AFSKRIFUM KVÓTAFLOKKANA

Hef oft velt fyrir mér hvers vegna sjálfstæðisflokkur sem kennir sig við einstaklingsfrelsi og einkaframtak skuli beita sér af alefli fyrir einokunaraðgengi og fákeppnismarkaði þegar kemur að úthlutun veiðiheimilda.  Flokkurinn ver með kjafti og klóm rúllettusamspil kvótahafa og banka og kippir sér ekkert upp við tíðar afskriftir á skuldum kvótakónga.  Flokknum er sléttsama þó þessir afskriftakóngar haldi kvótanum og sjá engan hag fyrir þjóðina að innheimta veiðigjald af eigin auðlind.   Styður heilshugar leiguok kvótakónga gagnvart öðrum þjóðfélagsþegnum sem nýta vilja auðlindina og láta óátalið þó heilu sjávarbyggðirnar lamist vegna kvótaframsalsins.   Einhversstaðar hefur flokknum orðið á í messunni.  Systurflokkurinn, framsókn, er svo síst betri.  Hvet fólk sem ann alvöru einstaklingsfrelsi og alvöru einkaframtaki að íhuga aðra kosti í komandi kosningum. 


GEIRNEGLT SKAUP.

Eftir prýðilega spretti áramótaskaupsins með allskyns þjóðmálaglensi átti maður von á góðlátlegum endi.  En það var öðru nær.  Skaupið tók algera u-beygju í restina og varð að fúlustu alvöru, nánast geirnegling.   Baksviðsatriði landsfundarins er einn eftirminnilegasti skaupsketsi síðari ára og ekkert annað en hámögnuð rassskelling fyrir sjálfstæðisflokkinn.  Held leikstjórinn hafi stýrt sínu síðasta skaupi í bili en það eflaust þess virði.  Sjaldan hefur veruleikinn ratað eins vel inn í stofu allra landsmanna.  Til hamingju Gunnar Björn og Co.

ÁRIÐ TVÖÞÚSUNDOGELLEFU, UPPGJÖR.

Þetta ár hefur verið brúarsmíði.  Þjóðin stendur á bakkanum og bíður, veit ei hvert brúin liggur né hvar hún endar.  Ríkisstjórnin situr á sömu umbúðum, breyttu innihaldi og leitar að lendingu, brimgarðurinn framundan.  Vöxtur endurreisnar er miklu hægari en illgresissprotar hrunsins sem minna í bláma sínum á lúpínuna.  Stjórnarflokkunum hefur hingað til ekki tekist að nýta þingmeirihluta sinn lykilmálum til framdráttar og gammar þegar yfirsveimandi.  Tíminn er að renna út og öllum það ljóst.  Hrókeringar ráðherra innibera ákveðin skilaboð, formaðurinn trónir nú á umdeidasta málaflokki landsins og óumflúið að hann sýni sitt rétta andlit.  Hvort það snúi að þjóðinni eða hagsmunaaðilum kemur í ljós.  Níu líf ríkisstjórnarinnar eru ekki vegna eigin lipurðar heldur stirðbusaháttar þeirra sem telja sig þess  umkomna að taka við.  Á nýju ári standa þessi sömu öfl fyrir máli sínu og útkoman ráða miklu um framhaldið.  Og þó, kannski er öllum að verða sama.  El þá von í brjósti að þjóðmálaumræða komandi árs mun færast frá hægrinu og vinstrinu yfir í uppið og niðrið og snúast um almannahagsmuni en ekki hvort sjálfstæðisflokkurinn eigi fiskimiðin, framsóknarmenn kaupfélögin, samfylkingin Brussubæ eða vinstrigrænir hálendið. 
Nýárskveðja til allra sem við vilja taka, Lýður Árnason.

STJÓRNARSKRÁRVARINN RÉTTUR HVURRA?

Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ segir handhafa aflaheimilda  eiga sinn stjórnarskrárvarða rétt.  Gaman væri að vita gagnvart hverju. 

Í stjórnarskránni segir í 72 grein:

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Í lögum um stjórn fiskveiða frá 1990 segir í 1. grein:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara
er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta
atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar
ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Stjórnarskrárvarinn réttur er vissulega til staðar en hvernig hann fellur útgerðinni í skaut er mér hulið.  Held tímabært að reka hagsmunaaðila frá samningaborðum og stöðva þann fáranleika að láta þá ráðskast með lög og regluverk um eigin afkomu.  Upp úr því dýi þarf að komast og skeyta engu um málaferli né hótanir, lögin eru skýr.  

LÁ 


ÚTLENDINGAHRÆÐSLA EÐA ÍSLENDINGAÁST?

Hvað sem segja má um Kína og Grímsstaði hefur umræðan skerpt línurnar.  Er landrými auðlind eða ekki, er eignaréttinum betur fyrirkomið hjá ríki eða einkaaðilum eða eru nýtingarsamningar til ákveðins tíma besti kosturinn?  Vinstri grænir vilja takmarka eða banna jarðarsölu alfarið til útlendinga og munu flytja málið á þingi. Hvort sem þetta er kallað útlendingahræðsla eða íslendingaást skiptir ekki máli heldur hitt, hvoru megin girðingar við lendum sem þjóð.  Í ljósi þess að aragrúi milljónera um allan heim velta meiru en íslenzka þjóðin samanlagt styð ég vinstri græna í viðleitni sinni og tel hagsmunum þjóðarinnar best borgið með nýtingarsamningum á landi og auðlindum þar sem einkaaðilar keppa á jafnræðisgrundvelli.  Með slíka löggjöf erum við fær í flestan sjó.
 


ÖGMUNDUR BREYTTI RÉTT.

Ögmundur Jónason, innanríkisráðherra þarf nú að verja ákvörðun sínu um að gefa ekki undanþágu frá íslenzkum lögum varðandi jarðarkaup á Grímsstöðum.  Blöðruselir kjördæmisins belgja sig út og taka þann málstað sem best tryggir eigið endurkjör.  Best að þeir standi við orð sín og hætti stuðningi við ríkisstjórnina eða þegi ella.  En þetta mál ýtir á skýrari lög um eignarétt, auðlindir og nauðsynlega varnagla.  Slagkraftur fjármagnsins er orðinn slíkur að auðvelt er að sjá fyrir sér nokkra milljarðamæringa kaupa upp landið, auðlindir þess, nýtingarrétt og loks stjórnsýsluna sjálfa.  Við höfum slík myrkragöng að baki og dragsúgurinn angrar okkur enn.  Þetta upplegg með Grímsstaði á Fjöllum á nefnilega margt sammerkt með hnullungum hrunsins, auðvald, óljósa bakhjarla, háleit markmið, þrýsting beinna hagsmunaaðila, kjördæmapot alþingismanna og tengzl við stjórnmálaflokk.  Bara sú staðreynd að þurfa hálft prósent af landinu undir golfvöll og hótel er tortryggileg og í mínum huga næg ástæða til höfnunar.   Innanríkisráðherra fór að lögum í þessu máli.  Stjórnmálamenn sem telja lögin vitlaus geta barist fyrir að fá þeim breytt.   Stjórnmálamenn sem vilja túlka lögin að eigin smekk ættu að huga að annarri vinnu.

LÁ  


STJÓRNSÝSLUSNILLD.

Skondið þetta hnoð bæjaryfirvalda á leikskólakennurum.  Í haust voru laun leikskólakennara hækkuð og núna er matartíminn dreginn frá vegna of mikilla launahækkana.  Held þessir stjórnsýslusnillingar ættu trauðla upp á pallborðið yrðu störf í þessu þjóðfélagi metin að verðleikum.


ÚTVARP ÚTVEGSMANNA, GÓÐAN DAG.

Borgarinn, Einar Steingrímsson, hefur heldur betur ruslað til hjá okkar háttvirta ríkisútvarpi.  Stofnunin birti vikum saman auglýsingar ótiltekinna útvegsmanna sem kveða á um að óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi þjóni þjóðinni best.  Núverandi ríkisstjórn var þó ekki sízt kosin einmitt til að breyta.  Því engin furða þó ótiltekinn borgari svari með eigin auglýsingu og mótmæli útvegsmönnum.  Og þegar ekki gekk að ýta borgara út af borðinu var umræðan stöðvuð með því að loka líka á útvegsmenn.  Ríkisútvarpið hefur þannig leyft einhliða umfjöllun vikum saman en lokar þegar andstæð sjónarmið berast.  Þau rök að bein pólitísk skilaboð eigi ekki heima í auglýsingum ríkisútvarpsins giltu ekki fyrr en borgari tók sig til, fram að því voru þau óátalin.  Þetta er ekki bara álitshnekkir fyrir RÚV heldur stöðumat fyrir þjóðina alla.
 


KAKAN STÓR EN SNEIÐARNAR FÁAR.

Því er haldið fram að aflahlutur sjómanna lækki við innleiðingu veiðigjalds, þ.e. að gjaldið rýri afkomu útgerðanna þannig að þær geti ekki borgað sömu laun.  Í fyrstu gæti litið út að hér væri um að ræða umhyggjusemi í garð sjómanna en hafa skal það sem sannara reynist.  Í fyrsta lagi má spyrja hvaðan stórfiskar viðskiptalífsins spretta og hvar liggur vald auðsins?  Á útgerðin þar sinn sess?  Er skiptahlutur hennar svo rýr að ganga verður á sjómenn?  Skyldu þær útgerðir sem reka eigin vinnslu selja sjálfum sér fisk á lægra verði og rýra þannig aflahlut sjómanna?  Mismunur á fiskverði bendir sterklega til þessa og hvar er þá umhyggjan fyrir sjómönnum?  Kvótaleiga er þannig uppbyggð að kvótalaus sjómaður greiðir leigusalanum 70-80% af innkomu sinni.  Sjálf vill stórútgerðin helst ekki borga neitt veiðigjald, sbr.makrílinn.  Er þessi okurleiga af umhyggju fyrir sjómanninum?  Og öll viðleitni til að koma á jafnræði og heilbrigðri samkeppni í sjósókn á Íslandi er barin niður skjótt og örugglega af hagsmunasamtökum útgerðamanna.  Er það af umhyggju fyrir sjómanninum?   Í skugga þessarar niðurlægingar vinna sjómenn verk sín, þegjandi. Kakan er stór en sneiðarnar fáar.
 


ÓTILTEKNIR ÚTVEGSMENN OG ÓTILTEKINN BORGARI.

Ótilteknir íslenzkir útvegsmenn fara mikinn í auglýsingum þessa haustmánuði.  Allsstaðar er því flaggað að betra sé að raska sem minnst þeirra eigin einokun að fiskveiðiauðlindinni.  Hún tryggi best hagsmuni þjóðarinnar og betur en uppstokkun með jafnræði að leiðarljósi.  Þó liggur fyrir að  ótilteknir útvegsmenn hafa í samvinnu við banka (sem þeir stjórnuðu sumum sjálfir) stýrt verði aflaheimilda og veðhæfi.  Þannig hefur arður atvinnugreinarinnar verið úttekinn fyrirfram.  Og nú standa yfir afskriftir.  Það sem verra er er að heilu stjórnmálaflokkarnir bíða þess eins að færa útgerðarmönnum aftur hringekjuna í hendur og tryggja þar með sínar mjólkurkýr.   Hingað til hefur maður ekki dregið sjálfstæði RÚV í efa en þegar auglýsing "borgara" sem lýsir andstæðum sjónarmiðum við íslenzka  útgerðarmenn er sett í salt staldrar maður við.    Hvers vegna mega ótilteknir útvegsmenn flagga sínu en ekki ótiltekinn borgari?
 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband