28.11.2009 | 03:14
PÉTUR BLÖNDAL & HANNES HAFSTEIN.
Nú munu hetjur hafsins, bæði á landi og sjó, láta sverfa til stáls. Sjómannaafsláttur, gömul skattaundanþága, skal afnumin. Forystumenn beggja samtaka voru beinskeyttir í norðangarranum, sjómenn myndu aldrei sætta sig við skerðingu og útgerðin þyldi ekki frekari álögur. Dásamlega íslenzk afstaða og einkennandi. Kannski saltið fari svona með okkur. Þingmaðurinn, Pétur Blöndal, kom þó algerlega ósaltaður inn í notalega alþingisstofuna og kvað drauginn niður. Nefndi kynjamisrétti og jöfnuð gagnvart landslögum, ágætt þema. En þegar sjálfstæðismaður fer í stríð við hagsmunasamtök sjómanna, að ekki sé talað um landsjómanna, reka menn upp stór augu. Það hefur ekki gerst síðan Hannes Hafstein skipaði þurrabúðarmönnum í Dýrafirði til stríðs við enzkan landhelgisbrjót á þar síðustu öld. Og týndu þeir flestir lífi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.11.2009 | 02:49
LOSTABÆLI Í FÍLÓ.
Von er á spennandi sjónvarpsefni í jólatónleikum Fíladelfíusafnaðarins í ár. Hommar og lesbíur ætla að fjölmenna og kenna hinum guðs útvöldu sóknarbörnum kossalist. Kannski Skari fipist nú í fyrsta skipti á píanóinu. Annars hlýtur skaparinn að fara að uppfæra ritninguna, það hefur ekki verið gert í 2000 ár og þó nokkur atriði hafa breyst. Kaflinn um kynhneigð er auðvitað einn þeirra en einnig mætti viðra þróunarkenninguna og árétta að jörðin sé orðin kringlótt. En fjandi verður gaman að fylgjast með flensinu og vonandi láta syndaselirnir ekki þar við sitja.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2009 | 02:52
KREPPUGERNINGAR.
Kreppugerningar hrannast nú upp á stjórnarheimilinu. Þar hefur fólk ekki undan við að brydda upp á nýjum skattstofnum og kroppa utan af velferðarkerfinu. Neyzluskattar, virðisauki, tekjuskattar, allt fírast nú upp. Fæðingarorlofi er hinsvegar tjaldað niður og atvinnuleysisbætur námsmanna skertar. Meira að segja hinn gamalgróni sjómannaafsláttur er í hættu. Og vitanlega jarmar fólk. En þetta er hið nýja Ísland sem beðið var um og hafi fólk einhverntíma trúað að orsakendur hrunsins yrðu slægðir var það tálsýn. Nægir að benda á Icesave, lausnin er ekki að elta uppi gerendurna, svikahrappana sjálfa, jafnvel ekki þó margir búi innan seilingar og liggi vel við höggi í London. Nei, bæði viðsemjendurnir og okkar eigin foringjar, sem er harmur, beina spjótum að íslenzkum almenningi sem hafði nákvæmlega ekkert með glæpinn að gera. Sjálfur átti ég von á skerðingu og sköttum og get sætt mig við það en aldrei þá undirlægju né siðferðiskröm sem gengur aftur með þjóðinni í líki þessarar ríkisstjórnar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.11.2009 | 02:10
KÚTTAÐ AF RÚV.
Ef væri ég sjónvarpsstjóri í sporum Páls Magnússonar og þyrfti að kútta af 10% myndi ég gera það svona: Út með íþróttir nema samtengdar fréttum, þeim eru gerð prýðis skil annarsstaðar, landsleikir mættu þó halda sér. Gefa þulunum frí, þó þær séu ávallt uppörvandi og fallegar er hægt að finna það á annan hátt. Rás 2 má sækja á öðrum fjölmiðlum og Kastljósið má stytta um helming. Eurovisionfárið skyldi tjakkað niður, jafnvel sleppa þátttöku meðan mesta harðærið gengur yfir. Svo er tilvalið að stytta útsendingartímann um 1-2 klukkustundir á dag og sleppa dagdagskránni um helgar. Draga svo niður laun æðstráðenda stofnunarinnar og afnema sérfríðindi. Mánaðarlangt sumarfrí myndi svo negla 10% endanlega. Gangi þér vel, Páll.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2009 | 03:41
LOFTFIMLEIKAR MEÐ NETI.
Heimalningar stjórnmálaflokka eru í mörgu eins og loftfimleikafólk með öryggisnet. Detti menn út af þingi eða missi stöður grípur þá möskvi. Björgunarhringir halda heimalningunum á floti meðan beðið er forfrömunar hvort heldur sé embætti eða þingsæti. Þetta öryggisnet er orðið býsna þéttofið og dafnar í þegjandi samkomulagi fjórflokksins enda eiga allir þar í hús að venda með sitt útigangsfé. Allskonar stöður, skyldar og óskyldar stjórnmálum, eru orðnar að áningarstöðum þessara heimalninga og jafnlega niður skipt. Sendiherrar og dómarar, aðstoðarfólk ráðherra, þingmanna, starfsmenn stjórnmálaflokkanna, kosningastjórar, framkvæmdastjórar, bílstjórar og upplýsingafulltrúar. Horfi fólk yfir dalinn sitja iðulega á þessum syllum óharðnaðir flokksgæðingar eða gamalt sláturfé. Fyrir utan þetta og ekki eins sýnilegt er heill heimur af ráðum og nefndum, veitum og verum sem skipað er í pólitískt. Útvarpsráð, leikhúsráð, pósthúsráð, símaráð, orkuráð, fiskaráð, Þingvallaráð, menningarráð, leikskólaráð, mengunarráð, húsafriðunarráð, drottinsráð, þjóðgarðaráð, byggingarráð, flugvélaráð, siglingaráð, tollaráð, útflutningsráð, innflutningsráð, sjúkdómaráð, heilbrigðisráð, tóbaksráð, skattaráð og skylduráð. Öll þessi ráð og fleiri eru troðfull af þessu loftfimleikafólki sem er sídettandi ofan í mjúkan faðm öryggisnetsins. Og þar dafna sauðirnir vel, nýlegt dæmi um fundarsetukaup var uppgefið rúmar 50.000 þúsund krónur og það í forföllum. Kannski fundarsetan gefi meira í fjarveru en viðveru, hver veit, en eitt veit ég: Alvöru loftfimleikafólk brúkar ekki öryggisnet.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.11.2009 | 02:29
GÓÐLÁTLEGT FÍFL.
Stóriðjan getur ekki lagt á sig auknar byrðar í formi skatta. Útilokað. Minnumst útgerðarinnar sem kiknaði undan 2% auðlindagjaldi, varð að leigja þorskkílóið á 80% af verðmæti aflans, veðsetja aflaheimildir á verði 15 ára innkomu og skipta um kennitölur til að halda í. Sömuleiðis var 10% fjármagnstekjuskattur þrúgandi fyrir fjármagnseigendur sem áttu einskis annars úrkosti en bankahrun og skella skuldinni á Ísland. Almenningur er og verður eina bakið sem aldrei kvartar. Góðlátlegt fífl.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.11.2009 | 04:27
FISKISÖGUR EFLA ALLA DÁÐ.
Sjálfur tel ég íslenzku þjóðina ekki mótfallna slíkum áformum. Annað gildir um hagsmunaaðila. Úthlutun veiðiheimilda á nýjum forsendum yrði ekki mætt þegjandi. Í ljósi boðaðra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu er þó vandséð hvernig annað ætti að vera. En hafi stjórnarflokkarnir ekki kjark til augljósra og nauðsynlegra breytinga í sjávarútvegi er spá mín þessi: Afli verður aukinn þegar þau öfl ná aftur völdum sem vilja óbreytt tangarhald fiskimiðanna. Þessi aukna veiði rennur til fyrirliggjandi kvótahafa og taka tvö á atvinnurétti sem er yfirveðsettur og gengur kaupum og sölum fer í gang. Eini möguleikinn til að fyrirbyggja þá tímaeyðslu er að taka slaginn: NÚNA!
LÁBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2009 | 02:45
FALLIÐ LAUF.
Enn gerast íslenzk stjórnvöld sek um að vilja halda upplýsingum til haga, nú skýrzlu AGS. Ráðamenn segja plaggið innihalda viðkvæman sannleik um skuldastöðu þjóðarinnar. Líklega gæti leki þessara sanninda þyngt róðurinn í komandi icesave-rimmu, þeirri þriðju í röðinni. Jafnvel hætt ríkisstjórnarsamstafinu og valdið nýrri mótmælaöldu. Eins og í tíð fyrri ríkisstjórna helgar tilgangurinn meðalið. Verð að segja að hið mikla umtal fyrir kosningar um gegnsæi og trúnað við kjósendur hefur fallið eins og lauf af grein.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2009 | 04:15
ÓLÆKNANDI MEIN.
Þingkona samfylkingar í norðvesturkjördæmi skrapp á fund LÍÚ manna í fyrri viku og kvað þar hafa átt sér stað gagnleg skoðanaskipti. Fulltrúa Hreyfingarinnar í endurskoðunarnefnd sjávarútvegs átti ekki sama láni að fagna og vísað út af sömu samkomu. Hvað um að, þingkonan mætti hjá Agli í dag og reifaði auknar veiðar við Íslandsmið og áréttaði að þessum viðbótarheimildum yrði úthlutað í samræmi við núverandi legu aflaheimilda. Ekki þurfti Grátkórinn að grenja yfir þessari yfirlýsingu þingkonunnar og lýðum að verða ljóst að eitt helsta stefnumál samfylkingar, títtnefnd firningarleið, er á leið í salt. Svo virðist að skilaboð fyrir kosningar stökkbreytist eftir kosningar og útvatnist, eldmóðurinn til breytinga renni af fólki loksins þegar kastfærið gefst. Heiti sem Eiríkur Örn Norðdahl gaf sinni fyrstu skáldsögu lýsir útkomunni vel en það var Hugsjónadrusla. Hvers vegna fólk missir máttinn við kosningu á þing er hulin ráðgáta en meinið er almennt, bráðsmitandi og ólæknandi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.11.2009 | 05:39
BORÐLIGGJANDI BEZTI GRÁTKÓR LANDSINS.
Grátkór LÍÚ-manna lauk spaugstofu kvöldsins og með þvíkíkum glæsibrag að aldrei hef ég séð neitt betra. Þeir grenjuðu hver um annan þveran, augun ranghvolfdust, hver einasti kórlimur tandurhreinn á tóni og kórinn í heildina gríðarlega sannfærandi. Hafi einhver verið fylgjandi firningarleið, handfæraveiðum, byggðakvóta, samfylkingunni, Grími Atlasyni eða þjóðareign fiskimiðanna er það allt búið og dautt. LÍU át þjóðina í kvöld og grátkór samtakanna borðliggjandi bezti grátkór landsins. LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)