NIÐURSTAÐA GÆRDAGSINS VERKEFNI MORGUNDAGSINS.

Nú þegar dómur þjóðarinnar er klár má kætast eilitla stund en ekki lengi.  Skjótt þarf að hugga hinn helminginn, allt það fólk sem neyðist nú til að snúa baki við þeirri vegferð sem það trúði svo mjög á.  Þessi niðurfelling icesave markar í mörgu þáttaskil og þó margir segja hana óskynsamlega er víst að skilaboðin muni vekja athygli víða um lönd.  Kannski er þetta byrjunin á einhverju stærra og meira, kannski upphafið að endinum.  Ríkisstjórnin hefur rækilega orðið afturreka með stefnu sína í utanríkismálum en hefur þó enn í hendi sér marglofaðan skurk í innanríkismálum.  Niðurskurður stjórnsýslunnar er brýnn, skuldavandi heimilanna og kvótamálin.  Ríkisstjórnin á því margt ógert og gæti endurheimt glatað traust með að einhenda sér í ofangreind verk.  Hún nýtur þess ennfremur að aðrir kostir eru ónýtir.   Gætum að því að niðurstaða gærdagsins er verkefni morgundagsins og vonandi myndast samkennd um góða lendingu fyrir íslenzka þjóð.   Til að svo megi verða þurfum við sem fögnum í nótt að ganga fram af auðmýkt en ekki hroka.
 
LÁ 

KOSNINGADAGUR.

Eins og kosningadögum sæmir er spenna í lofti.  Fólk á þönum og kraðak á kjörstað.  Svona í lok kosningabaráttunnar má ljóst vera að meginlínunnar tengjast mjög afstöðu fólks til ESB.  Held flestir séu sammála um að óábyrgu fjármálalífi skal hafna en himinn og haf aðskilur hvað varðar lög og hagsmunamat.  Þar hefur boltinn flogið stanga á milli og fólk unnvörpum gripið boltann samkvæmt sýn sinni á ESB.  Hvort bjargráð hins laskaða lýðveldis sé fólgið í inngöngu í þetta ríkjabandalag er næsti ásteytingarsteinn en úrslit dagsins munu þoka honum áleiðis, já, nær ESB, nei, fjær ESB.  En flísin mun ekki hverfa, það gerist einungis með bættum lífskjörum.
 
LÁ   

NIÐURTALNINGIN ER HAFIN.

Eins gott að kosningum um icesave ljúki senn.  Framámenn og skríbentar keppast nú hver af öðrum að lýsa yfir í hvorn vænginn þeir stíga og öll málefnanleg umræða fokin út í veður og vind.   Vinstri grænir farnir í hár saman og sjallarnir klofnir, allt leikur á reiðiskjálfi.  Einna dapurlegast er að sú mikilhæfa virðingarkona, Vigdís Finnbogadóttir, tekur þátt í þessum leik.  Betur væri að hún hefði látið slíkt vera og gefið þjóð sinni frið í þessu erfiða vali.  Ég vil þó fordæma ýmis ljót orð sem um hana hafa fallið vegna þessa, læt nægja að segja þetta dapurlegt.  Sjálfur er ég á öndverðum meiði við fyrrum forseta vorn og tel samþykkt icesave innibera rangan boðskap til framtíðar.  En hvað svo sem verður ofan á á morgun verðum við að halda ró okkar og sameinast í því sem framundan er.  Jörðin heldur áfram að snúast, að því leyti eru jáin og nein jafngild.  
 


LJÓSIN Í BÆNUM.

35 ára forgangur að auðlind Íslands, hafinu, er sáttatillegg landssambands íslenskra útgerðarmanna til þjóðarinnar.  Með mögulegri framlengingu um önnur 35 ár eftir 15 ár.  Ennfremur að auðlindagjald skuli markast af hagnaði, ekki framlegð.  Sami hópur skilyrðir kjarasamninga og þjóðaratkvæði um icesave.  Ekkert í þjóðlífinu er þessu klani óviðkomandi, ekkert.   Löglega kjörin ríkisstjórn situr þegjandi undir  byssukjöftunum, loforðin um  firningaleið, frjálsar strandveiðar og endurúthlutun veiðiheimilda, allt fjólubláir draumar.   Ekkert er eins einfalt og viðblasandi fyrir aukna atvinnu og gjaldeyristekjur eins og aukinn kvóti og frjálsar strandveiðar.  Þetta kostar ekkert en gefur góðan vind.  Þess í stað hoppar heil ríkisstjórn vestur í vöggu fiskanna og útdeilir óarðbærum ríkisverkefnum.  Kóróna vitleysunnar er svo skoðanakönnun dagsins sem tilkynnir 56% fylgi hrunflokkanna, eff og dé.  Einu ljósin í bænum er stjórnlagaráðið sem tók formlega til starfa í hádegissólinni, þar ríkir einhugur um þarft verk sem vonandi mun opna augu þessarar áttvilltu þjóðar.
 


VILHJÁLMUR OG NÍMENNINGARNIR.

Forkólfar vinnumarkaðarins þrýsta nú hart á "rétta" útkomu kosninganna á laugardag.  Segja fall icesave þýða brostnar forsendur kjarasamninga með tilheyrandi uppnámi á vinnumarkaði.  Vilhjálmur Egilsson, formaður samtaka atvinnulífsins, hnykkir ennfremur á sjávarútveginum og vill koma honum í ævarandi eignaréttarskjól kvótagreifanna.   Mætir meira að segja með forsvarsmann þeirra óboðinn á stjórnarheimilið.  Eitthvað yrði nú sagt ef nímenningarnir birtust þar óforvandis.  Sannleikurinn er sá að yfirgangur Vilhjálms og félaga er með öllu ólíðandi, þeirra umboð til að stjórna landinu er ekkert þó framgangan bendi til annars.  Nú verður ríkisstjórnin að sporna við þessum eiginhagsmunaseggjum, hún hefur bróðurpart þjóðarinnar með sér í þeirri orrahríð.  Allt þeirra kjaftæði um hagræðingu, atvinnu og icesave er liður í valdatafli hvurs markmið er afturhvarf til fyrri viðskiptahátta.   Falli atvinnulíf í skilningi Vilhjálms og félaga með icesave er það fagnaðarefni því það reyndist innistæðulaust og mun vera það áfram. Við þurfum atvinnulíf með sjálfsábyrgð, atvinnulíf sem einkavæðir ekki bara hagnað, atvinnulíf sem byggir á jafnræði þegnanna en ekki úreltu lénsfyrirkomulagi eins og sjávarútvegurinn gerir nú. Icesave snýst æ minna um upphæðir og áhættu, miklu fremur um þau skilaboð sem almenningur vill senda fjársýslu og stjórnsýslu.
 


HÁKARLAR OG BARNAÞRÆLKUN.

Hákarlar og barnaþrælkun eru myndlíkingar jás og neis við icesave, staðfestir enn og aftur að skemmtileg umfjöllun tekur málefnunum fram.  Ókindin er ógnvekjandi og finnst mér sú myndlíking býsna góð, annaðhvort borga eða vera étin.  Mörlandinn situr í hnapp á sakamannanýlendu og djöfuldómi hótað nema gengist sé við  ræningjagjörningum á erlendri grundu.   Að vilja ekki styggja ESB er eitt, annað að segja viðskiptalífið dautt nema samþykkja icesave. En til hvers að fá hingað lánsfé til aðila sem ekki er treystandi.  Líti fólk í kringum sig eru þetta unnvörpum sömu aðilarnir og sami hugsunarhátturinn sem er að hasla sér völl.  Hákarlinn er forsprakkar hagsmunahópa, stjórnmálamenn, stjórnsýslan, fræðasamfélagið og ESB.  Fjármagnseigendur og evrópusinnar finna hér sameiginlega ókind til að ná fram sínu draumasamfélagi, annarsvegar frelsi án ábyrgðar, hinsvegar stjórnsýslu án landamæra.  Íslenzka þjóðin þarf að takast á við bæði frelsið og stjórnsýsluna, góð byrjun væri að segja nei við icesave sem gefur þau skilaboð að ríksvæðingu taps sé hafnað sem og stjórnsýslu sem trassar sína lögsögn.  Við getum ekki boðið frelsishugsjóninni upp á andhverfu síðastliðinna ára né evrópubandalaginu upp á þá stjórnmálamenn sem létu slíkt viðgangast.  Segjum því NEI við icesave.  
 


RÍKI Í RÍKINU.

Bankarnir eru ríki í ríkinu.  Njóta ríkisábyrgðar að meira eða minna leyti, afskrifta og afskiptaleysis.  Stjórnendur þeirra hafa frjálsar hendur varðandi hvaðeina, afskrifa suma og gera upp, aðrir njóta afskrifta og verndar.  Bankarnir skirrðust við skuldavanda heimilanna en sýna nú prýðis hagnað.  Áherzluatriðin sjást nú vel í launakjörum æðri starfsmanna bankanna sem eru komin á flug og gera yfirlýsingar ráðamanna um launaþak hlægilega.  Í raun eru fyrirsagnir fjölmiðla orðnar býsna keimlíkar og var fyrir hrun.  Svo má spyrja:  Er það gott eða er það vont?
 
LÁ 

JÁ OG HÖLDUM ÞESSU ÁFRAM...

Jáfólk við icesave segist vilja halda áfram.  Ég vil það reyndar líka en segi þó nei.  Með neitun hafna ég alfarið ríkisvæðingu taps á einkarekstri.  Ég hafna ábyrgðarlausu athafnafrelsi og ég hafna kennitöluflótta.  Gerendur í þessu máli sprikla enn á skotpöllum viðskiptanna og með því að taka ábyrgð á rányrkju þeirra er verið að leggja grunn að nýju geimskoti.  Já og nei fólk icesave er yfirleitt sammála um vafa svokallaðra skuldbindinga en skiptast í tvennt þegar kemur að áhættunni af dómsmáli.  Sigur yrði vissulega upphefð en ósigur baráttunnar virði.   Hvað sem líður óvissu í dómsmáli fæ ég með engu móti séð hvers vegna alþjóðasamfélag sem kennir sig við lýðræði og siðvæðingu ætti að hafa á móti því að þjóð sæki rétt sinn?  Slíkt þýðir ekki að hafna ábyrgð heldur einungis að fá úr því skorið hvort hún sé fyrir hendi og hvar hún liggi.  Þessa fýsir mig að vita og tel eina vitræna framhaldið í málinu.  Hitt, að gangast við sök annarra, er ekkert annað en dómsátt þar sem siðferði er skipt út fyrir peninga, bergmál þess sem kom hér öllu í koll.  En það er kannski þetta sem jáfólk á við þegar það segist vilja halda áfram...

LÁ 


UGGINN ENN Á SVEIMI.

Nýtt frumvarp um sjávarútvegsmál bíður til hausts.  Þá verða rúm tvö ár síðan þessi ríkisstjórn tók við með rauðglóandi loforð þjóðinni til handa að taka loks til í kvótamálunum.  Samtök atvinnulífsins hafa sýnt tennurnar í kjaraviðræðum undanfarið og flaggað óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi sem skilyrði.  Fjármálaráðherra segir þetta ekki tengjast og sjávarútvegsráðherra flýr til útlanda til að tryggja engan framgang.  Enn ræður samkrull stjórnmálamanna og atvinnulífs gangverki þjóðlífsins, sami tvíhöfðinn og hrunskýrslurnar vöruðu svo við.  Uggi sama hákarls stendur upp úr þegar kemur að starfsemi banka og lífeyrissjóða.  Meira að segja samþykkt icesave er ekkert annað en skjaldborg utan um óábyrgt atvinnulíf.  Sömuleiðis lúxusverk eins og háskólaspítali og músikhús.  Allt eru þetta merkisberar hrunpólitíkur sem skefur undan ábyrgu atvinnulífi og almannaheill.  Þegar enginn ráðamaður gerir það til atvinnusköpunar sem blasir við hjá fiskveiðiþjóð er eitthvað að.


VARNARVIÐBRÖGÐ SIÐBLINDRA.

Starf frétta- og blaðamanna fer í æ ríkari mæli fram í réttarsölum.   Milljónamæringar hrunsins eru einna duglegastir að plægja þennan jarðveg, tilgangurinn líkast sá að hrekja snápana frá sínum málum og fá þá til að skrifa um annað.  Komið hefur á daginn að orð Evu Joly um varnarviðbrögð siðblindingja eru nákvæmlega þessi:  Hrekja allar ásakanir sem dylgjur og fá þær dæmdar ómerkar.  Staðreyndir um kennitöluflakk, sjálftökur og skuldaafskriftir liggja þó fyrir og er það von mín að fjölmiðlafólk haldi áfram sínu striki, enda góður blaðamaður stórvirk vinnuvél í að uppræta spillingu og skít.   
 
LÁ  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband