22.6.2010 | 03:30
ÓNÝTT INNISTÆÐUTRYGGINGARÁKVÆÐI.
Nýkrýndur brezkur forsætisráðherra vill að íslendingar standi við hinar svokölluðu "skuldbindingar" sínar varðandi icesaveinnlán Landsbankans. Íslenzkur almenningur hafði ekkert að gera með þessa svikamyllu og þetta innistæðutryggingaákvæði evrópubandalagsins svo vitlaust að enginn þjóð fær undir risið. Enda hneigjast margir að því að ákvæðinu verði að breyta. Tel bretum væri nær að afhenda okkur fleskbitana sem hrærðu þennan svikavelling allan í stað þess að skjóta yfir þá skjólshúsi. Það er fáranlegt að horfa einungis á það atriði hvort þjófabankarnir hafi verið útibú eða dótturfyrirtæki þegar fallið kom. Siðmenntaðar þjóðir deila með sér svona oki og standa sameinaðar að handtöku hinna raunverulegu sökudólga. Um þetta eiga ráðamenn að véla en ekki gjörónýtt innistæðutryggingarákvæði.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2010 | 00:59
LÆKNAR MEÐ SKOTT.
Trúin flytur fjöll. Ekki sízt í lækningum. Hveitipillur hrífa, saltvatnssprautur, úthreinsanir, grasaseyði, sjóböð, leirböð og müllersæfingar. Samantekið ætti að vera sama hvaðan gott kemur og hverjum frjálst að ákveða hvað sé gott fyrir eigin heilsu og hvað ekki. Oftar en ekki bítast þeir sem þjónustuna veita og finna öðrum í sama geira allt til foráttu. Sérlega er togstreita milli hefðbundinna lækninga og svokallaðra óhefðbundinna lækninga. Þessir aðilar reyna jafnvel að afmá verk hvors annars. Sú viðleitni getur reynst skaðleg og vísa ég sérlega til þess þegar fólk er hvatt til að hætta lyfjainntökum. Þó lyfjaát í þessu landi sé vissulega langt utan þarfamarka skal gæta varúðar í slíku. Samráð þjónustuaðila væri auðvitað best en því miður alltof sjaldan viðhaft og misgengið veldur sjúklingum ráðvillu. Í slíkum tilvikum er öruggast að treysta á vísindin en hinum sem velja óvissuferðina vonandi ljóst að slíkum túrum fylgir áhætta. Nákvæmlega eins og í lífinu sjálfu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2010 | 02:22
POKAVEIÐAR.
Sjávarútvegsráðherra er legið á hálsi af fræðingum hafrannsóknarstofnunar fyrir að banna dragnótaveiðar á innfjörðum. Segja fræðingarnir engar rannsóknir styðji þá skoðun ráðherra að þannig veiðar séu öðrum óvistvænni. Ekki veit ég hvort samanburðarrannsóknir séu til á berjatínslu með og án berjatínu. Né garðslætti þar sem tekin er fyrir sláttuvél á móti heimalningi. Hinsvegar liggja fyrir rannsóknir sem benda eindregið til að hross séu félagsverur. Áður hljóta menn að hafa verið efins. En þeir sem arkað hafa berjalönd þekkja vel muninn á handtíndum svæðum og pokatíndum og hvernig fiskifræðingar geta dæmt að jöfnu pokaveiðar og krókaveiðar er í sjálfu sér verðugt rannsóknarefni.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2010 | 04:37
LANDSFUNDUR GEISP.
Einatt hefur landsfundur sjálfstæðisflokksins skipt þjóðina miklu og flestir látið samkomuna sig einhverju varða. Fjölmiðlar enda duglegir að hita upp. En nú er stemmningin öðruvísi. Áhuginn minni. Kannski óvænt yfirtaka popparanna í borginni hafi opnað augu fólks fyrir nýjum möguleikum, nýju fólki og nýjum andlitum. Sem fyrir örfáum misserum var óhugsandi. Minni áhugi á landsfundi tengist þá væntanlega þeirri staðreynd að almenningur og fjölmiðlar sjá ekki lengur landsforingjaefni framtíðarinnar úr röðum sjálfstæðismanna. Og lái þeim hver sem vill.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2010 | 03:25
HRAFNSEYRI VIÐ DÝRAFJÖRÐ.
Sautjándi júni 2010 var um margt merkilegur. Jóhanna gladdi hægri menn með ranghermi um legu Hrafnseyrar, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, en hún ku hafa farið fjarðavillt. Þetta axarskaft var því kjarni þjóðhátíðarræðunnar og líkur á að heitt sé undir aðstoðarmanninum. ESB-aðdáendur fögnuðu aðildarviðræðum meðan andstæðingar ná vart upp í nef sér yfir ósvífninni að spyrða rugluna við sjálfan þjóðhátíðardaginn. Einhvernveginn held ég að 17. júní sé eilítið fyrir þjóðinni og ferming fermingarbörnum. Uppsprettan er nokkuð á reiki og tilgangurinn óviss. Ferming hefur miklu meira með veraldlega hluti að gera en æskilegt er og heitið sjálft nánast formsatriði. Sömuleiðis hafa núlifandi kynslóðir ekki kynnst sjálfstæðisbaráttu. Hvaða baráttumál núsins eru íslendingum sameiginleg? Harla fá ef nokkur. Sjálfstæðið, lýðveldið Ísland hefur fært okkur svo miklar gnægtir að meginviðfangsefnið er að rífast um skiptingu molanna innbyrðis. Við sjáum ekki lengur Ísland, frónið farsælda, heldur dreifbýli og þéttbýli, einkavæðingu og ríkisvæðingu, sjálfstæðisflokk og vinstri menn, ESB og ekki ESB. Svo er rétt upp hönd og meirihlutinn ræður. Svokallað lýðræði. Allt of lengi hafa ættir, flokksklíkur og hagsmunasamtök stjórnað þessu landi og til að brjótast undan því er auðvitað ákveðin lausn að ganga inn í ESB. Andstæðingar inngöngu eru líka að hluta einmitt þessar sömu áðurnefndu ættir, flokksklíkur og hagsmunasamtök. Sjá þessir hópar ekki að það er einmitt sérhagsmunahyggjan sem veldur því að við stöndum frammi fyrir atkvæðagreiðslu um aðild að ESB? Hættið henni strax og takið þátt í auðlindavörnum þjóðarinnar með Ísland í huga, takið þátt í endurreisninni með Ísland í huga og þá er með góðri samvizku hægt að segja nei við ESB með Ísland í huga.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.6.2010 | 03:30
RAFMAGNSBÍLABORG.
Reykjavíkurborg ætti að ríða á vaðið með rafmagnsbíla. Borgarstjórinn byrja á eigin ökutæki og skylda síðan lúxussnúðanna í orkuveitunni að gera slíkt hið sama enda ótækt að slík stofnun aki um á bensínhákum. Doktorinn gæti umbreytt almenningsvögnunum til sömu áttar og Dagur hjólað. Að gera Reykjavík að fyrstu rafmagnsbílaborginni er verðugt verkefni og vistvænt, myndi flýta rökréttri þróun og það sem mestu skiptir, vekja athygli. Hvílíkur umsnúningur fyrir íslenzka þjóð að geta flutt út rafmagn í stað innflutnings á bensíni. Og dásamlegt fyrir hnöttinn okkar sem súrnar með hverju ári. Tæknin er til staðar og markaðurinn. Eftir hverju er beðið?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.6.2010 | 12:53
HVALVEIÐAR PRÓFSTEINN ESB?
Samkvæmt fregnum verða íslendingar að hætta hvalveiðum ætli þeir sér inngöngu í evrópusambsandið. Er krafan að undirlagi þjóðverja. Strax vilja nokkrir þingmenn draga umsókn okkar til baka og afgreiða málið fyrir sumarlokun þings. Samfylkingarkona sagði útflutningstekjur okkar af hvalveiðum 5000 þúsund krónur og minnir þannig á lítilvægi þessara veiða í heildarsamhenginu. Þetta sýnir ágætlega kortlagninguna og þá eftirgjöf sem margir eru tilbúnir að veita í þágu aðildar. Vona bara að fréttin sé rétt og krafan sé ófrávíkjanleg af hálfu þýzkra. Með því fengist strax prófsteinn á raunverulega legu Íslands gagnvart viðsemjendum sínum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2010 | 04:12
ÓBORGANLEG STAÐREYND.
Nú liggur það fyrir að þetta var ekki draumur. Né martröð. Blákaldur Jón Gnarr settist í stól borgarstjóra í dag, hélt óhefðbundna ræðu og virtist njóta þessarar nýju tilveru. Hvatti Reykvíkinga til að óttast sig ekki, Besti Flokkurinn væri í eðli sínu jákvætt hugmyndaflug. Virkjaði svo minnihlutann til verka. Ekki svo lakleg byrjun og um leið og ég óska Jóni og félögum til hamingju bið ég almættið um að gæta hans vel. Ekki veitir af í vítispytti stjórnmálanna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2010 | 03:42
BIRGITTA VAR KOKKUR KVÖLDSINS.
Eldhúsdagur þingsins var að venju karp í beinni. Þó er einn og einn þingmaður einlægur í máli sínu og tónninn sannur. Einlægnisverðlaun kvöldsins fær að mínu mati Birgitta Jónsdóttir, þingkona Hreyfingarinnar. Pollróleg færði hún okkur sannleikann um vatnið og nauðsyn þess að forða því frá einkavæðingu. Lýsti líka þeirri staðreynd hversu nauðsynlegt það sé þjóðinni að eignast nýja stjórnarsakrá þar sem fólkið sjálft ákveður þyngdarpunktinn. Tilfinning mín yfir ræðu Birgittu var sú að þessi kona væri sönn og leiðarljós hennar heildin. Sem ekki er hægt að segja um suma aðra, frasakenndir loftbelgir og gjörsamlega bundnir á flokksklafa. Og þegar menn bjóða fram krafta flokka sem dingla á þingi líkt og hátæknisjúkrahúsið, stutt af kerfinu en án allrar eftirspurnar annars, hlýtur maður að velta fyrir sér dómgreindinni, er ekki nóg að gert? Hvað þarf mörg þjóðarhrun til að fólk skynji sinn vitjunartíma? Steingrímur er alltaf glúrinn ræðumaður sama þó hann fari með fleipur en líka vil ég hrósa Þráni Bertelssyni fyrir að ámálga alþingishefðir sem virðast í forgangi fram yfir skilvirkni. En kokkur kvöldsins var Birgitta Jónsdóttir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.6.2010 | 03:15
AÐ BREYTA VÍNI Í VATN.
Vatnalög eru nú til umræðu á alþingi. Og enn og aftur karpa menn um eignarétt og nýtingarétt. Og enn vara sumir við þjóðnýtingu og sjá í orðinu heimsendi. En þjóðnýting landsins gagna og nauðsynja hlýtur að vera af hinu góða komi hún í veg fyrir að einstaklingar geti í krafti eignaréttar varið þjóðina aðgangi að auðlindum, jafnvel í skorti. Saga og reynsla hefur sýnt af hverju fjármagnsöfl stjórnast og mikið væri andvaraleysi ráðamanna ef þeir sýndu ekki viðspyrnu. Íslendingar þurfa samhæfð auðlindalög sem gilda um vatn, fisk, orku og náttúru, lög sem tryggja fólkinu í landinu sinn aðgang og sinn skerf í allri nýtingu. Enginn er hér að tala um kommúniska þjóðnýtingu eins og einkavæðing sjálfstæðisflokksins reyndist vera, sem gekk út á að einkvæða gróða en ríkisvæða skuldir, heldur tryggja ætíð aðgang almennings að auðlindum í skorti, tryggja ríkinu og þar með samfélaginu sinn skerf í hverskonar nýtingu og hamla okri og fákeppni í verðlagningu. Þetta brýna verkefni liggur nú fyrir ráðamönnum og byrjunin er að fella vatnalögin frá 2006 endanlega úr gildi og semja ný, þjóðvænni lög. Þeir sem sjá í þessu einhvern afbrigðilegan isma hljóta að vera þess umkomnir að geta breytt víni í vatn.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)