KOSTULEG YFIRLÝSING.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ótvíræða ábyrgð á útibúum íslenzkra banka í EES ríkjum er kostuleg.  Samin til höfuðs því sem hinn franski evrópuþingmaður, Lipietz, heldur fram að svo sé ekki.  Samhliða í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er svo efasemdum lýst um gildi innistæðutryggingarákvæðisins og skyldu heimaríkisins í þeim efnum.    Þessi tvíræðni kristallar vanda stjórnarinnar:  Hún hefur hugsanlega vanrækt íslenzka hagsmuni og þægilegasta leiðin náttúrulega sú að það verði aldrei lýðum ljóst.   En fyrir leikmenn er illt að kveða upp endanlegan úrskurð í þessari lönguvitleysu allri og náist ekki sátt um sameiginlega ábyrgð landanna þriggja er dómstólaleiðin það sem við blasir.  Nema náttúrulega að samþykkt laganna í þjóðaratkvæðagreiðslu taki af öllum ómakið og fresti vandanum um sinn.  En yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gegn rökum sem hugsanlega gætu leyst okkur undan oki þessarar svikamyllu allrar hlýtur að teljast kostuleg í það minnsta.  


BER GISTIÞJÓÐIN ÁBYRGÐINA?

Franski evrópuráðsþingmaðurinn sem fram kom í Silfrinu í dag átti skot dagsins:   Heimaþjóðin ber ekki ábyrgð á bankastarfsemi á hennar vegum heldur gistiþjóðin.  Nýr vitnisburður og alger viðsnúningur á túlkun ríkisstjórnar Íslands, vitnisburður af vörum afar virts lögspekings sem í ofanálag tók þátt í samningu téðra laga.  Og Steingrímur bíður eftir einhverju áþreifanlegu.  Í þessu er fall hans fólgið, aðgerðaleysi þegar aðgerða er þörf, vantrú þegar tækifærið loksins býðst.  Þetta hugarfar er þjóðinni óboðlegt og sjái maðurinn ekki ljósið verður hann að finna sér arftaka.  Loksins þegar glufa opnast dugir ekki að sitja heima og umbreyta eigin dómgreindarbresti í  fýlu út í forsetann.   Hagsmunir þjóðarinnar eru hagsmunir ríkisstjórnarinnar og  sé okkur hugsanlega stæður nýr samningsgrundvöllur hrein og klár frágangssök að kanna það ekki til hlítar. 

LÁ 


HÆGRI HELFTARLÖMUN.

Þorsteinn Pálsson, einn óeftirminnilegasti forsætisráðherra lýðveldisins, geysist nú fram og átelur forsetann fyrir að vera í ósamstíga ríkisstjórninni á erlendum vettvangi varðandi icesave.  Þessu á að snúa við  og átelja ríkisstjórnina að ganga erinda erlendra þjóða og sjá ekki sama ljós og forsetinn.   Samflokksmaður Þorsteins, Bjarni Benediktsson, tekur sér svo orð frelsishetjunnar í munn og gerir að sínum.  Auðvitað mótmælum við öll, við mótmælum að sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig við frelsi og framtakssemi sé múlbundinn og spyrtur allskyns hagsmunaaðilum úr þjóðlífinu.  Augljóst er af fyrirliggjandi gögnum og frámunalegum málflutningi  að helstu forkólfar flokksins eru keyptir af  viðskiptablokkum.   Endalaus fylgni með bankaleynd, úr sér gengnu kvótakerfi, áhugaleysi um opin prófkjör og niðurskurð hins opinbera staðfestir áherslur þessa flokksskrípis.   Hægri vængur íslenzkra stjórnmála er lamaður og batahorfur engar nema skipt verði um forystu, ergó.

LÁ 


ÓNÝTT LAGAÁKVÆÐI EES.

Loksins er kjarni icesave kominn í kastljósið, lagaákvæði EES um innistæðutryggingar.  Aukinn þungi er að fást í þá túlkun að ákvæðið hvorki standist né eigi við þjóðarhrun.  Sem þýðir að sýn samfylkingar og vinstri grænna hefur verið röng og andstæð íslenzkum hagsmunum.  En hvað hefði gerst ef útibúum bankanna hefði verið breytt í dótturfélög í tæka tíð?  Væri boltinn þá hinumegin og Ísland laust allra mála?  Flestir hljóta að sjá að þetta regluverk EES á ekki að vera þungamiðja þessarar deilu.  Allar hlutaðeigandi þjóðir bera á þessu sameiginlega ábyrgð og þannig skyldi leysa hnútinn.  Sýn ríkisstjórnarinnar hefur afvegaleitt þjóðina frá kjarna málsins og einungis forsetanum að þakka að nýjir möguleikar skuli nú uppi á borðum.   Hinir sönnu sökudólgar njóta skjóls í skattaskjólum sem sum hver njóta brezkrar lagaverndar og furðulegt að þarlendir ráðamenn skuli ekki opna þá sjóði fremur en að ganga að íslenzkum almenningi.  Og jafnframt er óskiljanlegt að íslenzk stjórnvöld skuli standa í samningsgerð um gagnaver á suðurnesjum við sömu aðila og lögðu grunninn að svikamyllu icesave.  Einnig klóra margir sér í hausnum að þessir menn hafa ekki einu sinni verið yfirheyrðir, höfuðpaurinn búandi í hjarta brezka konungsdæmisins.  Í samantekt má segja að okkur hefur borið langt af leið en loks hyllir undir land.  Framundan er kynning á málinu fyrir alþjóðasamfélaginu en miklum vafa undirorpið að leiðtogar ríkisstjórnarinnar séu hlutverkinu vaxin.  Held að forsetinn, Eva Joly og Grímur Atlason yrðu frábært þríeyki.

LÁ     


SKILNINGSTRÉNU VEX ÁSMEGIN.

Málsvörn Íslands gegn icesaveáþjáninni er hafin á erlendri grund.  Orð utanríkisráðherra um að unnið hafi verið jafnt og þétt að þessum málum kitla hláturtaugarnar.  Miðað við árangur hlýtur Össur að fagna mjög liðsinni forsetans sem á einum degi opnaði upp á gátt alla umræðu.  Annar sterkur landvari er Eva Joly sem talar sannlega ekki tungum tveim.  En umheimurinn sem átti að hverfa okkur sjónum með synjun forsetans er þess í stað kominn inn á gafll og jafnvel tilbúinn að sleikja á okkur sárin.  Þráfaldlegar yfirlýsingar stjórnarflokkanna um að lengra verði ekki komist með icesave virðist vera að snúast upp í andstöðu sína.  Sú einarða afstaða ríkisstjórnarflokkanna að þjóðin verði að axla útrásarævintýrið hefur fært brennidepilinn frá hinum einu og sönnu sökudólgum.  Engum hugnast að sækja þá heim og eiga þó einhverjir athvarf í stórborgum landanna sem að okkar sækja.  Stjórnmálamenn bera líka sína krossa.  Skálkasjól sökudólganna er regluverk EES um innistæðutryggingar, ónýtt regluverk sem vonlaust væri að framfylgja nema í tilviki smáþjóða eins og Íslands.   Með synjun sinni á icesavelögunum er Ólafur Ragnar að líkum að færa þjóðinni nýjan samningsgrundvöll um icesave, nýja ímynd og ný viðskiptatækifæri.  Ríkisstjórnin ætti að huga að þessu áðuren hún fer að spyrða eigið líf við útkomu þjóðaratkvæðagreiðslunnar,  það er eitthvað svo innilega 2007.

LÁ        


BLINDA STJÓRNARFLOKKANNA.

Blinda stjórnarflokkanna á ákvörðun Óla forseta er segin og ber grunnhyggni vott.   Með synjuninni færir Óli þeim gullið tækifæri til að vinna þjóðina á sitt band og halda áfram sinni vegferð með þjóðarvilja í farteskinu.  Þegar fram í sækir mun það einnig reynast þjóðinni dýrmætt að hafa fengið að útkljá þetta deilumál í þjóðaratkvæðagreiðslu.   Sumir þingmenn stjórnarflokkanna ættu því að hætta úthuðun forsetans og sækja sér vizku annað.   Tal stjórnarandstöðu um sættir  endurspeglar hræðslu sömu aðila við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.     Því samþykki íslendingar icesave er það bullandi stuðningsyfirlýsing við ríkisstjórnina og mun veita henni kærkominn meðbyr.  Hafni þjóðin hinsvegar lögunum er það langt í frá vatn á myllu framsóknar og sjálfstæðisflokks og raunar er það mín trú að verði icesavesamningarnir samþykktir sé það ekki sízt vegna ógleði á fyrrum stjórnarherrum.    Orðið óstjórntækir hefur verið notað um þessa tvo fyrrum samstarfsflokka og sannlega enn gildandi.   En hvað sem segja má um það er ákvörðun Ólafs Ragnars stefnumarkandi.   Í fyrstu sýn ávísun á óvissuferð en til lengri tíma  farvegur sameiningar, ekki sundrungar.  Og einmitt vegna hennar mun fólkið sem hérna býr sjá margt í skýrara ljósi en ella hefði orðið.   Og fólk annarsstaðar einnig.   Ég spái frjóum og upplýsandi tímum framundan á Íslandi og frosthörkuspár munu dauðar niður falla.


ÚT FYRIR RAMMANN.

Ólafur Ragnar opnaði óvænt glugga í dag.  Samkvæmur sjálfum sér hleypti hann dragsúgnum inn og ómögulegt að segja fyrir um framhaldið.   Gjörningur Ólafs, að fá þjóðinni í hendur ákvörðunarvald þessa hvimleiða máls koma landi og þjóð vel.  Mikil sannindi munu reka á fjörur, hald yfirlýsinga sannreynt og dómadagsspáa.   Einungis er verið að takast á um samning, ekki ábyrgð, hana eru flestir tilbúnir að axla.  Á fyrsta degi er áberandi hve illa ríkisstjórnin hefur kynnt okkar mál á erlendum vettvangi.  Og í stað þess að gera það á blaðamannafundi dagsins horfðu ráðamenn í gaupnir sér, lásu af bréfum og hnýttu í forsetann.  Aumleg frammistaða og flokksræðisleg.   Forsvarsmenn þjóðarinnar eiga að hampa lýðræðinu og farvegum þess en ekki að tala það niður og gera tortryggilegt.  Samþykki þjóðin icesavefrumvarpið er það stórkostlegt veganesti fyrir ríkisstjórnina, þjóðina og viðsemjendurna.  Að þessu ætti ríkistjórnin að róa.  Hafni þjóðin hinsvegar frumvarpinu er ljóst að ríkisstjórnin er að ganga erindisleysu.   Niðurstaðan verður því þörf hver sem hún verður.   Gætum líka að einu.  Fjórðungur atkvæðisbærra manna skrifaði undir mótmæli gegn icesavefrumvarpinu.   Hvað myndi gerast ef allt þetta fólk myndi sameinast undir einum hatti og kjósa eigin fjöldahreyfingu á þing?  Það er þetta sem Ólafur Ragnar var að gera í dag, opna nýja glugga og gefa íslendingum tækifæri á að hugsa út fyrir rammann.   


DRUNDRÍMUR Á BESSASTÖÐUM Í FYRRAMÁL.

Hitti góða vinkonu í dag.  Sú sagðist ekki geta hugsað þá hugsun til enda að forsetinn synji icesavefrumvarpi ríkistjórnarinnar.  Ég hætti við að kyssa hana og stundi því upp að ég sæi þetta akkurat öfugt og framtíðin dökk ef Bessastaðajarlinn myndi skrifa undir.  Hún gaf mér eldsnöggt utan undir og frábað sér svona tal.   Hikstaði þá upp úr mér kvótakerfinu og eftir stutta stund féllumst við í faðma sammála um þjóðaratkvæðagreiðslu í því óefni.  Eftir að hún var farin lét ég hugann reika og komst að þeirri niðurstöðu að líklega væru flestir fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu í málum sem þeir vilja breyta en móti ella.  Sitji Ólafur Ragnar á undirskrift sinni í fyrramál fer icesave í nýjan farveg, þjóðaratkvæðagreiðslu.  Samþykki meirihluti þjóðarinar lögin er það miklu ásættanlegra fyrir þessi 60 þúsund sem skrifuðu undir höfnun.  Verði lögunum hinsvegar hafnað  er þjóðarviljinn skýr.    Hvað sem niðurstöðunni líður er þjóðaratkvæðagreiðsla eini möguleikinn til sátta, hún mun opinbera þjóðarviljann, ekki sjálfvitaháttur skriffinna.   Megi guð gefa kröftugar drundrímur á Bessastöðum í fyrramál, svo kröftugar að öll vantrú feykist út í hafsauga.


ÞÖRF ÁMINNING FYRIR STJÓRNMÁLAMENN.

Samfylkingin er einhuga um samþykki icesave.  Hún vill að þjóðin taki á sig skuldir útrásarinnar en er svo samhliða að semja við einn af forkólfum sama fyrirbæris um ný viðskipti.   Rökin hve hagfelld þau eru þjóðinni auk þess sem eignarhald þessa sama aðila í fyrirtækinu sem semja skal við sé ekki ráðandi.  Er furða þó þjóðin rísi nú upp og hafni slíkum tvískinnung.   Stjórnmálamenn á Íslandi eiga enn langt í land með samkvæmnina og þurfa mjög á áminningu að halda.  Forsetinn hefur hana í hendi sér og hafni hann icesavelögunum mun milliríkjadeila einungis þjappa þessari sundruðu þjóð saman.   Hræðsluáróður um að hér stöðvist allt gangverk stenst ekki, veik króna sér til þess. 

LÁ 


PENINGAR & STJÓRNMÁL.

Upplýsingar um styrki og stuðningsaðila stjórnmálamanna liggja nú að einhverju leyti fyrir.   Þar poppa upp nöfn fjárfestingarfélaga útrásarinnar, grúppanna, bankanna og stórfyrirtækja sem áttu allt og drottnuðu.  Örmum viðskiptalífsins var bersýnilega umhugað um að styrkja stöðu sína á löggjafarsamkundunni.   Og það er auðvitað best gert með því að bera í fólk fé.   Auðvitað er hægt að segja að þetta hafi engin áhrif á heiðvirt fólk en miðað við upphæðir og umfang hlýtur efi að skjóta rótum.   Stjórnsýslan hefur líka verið með slíkum eindæmum að einungis þeir sem viljandi líta undan geta sannfærðir gengið til hvílu.   En á Íslandi er frammistöðumat þingmanna í höndum þeirra sjálfra.  Kjósendur hafa ekkert vopn í höndum til að segja sitt álit.   Þessu er auðvelt að breyta en áhugi ráðamanna lítill.  Skýringin væntanlega hræðsla við dóm almennings.   En vítahringur valds og peninga verður ekki rofinn nema viðhöfð verði opin prófkjör þar sem kjósandi getur í kjörklefanum raðað frambjóðendum að vild.  Sá dagur, komi hann, mun verða frelsisdagur. 

LÁ 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband