Færsluflokkur: Bloggar

STJÓRNLAGAÞING EKKI TIL HJÁ RÚV.

Frambjóðendur stjórnlagaþings eru eðlilega ósáttir við enga umfjöllun ríkissjónvarpsins um stjórnlagaþingið né frambjóðendur þess.  Ömurleg það undanskot forráðamanna sjónvarpsins að fjöldi frambjóðenda geri að verkum að slíkt sé ógerlegt.  Mínútu kynning á hvern frambjóðenda tæki 523 mínútur sem jafngildir tæpum 10 klukkutímum.   Hægt væri að afgreiða þetta á tveimur vikum með klukkutíma þætti daglega.  Sleppa einni glæpaseríu á kvöldin og málið afgreitt.  Ætli þessi þjóð sér að keyra eingöngu á gamni og skemmtun rís hún aldrei úr öskustónni.   Svo er aldrei að vita nema einhverjir Gnarrar leynist meðal frambjóðenda.

Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings. 


ÁLYKTUN ÞJÓÐFUNDAR UM VALDDREIFINGU, ÁBYRGÐ OG GAGNSÆI

 

Gildi og gildistengd atriði sem lúta almennt að uppbyggingu ríkisins og meðferð ríkisvalds, svo sem dreifing valdsins, gegnsæi og stöðugleiki. Einnig gildi (og gildistengd atriði) sem lúta að störfum einstakra stofnana og handhafa ríkisvalds og ábyrgð þeirra.

  

"Tryggja þarf þrígreiningu valds þar sem hlutverk og ábyrgð ráðamanna séu skýr. Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Stjórnarskráin ætti að tryggja gagnsæi og eftirlit með stjórnsýslu. Fagmennska ráði för við ráðningar í störf í stjórnsýslunni. Endurskoða þarf vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans. Takmarka ætti þann tíma sem alþingismenn mega sitja á þingi. Tryggja þarf sjálfstæði dómstóla"

  

Vil fremur styrkja neitunarvald forseta en veikja enda færir það embættið nær fólkinu og fjær puntudúkkunni.  Innilega sammála að aðgreina beri löggjafar- og framkvæmdavald, ráðherra skuli ekki vera þingmenn samhliða heldur ráðnir á faglegum forsendum.  Einnig er hér drepið á eftirlitsskyldu og vil ég sjá hana bæði á stjórnsýslunni sjálfri og opinberum eftirlisaðilum. 

  Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings. 

YFIRSNÚNINGUR MENNTARÁÐS.

Blöskraði um daginn launakostnaður eins ráðs í borginni, menntaráðs.  Var það á ári 197 milljónir.  Mörg önnur ráð eru í borginni, borgarráð, menningarráð, menntaráð, skipulagsráð, velferðarráð, tómstundaráð, hverfisráð og minninu sleppir.  Miðað við þetta má gera ráð fyrir 1-2 milljörðum árlega eingöngu í þessa yfirbyggingu.  Meðan fulltrúi menntaráðs varði þennan kostnað flaug um hugann hve sárlega við þurfum nýja hugsun í íslenzk stjórnmál.  Búið er sníða stjórsýsluna að þörfum flokka, frambjóðenda og flokksgæðingum en almmannahagur fyrir borð borinn.  Stjórnsýslan er á sama sporbaug og stjórnendur lífeyrissjóðanna og verkalýðsforystan, á yfirsnúningi kringum sjálfa sig. 


ÁLYKTUN ÞJÓÐFUNDAR UM LÝÐRÆÐI Í STJÓRNARSKRÁ.

Ályktun þjóðfundar 2010.

  

FLOKKUR 6.

 LÝÐRÆÐI

 

"Hvers kyns gildi og gildistengd atriði sem lúta beint að þátttöku þjóðarinnar í stjórn ríkisins, svo sem þjóðaratkvæði og kosningaréttur. Einnig gildi tengd forsendum
lýðræðis, t.d. miðlun upplýsinga" 
  

"Á Íslandi skal vera virkt og gagnsætt lýðræði. Vægi atkvæða verði jafnt í einu kjördæmi, kosningar með persónukjöri, þingseta þingmanna háð tímatakmörkunum og þeim fækkað. Lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni. Skipan dómara skal endurskoðuð. kjósendur með jafnan atkvæðisrétt geti einir breytt stjórnarskrá"

  Hér kemur fram óánægja fólks með það einræði sem gjarnan er tengt Davíðstímanum en tíðkast enn.   Afstaða mín gagnvart því að breyta landinu í eitt kjördæmi hefur komið fram en persónukjör er í mínum huga algert grundvallarskilyrði í nýrri stjórnarskrá.  Þjóðin verður að geta veitt kjörnum fulltrúum frammistöðumat og í leiðinni yrði brotið upp það ægivald sem flokkarnir hafa tekið sér í mannvali.  Persónukjör er eitt sterkasta vopnið til virkjunar lýðræðisins og verður að vera í nýrri stjórnarskrá.  Lýst einnig vel á tímatakmörk þingsetu sem ætti ekki að vera meira en tvö kjörtímabil.  Lög um þjóðaratkvæðagreiðslu eiga að vera skýr og mitt álit þetta:  Meirihluti þeirra sem kjósa ræður, óháð kjörsókn.   Meiri vandi er að skilgreina hvaða mál skuli bera fyrir þjóðina og hver ekki.  Reynslan hefur sýnt að þinginu er a.m.k. ekki treystandi til slíkra ákvarðanna en forsetinn hinsvegar fært almenningi möguleika til áhrifa með málskotsrétti sínum.  Þennan öryggisventil vil ég sem þegn ekki missa og tel reyndar að auka ætti völd forseta í þessum efnum.  Þingið á einnig að geta ákveðið þjóðaratkvæðagreiðslur en set fyrirvara við að færa þennan rétt beint til fólksins, held skynsamlegra að fólk og flokkar geri grein fyrir áherzlum sínum hvað þjóðaratkvæði varðar fyrir kosningar og gefi þannig skýrar línur sem fólk geti kosið samkvæmt.

Tel skipanir í æðstu embætti eigi ekki að vera á hendi ráðherrum heldur skuli sjálfstæðri matsnefnd falið að meta hæfni umsækjenda.  Eftir því mati skal svo fara.  Sammála að breytingar á stjórnarskrá skal ætíð bera undir þjóðaratkvæði. 

  Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.

NÁTTÚRA ÍSLANDS, VERND OG NÝTING

Ályktun þjóðfundar 2010.  

 

FLOKKUR 5. 

Gildi og gildistengd atriði sem lúta að umhverfi, þ.á.m. auðlindum, svo sem sjálfbærni, umhverfisvernd og þjóðareign.

 "Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt. Setja þarf skýr lög um eigna- og nýtingarétt þjóðarinnar á auðlindum, náttúru og lífríki. Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir"   

 

Þennan kafla tel ég veigamikinn í nýrri stjórnarskrá enda engin ákvæði í okkar núverandi sem beinlínis fjalla um auðlindir.  Finnst þjóðfundarfulltrúum hafa tekist vel til með orðalag þessa ákvæðis, vil þó bæta við að tryggja verði þjóðinni arð af auðlindum sínum og skilgreina ekki bara nýtingarrétt heldur og nýtingartíma.  Stefna ber að samræmdum auðlindalögum um allar auðlindir þannig að þjóðin sem leigjandi og fyrirtæki eða einstaklingar sem leigjendur viti að hverju sé gengið.  Allt leynimakk kringum verð og viðskipti á ekki að leyfa.   Best væri að þing og þjóð gengi í þá vinnu að umhverfismeta allt landið og ákveða til framtíðar hvaða svæði og náttúrugersemar skuli óspjölluð og hver yrðu hentug til atvinnustarfsemi.   

 

Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings. 

SNÁKUR Í EYÐIMÖRK.

Mikið er þrefað um skuldavanda heimilanna og lausnir á honum.  Mathiesen nokkur rifjar enn eina ferðina upp fyrir okkur aðferð athafnamanna s.s. að ryksuga fjármuni út úr fyrirtækjum áðuren hamarinn fellur.  Hlaupa svo sinn veg meðan kröfuhafarnir grípa í tómt.   Skuldugir borgarar hafa verið staðnir að eyðileggingu eigna sinna rétt fyrir missi og svipar það í mörgu til ofangreinds.  En ætli sé ólöglegt að snúa þessu við, þ.e. að einstaklingur breyti sér í fyrirtæki eða fyrirbæri, skipti þannig um kennitölu, selji  fyrirbærinu hús og bíl á slikk og kröfuhafarnir standa eftir slyppir.  Afhverju ætti kennitöluflakk að virka bara á annan veginn?  Svo er aðferð Jónínu Ben auðvitað eins og snákur í eyðimörk, ginna kröfuhafanna með dauðasynd og klaga síðan í mömmu.  Ekki öll nótt úti í þessum efnum.


ÁLYKTUN ÞJÓÐFUNDAR UM MANNRÉTTINDI.

Ályktun þjóðfundar 2010.  

 

FLOKKUR 3.  

 

MANNRÉTTINDI

Gildi sem liggja til grundvallar eða tengjast viðteknum mannréttindum, svo sem jafnrétti og jafnræði, tjáningarfrelsi, menntun, trúfrelsi og eignaréttur.


"Allir skulu njóta mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur lofað að virða, svo sem tjáningarfrelsis, friðhelgi einkalífs, trúfrelsis og eignarréttar. Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Allir skulu njóta jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu. Vægi atkvæða verði jafnt"
   

 

Allir ættu að geta verið sammála þessu nema hugsanlega síðastnefnda atriðinu og það einkum landsbyggðafólk.   Eðlilegt hlýtur þó að teljast að vægi atkvæða sé jafnt, einn maður, eitt atkvæði.   Þannig er jafnræðis þegnanna best gætt.   Hugumlíka að því að núverandi kjördæmaskipan ekki fært landsbyggðinni sinn sjálfsagða rétt til sjálfsbjargar.  Hann hefur drukknað í hreppapólitík, kjördæmapoti og samkrulli þingmanna og hagsmunahópa.   Því hníga mörg rök að því að gera landið að einu kjördæmi sem myndi beina sjónum og skyldum allra þingmanna til allra landshorna, ekki einungis eins.   

Stærsta hagsmunamál hinna dreifðu byggða er að geta notið nálægðar við landkosti sína.  Að  auðlindir nýtist svæðisbundið og myndi tekjustofna íbúunum til framdráttar.  Þessu er mjög ábótavant og undarlega lítill áhugi sveitastjórnarmanna að bæta úr þessu.  Vil ég að nokkru tengja það óbreyttri kjördæmaskipan og því samkrulli sem ég nefndi hér að ofan.  En svarið við þessu er heimastjórn.  Hver landsfjórðungur þyrfti að hafa sína eigin heimastjórn sem í krafti nándar hefði þá yfirsýn sem nú sárvantar.  Hræðsla við að landið verði gert að einu kjördæmi er að minni hyggju ástæðulaus.  Fyrir landsbyggðina felur hún í sér ný tækifæri og gæti innleitt nýja hugsun inn í stjórnsýsluna.   Ekki sízt með persónukjöri þar sem alræði flokkanna yrði rofið.  Þéttbýli og dreifbýli eiga ekki að vera andstæður heldur samstæður, efnahagslega eru fyrirbærin háð hvort öðru og hvorugt geta án hins verið.  Andstæðingar þess að gera landið að einu kjördæmi ættu að íhuga núverandi stöðu landsbyggðarinnar.  Hún er ekki glæsileg.  Landsbyggðin á að rísa á landkostum sínum, auðlindum til sjávar og sveita og fólkinu sem þar býr en ekki bitlingum frá Reykjavík eða Brussel né heldur ójöfnu atkvæðavægi.  Með sjálfsbjörginni er möguleiki á framtíð.    

 

 

Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.  

SJÁLFSTJÓRN BYGGÐANNA.

Margir hafa borið kvíðboga fyrir slagsíðu landsbyggðarinnar á komandi stjórnlagaþingi.  Sjálfur er ég í þeirra hópi enda alið manninn til sveita umliðin ár.  Þessi uggur á við rök að styðjast og kom fram á nýafstöðnum þjóðfundi hvað kjördæmaskipan varðar.   Auðvitað liggur beinast við að hafa landið eitt kjördæmi og vægi atkvæða jafnt óháð búsetu.  Þetta er í raun sanngirnismál og eðlilegt að flestir líti það þessum augum.   Að því ber þó að hyggja að hagur þéttbýlis og dreifbýlis er um margt ólíkur, viðhorfin öðruvísi og gildismat sömuleiðis.  Því er sú hætta fyrir hendi að í einmenningskjördæmi koðni áherzlur landsbyggðarinnar niður og hún verði meiri afgangsstærð en þegar er orðið.   Ætli menn sér að umbreyta kosningalöggjöfinni í nýrri stjórnarskrá væri æskilegt að héruðin fengju meiri sjálfsstjórn.  Ennfremur að þau nytu landkosta í auðlindum sínum sem og réttlátrar tekjuskiptingar sem tæki mið af meiri umsýslu í heimabyggð.   Með þessu yrði búsetuskilyrðum bjargað og ríkjandi miðstýringaráráttu  bægt frá.   Spurning hvort hægt sé að setja sjálfstjórn landsfjórðunganna í hina nýju stjórnarskrá?


LOKSINS ER ÓHÆTT AÐ SETJA KVÓTANN Í ÞJÓÐARATKVÆÐI.

LÍU lét á dögunum gera könnun á fylgi við svokallaða samningaleið í sjávarútvegi sem kveður á um að semja við núverandi kvótahandhafa gegn gjaldi.

SPURNINGIN VAR SVONA:

Meirihluti starfshóps, sem sjávarútvegsráðherra skipaði til þess að endurskoða lög um stjórn fiskveiða, lagði í byrjun september 2010 til að farin yrði svokölluð samningaleið í sjávarútvegi.
Samningaleiðin byggir á því að ríkið geri samninga við núverandi handhafa fiskveiðiheimilda um veiðiheimildir gegn gjaldi.
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að þessi leið verði farin?

 57% voru þessari leið fylgjandi.  Mér er þó spurn hvor gjaldið skal greiða, útgerðarmenn þjóðinni fyrir áframhaldandi veiðirétt eða þjóðin útgerðarmönnum fyrir að veiða fiskinn?  En hvort sem er þá hlýtur niðurstaðan að vera fagnaðarefni fyrir LÍÚ og sjálfstæðisflokkinn. 

Nú ætti að vera óhætt að setja kvótakerfið í þjóðaratkvæði.


MEIRA UM ÁLYKTANIR ÞJÓÐFUNDAR.

Ályktun þjóðfundar 2010.  

 

FLOKKUR 2.   

 

SIÐGÆÐI

Almenn siðferðileg gildi án sérstakra tengsla við stjórnskipun eða stjórnmál, svo sem heiðarleiki, virðing, ábyrgð, umburðarlyndi, sanngirni og samkennd. 
 

  "Stjórnarskráin skal byggja á siðferðisgildum. Siðgæðisþema nýrrar stjórnarskrár skal vera mannvirðing, tjáningarfrelsi og tillitssemi. Lögð sé áhersla á heiðarleika kjörinna fulltrúa, embættismanna, lög og siðareglur. Til að efla og bæta siðgæði þjóðarinnar þarf að kenna siðfræði í skólum landsins og auka samfélagslega ábyrgð almennings. Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins eru höfð að leiðarljósi"   

 

Kennsla í siðfræði getur varla skaðað þessa þjóð, veit þó ekki hvort slíkt skuli stjórnarskrárbundið.  Hinsvegar hefur bitur reynsla kennt okkur að setja þarf valdhöfum, forseta, ráðherrum og þingmönnum miklu skýrari og þrengri ramma hvað ákvarðanir og  embættisfærslur varðar.  Einnig viðurlög sé honum ekki hlýtt.  Þannig skapast aðhald og erfiðara verður að koma sér undan ábyrgð.     

 

Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband