Færsluflokkur: Bloggar
16.9.2010 | 03:37
HÓKUS PÓKUS, FÍLÍÓKUS, BOMBASTUS.
Daglega birtast fregnir um undanskot og málshöfðanir gegn okkar fyrrum fjármálasnillingum. Sækja á einhverja þeirra til saka í útlandinu en sjálfir segja þeir það ómögulegt vegna bágrar tungumálakunnáttu. Ó,mig auman. Sömuleiðis veldur hvarf 40 milljarða úr einu eignarhaldsfélaginu skiptastjórn nú vandræðum, sem fyrr allir sakleysið uppmálað, hókus pókus. Engin furða þó þetta fólk sé enn stöndugt og hyggi á nýja landvinninga í viðskiptum. Venjulegur maður eða fyrirtæki sem getur ekki gert grein fyrir sínu debet og kredit fær á sig áætlun. Skilji menn eftir sig þrotabú eru eigur þeirra gerðar upptækar og viðkomandi settur á ís. Þó öll álit, skýrzlur og samantektir bendi eindregið á sekt fyrrum eigenda bankanna og viðskiptajöfra er þetta fólk tekið vettlingatökum meðan almenningi er engin miskun sýnd. Nær refsirammi auðgunarbrota á Íslandi aðeins til smáupphæða?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2010 | 00:50
ÞAK Á ÞINGSETU.
Þó uppgjör við fortíðina sé lýðveldinu mikilvægt má ekki gleyma frumþörfunum. Þjóðin þarf að hafa í sig og á, trú, von og einhverja framtíðarsýn. Í þessu er tvennt uppi á borðum, auðlindir og mannauður. Hvernig getum við nýtt það sem við höfum og gert okkur sjálfbjarga á sem flestum sviðum? Við gætum t.d. raf- og/eða gasvætt bílaflotann fyrst ríkja í heimi. Gert óþarft að flytja inn bílabensín og jafnvel flutt út rafmagn og gas? Líka má nefna að jarðarbúar ganga hratt og örugglega á vatnsbirgðir sínar og ljóst að vatnsskortur er ekki langt undan. Þá kemur Frónið sterkt inn. Þangað til getum við aukið fiskveiðar og útflutning fiskafurða. Hvað mannauðinn varðar höfum við tvær leiðir: Kreista túpuna eða fjölga þeim. Skattpíningarleið ríkisstjórnarinnar skilar kannski einhverju til að byrja með en skjótt mun framlegð hvers og eins minnka og sumir hverfa af landi brott. Örvun atvinnulífsins verður með vænlegu skattaumhverfi sem og auðlindanýtingu. Því miður er hvorutveggja í molum í dag. Miðað við þær samfélagslegu hamfarir sem íslenzk þjóð hefur gengið í gegnum ættum við að vera mun samstilltari. Alþingi ætti að ganga í takt, viljugt til þjóðþrifaverka. Moka út ónýtu drasli og sparsla í rifurnar. Illu heilli bólar lítt á slíku og í flestum málum, stórum sem smáum, ráða flokkslínur. Flokksræðið er orðið til trafala og bezta móteitrið örari skipting þingmanna og ráðuneytisfólks. Kaninn gefur átta ár, kannski það sé reynandi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2010 | 00:18
SANNLEIKUR REKINN FRÁ DEGI TIL DAGS.
Oft fer tími alþingis í lítið og svo þykir mér nú. Hegning fyrrum ráðamanna gegnir litlu, afglöp þeirra og vanræksla liggja á borðum, fésekt eða innilokun breyta engu. Hinsvegar er umhugsunarefni hvort svipta ætti þetta fólk lífeyri fram yfir venjulegan opinberan starfsmann. Allavega er óþarft að verðlauna frammistöðuna, gildir það einnig um forvera þeirra sem skáka nú í skjóli firningar. Einatt segja þátttakendur í hruninu, ekki sízt þingmenn, að horfa beri til framtíðar, fortíðin sé okkur dýrmæt kennslustund og nú eigi að leita nýrra leiða. Tek undir þetta en gagnstætt hrunverjum tel ég þeirra feril tilheyra fortíðinni og ætti því að sturta honum niður með hinu. Sannleikur sem rekinn er frá degi til dags er einskis nýtur og ónothæfur sem byggingarsteinn þjóðfélags. Enn hafa slík öfl umtalsverð tök í þingsölum þó farið sé að bera á haustlitunum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2010 | 01:08
ÞINGHEIMUR Í KLÍPU.
Í fyrsta sinn vorkenni ég þingheimi. Að þurfa að ákvarða hvort fyrrum vinnufélagar verði sóttir til saka er óskemmtilegt verk. Í raun vart hægt að ætlast til slíks. Enda má búast við niðurfalli mála í öllum tilvikum og lítið við því að segja. Gallinn er sá að tiltrú almennings á stjórnsýslunni mun þverra enn frekar. Úrskurður um málsókn gegn æðstráðendum ætti að vera í annarra höndum en alþingis og vonandi verða lög um landsdóm stagbætt á komandi stjórnlagaþingi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.9.2010 | 01:19
VAMPÍRURNAR Á MÓTI.
Nýtt orð skekur nú þjóðfélagið, Landsdómur. Enginn veit í raun hvað hann inniber enda fordæmislaus. Brimið endurspeglar þó strax flokkslínur. Satt að segja er erfitt að sjá fyrir sér hvaða refsing telst hæfileg, fangelsi, sekt eða þegnskylduvinna. Held að liggi fyrir að allir fjórmenningarnir hafi sýnt af sér fádæma vanrækslu og reyndar má álasa þingheimi öllum fyrir meðvirkni í aðdraganda hrunsins. En verði einhverjum þessara ráðherra hegnt fyrir afglöp er ljóst að sekari menn sleppa undan hamrinum í krafti firningar. Grátbroslegt að vilja firna landráð en ekki þrönghagsmuni. Meirihluti rannsóknarnefndarinnar leggur einnig til að rannsaka einkavæðingu bankanna og þá verkstjórn sem að lokum leiddi til hrunsins. Minnihlutinn, þ.e. fulltrúar þeirra flokka sem höfðu yfirumsjón með téðu verki, segja slíka rannsókn engu skila þjóðinni. Sem fyrr er þeim illa við dagsljósið, vampírurnar atarna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2010 | 00:56
FIRNINGARLEIÐ ÞEGAR ÞAÐ Á VIÐ.
Þó firningarleið í sjávarútvegi sé af mörgum talin ófær er hún vel mokuð hvað varðar sakfellingu ráðamanna. Þar er firningarleið í hávegum höfð og ekki verið að tafsa á tíma. Sem gerir útkall landsdómara hjákátlegt, hinir raunverulegu hrappar njóta friðhelgi í skjóli firningar og einungis leppar þeirra munu hanga. Skondið er þó að einn verjandi sakborninganna, formaður SA, segir sakfellingu þýða skaðabótaskyldu ríkisins og því betra að láta málið niður falla. Kostuleg framsögn, að skaðabótaskylda landsmenn fyrir útgangssakir ráðamanna. Er samt sammála niðurstöðunni að sækja ekki þetta fólk til saka, nóg er að lifa með þessum yfirsjónum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.9.2010 | 02:18
UMMÆLI.
Safarík ummæli færast nú í vöxt og augljóst að stjórnmálamenn eru farnir að láta flakka í stað settlegheita og fullkomnunaráráttu. Útgustur fyrrum umhverfismálaráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hefur náð fótfestu á flíkum ungu kynslóðarinnar og persónufylgi Þórunnar ugglaust rokið upp í þessum aldursflokki. Að virtur stjórnmálamaður skuli æskja einhverjum hopps upp í óæðri endann er auðvitað ekkert annað en dúndursvalt. Borgarstjórinn, Jón Gnarr, minntist svo á eigin klámsíðunotkun sem tekin var úr samhengi við Tourette sem þykir óviðeigandi en er þó engu að síður hann. Þurfti Jón að afsanna stuðning sinn við mansal og vændi og brást að sjálfsögðu athygli til þess. Tel borgarstjórann enn vaxa að vinsældum með öllum þessum breyzkleika. Steingrímur Joð átti þó svívirðilegustu ummælin sem voru um Þór Saari, þingmann Hreyfingarinnar. Hafði sá síðarnefndi átalið stjórnarflokkana fyrir niðurstöðu sáttanefndar í sjávarútvegi sem gengur í berhögg við yfirlýsta stefnu stjórnvalda. Í kjölfarið fannst Steingrími dapurlegt að alþingi íslendinga sitji uppi með eintök eins og Þór Saari. Af stjórnarsáttmálanum að dæma hafði Steingrímur einhverntíma svipaða sýn og títtnefndur Saari á sjávarútvegsmálunum. Kannski Steingrímur Joð Sigfússon hafi þá verið dapurt eintak en hafi nú snúist til betri vegar. Ja, ekki veit ég hvort sé verra, klámið eða fylgispektin við LÍÚ...
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2010 | 02:15
HVÍSLARAR Á ÞINGI.
Þingkona framsóknarflokks segir Össur utanríkisráðherra kominn með hvíslara í Þráni Bertelssyni sem ku vera genginn til liðs við græningja. Klikkir svo út með nafnakalli svokallaðra flokkaflakkara. Þar á meðal er Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður framsóknarflokksins. Sá maður gagnrýndi fyrstur allra einræði Halldórs og Davíðs og tiltók m.a. Íraksstríðið og viðkomu okkar á lista hinna viljugu. Kristinn átaldi mjög vinnubrögð einræðisherranna og vildi þingræði í stað ráðherraræðis. Fyrir vikið missti hann stöðu þingflokksformanns og fljótt fjaraði undan honum í flokknum. Þó allir sjái nú að Kristinn hafi klárlega farið með rétt mál í gagnrýni sinni stóð ENGINN framsóknarþingmaður með honum þó nú vilji allir Liljuna kveðið hafa. Í raun var það ekki Kristinn sem flakkaði frá flokknum heldur flokkurinn frá yfirlýstum hugsjónum sínum. Flestir láta slíkt óátalið í metorðaklifri sínu, færri brúka munn enda árangurinn gjarnan sá að verða hornreka. Flokkaflakk hefur niðrandi merkingu en skoði fólk það sem að baki býr má oft sjá hið gagnstæða. Hvort Þráinn verði hvíslari Össurar veit ég ekkert um en hvísl framsóknarmanna í formannstíð Halldórs bergmálar enn, bergmálar enn.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.9.2010 | 01:58
ENN EIN MILLIRÍKJADEILAN.
Get vart annað en brosað að upphlaupinu í Færeyjum og fjölmiðlafárinu í kringum kynhneigð okkar ástkæra þjóðarleiðtoga. Eitt dönsku blaðanna sagði milliríkjadeilu í uppsiglingu sem bætist þá við icesave og gosið í Eyjafjallajökli. En hamli kynhneigð forsætiráðherra inngöngu okkar inn í evrópusambandið er það auðvitað frábært. En kannski er hægt að semja um þetta eins og annað.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2010 | 13:18
SNERTIFLÖTUR FRIÐAR?
Sáttanefnd ríkisstjórnarinnar hefur valið svokallaða samningaleið fram yfir fyrningarleið. Niðurstaðan er andstæð fyrirheitum ríkisstjórnarinnar en miðar að forgangi núverandi kvótahafa. Hugsunin sú að raska núverandi fyrirkomulagi sem minnst. Engu að síður mælir nefndin með óskoraðri þjóðareign á fiskiauðlindinni. Þarna tel ég snertiflöt friðar í langvarandi deilu. Viðurkenni útgerðin eignarétt þjóðarinnar og auðlindagjald gegn forgangi á nýtingarrétti í tiltekinn tíma er langleiðin brúuð. Sé samningstími til meira en 10 ára þarf að tryggja endurskoðunarákvæði og einnig verður ríkisstjórnin að heimila sér svigrúm til nýliðunar í greininni.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)