Færsluflokkur: Bloggar
25.11.2010 | 04:20
KJÖRDÆMASKIPUN TIL TRAFALA?
Flestir frambjóðendur til stjórnlagaþings vilja sjá landið sem eitt kjördæmi. Einn maður, eitt atkvæði. Sem landsbyggðarmaður þangað til nýlega þykist ég vita að margir eru tortryggnir gagnvart þessu. Það sem sumir kalla kjördæmapot er oft það eina sem af disknum fellur til landsbyggðarinnar og skiljanlega vill fólk ekki missa þann spón úr aski þó lítilfjörlegur sé. En hefur fólk hugsað dæmið lengra?
Dreifbýli á allsstaðar undir högg að sækja, sumt má skrifa á samfélagsþróun en langt í frá allt. Landsbyggðinni hefur ekki tekist að skarta sínum blómum og má sumpart skrifa það á fyrrnefnt kjördæmapot. Samgangur þingmanna og atvinnulífs er oft afar náinn úti á landi og eins og þjóðin ætti að vita er slíkt ekki alltaf til góðs. Augljós útkoma þessarar nándar er ótrúleg fylgni sumra landsbyggðarþingmanna með málstað sem beinlínis er byggðafjandsamlegur. Gera allt til að halda atvinnuréttinum frá sínu eigin fólki og byrja strax á því í sveitastjórnum enda framinn enginn öðruvísi. Þessa myllu þarf að stífla. Ein möguleg leið er að gera landið að einu kjördæmi.
Sjálfum finnst mér það vel athugandi jafnhliða persónukjöri, aukinni heimastjórn og síðast en ekki sízt: Afnámi kvótaframsalsins. Allar byggðir með tryggan atvinnurétt, þéttar og strjálar, þurfa enga kjördæmapotara, þeim nægir sitt eigið fólk.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2010 | 02:25
KVÓTAKERFI Á ÚTSTÍMI.
Innköllun aflaheimilda hefur oft borið á góma. Handhafar þeirra rísa þá jafnan á afturfæturna og segja ekki hægt að taka af mönnum það sem þeir hafa keypt. Þessa rök verða æ hlálegri og umfjöllun kastljóssins á málum útgerðarmanna í Bolungarvík mjög afhjúpandi. Hvernig menn komast upp með svona loddaraskap er í raun stórmerkilegt. Taka lán eftir lán á kennitölu eftir kennitölu, hrista svo búkinn og útkoman milljarða afskriftir. Og þetta er ekkert einsdæmi, nýlega fékk útgerðarrisi á Hornafirði sömu meðgjöf. Og svo eru menn hissa að þjóðin vilji uppstokkun. Margra ára áróður um hagkvæmni kvótakerfisins hefur sýnt sig að vera bull nema litið sé til þrönghagsmuna. Þar er hagkvæmnin augljós, gríðarleg og auðskilið að menn vilji halda slíkri gullgæs. Fyrri ríkisstjórnir ákváðu að taka stöðu með sérhagsmunum, þessi lofaði öðru og tími til kominn að hún fari að sýna á sér klærnar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2010 | 04:11
GEGNSÆI STEINGRÍMS.
Nú hefur komið upp úr dúrnum starfslokagreiðsla fjármálaráðuneytisins til handa meðferðarheimili á Austurlandi. Er forsagan sú að barnaverndarstofa mælti með uppsögn ríkisins varðandi þetta samstarf og ástæðan sögð vera kynferðisleg misbeiting sem viðgekkst á áðurnefndu meðferðarheimili. Ömurlegt hve víðtækt þetta vandamál er orðið og ankannalegt að þurfi að koma til fjárútláta ríkisins þegar svona er í pottinn búið. Viðbrögð fjármálaráðherra bæta svo ekki úr skák en harmur hans yfir leka þessarar fréttar til fjölmiðla er í ósamræmi við fyrri yfirlýsingar um gegnsæi stjórnsýslunnar, að allt skuli upp á borðum. Fjórflokkurinn virðist samrassa orðinn í þessu sem öðru.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.11.2010 | 03:59
HÓPVIÐTÖL HELGARINNAR.
Í dag skrapp ég í útvarpshúsið sem frambjóðandi á stjórnlagaþing. Hitti þar nokkra sem líkt er komið á fyrir. Fórum nokkur í hópviðtal sem gekk fljótt og vel fyrir sig. Þó ríkisútvarpið hafi legið undir gagnrýni vegna kynningar á stjórnlagaþingi og frambjóðendum þess fannst mér viðleitni dagsins lofsverð. Gerum okkur grein fyrir að þátttaka í þessu persónukjöri fór langt fram úr því sem elstu menn bjuggust við og ekki áróan að vísaað kynna allan þennan skara. Það sem hægt er að læra af þessu er hugsanlega aukin meðmælendakrafa á hvern frambjóðanda verði síðar farið í persónukjör. En hópviðtöl helgarinnar eru a.m.k. skárri kynning en engin og hvet ég landsmenn að leggja við hlustir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2010 | 03:36
NIÐURSTAÐA STJÓRNLAGAÞINGS Í ÞJÓÐARATKVÆÐI.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2010 | 02:21
HVERS VEGNA NÝJA STJÓRNARSKRÁ?
Hef heyrt suma tala um að þrátt fyrir hrunið græddum við svo mikið á mektarárunum á undan að ósanngjarnt sé að tala eingöngu um tap. Einkavæðingin hafi þrátt fyrir allt blásið lífi í staðnað samfélag og leyst úr læðingi áður óþekktan kraft. Margt er til í þessu og nýr kraftur verður líka sóttur til einkaframtaksins. En áður þarf að skapa þann leikramma sem sárlega skorti undir fyrri ríkisstjórnum. Í því ferli er ný stjórnarskrá heillaskref. Kannski fyrsta skref endurreisnar þjóðar sem fór offari. Og það offors birtist fyrst og fremst í bágu siðferði sem fór síminnkandi uns botninum var náð. Við hættum ekki fyrr. Með glýju í augum misstu stjórnmálamenn sjónar á hlutverki sínu og þjóðin á hlutverki þeirra. Núna, tveimur árum eftir skellinn, er flestum ljóst samhengi hlutanna. Og við viljum breyta til. En til þess þarf að moka út hinni gömlu hugsun en það er enginn hægðarleikur. Stjórnarskráin inniber engan rétt þegnunum til handa í aðstæðum sem þessum. Við þurfum að bíða unz hinum gamla hugsunarhætti þóknast sjálfum að ganga út. Sem verður eftir dúk og disk og jafnvel aldrei því græðlingar dauðasyndanna eru duglegir að skjóta rótum. Því er fólki þessa lands brýn nauðsyn á nýrri stjórnarskrá, stjórnarskrá sem gefur þjóðinni möguleika til breytinga þegar almannahagur kallar. Og sé slíkt ástand ekki núna, hvenær þá?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2010 | 00:50
STJÓRNARSKRÁ ÞARF AÐ VIRÐA.
Aðfinnslur og kvartanir sem lúta að vanvirðingu kjörinna fulltrúa á stjórnarskránni, annaðhvort með aðgerðum eða aðgerðarleysi, gætu verið fram bornar af forseta, þingmönnum eða ákveðnu hlutfalli atkvæðabærra manna í landinu. Með þessu yrði settur varnagli á störf ráðamanna, varnagli sem reynslan hefur sýnt að sé þarfur. Þannig yrðu hugsanleg stjórnarskrárbrot sett í þjóðaratkvæði. Á þennan hátt yrði stjórnarskráin varin sem og þjóðin fyrir hverskonar offorsi.
Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2010 | 14:45
KURR Í FRAMBJÓÐENDUM AUGLÝSIR STJÓRNLAGAÞING.
Nokkurt kurr er í frambjóðendum stjórnlagaþings vegna auglýsinga sumra og kostnaðar vegna þeirra. Gífuryrði hafa fallið á báða bóga og sýnist sitt hverjum. Það liggur fyrir að frambjóðendur eru misþekktir, misfjáðir og misreyndir. Öllum ætti að vera frjálst að heyja sína kosningabaráttu innan þeirra marka sem sett hafa verið. Vilji einhver eyða tveimur milljónum í auglýsingar er það hans mál. Kjósendum er sömuleiðis í sjálfsvald sett að heillast eða hafna. Menn eiga því að slíðra sverðin og leyfa hverjum sinn hátt, vilji menn auglýsa, gott og vel, vilji menn ekki auglýsa, þá það. Kjósendur geta séð þennan afstöðumun frambjóðenda og kosið samkvæmt því eða ekki. Sjálfur auglýsi ég ekki neitt en átel engan sem það gerir. Í svona kosningabaráttu velta menn vöngum yfir ýmsu og falla svo eða standa með því. Meginmálið er að stjórnlagaþingi takist ætlunarverk sitt sem er að semja góða stjórnarskrá, nýtilega landi og þjóð.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2010 | 13:20
ICESAVE Í DÓM!
Aftur ber icesave á góma. Samningur öllu skárri en sá fyrri virðist í burðarliðnum. 40-60 milljarðar svikamyllunnar falla á íslenzka ríkið samkvæmt fyrstu fréttum. Afstaða þjóðarinnar gagnvart fyrri samningi var afgerandi, samningi sem nú er komið í ljós að var galinn. Og staða íslendinga hefur styrkst, aukinn skilningur er á setningu neyðarlaga sem og þverrandi á hryðjuverkalögum breta. Viðsemjendur okkar, bretum og holllendingum hugnast ekki dómstólaleiðin og utanríkisráðherra sem vill semja orðinn ótrúverðugur. Meðmælabréf hans, fyrrum fjármálaráðherra til handa, bætir ekki úr skák. Sumir líta á borgun icesave sem aðgöngumiða að ESB og má færa fyrir því rök. Sjálfur tel ég icesave ekki á könnu íslenzkra skattborgara og tel dómstólaleiðina vænlegasta fyrir íslenzka hagsmuni.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.11.2010 | 03:23
ÁLYKTUN ÞJÓÐFUNDAR UM FRIÐ OG ALÞJÓÐASAMVINNU.
FLOKKUR 8.
Gildi og gildistengd atriði sem lúta að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, svo sem öryggi, friður og hlutleysi.
"Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki sem leggi áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum. Ísland sé málsvari friðar og taki þátt í alþjóðasamstarfi í þeim tilgangi. Öryggi landsins skal tryggt. Ísland taki virkan þátt í samstarfi um náttúruvernd, sjálfbæra nýtingu auðlinda, vernd mannréttinda og þróunar- og hjálparstarfi. Ísland sé herlaust og kjarnorkuvopnalaust"
Hvort klásúlan um samstarf "sérstaklega á norðurslóðum" sé andstöðukurl þjóðfundar við ESB veit ég ekki en sjálfur tel ég hag okkar betur borgið utan evrópubandalagsins. Að minnsta kosti að svo stöddu. Hinsvegar er það ekki hlutverk stjórnarskrár að álykta beint um þetta mál né undirbúa jarðveginn sérstaklega fyrir evrópusambandsaðild. En stjórnarskráin getur tryggt þjóðinni aðkomu að þessari veigamiklu ákvörðun þegar þar að kemur. Mestu skiptir að álit þegnanna verði virt og engin ríkisstjórn gangi í berhögg við vilja þjóðarinnar í þessum efnum hver sem hann verður.
Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)