10.3.2010 | 03:05
ÞEGAR SNJÓTITTLINGUR DEYR.
Margir eru svo heppnir að halda með liðum. Manchester, Val, Ferrari, kvennalandsliðinu, fjarðabyggð, múhameð, MH, Boltafélagi Bolungarvíkur, vinstrinu eða sjálfstæðisflokknum. Tryggustu áhangendurnir tala um liðið í 1stu persónu jafnvel þó víðs fjarri sé. Einstaka sinnum stíga leikmenn niður fæti og er það stórviðburður í lífi margra, jafnvel eitt handtak dugir ævilangt. Og í þessum liðsheildarheimi þýðir ekkert bæði og, annaðhvort ertu með eða á móti. Jafnvel þó brögð séu í tafli, enginn þiggur innkast sé víti í boði. Fáranlegt að deila við dómarann, miklu betra að múta honum. Og þegar sannleikskornin loks falla er allt týnt til sem liðinu er til vegsauka en hitt látið vera. Og þannig flytur trúin fjall eftir fjall eftir fjall.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2010 | 04:44
ÓLÖGIN UM INNISTÆÐUTRYGGINGAR.
Skoðanakönnun í dag sýnir 6 af hverjum 10 ekki vilja borga krónu til icesave. Sem þýðir að almenningur vill hundsa lagaverk það sem beinir ábyrgð gjörninga á einkamarkaði yfir á almenna skattgreiðendur. Hefðu innistæðueigendur icesave t.d. grætt á ráðahagnum væri ekkert á borðinu en fyrst illa fór skal skuldabagginn vera okkar. Allir hljóta að sjá rangindin í svona ólögum og þeim hlýtur að verða breytt. Allur heimurinn getur verið sammála um að gefa áhættufjárfestum á almennum markaði ekki veð í velferðarkerfum sínum. Þessum málstað ættum við íslendingar að flagga framan í umheiminn og hvika hvergi. Það væri illt hlutskipti að taka á okkur byrðar icesave einhliða og horfa síðan upp á endurskoðun sama regluverks. Látum icesave í salt og snúum okkur að brýnni málum, samningsstaða okkar mun héðan í frá ekki gera neitt annað en að batna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2010 | 00:47
Á FELGUNNI.
Steingrímur bað Bjarna Benediktsson að hafa sig hægan í Silfrinu í dag og vísaði þar í óbirta bankahrunsskýrzlu. Sannleiki sá sem hún kann að geyma gæti samkvæmt orðum Steingríms verið sumum skeinuhættur. Eflaust inniber hún veiðileyfi á einhverja þá opinberu starfsmenn sem mest voru í sviðsljósinu í kringum hrunið. Fleiri munu þó sleppa og einkageirinn líkast alveg. Á rúmlega ári hefur gefist nægur tími til að fyrirkoma fé og eignum, eyða gögnum og hylja slóð. Þrotabúin eiga flest hver ekkert upp í skuldir sínar en eftir uppskipti birtast fyrrum eigendur með handfylli fjár og vilja endurkaup á spottprís. Einhversstaðar er pottur brotinn og þó sérlegur saksóknari grúski í mesta svínaríinu skortir refsiramma svo fyrirhöfnin borgi sig. Skrambinn allur kristallast loks í launum skiptanefndanna sem bergmála við ruglárin. Kannski er erfitt að seðja hungur þjóðarinnar eftir réttlæti eða einhverskonar uppgjöri, hún lét allt yfir höfuð leggjast og gerði aldrei ráð fyrir að nokkurntíma drægi ský fyrir sólu. Einkavæðingin var vegferð án varadekks. Og í staðinn fyrir að semja nýja stjórnarskrá með varadekki er ferðinni fram haldið á felgunni.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.3.2010 | 23:28
FYRSTA ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA LÝÐVELDISINS.
Fyrsta þjóðaratkvæðgreiðsla lýðveldisins er afstaðin. Niðurstaðan hentisemi hvers og eins, allir finna sínum boðskap einhvern snaga. Í Silfri dagsins opinberuðu síðan stjórnmálamenn enn einu sinni hug sinn til atkvæðagreiðslna og ljóst að afstaða þeirra mótast ekki af lýðræðisást. Vinstri vængurinn ómerkti mjög þessi tímamót og hömruðu á nýjum samningi sem liggi fyrir. En er hann þeim að þakka? Kortlagning ríkisstjórnarinnar á icesave reyndist röng, forsetans rétt. Fólk getur reiknað út "tafarkostnað" vegna icesave og reynt þannig að leiðrétta vegvilluna en í samantektinni er augljóst að samninganefnd Svavars var tímaeyðsla og á henni ber ríkisstjórnin ábyrgð. Hinsvegar er málflutningur formanns sjálfstæðisflokks beinlínis hrollvekjandi og sýrt að þessi maður telji flokkinn eiga erindi í stjórnmálum. Algjörlega laus við auðmýkt skammar hann fráganginn á eigin slummum. Upprisa sjálfstæðisflokks væri greftrun lýðræðisins, hann hefur ekkert þroskast með sínum misgjörðum, gersamlega hundsað aðkallandi sjálfsskoðun á eigin innviðum og hugmyndafræði. Sjálfstæðisflokkurinn er drykkjurútur í afneitun. Við hringborðið í dag var einnig Birgitta Jónsdóttir, formaður Hreyfingarinnar, sú eina sem mat þjóðaratkvæðagreiðsluna að verðleikum, ekki út frá málefninu heldur út frá þeim tímamótum sem hún markar í þróun lýðræðis. Ætti einhver á hringborði dagsins að stjórna þessu landi veldi ég hana.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2010 | 02:19
UM HVAÐ ER KOSIÐ Í DAG?
Mikið er spáð um hvað sé kosið í dag. Fyrir mér er kosið um hvort skuldbinda eigi skattgreiðendur vegna misheppnaðra fjárfestinga á einkamarkaði, hvort ábyrgðin eigi að vera annarra en þeirra sem gjörningana fremja. Um langt skeið hafa stjórnmálamenn tekið stöðu með fjármagnseigendum og á móti almenningi. Á morgun geta íslendingar sem þjóð mótmælt þeim heimslæga skramba.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.3.2010 | 05:24
ICESAVE ER SIÐFRÆÐI, EKKI LÖGFRÆÐI.
Óþörf þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum að mati forystumanna ríkisstjórnarinnar. Fyrir þá sem löstuðu ákvörðun forsetans á sínum tíma og vildu samþykkja títtnefndan icesavepakka er atkvæðagreiðslan ekki bara óþörf, hún mun endanlega svipta hulunni af rangri kortlagningu á þessu máli öllu. Aukinheldur, þegar fyrir liggur betri samningur er jáið út í hött. En fyrir alla hina, sem hafna ríkisábyrgð á gjörningum á einkamarkaði, er þjóðaratkvæðgreiðslan frábært gjallarhorn. Loksins fær þjóð tækifæri til að tjá skoðun sína á þeirri ónáttúru fjármálamarkaða, sem grasserar í skjóli ríkisstjórna víða um heim, að hirða plúsana en senda almenningi mínusana. Um þetta snýst atkvæðgreiðslan á morgun, siðfræði en ekki lögfræði. Með stóru neii á morgun gefa íslendingar heimsbyggðinni tóninn og koma vonandi af stað keðjuverkun í þá veru að færa völd frá fjármagni til fólks. Með neitun vekti Ísland athygli á augljósu réttlætismáli og margumtöluð útskúfun falla öðrum í skaut. Nei Íslands á morgun er risastórt já fyrir heimsbyggðina.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.2.2010 | 01:51
MOLI ER ALLUR.
Slóðin verður einföld í nótt. Eftir allt sem ég gerði fyrir þig. Gekk 1.500 kílómretra á ári þín vegna, ók alltaf suður þín vegna, flutti ekki af landinu þín vegna, bakaði pönnukökur þín vegna, fékk kattaofnæmi þín vegna, ryksugaði þrisvar í viku þín vegna, svaf í krumpu þín vegna og hreinsaði eyrun þín vegna. Allt þín vegna og ef ég gæti einhverju hnikað í klukkuverki lífsins myndi ég ofar öllu vilja byrja á þessu aftur. Mín vegna. Elsku vinur, takk fyrir samveruna og vonandi rétt sú tilgáta að við munum hittast á ný. Athugasemdir vinsamlegast afþakkaðar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.2.2010 | 02:15
MISÞROSKAMAT HEILBRIGÐISRÁÐHERRA.
Hvers vegna svo margir séu andsnúnir einkarekstri í heilbrigðisgeiranum er mér hulin ráðgáta. Einkarekinn spítali eða einkarekin heilsugæslustöð gæti létt byrðum af hinu opinbera og aukið fjölbreytnina. Og sé hald í því reikningsdæmi heilbrigðisráðherra að hátæknisjúkrahúsið skili þjóðinni 2000 þúsund milljónum í arð árlega er spurning um útboð til einkaaðila á öllum dáindispakkanum, með þennan hagnað hljóta að finnast áhugsamir aðilar. Samhliða selja svo fyrirhugaða sjúkrahúsblokk á varnarsvæðinu, spara þannig útlagðan kostnað og leyfa einkaframtakinu að spreyta sig þar einnig. Sú aðferðafræði sem nú er upp á borðinu, að krefja ríkið um hundruði milljóna í uppbyggingarkostnað og ætla svo að taka við í nafni einkareksturs hlaut einhverntíma hið ágæta nafn: Pilsfaldakapítalismi. Mikil glóra hjá heilbrigðisráðherra að hafna slíkri sjónhverfingu en jafnframt glóruleysi að reikna hátæknisúkrahúsi 2000 þúsund milljón króna hagnað á ársgrundvelli. Þetta myndi á fagmáli kallast misþroskamat.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.2.2010 | 04:21
MINNI ATVINNUMENNSKU OG MEIRI ELDMÓÐ.
Tæpum tveimur mánuðum eftir að forseti lýðveldisins vísaði icesavelögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur orðið algjör viðsnúningur á viðhorfi landans. Ekki bara hvað icesave varðar heldur einnig ESB. Vegferð ríkisstjórnarinnar hlýtur litla náð hjá landslýð og öllum að verða ljóst að lífdögunum fer fækkandi. En hvernig gat stjórn með allan þennan meðbyr klúðrað málum svona hratt og svona gersamlega? Einungis 18 mánuðir frá hruni og arkitektar þess hársbreidd frá því að ná stjórnartaumunum á ný. M.ö.o. hrunflokkarnir sem innleiddu einkavinavæðinguna, klíkustjórnmálin og sjálftökuna eru mættir á hliðarlínuna. Þessi fyrsta vinstristjórn lýðveldisins fæddist í frjóum sverði uppbyggingar og breytinga. Illu heilli varð hún sundurlyndi að bráð og brast kjark til íhlutunar. Sú tiltekt sem boðuð var á íslenzku samfélagi varð því aldrei. Líkast er meinið fólgið í atvinnumennskunni, þegar stjórnmálamenn verða eins og fótboltamenn, bjóða sig hæstbjóðendum og sparka jafnvel niður sína gömlu félaga. Mætti maður þá biðja um minni atvinnumennsku og meiri eldmóð?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2010 | 12:24
VISSU VINSTRI GRÆNIR EKKI HVAÐ ÞEIR VORU AÐ SAMÞYKKJA?
Beiðni samfylkingar um lágan prófíl vinstri grænna í ESB-andstöðu þeirra er kostuleg. Sýnu kostulegra er gjamm græningja sem ókyrrir lýsa yfir hversu arfavitlaus þessi vegferð sé. Hefði ekki verið gáfulegra fyrir báða deiluaðila að halda sig bara við stjórnarsáttmálann og greiða atkvæði samkvæmt eigin samvizku? Þá hefðum við verið komin miklu lengra með miklu brýnni mál. Andstaða vinstri grænna gegn ESB er hláleg, hana vildi maður sjá í atkvæðagreiðslunni á alþingi á ögurstundu, ekki nú þegar gagn er ekkert.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)