24.3.2010 | 02:52
JAKKAFATAKLÆDDUR ÓSTÖÐUGLEIKASÁTTMÁLI.
Formaður samtaka atvinnulífsins sat fyrir svörum í kastljósi kvöldsins. Fann skötuselsfrumvarpi ríkisstjórnarinnar allt til foráttu og ljóst af máli hans að úthlutunin skipti meira máli en magnið. Borðliggjandi að hugur þessa manns er að koma ríkisstjórninni frá og koma þannig í veg fyrir allar umleitanir í sjávarútvegi. Þó kvótaframsalið hafi skuldsett atvinnugreinina upp í rjáfur talar þessi maður eins og hann hafi vit á efnahagsmálum, þó menn hafi veðsett erlendum sem innlendum bönkum aflaheimildir talar þessi maður um stöðugleikaógn, þó heilu byggðirnar séu sviptar atvinnurétti talar þessi maður um hagræðingu, þó fiskveiðiauðlindin sé í stjórnarskrá skráð sem þjóðareign telur þessi maður böl að ráðherra vilji breyta til í úthlutun þessara verðmæta. Einhverntíma, þegar almenningur gerir sér grein fyrir gríðarlegri arðsemi sjávarfangs, er auðskilinn sá varnarmúr sem hagsmunaaðilar mynda. Allur þessi styrr væri ekki til staðar nema vel væri í pottinn búið. Enda hika hagsmunaaðilar ekki við að bera fé í fólk og flokka, upphæðirnar tala sínu máli. En formaður samtaka atvinnulífsins er ekkert annað en flokksgæðingur, jakkafataklæddur óstöðugleikasáttmáli og ónýtt vegljós hverjum íslendingi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.3.2010 | 02:20
LISTAMANNALAUN Á GERVIHNATTAÖLD.
Hver er listamaður? Og hvað er list? Er það sjálfdæmi eða skilgreining? Skilyrt eða skilyrðislaust? Fag jafnvel? Erfitt er að henda á þetta reiður, eiginlega vonlaust. Þó telja sumir sig umkomna að skræla hismið frá kjarnanum og benda. Þennan sjálfvitagang mætti umbera og jafnvel hafa að gamni ef ekki fylgdi ásælni í vasa skattborgara. Þannig er sumum tryggð framfærsla, jafnvel árum saman, í nafni listarinnar. Gott er að hlúa að menningu en áskrift að hlunnindum vegur að jafnræði og jafnvel listamanninum sjálfum. Gleymum ekki að mörg okkar helstu menningarverðmæti skópust undir súð og berklum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.3.2010 | 01:54
SKAPAR FIRNINGIN EIGNARÉTT?
Mikil áhöld eru uppi um firningarleið samfylkingar í sjávarútvegi, hvort hún vegi að atvinnugreininni í heild og síðan hvernig hún skal útfærð. Vissulega er hér um viðleitni að ræða og markmiðið að ná sjávarauðlindinni "aftur" til þjóðarinnar. En endurúthlutun þeirra aflaheimilda sem "firnast" er mjög á huldu og skapar óvissu. Annar hængur á þessari leið er að næstu valdhöfum, hverjir sem þeir verða, er í lófa lagið að "firna" til baka og skila útgerðunum aftur þeim veiðirétti sem tapast. Þannig er þessi leið dæmd til að verða einskonar pingpong milli kjörtímabila. Versti ágalli firningaleiðarinnar er þó sá að með firningu er verið að viðurkenna eignarétt sem hvergi er getið í stjórnarskrá. Hótanir útgerða um skaðabætur eru máttlausar sé farið eftir núgildandi stjórnarskrá en firning gæti breytt þessu. Guðbjörn Jónsson skrifar um þetta ágætan pistil á Eyjunni og bendir ennfremur á að lögin um kvótaframsal heimila flutning veiðiréttar milli skipa en ekki sölu. Sem þýðir að bein sala aflaheimilda er ólögleg. Sem aftur þýðir að einhverjir hafa óáreittir og spakir fengið að stunda iðju sína, annaðhvort vegna sofandaháttar stjórnvalda eða í þeirra skjóli. Og nú er best að þegja áður en köngulóin fer að ókyrrast.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2010 | 04:27
NÁ FRJÁLSLYNDIR FLUGI?
Einhverntíma var ég handgenginn frjálslynda flokknum og fagnaði góðum byr í aðdraganda kosninga 2007. En illu heilli setti ágætur formaður flokksins traust sitt á rangan hest og úrslit kosninganna í samræmi við það. Friðleysi fylgdi í kjölfarið og framámenn náðu ekki saman. Ósættið kristallaðist í brottfalli flokksins af þingi í síðustu kosningum. Sannaðist þar hið fornkveðna að valdatafl vina endar oft í áhrifaleysi allra. Formaður flokksins hefur nú ákveðið að draga sig í hlé, heldur seint að mínu mati. Vonandi á hann þó eftir að hasla sér völl á nýjum vettvangi. Spurningin er hinsvegar hvort frjálslynda flokknum takist að rísa upp úr öskustónni og ná tangarhaldi á ný. Óska honum velfarnaðar í því og hvet nýja forystu að forgangsraða málefnum fram yfir menn.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.3.2010 | 15:39
GAGNSLAUST VALDATAFL.
Hvað varðar afstöðu Íslands í icesave hafa fullyrðingar um einangrun, útskúfun, veikingu krónu og stöðvun atvinnulífsins reynst rangar. Flokka má þennan málflutning sem hræðsluáróður. Mótstaða íslendinga gagnvart borgun þessa fjármálasukks hefur þvert ofan í úrtölur styrkt stöðu okkar á alþjóðavettvangi og fært brennipunktinn yfir á kjarnann, þ.e. að fáranlegt sé að borgarar þurfi að sjá á bak velferð sinni og lífsgæðum vegna skuldasköpunar óreiðumanna. Skilaboð þjóðarinnar í nýafstaðinni atkvæðgreiðslu snúast ekki um vaxtaprósentur heldur að allar hlutaðeigandi þjóðir icesave axli sameiginlega ábyrgð og hjálpist að með innheimtuna. Gleraugu alheimsins eru sjaldan á litla Íslandi en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur vakið athygli og sérlega sú staðreynd að dvergríki bjóði stórveldum byrginn. Og þessi athygli hefur reynst mun jákvæðari í okkar garð en margir hugðu. Hún hefur aukinheldur blásið krafti í þá umræðu að hugsanlega séum við að ofmeta eigin lánsþörf. Og krónan bregst við með styrkingu. Atvinnulíf er að vísu enn í klakaböndum en það hefur ekkert batnað eða versnað með pendúlklukku icesave. Sjávarútvegur er þó undanskilinn en því miður heykjast stjórnvöld á augljósu bjargráði sem er að veiða meira. Ríkisstjórn Íslands beitir öllu sínu til að halda stóru hrunflokkunum frá stjórnarráðinu sem er vel skiljanlegt en mikið skortir á samstöðu og innri styrk. Ráðherrar spila einleik, aleinir og óstuddir, framrásin snýst meira um menn en málefni og kafbátar bíða færis. Framundan er valdatafl, spennandi en fyrir þjóðina vita gagnslaust.
LÁ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2010 | 04:04
MINNI LÁN, MEIRA TRAUST.
Í Silfri dagsins kom loksins málsmetandi maður og fræddi landslýð eilítið um okkar svokölluðu lánsþörf. Hún sé í raun engin og mun betra að auka traust fjárfesta á landinu með einbeittri skuldajöfnunarstefnu. Í raun er þessi boðskapur ekkert annað en almenn skynsemi en síbyljan um einangrun og frystingu atvinnulífsins hefur ruglað okkur í ríminu á sama hátt og icesaveumræðan. Þessi maður sagði reynsluleysi þjóðarinnar vera meginorsök undanlátsseminnar við lánadrottna og verði ekki á breyting fari að hrikta í meginstoðum samfélagsins, tiltók hann sérstaklega löggæslu og menntun. Alþingismenn ættu að veita svona varnaðarorðum athygli og afgreiða þau ekki sem "annarlegar hvatir", það gæti leynst í þeim sannleikskorn.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.3.2010 | 14:51
FJALLABRÆÐUR Í HEIMABYGGÐ.
Flateyri við Önundarfjörð er með þekktari dreifbýliskjörnum enda þar jafnan mikill atgangur. Í gærkvöldi var atgangurinn góður enda sjálfir Fjallabræður mættir í heimabyggð. Var öllu til tjaldað og íþróttahúsið kúfyllt. Fjallabróðir númer eitt sleit barnsskónum á Flateyri og litlu betri en ég á hljóðfæri þegar við áttumst fyrst. Nú orðinn töluvert betri heillaði hann sal gærkvöldsins með styrkri stjórn, röggsamur og lítillátur í senn. Fjallabræður eru fyrirbæri, einhverskonar alþýðleiki sem skírskotar til hjartans. Í þeim sameinast ís og eldur, kvóti og kvótaleysi ásamt farfuglinum sem fer ekki raskat. Þakka bræðrunum kraftmikla kvöldstund og eftirminnilega. Megi þeir aldrei þagna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2010 | 02:56
LÖGVERNDAÐUR ÞJÓFNAÐUR.
Í öllu öldurótinu á Íslandi reynir hver sem getur að bjarga sér. Eitt helsta bjargráðið er kennitöluflakk, þ.e. sé gjaldþrot yfirvofandi eru verðmæti yfirfærð á maka eða búin til ný eignarhaldsfélög. Þannig ganga lánadrottnar að þrotabúinu tómu en skuldarinn nýtur djásnanna áfram undir nýjum formerkjum. Segja má að hér sé um lögverndaðan þjófnað að ræða en eftir endalausa ágjöf í siðferðismálum er sýn samfélagsins orðin svo óskörp að kennitöluflakk telst til snilldar. Mjög er á reiki hvernig á þessum málum skal taka en ætli þjóðin sér siðferði í framtíðinni eru lög sem stöðva pláguna bráðnausynleg og til að geta núllstillt samfélagið þurfa þau að vera afturvirk.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.3.2010 | 04:54
STJÓRN HINNA "VINNANDI STÉTTA" GERÐI RÉTT.
Launadeila flugumferðarstjóra hefur varpað ljósi á augljósan hlut. Verkfallsvopnið á ekki upp á pallborðið hjá þjóð sem er í bullandi hremmingum. Engri stétt, og alls ekki hálaunastétt, er sæmd af því að leggja niður vinnu eins og sakir standa. Um það er þverpólitísk sátt, meira að segja á alþingi. Ummæli forsprakka flugumferðarstjóra hitta hann sjálfan fyrir, vona bara að stéttarsystkini hans séu meðvitaðri um skyldu sína.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.3.2010 | 02:57
ÞETTA KEMUR ENGUM VIÐ - STEFNAN
Þegar fólk karpar um ESB eða ekki ESB beita aðildarandstæðingar gjarnan fyrir sig fiskiauðlindinni sem ekki má gefa frá sér. Evrópusinnar segja hinsvegar búið að gefa fiskimiðin fyrir löngu og engu skipta hvort eigandinn heiti Jón, John eða Jan. Veð í aflaheimildum og firning staðfestir þetta enda viðurkenning á eignarétti og erfitt að halda því fram að þjóðin eigi fiskiauðlindina þó óbeint njóti hún tekna. Í hnotskurn má segja að fiskiauðlindin gangi kaupum og sölum. Veiðileyfið orðið svo dýrt að ekki er nema á fárra færi, reyndar einungis banka og viðskiptasamsteypa, að kaupa sér aðgang. Auðlindin er því hætt að vera áþreifanleg, hún er fjarlæg og þjóðin hætt að sjá hana nema sem auðsuppsprettu örfárra. Þess vegna segja margir: Þetta kemur mér ekkert við lengur og ég fórna glaður öllum heimsins þorskígildum fyrir stöðugan gjaldmiðil, stöðugt verðlag og stöðugt stjórnarfar. Útvegsmenn verða að átta sig á því að "þetta kemur engum við-stefnan" hittir þá sjálfa fyrir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)