3.6.2010 | 02:13
FJÓRFLOKKSHUGTAKIÐ.
Fjórflokkurinn er hugtak sem mörgum hugnast illa. Telja það ekki standa fyrir neitt og einungis upphrópun stjórnleysisafla. En þetta er rangt. Fjórflokkurinn er til og samanstendur af þeim fjórum flokkum sem einokað hafa þjóðgarð stjórnmálanna umliðin ár og áratugi. Þessi fjórblaðasmári hefur skammtað sér ómælt fé úr ríkissjóði, ofið stjórnsýsluna að sínum þörfum, ekki þjóðarinnar og ráðið miklu um umfjöllun fjölmiðla. Fjórflokkurinn er samnefnari þeirrar valdaskiptingar sem viðgengist hefur á Íslandi og hefur skotið svo djúpum rótum í þjóðarsálinni að lungi þjóðarinnar hefur ekki getað ímyndað sér önnur stjórnarmynstur en þau sem samanstanda af þessu fyrirbæri, þ.e. Fjórflokknum. Þangað til núna. Og þó hinir fjórir strengir Fjórflokksins séu mis falskir er þeir allir hluti eins og sama hljóðfæris. Tónstiginn sá sami og einungis blæbrigði sem aðskilja. Fjórflokkinn má segja hluta af ákveðinni tónlistarstefnu sem liðin er undir lok. Þeir sem reyna að sía í burtu fjórflokkahugtakið festa það einungis betur í sessi alveg eins og diskóboltarnir forðum sem með yfirþyrmandi tilgerð sinni hófu pönkið til vegs og virðingar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.6.2010 | 03:06
ÁBYRGÐ EINKABANKA FASTNEGLD HJÁ DÖNUM.
Danir samþykktu í dag frumvarp sem kveður á um ábyrgð banka á innlánum innistæðueigenda. M.ö.o. bera danskir ríkisborgarar ekki lengur skaða af peningatapi danskra einkabanka heldur þeir sjálfir. Þannig að nú er það á hreinu í Danmörku að einkabanki er einkabanki og sveiflur ofan striks og neðan engra mál nema þeim sem taka beinan þátt. Vona íslenzkir ráðamenn taki þetta sem fyrst til eftirbreytni enda ótækt að áhætta í plús sé þess sem tekur en annars ok annarra.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2010 | 02:53
HIÐ NÝJA STJÓRNSÝSLUBRUGG.
Uppnám virðist vera í umleitunum flokkanna í Kópavogi til meirihlutamyndunar. Einn málsaðili er á móti pólitískum bæjarstjóra og kveður það stríða á móti boði sínu til kjósenda. Kveðst fremur slíta viðræðum en svíkja umbjóðendur sína. Tel þetta prinsippmál í umræddum hóp fremur en vantraust á oddvita samfylkingar. Ennfremur hluta af nýjum vinnubrögðum í pólitík. Hversu súr sem oddvitum flokka finnst þessi bikar er mál að dreypa og smakka á þessu glænýja stjórnsýslubruggi. Skylda samningamanna er fyrst og fremst ggnvart bæjarfélaginu, að þar tróni starfhæfur meirihluti en síður hver skarti hverju. Klárið því málin, þið Kópavogsfólk.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2010 | 01:03
PÓLITÍSK ARFLEIFÐ.
Krafan í samfélaginu er þessi: Gisnari stjórnsýsla, gegnsærri og gagnvirkari. Ráðherra viljum við utanþings og ópólitíska bæjarstjóra. Svo viljum við stjórnlagaþing með okkar eigin þátttöku sem þjóð, persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur um öll meiriháttar mál. Saman tekið má segja að þjóðin vilji unnvörpum stjórnarhætti Davíðstímans með öfugum formerkjum. Kannski þjóðin læri því af mistökum forveranna og þannig skili þeir sinni arfleifð.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2010 | 01:58
RYKSUGAN Á FULLU.
Mikið er um að vera á hinum pólitíska vettvangi og völlurinn líkur varplendi með tilheyrandi gaggi og gjörningum. Einn þeirra eru mótbárur Guðmundar Steingrímssonar en sá knái forsætisráðherrasonur beitir formanninn hælkrók og skellir á hann afhroði kosninganna. Kannski Guðmundur muni fella Sigmund og auka vægi flokksins á ný. Forsvarsmenn seðlabanka og fjármálaeftirlits verða marineraðir hjá sérlegum saksóknara og eiga varla von á góðu. Ennfremur eru uppi raddir um að ræsa landsdóm fyrsta sinni vegna yfirsjóna fyrrum ráðherra. Grátlegt að Dóri sé firndur og eiginlega þyrfti að breyta firningarákvæðinu afturvirkt. Ráðhúsið er svo að fyllast af poppurum sem hlýtur að teljast gott æfingahúsnæði fyrir nýgræðinginn. Vangaveltur eru uppi í utanríkismálanefnd um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og virðist alvara í þeim pælingum hvað sem verður. Held það myndi styrkja Ísland á alþjóðavettvangi að verða fyrstir þjóða til að sýna andúð sína í verki. En ekki nóg með þetta heldur styrktist gjaldeyrisforðinn í dag vegna samninga seðlabanka og lífeyrissjóða. Sem gæti þýtt hræringar til hins betra í gjaldeyrishaftarmálum. Því er synd að tala hér um kyrrstöðu, þjóðfélagið er á bullandi skriði og spennandi hlutir að gerast.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.5.2010 | 02:28
KOSNINGAÚRSLIT.
Sveitastjórnarkosningar afstaðnar og úrslit marghátta. Óska Gnarr og félögum til hamingju með breytt landslag í borginni en vara við hugsanlegu leikriti stóru flokkanna hvurs markmið yrði að skilja Besta Flokkinn eftir á varamannabekknum með Sóleyju Tómasdóttur. M.ö.o. er Jón ekki orðinn borgarstjóri fyrr en Dr. Spock fer að hljóma í ráðhúsinu. Held reyndar að Proppé verði líka traustur borgarfulltrúi, alltaf haft trú á þeim manni enda hann sem söng : Burt með kvótann! Hér í vestrinu kýs galdrafólkið á Ströndum kommana en kvótagengið andfjarða íhaldið. Því fær Besti Flokkurinn ekki breytt. Annars óska ég velfarnaðar öllu því ágæta fólki sem leggur sig í líma fyrir bæina sína og vona komandi kjörtímabil verði bæði gjöfult og gott.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2010 | 02:29
STEINKA STIGIN.
Loksins steig Steinka til hliðar. Gott fyrir hana sjálfa og frábært fyrir þjóðina, nú fara raðirnar að þynnast. Endurkoma þeirra þingmanna sem þegar eru í tímabundnu fráhvarfi verður að teljast hæpin eftir útspil dagsins og Guðlaugur Þór, Dagur Bé, Helgi Hjörvar og sexmenningarnir í borgarstjórn eru valtir. Þjóðin heimtar endurnýjun og það mun endurspeglast í niðurstöðu sveitastjórnarkosninganna. Hversu mikil skal ósagt en hún á aðeins eftir að aukast. Í dag var stigið mikilvægt skref framávið í endurreisninni og það skref má Steinka eiga. Óska henni velfarnaðar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.5.2010 | 02:49
GREINING HÖFUÐPAURA BORGARFRAMBOÐANNA.
Höfuðpaurar framboðanna í Reykjavík stóðu fyrir svörum í Sölvaspjalli Skjás eins í kvöld. Holdgervingur heiðarleikans, Ólafur F. Magnússon, minntist helst til oft á þennan eiginleika sinn en átti kollgátuna varðandi framsóknarflokkinn og hans fyrrum foringja. Held þó að fas Ólafs sé ekki kosningavænt og það muni bera heiðarleikann ofurliði í kjörklefanum. Annar læknir, Dagur B. Eggertsson, berst nú fyrir pólitísku lífi sínu en verði útkoman samkvæmt nýjustu könnunum eru lífdagar hans sennilega taldir. Háir honum æ að tala of mikið og nú einnig að vera 2007 prótótýpa. Held Dag þó vænan dreng og velviljaðan. Frambjóðendur frjálslyndra og Reykjavíkurlistans voru ósköp ljúft og venjulegt fólk og kannski það undirstriki undirtektirnar, þarna vantaði tilfinnanlega einhvern snaga fyrir kjósendur. Hanna Birna borgarstýra hefur reynst býsna skelegg og mikið fylgistap tæplega til hennar rakið. Akkilesarhællinn kannski sá að bjóða sig fram undir ónýtu vörumerki og hafa ásamt samverkamönnum ekki gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi framboðsstyrki. Framsóknarframbjóðandinn á ekki sjéns og það föðurhúsunum að kenna, framsóknarflokkurinn er á útleið í íslenzkri pólitík. Stúlkan fyrir vinstri græn var allt of reið og róttæk til að ná breiðri skírskotun og linni flokkurinn ekki þessum útspilum sínum má hann fara að pæla í útfararsálmum. Jón Gnarr snart mig ekkert sérstaklega með frammistöðu sinni þó vissulega væru góðir sketsar inn á milli. Jón Gnarr, hinsvegar, þarf ekkert að snerta neinn í sjónvarpsspjöllum, hann er búinn að margtaka þjóðina og býður henni nú að taka sig. Það er bara díll sem fólk á erfitt með að hafna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2010 | 02:11
HÚSBYGGINGAPÓLITÍK.
Á sínum tíma var sjónvarpið í þröngu húsnæði við Laugaveginn. Núna er stofnunin í gímaldi sem étur upp allt rekstrarfé og menningarhluti starfseminnar lotið í lægra haldi fyrir stjórnsýslu. Við sjáum þetta víðar. Reykjavíkurborg réðist í ráðhús sem hýsir nú breiður af stjórnunarklösum og öðrum tilbúningi sem enginn veit deili á né tilgang. Músikhúsið er annað ginnungagap, sagt fyrir tónlistina í landinu en mun sliga ríkið og draga úr fjárhagslegum mætti til greinarinnar. Sýnu verst er þó hátæknisjúkrahúsið sem vegna fjárflæðis í ranga átt mun stórskerða grunnþjónustu í landinu. Og bullið sem segir að firran fjármagnist með hagræðingu innanhúss er að vonum. Fagaðilar, hagsmunasamtök og stjórnmálamenn ýta gjarnan svona stórkarlahugmyndum að fólki og telja því trú um ágætið. Reynt er að slá á efann í fæðingu og til þess fengnir allskonar kverúlantar. Ennfremur er kostnaður vanmetinn en hækkaður síðar þegar of seint er að hætta við. Allir íslendingar þekkja aðferðafræðina, hún er eitt helsta kennileiti stjórnsýslunnar. Auðvitað er atvinnusköpun góð en arðsemi verður að fylgja. Atvinnusköpun í verkefnum sem háma í sig fé eftir að þeim lýkur er þjóðarfjandsasamleg. Hættum því þessari húsbyggingapólitík, flisjum frekar báknin og búum til minni og manneskjulegri einingar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2010 | 04:13
OKBERAR HRUNSINS.
Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri morgunblaðsins, og af mörgum áður talinn einn valdamesti maður landsins situr nú á friðarstóli og ritar bækur um hrun og hrunverja. Saman tekið má segja að ritstjórinn lýsi íslenzku samfélagi sem mafíusamfélagi og hann sjálfur innarlega í búri. Að mati Styrmis hefur valdatafl og hagsmunagæsla gegnsýrt alla stjórnsýslu og fjölmiðla. Og nú, aldinn að árum, upplýsir hann þjóð sína um hið illa gangverk sem hratt henni loks fram af bjargbrúninni. Frá manni sem var í hringiðunni miðri eru þetta merk tíðindi og eftirtektarverð, ekki sízt í ljósi þess hve margir samtíða- og samstarfsmenn hans ráfa enn í myrkrinu. Nefni sem dæmi Halldór Ásgrímsson og nýlegt kastljósviðtal við hann. Maðurinn átti mörg helstu pungspörk hrunadansins en lætur sem ekkert sé. Davíð Oddssyni virðist hinsvegar líða ver, í fasi hans örlar á samvizku. En er Davíð landráðamaður? Sveik hann þjóð sína? Ekki veit ég það en hann hefði mátt gæta hennar betur. Hann var foringinn og honum var treyst. Eftirmanni hans var síður treyst og reyndist hann þjóðinni að vonum. Kannski var Ingibjörg Sólrún sýnu verst, hún kom sá og gerði ekki neitt, féll með draumi annarra. Allt þetta fólk upplifir nú erfiða daga og á kannski aldrei afturkvæmt í þeim efnum. Okið sem á þeim hvílir er mikið og kannski er atgangur Styrmis á ritvellinum ekki bara sannleiksþráin ein heldur líka aflausn. Þöggun getur nefnilega verið sálarmein og þeim ráð sem rækja að hafa með sér farsíma yfir gröf og dauða. Kannski snýst þeim hugur.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)