BREYZKIR (KIRKJUNNAR) MENN.

Kirkjan er undir sama þaki og stjórnmál að því leyti að metorðin eru mikils metin. Þeir sem tróna á toppnum hafa sitthvað að segja um framgang hvors annars og mynda klakabrynju um gagnkvæma hagsmuni.  Hrasi einn eru hinir til bjargar.  Kannski er ofurmannlegt að ætla vinum, kunningjum, frændum að segja hvor til annars, afhjúpa jafnvel svíðingsverk og svindl.  Sá sem það gerir þarf að upphefja málefni yfir menn.  Sóknarpresti Neskirkju tókst þetta í dag með ákalli  sínu til forystumanna kirkjunnar.  Prestur bað þá stíga til hliðar, taka sængur sínar og hafurtask.  Með þeim gjörningi væri fyrsta skrefið stigið til að lappa upp á laskaða ímynd kirkjunnar.  Þó biskup sjálfur hafi ekki brotið af sér brást hann trúnaði og tók þöggun metorðastigans fram yfir hag sóknarbarna.  Fyrirgefningin er fólgin í afsali biskupsdóms og vera þannig öðrum til eftirbreytni.  Held séra Karl muni taka þann kost og vera meiri maður fyrir.
 


KÁTT Í HÖLLINNI.

Ernirnir yfirtrompuðu Laugardagshöllina í kvöld, ævintýralegir músikantar, trylltu lýðin og fóru út klökkir undir drynjandi lófataki.  Frábær upplifun og eftirminnileg, hverrar krónu virði.  Góður endir á þéttum degi í stjórnlagaráði en þar lágu undir kosningar, kjördæmaskipun, fjölmiðlafrelsi ofl.  Verði kynning dagsins að veruleika opnast fyrir persónukjör, listaval, millilistaval og einstaklingsval.  Öllum landshlutum er tryggður lágmarksfjöldi þingmanna og landsmenn allir geta kosið á landsvísu.  Á morgun ráðast svo örlög forsetans ásamt því að fjallað verður um beint lýðræði.  Ernirnir hafa enst í 40 ár, spurning með verk stjórnlagaráðs en sjálfur er ég bjartsýnn.
 


HÁKARLAUGGAR.

Samhengi ýmislegs er óljós.  Þó dúkka öðru hvoru upp uggar sem gefa vísbendingu um það sem undir býr.  Sérfræðingur í lagastofnun háskólans úthúðar nýju fiskveiðifrumvarpi.  Sá hinn sami er kostaður af Landsambandi íslenzkra útvegsmanna, frá þeim hagsmunasamtökum er staðan styrkt og stofnuð.  Þessu áliti umrædds sérfræðings er síðan flaggað á  fjölmiðlum og auðvitað er bakgrunnur álitsgjafans látinn liggja milli hluta.  Sem einnig gefur vísbendingar um bakhjarla hins fjórða valds, þ.e. fjölmiðla.   Sá kraftur og elja sem hagsmunaaðilar leggja í varnir fyrir mjólkurkú sína endurspeglar hversu mikils virði hún er.  Þetta ætti þjóðin að hafa hugfast, fólkið sem ekki þekkir títtnefnda hagræðingu í sjávarútvegi nema af afspurn. 


ÓLI PRIK.

Ummæli forsetans á Patreksfirði í dag eru tímabær.  Einokunar- og afskriftakerfi það sem enn ríkir í stjórn fiskveiða hefur svo sannalega sorfið af þeim stað sem forsetinn ávarpaði í dag.  Hagræðingin sem málsvarar kerfisins lofa svo mjög er farin að vinna  gegn sjálfri sér, faðmur auðlindarinnar orðinn níðþröngur og arðurinn flestum eingöngu þekktur af afspurn, afspurn sem hinir fáu njótendur kvótakerfisins básúna sem besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.  En augu fólks eru óðum að opnast og orð foretans á þessum sjómannadegi flýta fyrir þeim breytingum sem framundan eru.  Óli prik í dag.
 


FULLVELDISFRAMSAL.

Stjórnlagaráð samþykkti inn í áfangaskjal síðdegis, nýjan kafla um utanríkismál.  Þar er að finna ákvæði sem heimilar framsal fullveldis. Í gildandi stjórnarskrá er ekkert sem heimilar slíkt og þarf stjórnarskrárbreytingu til.  Með öðrum orðum þurfa tvö þing að samþykkja inngöngu í ESB.  Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er aðkoma þjóðarinnar að þeirri ákvörðun hinsvegar hvergi áskilin.  Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs þarf eitt þing og eina þjóð.  Sem þýðir að alþingi getur ekki upp á eigin spýtur fullgilt aðild að ESB heldur verður það þjóðin sjálf sem ákveður niðurstöðuna í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og einfaldur meirihluti ræður. Svo yrði einnig um aðra meiriháttar samninga við önnur ríki í framtíðinni.
 


HÆLISLEIT.

Hælisleitendur eru nú mjög til umfjöllunar.  Hvað sem fólki finnst um hvort veita skuli landlausum ríkisborgararétt eður ei má ljóst vera að gerjunartími ákvarðana og óvissan sem þessu fólki er boðið upp á  samrýmist illa þjóðfélagi sem kennir sig við mannúð.  Handahófskenndar hælisveitingar virðast spyrtar við blaðaumfjöllun en fram að því er vandinn ekki til. Fróðegt væri að vita fjölda hælisleitenda umliðin ár, málsafgreiðslu þeirra og afdrif.   
 
LÁ        

RÉTTARRÍKIÐ, MEEEE....

Geir stendur senn fyrir landsdómi. Ingibjörg er stikk, Árni í Róm og Björgvin í pontu alþingis.  Dóri í Kaupmannahöfn og Dabbi í Hádegismóum.  Eitt skal yfir einn ganga og hinir lausir.  Bankarnir lánuðu og keyptu hluti hvorir í öðrum og  eigendurnir stærstu lántakendurnir.  Nú standa þrotabúin tóm og svona fór um sjóferð þá.  Dásamlegt réttarríki, Ísland.
 


KJARASAMNINGUR EÐA KVÓTASAMNINGUR?

Kjarasamningar til 3ja ára eru ánægjuleg tíðindi en ætla má að böggull fylgi skammrifi.  Kvótafumvapið er enn óbirt og varla hafa forkólfar atvinnulífsins skyndilega umbreytt stefnu sinni varðandi fiskveiðistjórnunina nema einhver gulrót liggi í fyrrgreindu frumvarpi.  Það kemur væntanlega í ljós á næstu dögum en inniberi frumvarpið áralanga eða ævinlega forgjöf að höfuðauðlind Íslands hverfur árangur dagsins eins og dögg fyrir sólu.

LÁ 


BANGSAR: FARIдI ANNAÐ!

Gott væri ef ísbirnir hættu nú þessum sundferðum sínum til Íslands og héldu kyrru fyrir á heimaslóð.  Móttökunefndir hérlendis hafa hvergi hikað í öryggisviðleitni sinni og féll þriðji bangsinn á  jafnmörgum árum á Hornströndum í dag.  Held þetta auki hróður okkar hvorki innanlands né utan og spurning hvort ekki sé kominn tími á einhvern viðbúnað.  Fyrst varðskipið er í sólarlöndum hlýtur danski Hrúturinn (Vædderen) að vera til í hreppaflutning á dönskum ríkisborgara í útrýmingarhættu.  Mæli með að næsti björn verði aðeins deyfiskotinn og fraktaður í húsdýragarðinn uns far fæst til Grænlands.  Með þessu væri hægt að ná inn útlögðum kostnaði sem og fylla landann þeirri gleði sem fylgir góðverki áður en tilfinningin endanlega gleymist.


PÚUM Á MOÐREYK SAMTAKA ATVINNULÍFSINS.

Samtök atvinnulífsins auglýsa nú í sjónvarpi ákall sitt um eigin atvinnuleið sem framtíðarsýn þjóðarinnar.  Annað sé verðbólga, vesaldómur og svartnætti.  Atvinnuleiðinni er nýlokið undir stjórn þesara sömu manna og útkomuna þekkja allir.  Atvinnuuppbygging mun aldrei verða sönn né almenn í höndum þrönghagsmunaafla sem sjá ekki ljósið nema ljósaperan sé rússnezk.  Sjálftaka atvinnulífsins, blekking og rányrkja er niðurnegld í hrunskýrzlunum og ótækt að apa hana nú eftir .  Öll þjóðin hefur horft upp á eignarýrnun um a.m.k. helming og myntin okkar orðin óboðleg.  Sé þetta ekki verðbólga þá hvað?  Ríkisstjórnin verður að losa af sér hreðjatak sérhagsmunahópa og banka og gefa spilin upp á nýtt.  Arður auðlinda má ekki enda sem spilapeningur rússnezkrar rúllettu og brýnt að tryggja þjóðina gagnvart slíku.  Púum á moðreyk SA og höfnum þeirra aðkomu að stjórn landsins, ef ekki núna þá hvenær?
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband