14.12.2009 | 00:36
VERÐLAUNAPALLUR BREYTIST Í AFTÖKUPALL.
Formaður sjálfstæðisflokks hefu í nógu að snúast þessa dagana. Engum ætti að koma á óvart þessi slagur, um venzl marga forystumanna stjórnmálanna við viðskiptalífið hefur lengi verið vitað. Fyrir hrun þótti þetta ekki tiltökumál en nú sjá menn orsakasamband A og B. Menn sem enn svamla í þessu gamla samtryggingardýi vilja aðskilja eigin persónu frá eignarhlutum og viðskiptahópum og sverja af sér sakir. Tel þó að alþingismenn framtíðarinnar munu sæta miklu meira aðhaldi hvað þetta varðar og í ljósi reynslunnar hlýtur það að teljast eðlileg krafa og sanngjörn. Sterkir hagsmunahópar og valdaættir hafa deilt með sér völdum á Íslandi og í stjórnartíð sjálfstæðisflokks hefur opin stjórnsýsla og umsvif stóraukist og ekki þarf mikla glöggskyggni til að sjá að búið er að hrúga viðhlæjendum og fjölga í öllum lögum stjórnsýslunnar. Svo rammt hefur að þessu kveðið að nánast hálf þjóðin þiggur nú laun hjá hinu opinbera. Þarna er lítt hugað að sparnaði enda eiga allir flokkar mikið undir í þessum verðlaunapalli. Ólgusjór sá sem formaður sjálfstæðisflokksins nú veður var fyrirséður og eðlileg birtingarmynd endurreisnar hjá þjóð sem breyta vill um vinnulag og ímynd. Fleiri stjórnmálamenn munu fylgja í kjölfarið og vitanlega mest hjá þeim flokki sem minnst tók til. Verðlaunapallurinn breytist í aftökupall.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 06:05
SAMFÉLAGSLEGT FRAMLAG.
Lífæðin, útvarp Bolungarvík, var í loftinu í nótt. ESB, icesave, kvótinn, sameining sveitarfélaga, lausaganga hunda, allt tekið á beinið. Útvarpið er staðsett í veitingastaðnum VAXON í Bolungarvík og var karpið afar beinskeytt á köflum og beitt. Skemmtilegast var þó í morgunsárinu þegar einkaframtakið sýndi mátt sinn með laxabrauði og skinku og örþreyttum verkamönnum sem skakklöppuðust inn í útvarpsútsendinguna eftir næturvinnu í göngunum. Umönnun alls þessa er bæði tímafrek og dýr og verð ég að eigna Hauki Vagnssyni hrós dagsins fyrir óeigingjörn störf sín í þágu byggðarlagsins en flesta Bolvíkinga tel ég ekki gera sér grein fyrir þessu samfélagslega framlagi. Áfram gakk.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2009 | 06:12
ÍGILDI VONAR.
Fugl er í húsinu. Tittlingur. Hundurinn fann greyið aðframkominn fyrir 10 dögum, blæðandi. Kominn inn í hlýjuna hresstist fuglinn en ljóst að hægri vængurinn er laskaður. Nú hefur hann skilað flugfjöðrunum og bíða yngri heimilsmeðlimir spenntir nýrra vaxtarbrodda. Sjálfur kalla ég fuglinn Hólmstein og ætla báðum flug með hækkandi sól. Tittlingurinn mun því að líkum dvelja í bílskúrnum fram yfir hátíðar og það í góðu yfirlæti. Reyndar hafa fleiri gist í skúrnum, síðast mús og þar áður hrafn. Músin lifði, hrafninn dó. Músinni var fengið nýtt heimili í yfirgefinni villu fyrrum bæjarstjóra en hrafninn var sannkallaður útrásarvíkingur og át yfir sig. Fannst dauður með iðrin úti. En á tittlingnum, Hólmsteini, hef ég trú. Hann mun braggast og svífa út í íðilfagra vornóttina sem ígildi vonar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2009 | 07:22
EIGNAUPPTAKA.
Skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar standa í mörgum og úthrópa sumir gjörninginn sem aðför að vaxtarsprotum samfélagsins. Sömu aðilar hefðu kannski átt að þiggja ábyrgðina um leið og þeir þáðu frelsið, þá væru málin kannski í öðrum farvegi. Einn skatt vil ég þó ræða, fjármagnstekjuskatt, þ.e. tekjur af fjármagni. Árferðið nú skilar hærri verðbólgum en vöxtum þannig að innistæður í bönkum rýrna. Raunávöxtun er sem sagt neikvæð. Sem aftur þýðir að fjármagnseigandinn er ekki að ávaxta pund sitt og skapa sér tekjur. Og þá er spurningin: Á hvað er verið að leggja skatt? Þetta þyrfti að endurskoða því hér er ekki á ferð skattheimta heldur eignaupptaka.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.12.2009 | 06:51
AUÐMÝKTARSKORTUR.
Kröfur í þrotabú bankanna koma nú í ljós hver af annarri. Umtalsvert magn kemur frá fyrrum starfsmönnum bankakerfisins. Jafnvel krafa á móti skuld. Fyrir leikmenn eru þetta illskiljanlegir rangalar að kerfi sem reyndist í besta falli loft skuli skulda svo mörgum þóknun fyrir allt prumpið. Maður fær á tilfinninguna að einhverjum, einhversstaðar skorti auðmýkt.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2009 | 06:42
FLOTAFORINGI Í KASTLJÓSI.
Viðtal Kastljóss við einn flotaforingja lýðveldisins var um margt fróðlegt. Banki tekur veð í skipi og aflaheimildum þess, ekki má aðskilja þetta tvennt, veðin geta breytt um hendur og færst yfir á útlendar lánastofnanir sem er heimilt að hirða skipin en ekki aflaheimildirnar. M.ö.o. liggja lánastofnanir úti í heimi á ónýtum veðum samkvæmt þessum fullyrðingum og ljóst að einhver er að blekkja. Afhverju tjá íslenzkir ráðamenn sig ekkert um þessa staðreynd, að aflaheimildir á Íslandsmiðum liggi undir hömrum erlendra lánadrottna? Hverjar verða málalyktir slíks?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2009 | 06:08
STJÓRNMÁLAMENN Í FJAÐURVIGT.
Hvað ætli ráðamenn evrópulanda hugsi þegar erindrekar okkar koma á vettvang og vilja ganga inn í ESB, semja um icesave, þenja sig á norðurlandaráðsþingum og spóka sig á loftlagsráðstefnum? Hvaða vigt ætli utanríkisráðherra hafi í augum viðsemjenda okkar í icesave, breta og hollendinga? Gaurinn var ráðherra í hrunstjórninni sem skilaði öllum vandræðunum, þ.á.m. icesave. Og formaður sjálfstæðisflokks sem átaldi svokallaðar vinaþjóðir okkar fyrir að láta landið afskipt? Við hverju var hægt að búast þegar menn stunda rányrkju í öðrum löndum í boði stjórnmálamanna? Og þannig er statt með meirihluta þingheims. Hvernig eiga allar þessar brúður sem engir treysta lengur hér heima að njóta trausts í útlöndum? Hvenig kynnir maður eða ver málstað sem maður sjálfur hefur svikið? Það er að sýna sig að það gera menn með því að vera ekki til vandræða, ganga að þeim afarkostum sem í boði eru og svæla málunum þannig upp á næsta stig gleymskunnar. Um þetta snýst lokaatkvæðagreiðslan á alþingi um icesave, fleyta vandanum áfram, losa um skrúfstykkið í bili og vona það besta. En umfram allt að tryggja eigin viðgang og völd, pólitískt. Hin leiðin, að hafna icesave, neyðir þjóðina til að taka á vandanum strax og hann mun lenda á samtímafólki vandans en síður ófæddum íslendingum. Þessi leið inniber einnig annað grundvallaratriði sem er málsvörn Íslands. Um hana geta engir hrunstjórnendur séð né aðrir taglhnýtingar útrásarævintýrsins, hún þarf að vera í annarra höndum. En samþykki alþingi íslendinga icesave mun það sundra þjóðinni, höfnun hinsvegar þjappa henni saman.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2009 | 10:24
DÝRKEYPT FÆÐINGARORLOF OG BÓKHALD.
Fréttamolar morgunsins eru margslungnir, loftslagsráðstefnan sem marka á tímamót mun hugsanlega gera það með öfugum formerkjum og niðurstaðan sú allir fari til síns heima og spúi sem mest. Mikil mistök Skaparans að leggja mannskepnuna á jörðina. Önnur ótíðindi eru að samþykkt Icesave gæti hangið á Þráni Bertelssyni. Dæmalaus hryllingur og hvet ég liðhlaupa vinstri grænna að henda frá sér bleyjum og bókhaldi og standa sína pligt. Segja má að útganga þeirra af þingi í slíku lykilmáli sé enn sorglegri en spillingarkviksyndi sjálfstæðismanna. Þráseta forystumanna flokksins er að ganga af vörumerkinu dauðu. Útspil dagsins á sveitastjóri Dalabyggðar en yfirlýsing um tekjuafgang þar á bæ sýnir að enn er einhver ráðdeild til í landinu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 06:10
AÐ BREGÐA SÉR FRÁ Á ÖGURSTUNDU.
Skil illa hvernig þingmenn sem þrútnir eru af hita og hugsjónum geti látið sig hverfa af þingi þegar lykilmál eru á dagskrá og horfa upp á varamenn kjósa andstæð sjónarmið. Afsökun þessara þingmanna er engin en afhjúpunin algjör. Arfleifð þeirra fyrir kjósendur eru vonbrigði og tilvera þeirra á þingi hættir að skipta máli. Taki þeir til sín sem eiga.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2009 | 03:35
GÓÐUR DÍLL, TVÖ ÁR FYRIR MILLJARÐ.
Vitað var að mismunur á gengi krónunnar hér heima og í útlöndum yrði freisting fyrir þá sem hafa til þess aðstöðu. Nú er ljóst að menn hafa misnotað sér þessa glufu ótæpilega og hagnast um milljarða. Bankamenn sem vel til þekkja ná fjórðungi meiru með því að skipta gjaldeyri áður en hann kemur inn í íslenzka lögsögu. Og hvað sem segja má um gjaldeyrishöftin voru þau einmitt sett til að fyrirbyggja svona kaupsýslur. Seljendum fiskafurða sem skylt að gefa upp kaupverð í útlöndum og leggja þann gjaldeyri inn í þurfandi þjóðarbú eru líka undir smásjánni. Skyldi vera að þeir stofni nýjar kennitölur í útlandinu sem kaupir fiskinn á miklu lægra verði? M.ö.o að menn kaupi af sjálfum sér á gjafverði og gefa það upp til íslenzkra eftirlitsaðila en kaupandi númer tvö, þ.e.a.s. raunkaupandinn, kaupir fiskinn á raunvirði sem haldið er frá hagskýrzlum? Mismuninum haldið til haga og skipt í fleiri krónur en ella hefði orðið? Alltént er það nú staðreynd að þjóðarfjandsamleg viðskipti sem byggja á þessum grunni hlaupa á milljörðum og hámarksrefsing íslenzka dómkerfisins tvö ár. Ó, þú Íslands bláa bára, hvar lemurðu mig næst?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)