Færsluflokkur: Bloggar
9.11.2010 | 02:06
FÍFLSKA EÐA SNILLD?
Gnarrinn gladdi landsmenn með ásjónu sinni í kastljósi kvöldsins. Og inn á milli með rykdusti af borði og tilsvörum. Mikilhæfur að eigin sögn og ekki vil ég gera lítið úr því, honum tókst að gera þann usla sem margir vildu gert hafa. Og aldrei var viðtalið leiðinlegt, skein á með skúrum, æjæjum og jessum en aldrei leiðindum. Jón hefur innleitt nýtt óöryggi í íslenzka pólitík, löngu tímabæran óútreiknanleika þar sem skiptist á fíflska og snilld samtengdar einlægni. Ég held afstaða margra gegn Jóni sé ekki vegna vantrúar á hæfni hans heldur vegna ótta við að honum takist ætlunarverk sitt. Alla vega er ljóst að Jón er minkur í hænsnabúi íslenzkrar pólitíkur.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.11.2010 | 16:28
ÁLYKTANIR ÞJÓÐFUNDAR - FLOKKUR 1.
Næstu blogg mun ég helga þjóðfundinum, ályktunum hans og eigin sýn á því sem þar kom fram.
Ályktun þjóðfundar 2010.
FLOKKUR 1. LAND OG ÞJÓÐ
Gildi og gildistengd atriði sem lúta að sjálfstæði ríkisins, menningu og landshögum, svo sem framsýni, gildi íslenskrar tungu og landsbyggðar.
"Stjórnarskráin er sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og er skrifuð fyrir fólkið í landinu. Stjórnarskráin á að standa vörð um íslenska tungu, menningu og auðlindir þjóðarinnar. Hún verði kynnt í skólum og almenningi tryggð áhrif á ákvarðanir í þjóðmálum. Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga"
Hér er tekið á ýmsu, eftirtektarverður punktur að kynna stjórnarskrána í skólum, held það sé mjög til bóta og geri þegnana meðvitaðri um þennan þjóðarsáttmála og hefji hann til vegs og virðingar. Einnig er síðastnefnda atriðið merkilegt en þar kemur fram sú meirihlutaskoðun þjóðfundarfulltrúa að ríkið hætti trúarrekstri. Þetta verður ugglaust umdeilt. Að mörgu leyti tel ég hyggilegt að nýta hin kristnu gildi í siðgæðisvakningu þeirri sem framundan er en vitanlega verður kirkjan að njóta trausts. Sé fyrir mér þjóðaratkvæði um aðskilnað ríkis og kirkju. Yrði aðskilnaður samþykktur tel ég kirkjuna eiga eftir að styrkja sig í sessi á nýjum forsendum.
Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2010 | 05:35
ÞEGAR GULLGÆSIR ERU SELDAR.
Ágætur vinur, sem býr í Þýzkalandi, segir mér í kaffispjalli kvöldsins að mánaðarleg húsakynding kosti sjö sinnum meira úti en hér. Mánaðarlega borgi hann 700 evrur í upphitunarkostnað en aðeins 100 Evrur í álíka stórri íbúð sinni hér. Vá ef satt er, 100 þúsund í kyndingu á mánuði. Hverju sætir, spurði ég, og kvað hann þá þungbrýndur að fyrirtæki á einkamarkaði hefði fyrir einhverjum árum keypt yfirráðaréttinn yfir málaflokknum og síðan hækkað verðið jafnt og þétt í skjóli einokunar. Nú ku heyrast í nokkrum bæjarfélögum hér á fróni kurr og eftirsjá vegna seldra orkuréttinda og vilji sumra til að kaupa þær til baka. Dreifikerfi símans var selt úr þjóðareign á tímum einkavæðingarhraðlestarinnar og ekki bara stendur þjóðin berskjölduð gagnvart væringum á ljósleiðaramarkaði, hún verður einnig af umtalsverðum tekjum. Virkjun einkaframtaksins er af hinu góða en þegar áratuga strit þjóðarinnar og dugnaður í formi dreifikerfis er farinn um aldur og ævi hljóta menn að spyrja: Í þágu hverra?
Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2010 | 00:44
ÞJÓÐFUNDUR OG STJÓRNLAGAÞING Í TAKTI.
Þjóðfundur er nú afstaðinn, forveri stjórnlagaþings. Greinilegt er að mikill áhugi er meðal fólks til úrbóta í samfélaginu og umræðan fjörleg. Eflaust telja margir áherslur þjóðfundarins full almennar en þó er rauði þráðurinn sá að fólk vill heiðarlega stjórnmálamenn sem bera gjörðir sínar á borð. Ennfremur vill fólk meiri aðkomu að mikilvægum ákvörðunum. Finnst þetta samrýmast vel málflutningi flestra frambjóðenda til stjórnlagaþings og eykur það vonir um að þingið álykti í samræmi við vilja þjóðarinnar. Enn sem komið er gengur ferillinn að nýrri stjórnarskrá að óskum, vona svo verði áfram.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2010 | 00:03
SVANBERGIS RÍÐUR Á VAÐIÐ.
Mitt gamla þorp, Flateyri, var til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins. Kom þar fram einn stæðilegasti bústólpi eyrarinnar, Jón Svanberg. Sagði hann réttilega að sjávarþorp án aðgengis að fiskimiðum væri illa sett. Staðreynd sem blasir við öllum en þó kjósa sumir að ákalla fremur góða vætti en breytta stjórnarhætti. Ömurlegt er svo kvak fyrrum sjávarútvegsráðherra sem segir lognmollu í sjávarútvegi stafa af óvissu sem fyrningarleiðin hafi skapað. Rétt er að minna á að hnignun landsbyggðarinnar byrjaði löngu áður en fyrning kom til tals. Staða Flateyrar og reyndar þorpa allt í kringum landið er í tvísýnu vegna kvótaframsalsins sem kerfisbundið sviptir fólkið lífsbjörginni en örfáar fjölskyldur græða og fara. Ládeyða í fjárfestingum þessa geira stafar mestmegnis af fyrrum offjárfestingu og skuldasöfnun. Staða útgerðarmanna er í mörgu lík stöðu íbúðaeigenda, eignin minna virði en skuldin og því situr allt fast. Með öðrum orðum er kerfi það sem Einar Kristinn tók þátt í að skapa og viðhalda meginorsök sorgarsögunnar á Flateyri. Miðað við hve augljóst þetta er og alþekkt er þöggunin sorgleg. Megi fleiri feta í spor Svanbergis og kalla vandann sínu rétta nafni.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.11.2010 | 00:32
NÝJAN AUÐLINDAPAKKA Í STJÓRNARSKRÁNA.
Mikill munur er á afstöðu stjórnmálamanna til stóriðju, ekki sízt álvera. Fylgismenn slíkra framkvæmda segja stóriðju arðbæra, atvinnuskapandi og nauðsynlega á þessum tíma harðæris og kreppu. Andstæðingar finna stóriðjufyrirtækjum allt til foráttu, gera þau tortryggileg og spyrða við spillingu. Ennfremur að þau störf sem skapist svari ekki kostnaði og arðsemi af slíkum atvinnurekstri skili sér ekki í þjóðarbúið nema sem mengun og náttúruspjöll. Eflaust má finna dæmi um þetta allt en samantekið finnst mér umræðan einkennast af öfgum í báðar áttir.
Flest viljum við atvinnu, arð og fjárfestingu. En ekki spillingu, mengun og náttúruspjöll. Er ekkert annað í stöðunni en allt eða ekkert? Augljóst er að raforkuverð verður að vera uppi á borðum. Annað býður upp á tortryggni. Einnig þarf fólki að vera ljóst að auðlindir þjóðarinnar séu ævarandi í þjóðareign og enginn þurfi að hræðast missi þeirra til frambúðar. Einungis ætti að vera hægt að semja við einkaaðila um nýtingarrétt í tiltekinn tíma með möguleika á endurnýjun. Líka er brýnt að mörkuð verði umhverfisstefna til framtíðar með friðlýsingu svæða sem þykja þess verð og þau útilokuð frá spjöllum.
Í dag er ekkert öryggi í neinni framvindu orkunýtingar, hvorki fyrir þá sem hingað leita né íslenzkan almenning. Endalausar tafir, óvæntar uppákomur, vantraust og árangursleysi er einkennandi og tjaldað til einnar nætur. Mikið skortir og tel ég þetta eitt helsta nauðsynjamál íslenzkra stjórnmála. Á könnu stjórnlagaþings verður að semja nýjan auðlindapakka sem gefur stjórnvöldum miklu skýrari línur en nú er. Vona fleiri séu sama sinnis.
Lýður Árnason, frambjóðandi til stjórnlagaþings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.11.2010 | 18:48
FORSETAVALD.
26. grein stjórnarskrárinnar hljómar svo:
Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.
Þarna kemur fram hinn svokallaði málskotsréttur forseta, þ.e. að með synjun sinni á lagafrumvarpi fer það sjálfkrafa til þjóðarinnar sem greiðir um það atkvæði. Sumir vilja afnema þetta vald forsetans eða skerða. Ekki ég.
Þegar forseti synjaði fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma komu upp vangaveltur hvernig haga skyldi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki voru allir á því að einfaldur meirihluti dygði og einnig var lágmarkskosningaþátttaka nefnd. Mín sýn er sú að einfaldur meirihluti þeirra sem taka þátt ráði. Þykir mér það einfaldast og eðlilegast.
Allt of rammt kveður að því að stjórnmálamenn vilji einungis þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem eru þeim ekki að skapi. Fráleitt er að láta slíka duttlunga ráða för.
Umdeild mál sem varða miklu á að setja í þjóðaratkvæði. Nefni icesave sællar minningar. ESB vegferðin hefði einnig átt að sæta slíku strax í upphafi, með því hefði þjóðin verið með í ráðum og ríkisstjórnin fengið umboð til verksins eða ekki. Annað dæmi. Alþingi virðist fyrirmunað að finna ásættanlega lausn á fiskveiðistjórninni og löngu tímabært að ráðamenn óski eftir vilja þjóðarinnar í þeim efnum. Þarna vildi ég sjá aukið forsetavald sem gæti með skírskotun til mikilvægi málsins og árangursleysi þingsins í lausn þess skotið því til þjóðardóms. Þá fengi alþingi nauðsynlegan vegvísi til áframhalds og vítahringurinn rofinn.
Forsetavald ætti því að auka að mínum dómi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2010 | 00:09
GULLSTÓLABURÐUR.
Samtrygging stjórnsýslunnar er söm við sig. Áratugum saman stóðu uppgjafarpólitíkusum sendiherra- og bankastjórastöður til boða en með þenslu stjórnsýslunnar hefur úrvalið aukist til muna. Ingibjörg Sólrún er í palestínskri sendinefnd og Halldór Ásgrímsson situr sem fastast í norðurlandaráðinu. Og nú er Árni Matt kominn í matvælakistu sameinuðu þjóðanna. Sú hefð er að verða æði rótgróin að þeir sem byrja hjá hinu opinbera hætti aldrei og jafnvel dauðinn sker ekki á eftirlaunagreiðslurnar. En sérkjör opinberra ráðamanna eru einmitt réttlætt með bágri stöðu atvinnulega séð þegar embættisferli lýkur. Kannski er þessi gullstólaburður ágæt leið gegn atvinnuleysi háttsettra opinberra starfsmanna en hann gerir lífeyrisréttindi í sérflokki óþörf. Kominn er tími fyrir einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þeir sem vilja borga meira geta gert það að vild og leitað uppi vogunar- og séreignasjóði.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2010 | 01:26
NOTIÐ EI HANN SJÁLFAN EN HRATIÐ SUMT.
Athyglisverðar tillögur komu frá sjálfstæðisflokknum í dag sem samkvæmt könnunum hefur endurheimt sæti sitt sem stærsta stjórnmálaafl landsins. Flokkurinn þrástagast á sömu fjöl varðandi sjávarútveginn og ljóst að hann og útvegsmenn eru enn samrassa. Að þessu leyti eru tillögurnar ónýtar. Hinn hlutinn, sá sem snýr að skattamálum, er hinsvegar allrar athygli verður. Skattpíning er niðurdrepandi fyrir atvinnulíf sem við svo sannarlega þurfum á að halda. Betra er að auka skattstofna í gegnum meiri framlegð einstaklinganna. Tillagan um fyrirfram skattlagningu lífeyris er einnig góðra gjalda verð og hana ætti að skoða sérstaklega. Þó ríkisstjórninni hafi ekki tekist að greiða úr mörgum brýnum málum samfélagsins er eðlilegt að hún reyni að verja þjóðina fyrir endurkomu þeirra aðila sem vandann skópu. Hyggilegast í stöðunni er að nýta allt sem gæti gagnast jafnvel þó það komi úr hörðustu átt.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.11.2010 | 05:01
JÁ VIÐ NEI VIÐ ESB.
Athyglisverður álitsgjafi kom fram í Silfri dagsins, Andri Geir, og kvað nei við ESB jafngilda flutningi ungu kynslóðarinnar til ESB. Ekki gengi að eftirláta þeim sukk núlíðandi kynslóðar til borgunar án vona um mannsæmandi lífskjör. Fram kom hjá Andra Geir mikil trú á myntskiptum eða tengingu íslenzku krónunnar við annan gjaldmiðil. Ekki er ég bjartsýnn á okkar hlut í þeim viðskiptum og mat viðsemjenda okkar á krónunni yrði varla mikið. Hinsvegar er ég honum sammála að ætli þjóðin sér að standa utan við ESB þarf hún að marka sér skýra stefnu. Lítum aðeins á Noreg, mjög stöndug þjóð og utan ESB. Af öllum evrópuþjóðunum líkist Ísland helst Noregi og einsýnt að samleið þessara þjóða sé líklegust, ekki sízt hvað landlegu og auðlindir varðar. Mun minni líkur eru á Búlgaríu, Spáni eða jafnvel Danmörku. Tel og barnaskap að halda ESB einhver góðgerðarsamtök, aðgangur að þeirri kornhlöðu verður hvorki ókeypis né án fórna. Tel því þá leið, að láta önnur evrópuríki taka ábyrgð á misgjörðum okkar eigi síður áhættusama en hina að eftirláta niðjum okkar sukkið. Best er að brjóta af okkur þá hlekki sérhagsmunagæslu sem tröllriðið hafa þjóðfélaginu í efnahagslegu og siðferðislegu tilliti, virkja þau tækifæri og auðlindir sem við höfum og sýna öðrum þjóðum að sérstaða Íslands felist ekki í spillingu né skuldasúpu heldur kraftbirtingu frelsis og dugnaðar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)