævilangt í þágu þessara aðila eða missa hús sín og leigja síðan aftur hjá hústökuliðinu.   Og auðvitað með gömlu skuldina á bakinu.  Held að mun dýpri skóflustungu þurfi til að klára þessi mál með endurreisn og almannaheill í huga.   Ríkisstjórnin fellur enn og aftur í þann pytt að semja við hagsmunaaðila í stað þess að setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

LÁ 


LANGVEIK BÖRN SKORIN.

Fram kom í fréttatíma kvöldsins að hætta ætti heimahjúkrun langveikra barna.  Vægast sagt hráslagaleg tíðindi og enn furðar maður sig á forgangsröðun ráðamanna.  Endurtekið detta inn svona hrollvekjur og vekja ugg í lífi fólks sem nóg hefur af slíku fyrir.   Að beita niðurskurðarhnífnum á heimahjúkrun langveikra barna er svo öfugsnúið að erfitt er að áætla annað en ráðherra hafi misst hnífinn óvart.  Vona svo sé og mæli fremur með niðurskurði í stjórnsýslunni, þar er af nógu að taka.


GEFUM STJÓRNLAGAÞINGI SJÉNS.

Þó löngu sé búið að ákveða að hafa stjórnlagaþing bölsótast margir út í fyrirbærið, segja það ekki hafa hlotið nægilegan styrk, sé einlitt og jafnvel prívatþing Þorvaldar Gylfasonar.  Engu að síður finnur öll þjóðin fyrir sultarólinni sem góð stjórnarskrá hefði hugsanlega getað komið í veg fyrir.  Held fólk ætti fremur að beina reiði sinni til stjórnmálamanna sem enn þjaka þjóð sína með yfirveðsettu kvótakerfi, lúxusbyggingum og ofvaxinni stjórnsýslu.   Kjörsókn stjórnlagaþings telja hrunverjar traustyfirlýsingu í sinn garð.  Sjálfur tel ég það fjarri sanni og mun starfa á stjórnlagaþingi samkvæmt því.  Minni svo á að þó Þorvaldur sé einkar vel lesinn og víðsýnn maður ætla ég stjórnlagaþingi önnur vinnubrögð en að vera afgreiðslustofnun Þorvalds enda tæpast hans vilji.   Það mun koma í ljós sem og afrakstur þingsins.  Verum þolinmóð fram að því og gefum þessari lýðræðisumbót tækifæri.   Hvers vegna í ósköpunum ættum við ekki að gera það?

LÁ 


AÐ ÚRSLITUM LOKNUM.

Kjör fulltrúa á stjórnlagaþing liggur nú fyrir.  Þó sjálfur uni ég hlut mínum vel má nokkuð læra af þessu fyrsta alvöru persónukjöri þjóðarinnar.  Fjöldi farmbjóðenda var slíkur að atkvæði ofar fyrsta sæti höfðu ekkert vægi og eflaust ekki allir áttað sig á þessu.  Komi til fleiri persónukjara væri líkast betra að æskja fleirri meðmælenda með hverjum frambjóðenda til að hamla offramboði.  Enda gerði það kynninguna ansi erfiða.   Sjálfur vil ég þakka öllum sem kusu mig í hvaða sæti sem er og meðframbjóðendum öllum friðsama kosningabaráttu og málefnalega.  Vona svo þingið sjálft standi undir væntingum, það kemur í ljós.

Lýður Árnason, nýbakaður þingmaður stjórnlagaþings.


HÖGGSTAÐIR RÁÐAMANNA.

Að gefa á sér höggstað virðist íslenzkum stjórnmálamönnum í blóð borið.  Nenni varla að minnast á ráðherra hrunstjórnarinnar og tek  frekar nýleg dæmi.  Fjármálaráðherra er í vandræðum með meðferðarheimili á norðausturlandi vegna vafasamrar starfslokagreiðslu sem hann samþykkti.   Ummæli félagsmálaráðherra vegna sama máls í þá veru að þrýstingur þingmanna hafi engu ráðið um ákvörðun sína varðandi þetta sama meðferðarheimili eru ótrúverðug.  Sérlega þegar hann í næsta orði segir að svona þrýstingur geri það að verkum að hann  vilji sjá  landið sem eitt kjördæmi.  Heilbrigðisráðherra geysist fram með sparnaðartillögur sem hann dregur svo til baka að hálfum hlut, kannski einhverskonar taktík til að ná fram einhverjum sparnaði en í augum almennings lítur þetta út eins og ráðherrrann viti lítið um eigið sýsl.  Sjávarútvegsráðherra sem hefur þó lumað á nokkrum hnífsstungum skemmir nú orðspor sitt með klaufalegri ráðningu sonar í embætti.   Eflaust má týna til fleira en svona upptalning sýnir að mikil þörf er á aðgreiningu þingmennsku og ráðherradóms.  Vona það verði sett í nýja stjórnarskrá þannig að sjálfhygli ráðherra og afglöp hverskonar beri þá út af borðum, fljótt og vel.


SPYRJUM AÐ LEIKSLOKUM.

Miklar vangaveltur eru uppi um lélega kjörsókn vegna stjórnlagaþings.   Að vanda fella menn saman túlkun og eigin skoðanir.   Að mínum dómi er ósanngjarnt að bera þetta saman við þing- og sveitastjórnarkosningar, þar er kosningabaráttan miklu sýnilegri, kostirnir mun færri og niðurstöðunni gerð skil samkvölda með spennu og drama.  Ekkert af þessu á við stjórnlagaþingið.  Hér er um afmarkað mál að ræða, urmull frambjóðenda, lítil sem engin kynning og í ofanálag er niðurstaða stjórnlagaþings ekki bindandi fyrir alþingi.  Þetta síðastnefnda tel ég þyngst á metunum en samhliða undirstrikar það hve vanmáttugur almenningur er gagnvart alþingi.   Samtrygging alþingismanna og sjálfdæmi eigin mála er algjört.  Þetta undirstrikar nauðsynlega aðkomu almennings að stjórnarskránni og þó þessi stjórnlagaþingstilraun nú sé langt í frá ógölluð ber ég þá von í brjósti að hún muni sprengja þá varnarmúra sem umlykja ráðamenn.  Spyrjum að leikslokum.


NÚMER 3876 ÞAKKAR FYRIR SIG.

Fyrsta persónukjöri á Íslandi er lokið.  Kosningaþátttakan vonbrigði.  Fyrir vikið er umboð þingmanna stjórnlagaþings veikara.  Stjórnlagaþing mun þó fara fram og mótaðar verða tillögur að nýrri stjórnarskrá.   Í ljósi kjörsóknar tel ég brýnt að stjórnlagaþing leggi útkomu sína fyrir þjóðina.  Sú þjóðaratkvæðgreiðsla mun endanlega staðfesta mikilvægi eða lítilvægi stjórnlagaþings í huga þjóðarinnar.   Þá fyrst sjáum við hvað fólkið í landinu vill og lætur sig málin varða.  Í bili þakka ég mínum kjósendum stuðninginn og óska stjórnlagaþingi velfarnaðar í störfum sínum.


STRÍÐIÐ UM KVÓTANN MUN FARA FRAM Á STJÓRNLAGAÞINGI.

Stjórnlagaþing verður stríð um kvótann.   Sjálfstæðismenn fengu í dag sína upphefð í pósti og ganga bísperrtir fram.  Stærsta og fjölmennasta útgerðarfélag LÍÚ.   Póstlistinn inniber nöfn þeirra kandidata sem áætlað er að minnstu muni raska, standa vörð um stjórnarskrána og þá um leið óbreytt samfélag.  Hvatinn til stjórnlagaþings er einmitt sá að hér þarf að breyta.   Og ekki sízt fyrirkomulagi auðlinda, nýtingu þeirra í takt við umhverfi og þjóðarhag.  Fyrirstaða þeirra breytinga er flokksræðið sem hér hefur verið við lýði.  Það er grundvallaratriði sem breyta þarf í stjórnarskrá.  Og til þess að svo megi verða þarf að rjúfa alræðisvald flokkanna á framboðslistum sínum.  Sem einnig krefst grundvallarbreytingar á stjórnarskrá.  Það þýðir ekkert moð í þessu, við verðum sem þjóð að horfast í augu við þá staðreynd að ráðamönnum er ekki alltaf treystandi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi lýst frati á stjórnlagaþingið og vill nú með póstlista sínum koma í veg fyrir nauðsynlegar breytingar á þjóðfélagsmyndinni.   Kannski skiljanlega því sjálfstæðisflokkurinn og þrönghagsmunavarzla hans á þar ekki heima.  Hvet þjóðina til andsvara gegn ráðabruggi þessu og sjálfur mun ég ekki láta mitt eftir liggja í stríðinu við kvótann, hvorki á stjórnlagaþingi eða utan þess.  Þetta stríð verður og skal vinnast.

LÁ  


SAMKVÆMT MINNI TRÚ.

Nú er kosningabarátta til stjórnlagaþings á lokasprettinum.  Vona kosningaþátttaka verði góð sem og að sem flestir frambjóðendur komist í þann þrönga hóp sem verður valinn.  Minni á mínar helztu skoðanir og  áherzluatriði.

1.  Aðgreina löggjafarvald (alþingi), framkvæmdavald (ráðherra) og dómsvald (dómara).

2.  Forsetavald.  Varðveita málskotsréttinn. Tvö kjörtímabil hámark.

3.  Persónukjör þvert á flokka, þingseta takmarkist við tvö kjörtímabil. 

4.  Þjóðaratkvæðagreiðslur verði bindandi og tiltekið hlutfall kjósenda geti knúið þær fram.  

5.  Auðlindir verði óvéfengjanlega og ævarandi í eign þjóðarinnar.  

 

Hef auðvitað skoðanir á ýmsu öðru í stjórnarskránni en ofangreind atriði vega þyngst í mínum huga og mikilvægust til að auka lýðréttindi og velmegun þegnanna.

 

Lýður Árnason, frambjóðandi nr. 3876 til stjórnlagaþings. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband