FÉ Á FÆTI.

Fjárbúskapur stangast í mörgu á við annan búskap.  Bændur sem róa á önnur mið líta sumir hverju óhýru auga á sauðkindina sem spígsporar á öllum koppagrundum óseðjandi.  Gengur þetta bæði á skóga og gróðurmold.  Ennfremur eru landeigendur skyldaðir til smölunar þessa búfjár sem þeir hvorki eiga né nýta.  Segir einn skógarbóndi í erindi sínu til stjórnlagaráðs að líkja megi þessum ágangi við ferðaþjónustubónda sem slátri lausagöngufé annara á landi sínu og selji svo ferðamönnum  á grillið. Sýnist að þrái hinnar íslenzku sauðkindar sæki nú hana sjálfa heim. 
 


KÓNGAFÁR.

Dæmalaust fár gengur nú yfir heimsbyggðina vegna brúðkaups kóngafólks í Bretlandi.  London er að fyllast og sjónvarpsútsending verður í nótt vegna þessa atburðar.  Fólk getur vart vatni haldið vegna spennu og óvissa um fatnað prinsessunnar að æra suma.  Einhverjir íslendingar virðast haldnir þessari konunglegu þrá sem hugsanlega má rekja til sambandsins við dani í denn.  Kannski þurfum við á svona uppákomum að halda í hverdagsamstrinu en sjálfur mun ég hvíla á mínu græna og óska brúðhjónunum velfarnaðar í svefni.  Og þó, Óla var ekki einu sinni boðið...

LÁ 


HRUNFLOKKAR ÚTI Í MÓA.

Framsóknarflokkur og sjálfstæðisflokkur virðast enn úti í móa í kvótamálunum.  Báðir þessir flokkar lofsyngja óbreytt fyrirkomulag fiskveiða og tengja það atvinnuuppbyggingu.  Báðir þessir flokksstólpar njóta velvildar útgerðarmanna og rekast hvor af öðrum.  Venslin eru augljós og illu heilli apa ungliðar beggja hreyfinga vitleysuna eftir.  Óbreytt fiskveiðistjórn með lögfestingu veiðiréttinda til fjölda ára innsiglar áframhaldandi samstarf þessara flokka og útgerðarinnar og viðheldur arði fiskveiðiauðlindarinnar innan þeirra vébanda.  Kjölfesta þjóðarinnar reyndist ekki liggja í gegnum áðurnefnda flokka og mun ekki gera haldi þeir áfram tryggð við yfirveðsettan og kennitöluvitskertan þrönghagsmunahóp.
 


ÆVIRÁÐNING DÓMARA.

Nú eru hafnar skóflustungur í stjórnlagráði og allir kimar stjórnarskrárinnar plægðir.  Minn hópur viðraði í dag dómsmál og skipan  þeirra.  Kom upp ásteitingarsteinn varðandi æviráðningu dómara eða ekki.  Gaman væri að vita álit bloggfíkla og annarra um þetta efni:  Eiga dómarar að vera æviráðnir eða ekki?  Rök mega gjarnan fylgja.


RÍKISTJÓRNIN ÞARF LIÐSSTYRK.

Ætli ríkisstjórnin sér að keyra í gegn nýtt fiskveiðistjórnunarfrumvarp þarf hún liðsstyrk.  Framsókn vill engar breytingar og því ekkert þangað að sækja.  Sjálfstæðisflokkur er fjölmennasta útgerðarfélag LÍÚ og draumur fjósamannsins að menn hreyfi einhverju þar á bæ.  Hreyfingin er eini valkosturinn og ekki eftir neinu að bíða.  Þeirra lið gæti gert gæfumuninn, ríkisstjórnin getur ekki keyrt kvótafrumvarp í gegnum þingið eins og mannvali þingflokkanna nú er háttað.  Hinsvegar getur hún reitt sig á þjóðina, meginhluti hennar vill breytingar.


ÖMMULAG ALA MCARTNEY.

Júróvisíónspámenn komu saman í sjónvarpssal í kvöld.  Með kveinandi smábarn í fanginu rorraði ég á rúmbríkinni og fylgdist með okkar framlagi.  Ekki voru spekúlantarnir sannfærðir um ágæti lagsins en yrði forsagan sögð myndi kannski kvikna á sumum.  Lagið var flokkað sem ömmulag ala Mcartney og  farið í grafgötur.   En þó efasemdir séfræðinganna væru augljósar sofnaði sú litla yfir ljúfum tónunum.  Á mínum bæ ríkir tröllatrú á þessu lagi með forsögu og án.


KVÓTANN Í ÞJÓÐARATKVÆÐI.

Útgerðarmenn, forsvarsmaður samtaka atvinnulífsins, sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur eru eins og olíufélögin.  Augljós samráð en ekkert gert.  Reyndar má spyrja hvort stjórnarflokkarnir séu ekki líka þátttakendur í þessu samráði, annar, báðir eða að hluta.  Eftirlátssemi alþingismanna gagnvart LÍÚ er með ólíkindum og í raun aðeins einstaka þingmenn sem þora að ámálga þessi mál af viti.  Þjóðin verður að geta haldið áfram og til að svo megi verða er nauðsynlegt að losa þessa byrði úr bakpokanum.  Geti alþingi ekki tekið af skarið á þjóðin að fá að gera það í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hvað mælir því í mót?
 


SUMARHÚSAÞJÓÐ.

Skáldverkið um BJART í Sumarhúsum er af mörgum talið mesta snilld íslenzkra bókmennta.  Andstæðingum ESB-aðildar er oft líkt við þennan búhöld og nú hafa þjóðir hinu megin hafs einnig séð þessi líkindi.  Hér, á þessu eldfjallaskeri, úi allt og grúi af Björtum og Birtum í Sumarhúsum.   Strengir þjóðarsálarinnar hinir sömu og í Bjarti, einstrengingsháttur, einsemd og einstæðingsskapur.  Hér sé þjóð sem vilji vera ein og þróa heimsku sína í friði.  Þetta vekur vitaskuld athygli fjölmenningarinnar sem á sér ei lengur neina sérstöðu.  Kannski áhugi evrópubandalagsins á Íslandi grundvallist á áhugaleysi allra Bjartanna og Birtanna á Evrópu.  Þjóð sem vinnur öll sín þorskastríð, spúir eldi og brennisteini og neitar svo að borga hlýtur að vera einstök.  Þetta sá Halldór Kiljan Laxness og færði ódauðlega í letur.  Við erum Sumarhúsaþjóð og í því felst snilld okkar og hugsanlega dauði.
 
LÁ     

FOLINN FARINN.

Fjaðrir ríkisstjórnarinnar hafa verið að smá reitast af í vetur.  Vantrausttillaga kvöldsins stóð tæpt og eftir stendur valdstjórn með eins atkvæðis meirihluta.  Folinn farinn.  Verjendur áframhaldandi stjórnarsamstarfs fengu á sig ákúrur fyrir að vísa í fortíðina en tala ekkert um framtíðina.  Stjórnarandstaðan virðist hinsvegar meta þann kost vænstan að fortíðin taki við framtíðinni.  Guð hjálpi og blessi Ísland komist hin tiltölulega nýliðna hrunfortíð aftur inn í stjórnarráðið.  Þá fyrst sprettur upp njólinn, kvótakerfið fest í sessi, einkaeignaréttur auðlinda, stjórnlagaráði slátrað og klíkustjórnmál ná fyrri hæðum.  Held best fyrir þjóðina að þingið fari nú í sumarfrí og veiti henni örlitla hvíld frá þrasinu.  
 


ÓLI GÓÐUR.

Framganga forsetans hefur farið misjafnlega í fólk.  Í dag birtist hann okkur á Bessastöðum og taldi kjark í þjóðina.  Okkur bæri að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framundan væri kynning á málstað okkur utanlands.  Ólafur átaldi forsvarsmenn atvinnulífsins fyrir svartsýnishjal og sagði tækifærin okkar megin.   Sjálfur er ég mjög sáttur við forseta sem lætur til sín taka samkvæmt lögboðnum rétti og færir þjóðinni langþráða aðkomu að landsmálum.  Sömuleiðis er hann sýnilegur og talar hlutina upp eins og leiðtoga sæmir.  Og manni  finnst ankannalegt þegar fólk sakar Ólaf Ragnar um að hafa brugðist í icesavemálinu.  Án hans atbeina væri málið í farvegi andstætt þjóðarvilja og slíkt kann sjaldnast góðri lukku að stýra.  Honum er að þakka að hvernig sem þetta icesavemál fer þá verður það samkvæmt vilja meirihlutans.   Til upprifjunar er þetta einmitt  hornsteinn lýðræðisins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband