LEYFUM RYKINU AÐ SETJAST.

Sorg norðmanna er mikil og eiga þeir samúð okkar allra.  Svona atburðir virðast árleg plága og þessi ristir mjög djúpt.  Einu tók ég eftir, ógætilegum yfirlýsingum.  Strax var augum beint að múslimskum hryðjuverkahópum og það jafnvel ámálgað þó ekkert lægi fyrir.   Geld mikinn varhug við þessu og jafnan betra að leyfa rykinu að setjast áðuren yfirlýsingar eru gefnar.  


AUÐLINDAÁKVÆÐI TEKUR BREYTINGUM.

Auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár tók veigamiklum breytingum í dag.  Stjórnlagaráð samþykkti bann við veðsetningu nýtingarréttar á auðlindum sem eru í þjóðareign.  Nær það líka til óbeinnar veðsetningar en tíðkast hefur að veðsetja aflaheimildir með að tengja þær við skip.  Tilgangur ákvæðisins er að koma í veg fyrir þetta.  Einnig var jafnræði skeytt inn í ákvæði um úthlutun nýtingarrétts auðlinda.   Var hvorutveggja samþykkt með yfirgnæfandi hluta atkvæða.


PRAKKARASKAPUR Í DÓMSAL.

Þetta Exeter-mál er kyndugt.  Stjórnendur í sparisjóði Byr áttu stofnfjárbréf í sjóðnum.  Fengu lán til kaupanna hjá MP-banka. Sá vildi ganga í stofnfjárbréfin þegar lántakendurnir, þ.e. stjórnendurnir í sparisjóðnum Byr,  framsettu ekki fullnægjandi tryggingar.  Þá brugðu stjórnendur sparisjóðsins Byr á það ráð að lána öðru fyrirtæki 800 milljónir úr sparisjóðnum Byr.  Nánast óþarft er að taka fram að þetta annað fyrirtæki var í eigu þeirra sjálfra.   Lánið notaði fyrirtækið svo til að kaupa stofnfjárbréf sömu eigenda í sparisjóðnum Byr.  Veðið bréfin sjálf.  En til þess að hinn upphaflegi lánveitandi, MP-banki,  myndi nú örugglega fá sitt til baka neru menn saman nösum og sölugengi stofnfjárbréfanna þannig haft nógu hátt til að dygði fyrir skuldinni.  Þannig fékk MP-banki sitt, stjórnendur sparisjóðsins Byr sluppu með skrekkinn, fyrirtækið látið gossa og sparisjóðurinn Byr sat uppi með Svarta-Pétur.  Dásamleg flétta.... í bíómynd.  Í dómsal voru svo allir hlutaðeigandi sýknaðir og talið ósannað að um ásetning væri að ræða.  Aftur dásmlegt og eins gott að menn láti ekki prakkaraskapinn hlaupa með sig í gönur.  


LANDSVIRKJUN TIL SÖLU!

Samkvæmt skýrzlu um Landsvirkjun gæti fyrirtækið orðið okkar næsta mjólkurkú.  Sem þýðir þá væntanlega að um leið og drífandi ríkisstjórn kemst til valda verður fyrirtækið selt á handstýrðum markaði  aðilum sem kunna að fara með gróða og eftirláta hræið síðan skattborgurunum.  Og auðvitað útborgunina.  Svo virðist að markaðurinn sé að taka við sér.


UPPGJÖRIÐ FÆRIST NÆR.

Viðræður við evrópusambandið hófust í dag.   Skiptar skoðanir eru um ágæti dagsins en einhversstaðar tappar eflaust teknir úr flöskum.  Eftir ár mun samningur væntanlega liggja fyrir og umræðan með og móti þyngjast.  Sem stendur þarf að breyta stjórnarskrá til að innganga geti átt sér stað og sjálfgefið að það sé stefna ríkisstjórnarinnar.  Þá verður þingrof og þjóðin mun kjósa nýtt þing.  Hvernig það samanstendur veit enginn né stjórnarmynstrið sem við tekur.  Í þessu liggur sú hætta að þjóðin fari annan hvorn veginn án þess að vera spurð að því beint.  Niðurstaða almennra kosninga gefur hverjum og einum stjórnmálaflokki frjálsa túlkun útkomunnar sem getur auðvitað þýtt hvað sem er.   Held fullveldisframsal sé svo afgerandi skref að það sé andlýðræði að spyrja þjóðina ekki álits í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Flestir ættu að geta unað þjóðarvilja en án hans er vegferðin ófriðarleið.


BRAUÐMYLSNUPÓLITÍK.

Þéttbýli og dreifbýli, blessuð sveitin og borg mín borg.  Oft og einatt er þessum landstæðum stillt upp sem andstæðum, annað gengt hinu. Margir segja jafnt atkvæðavægi mannréttindi og ekki megi hvika frá slíku vegna byggðasjónarmiða.  Á móti má spyrja hvort nokkru skiptir fyrir suðvesturhornið þó fleiri þingmenn komi þaðan, þegar er af nógu að taka og pólitískt vægi svæðisins ekki í hættu.  Sum landshorn mega hinsvegar illa við að missa sína einu rödd.   Einnig hefur suðvesturhornið aukinn pólitískan slagkraft vegna stjórnýslunnar sem þar er staðsett að meginhluta.  Grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar er á hinn bóginn að miklu leyti landsbyggðarinnar og fjárstreymi frá henni til Reykjavíkur.  Með því að auka fjárstjórnarvald sveitastjórna og færa ákvörðunarvald í eigin málum þangað mætti koma á betra og eðlilegra jafnvægi milli bæja og borgar.  Þá dytti út þessi félagslegi þáttur sem margir tengja landsbyggðinni og hún fengi að spreyta sig á eigin forsendum.  Þessu ætti stjórnsýslan að velta fyrir sér, ekki sízt sveitastjórnarmenn sem víða virðast heillum horfnir þegar kemur að sjálfsbjörginni heima fyrir.  Sú brauðmylsnupólitík sem rekin er á landsbyggðinni á svo sannarlega ekki bara rætur sínar að rekja til suðvesturshornsins, hún er illvígt innanmein heima fyrir. 
 


BORGARASTRÍÐ UM ÞORSKA.

„Strandveiðar eru afar óhagkvæmar,“ segir í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.  Skýrslan segir að margir af þeim sjómönnum sem stunda strandveiðar hafi selt kvótann sinn og eygja með strandveiðinni möguleika á endurkomu.  Afhverju mega menn ekki hasla sér völl á þeim vettvangi sem þeir vilja?  Yrði strandveiðin eitthvað arðbærari þó enginn hefði vit á sjó?  Og hvers eiga hinir að gjalda?  Skýrzlan segir einnig vangá að kvótasetja ekki ákveðnar tegundir, slíkt dragi úr verðmæti framseljanlegs kvóta.  Erum við ekki búin að brenna okkur nægilega á háu kvótaverði og yfirveðsetningu? Augljóst er af þessari skýrzlu að hagræðingahugtakið nær einungis til þeirra sem stunda útgerð í krafti kvótaeignar, aðrir sjómenn, verðandi sjómenn, landvinnslan, strandveiðiréttur sjávarbyggðanna og jafnræðisreglan eru einskis metin.  Arðsemi sjávarútvegs er ekki beintengd núverandi kvótahöfum heldur því að fiskur sé veiddur.  Strandveiði tryggir sjálfsagðan  strandveiðirétt þegna þessa lands og gæti auðveldlega viðgengist samhliða núverandi kvótakerfi.  Mesta hagræðingin yrði að losna undan höftum ríkisafskipta sem eiga uppruna sinn í ægivaldi LÍÚ yfir stjórnvöldum hverju sinni.

LÁ 


ÁLIT OECD.

Málsverjendur kvótakerfisins halda ónýtum málstað sínum hvatlega á lofti, ekki bara hér heima heldur einnig utanlands.  OECD telur best að láta kerfið óáreitt í nafni hagkvæmni, óréttlátur gjafagjörningur vegi minna.  Árni Páll, viðskiptaráðherra, kvað upp úr að hann væri þessu í grunninn sammála.  Áróðursbombur fyrir óbreyttu kvótakerfi sem daglega dynja á þjóðinni virðast hrífa og sannfæring ríkisstjórnarinnar dvínar að sama skapi.   Þátttaka fjölmiðla í þessum blekkingarleik gefur glögga innsýn í gangverk spillts ríkis. Sem minnir á annað álit OECD stuttu fyrir hrun, nefnilega að Ísland væri tiltölulega laust við spillingu.   Þó upphaflegur gjafagjörningur veiðiheimilda sé látinn liggja milli hluta er títtnefnt hagræði óþekkt hjá þjóðinni nema af afspurn.   Eins og síbyljandi popplag sem markvisst er haldið að þjóðinni ómar áróðurssveit LÍÚ í eyrum landsmanna.  Þessi firnasterku hasmunasamtök reka svo sannarlega ekki bara útgerðir á hafi úti.  Þetta ætti fólk að hafa í huga sem og þau borðliggjandi rök fyrir breyttri fiskveiðistjórn sem stjórnarflokkarnir hömpuðu fyrir kosningar.  Staðan hefur ekkert breyst síðan, einungis staðfestan.  Láti stjórnarflokkarnir hrekjast undan fýlubombum hagsmunaaðila er miklu betra að fá grímulausum stjórnartaumana í hendur.

LÁ 


HOP OG HIK.

Hik sumra stjórnarliða varðandi kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar er skiljanlegt.  Ástæðurnar hinsvegar óskiljanlegar.   Að hopa undan einhverju áliti sem byggir á hagkvæmni óbreytts ástands segir miklu meira um þingmennina en frumvarpið.  Afhverju voru allir til í tuskið fyrir kosningar?  Hvað hefur breyst síðan?  Óhagkvæmnin vegna mestu byggðaröskunar sögunnar stendur enn.  Óhagkvæmnin vegna skuldasöfnunar sjávarútvegsfyrirtækja stendur enn.  Óhagkvæmnin vegna yfirveðsetninga stendur enn.  Óhagkvæmnin skattborgaranna vegna afskrifta stendur enn.  Óhagkvæmni ójafnræðisins stendur enn. Óhagkvæmni  gengur sem rauður þráður í gegnum þetta kerfi og margbúið að skoða, ræða og álykta um hvað þurfi að gera.  Og svo þegar loksins kemur að því er hlaupist á brott.  Hvað breytir afstöðu manna svona kyrfilega og snöggt?  
 


BREYTT FISKVEIÐISTJÓRN ER ÞRÓUN.

Niðurstaða sérfræðihóps í kringum hagræn áhrif nýs kvótafrumvarps á sjávarútvegsfyrirtæki er að vonum.  Álitið varar við heftu framsali og veðsetningu veiðiheimilda sem og stuttum nýtingarsamningum.  Sagt er að sjávarútvegsfyriræki þoli ekki áðurnefndar breytingar og þær ávísun á minni hagkvæmni.   Auðvitað felur kerfisbreyting í sér nýtt starfsumhverfi og þeir sem hafa haslað sér völl í því gamla mega búast við erfiðu en ekki óyfirstíganlegu aðlögunartímabili.   Breytingar á fiskveiðistjórn er aðkallandi vegna þeirra augljósu afleiðinga sem við blasa.  Breytingar munu stuðla að jafnræði, tryggja  byggðunum starfsöryggi og þjóðinni sjálfsagðan arð, ekki einungis af afspurn.  Þjóðin hafnaði kvótakerfinu í síðustu kosningum með öllum sínum fylgikvillum, við þurfum ekki fleiri álit, nefndir né fýlubombur, við þurfum stjórn sem gengur í verkin.  Einatt er sagt að fólksfækkun til sveita sé þróun.  Breyting á kerfi fiskveiða er þróun.
 
LÁ 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband