4.5.2010 | 03:05
NÝR STANGVEIÐIFLOTI Í BOLUNGARVÍK.
Slöttungur af fólki var samankomið á Bolungarvíkurbryggju í kvöld. Ástæðan einkaframtak í formi glænýrra stangveiðibáta. Athafnamenn hafa í vaxandi mæli komið auga á þennan áhugaverða kost í ferðamennsku og víða sprottnir vísar af stangveiðum á Vestfjörðum enda stutt í gjöful mið. Töluverð fjárfesting liggur að baki svona framtaki, bæði í bátum og gistingu en markaðurinn virðist fyrir hendi. Einn hængur er þó á þessari starfsemi en það er kvótaleysið. Án hans veiðist ekki neitt. Kvóta þarf því að leigja annarsstaðar og þannig geta óskyldir aðilar heft og hamlað öllum framgangi. Þessi staða er óásættanleg fyrir þá sem vilja hasla sér völl á þessu sviði og skemmir fyrir bæjarfélögum sem sjá á bak uppbyggingu og umsvifum. Sjávarútvegsráðherra þarf tafarlaust að lagfæra þessa augljósu brotalöm í atvinnuuppbyggingu hinna dreifðu byggða og úthluta þorpunum stangveiðikvóta til útleigu þannig að rekstraraðilar geti gengið að veiðunum vísum en séu ekki undir náð og miskunn kvótaeigenda. Kröftugur bæjarstjóri Bolvíkinga var á kajanum í kvöld og vildi ég gjarnan sjá hann berjast fyrir þessari sjálfsögðu byggðaeflingu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.5.2010 | 00:45
ÖLLU GRÍNI FYLGIR ALVARA.
Fylgi svonefnds Besta flokks virðist koma mörgum í opna skjöldu. Sjálfstæðismönnum í borginni hrýs hugur og vísa skelfdir í bankahrunsskýrsluna. Hana hygg ég ekki meginorsökina fyrir auknu þori almennings til að breyta til. Það er einfaldlega sprottið úr þeim jarðvegi sem klíkustjórnmálin skópu. Fólk getur gert lítið úr framboði grínistans en hann hefur hugsanlega slegið hinn eina sanna tón, vitandi eða óafvitandi skiptir ekki máli. Eftir að hafa rústað efnahag landsmanna, fyrirgert öllu trausti innanlands sem utan, búið sjálfum sér umgjörð utan allra siðferðismarka, skrumskælt frelsið og úthlutað auðlindum þjóðarinnar í trássi við vilja og hag heildarinnar eru hrunflokkarnir loksins að uppskera í samræmi við það sem niður fór. Vona Jón nái hreinum meirihluta í borginni og kveiki síðan elda um land allt. Gangi þér vel, Jón.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2010 | 03:27
MISTÖK SKÖPUNARSÖGUNNAR.
Stundum tapar maður trúnni á mannskepnuna. Stjórn lífeyrissjóðs varði sjálfa sig vantrausti í gærkvöld, skiptu engu skoðanir umbjóðenda né sú staðreynd að gullið sem átti að gæta var horfið. Eina hugsunin að sleppa ekki takinu. Bakkavík í Bolungarvík fór á hausinn í vikunni. Byggðastofnun höfð að fífli og þar með almenningur, eigendurnir hinsvegar með pálmann í höndunum. Endurtekið efni og stjórnvöld aðhafast ekkert gegn kennitöluflakkinu sem er að sliga samfélagið. Íslenzkir guðsmenn klóra sér í hausnum yfir því hvernig hægt sé að eiga vini af sama kyni og eru langt á eftir trúbræðrum sínum í vatikaninu sem tíðka þetta mjög ásamt ofurást á börnum. Verstur er þó hryllingurinn í Serbíu en þar aflimuðu stigamenn hundstík sér til skemmtunar. Já, mannskepnan er margslungin, ekki ólík tunglinu sem á sér skuggahlið. Skaparinn hlýtur að sjá eftir sjötta deginum og hefði betur haft hann heilagan í félagi við þann sjöunda. Þá hefði ekkert af ofangreindu verið til nema lappirnar á tíkinni, enn á sínum stað.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2010 | 02:12
MÁLSKOTSRÉTTURINN LIFI!
Málskotsréttur forsetans er nú orðinn þrætuepli rugludallanna á alþingi. Samfylkingin var með, nú á móti, sjálfstæðisflokkur sannur allltaf á móti og er enn. En var þessi umdeildi réttur inn settur vegna flokkanna eða fólksins í landinu? Er eðlilegt fyrir flokksskriflin að málefnið móti afstöðuna eða er þjóðin hreinlega of vitlaus til að fá að hljóma stöku sinnum? Afstaða sjálfstæðisflokks til bankaleyndar er jú kunn, rökin þau að verja viðskiptavini en ætli flestir séu ekki orðnir sannfærðir um annað. Lýðræðinu virðist ekki gert hátt undir höfði á alþingi þó þess sé getið á tyllidögum. Auðvitað kjósum við alþingi til ákvarðanna en í ljósi reynslunnar hljótum við að vilja öryggisventil ef gengið sé of langt eða skammt. Hann höfum við í málskotsréttinum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.4.2010 | 01:47
TÍÐARANDI MÚTUÞÆGNI.
Styrkveitingar til stjórnmálamanna eru æ ofan í æ réttlættar og ber hver alþingismaðurinn á fætur öðrum blak af sér og félögum sínum. Benda á lögmæti gjörninganna og von sé á nýjum reglum og ályktunum. Einnig er vinsælt að vísa í tíðaranda og að þjóðin öll hafi verið skökk. En þetta er ekki rétt. Flestir íslendingar sleiktu sól góðærisins en fæstir átu hana upp til agna, skitu henni og átu aftur. Hinn venjulegi íslendingur var aldrei á starfsbyrjunarsamningi, starfslokasamningi, innherji, stofnfjárfestir, kúlulánaþegi, styrkþegi eða í einkaþotum. Hinn venjulegi íslendingur hristi hausinn yfir öllum þessum ósköpum en lét bullið óátalið enda talin trú um að hér væru lögmál markaðarins á ferð, taktu þátt eða þegiðu. Hinn venjulegi íslendingur var lánaglaður en það var ekki hans glæpur eða sök heldur stjórnmálamanna sem hvöttu mjög til lána og létu yfir höfuð leggjast að vara fólk við þegar upphafið að endalokunum var ljóst. Tíðarandi mútuþægni var aldrei tíðarandi þjóðarinnar, þetta var tíðarandi spilltrar kynslóðar stjórnmálamanna sem vissulega er vorkun en þó þarfara að losna við. Það voruð þið, stjórnmálamenn, sem fóruð fram úr öllu og skynjuðuð ekki ykkar mörk. Tíðarandinn er ekki sökudólgurinn heldur þið sjálf sem í öllu gamninu gáfuð ykkur ekki tíma til að skoða sviðið og hugsa ykkur um. Og ummæli ykkar núna sýna grátt á svörtu að þið hafið ekkert lært.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2010 | 01:02
ÓLÖG LÍFEYRISSJÓÐANNA.
Félagar í lífeyrissjóðnum Gildi mættu til skrafs í kvöld, mikill hiti vegna glæfralegra fjárfestinga stjórnarmanna og borin upp tillaga að allt heila klanið hyrfi. Kannski að vonum því skerðing lífeyris liggur fyrir vegna óráðsíunnar. En tillagan var kolfelld enda kosningaréttur einungis í höndum stjórnarmanna. Sá sem bar upp þetta vantraust var almennur sjóðsfélagi. Sá hvetur nú sjóðsfélaga að ganga af skútunni og greiða lífeyri sinn annarsstaðar. Skil hann vel og styð, lög sem viðhalda ónýtum eplum eru ólög.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2010 | 02:12
LÖGLEGT OG SIÐLEGT.
Þversagnir stjórnmálamanna gagnvart ábyrgð ríða nú húsum og vísa þeir gjarna í löglega gjörninga. En auðvitað er allt löglegt og reglum samkvæmt í þjóðfélagi sem mótaði enga ramma. Stjórnvöld skópu ekkert regluverk meðfram einkavæðingunni, henni var sjálfri ætlað eigið eftirlit. Ot nú þegar mistökin liggja fyrir skáskjóta allir sér á bak við einhvern tíðaranda og stemmningu. En er löglegt og er siðlegt að borga einhverjum margföld ævilaun fyrir það eitt að þiggja starf, stunda starf eða hætta starfi? Er löglegt og er siðlegt að stunda innherjaviðskipti, kennitöluflakk og útlán án ábyrgðar bara af því að engar sérstakar lagaklausur finnast um athæfið? Er löglegt og er siðlegt að troða vinum og vandamönnum, flokksgæðingum og viðhlæjendum upp á stjönuhiminn stjórnsýslunnar án tillits til hæfis gagnvart starfinu og öðrum umsækjendum? Er löglegt og er siðlegt að fara ekki eftir stjórnarskrá lýðveldisins og hunsa ákvæði hennar ár eftir ár og hætta í því augnmiði sjálfstæði þjóðarinnar? Er löglegt og er siðlegt að koma heilu samfélagi á hausinn og gangast ekki við því? Fólk sem þarf einhverjar eftiránefndir til að greina rétt og rangt ætti að finna sér annan starfsvettvang en þann að taka að sér hagsmunagæslu fyrir aðra, hvað þá heila þjóð.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.4.2010 | 11:11
EFTIRMÆLI HALLDÓRS.
Yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar eru að vonum. Einræðislegt dramb og þumb. Þó fyrir liggi samkvæmt nýútgefinni bankahrunsskýrzlu að einkavæðing bankanna voru mistök hvað eignarhald varðar, flokkstengsl, regluverk og borgun, ver þessi fyrrum forsætisráðherra ómyndina. Auk þess hampar hann skipan Davíðs Oddssonar í embætti seðlabankastjóra og er að vonum, sjálfur situr Halldór í opinberu embætti fyrir uppgjafapólitíkusa. Einfaldast er að vísa í orð núverandi formanns framsóknarflokksins þar sem hann segir best fyrir flokkinn að gleyma fortíð sinni og horfa fram á við. Slík eru eftirmæli Halldórs.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.4.2010 | 01:21
DRUNDRÍMUR Á BESSASTÖÐUM.
Stóryrði forsetans varðandi Kötlugos ýfa nú ferðamannabransann og segja sumir ummælin kosta milljarða. Óli hefur sumpart breytt mjög ásýnd forsetaembættisins, gert það sýnilegra en um leið umdeildara. Sjálfum hefur mér alltaf þótt valdalaus forseti tilgangslaus og vildi gjarna sjá meira púður í embættinu. Með virkjun málskotsréttarins kom Óli mjög við kauninn á einræðisöflunum og færði þjóð sinni mikið. Hvað sem ferðamannastraumi líður á Bessastaðajarlinn þakkir fyrir það.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2010 | 01:52
FARI STEINKA, FARA FLEIRI.
Nokkuð er þrýst á þingmenn að segja af sér vegna fjárveitinga frá fyrirtækjum og viðskiptablokkum. Enda komið í ljós að fyrri yfirlýsingar um takmörkuð áhrif þessara tengsla stóðust ekki. Hrun samfélagsins varð vegna þessa bræðings og því eðlilegt að fólk vilji hann burt. Steinunn Valdís er ólánsöm styrkjadrottning þessa samspils en segist hafa skýrt sín mál og ekkert óeðlilegt sé á seyði. Kveðst ennfremur bíða ályktunar eigin flokks varðandi siðferðisstaðla. Þessi afstaða að láta einhverja siðferðisnefnd ákveða hvort farið sé yfir strikið eða ekki er undarleg. Eigin samvizka og dómgreind hlýtur að skipta höfuðmáli sem og augljós vilji almennings. Sér þingkonan ekki að með brotthvarfi sínu myndi hún gera þjóð sinni mikinn greiða og opna á margar gáttir endurreisnar? Öðrum þingmönnum í líkri stöðu yrði tæpast stætt og skriður kæmist loks á málin. Sjálfhverfni stjórnmálamanna sem muna fífil sinn fegri er að valda okkur miklum búsifjum og hamlar mjög allri framþróun. Skora hér með á Steinunni Valdísi að stíga af stalli og setja þannig þrýsting á aðra þingmenn, sekt eða sakleysi skiptir hér ekki höfuðmáli, heldur krafa þjóðarinnar um ný vinnubrögð og siði.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)