21.10.2009 | 01:17
AÐ HENGJA BAKARA FYRIR SMIÐ.
Borgarahreyfingunni tókst á mettíma að sturta sjálfri sér í klósettið. Fjórir þingmenn og enginn afturkvæmt á þing. Samt voru flokkadrættir þessarar skammæju tilraunar engin ógn við almenning né þjóðarhag, í versta falli óheppilegar, í bezta falli skemmtiatriði. En fjölmiðlar gerðu þessu rækileg skil og hreyfingin tvístruð. Sumir flokkar á alþingi fagna hinsvegar fylgisaukningu. Flokkar sem komu landinu á hliðina, vaða í spillingu og frömdu landráð með aðgæsluleysi sínu. Þeim er ekki refsað heldur þvert á móti fyrirgefið og umbunað. Það eru ekki bara vegir guðs sem eru órannsakanlegir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2009 | 03:46
ÞEIR SEGJA AÐ HEIMA SÉ BEZT.
Gera má ráð fyrir að æludallurinn hafi víða verið fram dreginn á íslenzkum heimilum í dag. Búið er að skrifa undir óútfylltan víxil sem sumir líta á verðskuldaðan þjóð sem týndi sér í erfðasyndunum. En afrakstur næstu ára og jafnvel áratuga er að líkindum annarra þjóða. Enda halda viðsemjendur vart vatni fyrir ánægju og þegar búið að hnippa í gjaldeyrissjóðinn að innheimtan sé í höfn og Ísland hæft til millifærslu. Hnotskurn vandans kristallaðist ágætlega í Kastljósi kvöldsins en þar öttu kappi prímadonnur vinstursins og hægrisins. Önnur stóð ekki vaktina þegar á þurfti að halda, hin fórnarlamb í orrustu þess sem er og hins sem átti að verða. En þjóðarást sjálfstæðismanna kemur ekki bara of seint, hún er líka ósönn. Áhuginn á þeim bæ beinist ekki að fólkinu í landinu heldur sem fyrr, hagsmunahópum. Sýn flokksins í kvótamálunum nægir þessu til staðfestingar. Vinstrið hefur hinsvegar sæst á leið samfylkingar og tottar friðarpípu hennar og alþjóðasamfélagsins þrátt fyrir afgerandi yfirlýsingar um annað. Bendir afsakandi á viðskilnað fyrri ríkisstjórnar. Skiljanlega hrís fólki hugur við endurkomu fólksins sem hélt ekki vöku sinni á ögurstund en gott að halda til haga að nokkrir af því feigðarfarrými dingla enn í ríkisstjórn. Sem segir að tiltektin er skrítla. Reyndar er íslenzkt samfélag ein allsherjarskrítla, vondur djókur þar sem ekkert er í hendi og ekkert víst að heima sé bezt.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2009 | 04:15
BLESS, ÍSBJÖRG, VIÐ BORGUM ÞIG Í KYRRÞEY.
Komin er í lending í icesave. Magalending en lending samt. Eins og velflestum íslendingum finnst mér niðurstaðan vond og ósanngjörn en vona þetta verði þjóðinni áminning til framtíðar. Vonandi standast þau orð valdhafanna að nú verði hægt að demba sér í endurreisnina á fullu. Viðbrögð stjórnarandstæðinga eru að vonum en mikið eiga sumir ólært. Ísbjörgin er eins og tónlistarhúsið, minnisvarði óhóflegrar efnishyggju sem auðmenn innleiddu og skildu svo munaðarlausa eftir þjóðinni til ættleiðingar. Skuldaklafi icesave verður brátt íslenzku þjóðarinnar en karpið sem er litlu skárra, hættir þó. Bless, Ísbjörg, við borgum þig í kyrrþey.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2009 | 02:48
MANNRÉTTINDAMÁLARÁÐHERRA Á FLÓTTA.
Útrekinn mannréttindamálaráðherra hljóp hnípinn frá ráðstefnu sömu mála eftir áhrópanir nokkurra viðstaddra. Ráðamenn hafa stundum gott af berangrinum og þurfa að standa hlífarlausir andspænis þegnum sínum. Í dag var æpt: "Engin manneskja er ólögleg" sem má til sanns vegar færa, hinsvegar geta gjörningar mannskepnunnar verið ólöglegir. Góður eiginleiki er að trúa á hið góða í manneskjunni, reynslan kennir okkur þó að staldra við og gleypa ekki allt hrátt. Það er ekki skoðun heldur staðreynd að hingað sækja allar gerðir af fólki, líka einstaklingar sem hafa annað en gott í hyggju. Mansal, vændi, innbrot og eiturlyf eru vaxandi vandamál og að sögn lögreglunnar aukin ásókn erlendra glæpagengja í að koma hingað og hasla sér völl. Það er auðvelt að æpa í nafni mannréttinda en verra þegar gleymist að lög um flóttamenn eru líka lög um mannréttindi þeirra sem fyrir eru. Fólk án skilríkja eða á falspappírum er brjóstumkennanlegt en gæti líka verið eitthvað allt annað og um það snýst málið.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2009 | 03:05
LÝT HÖFÐI EN MÓTMÆLI EKKI.
Afeitrun Jónínu og megrunartilboð er nú til umtals í bloggheimum. Löngum hafa menn deilt um gagnsemi slíks og læknavísindin langt í frá upprifin. Enda ekki mikið um vísindalegar sönnur sem styðja áðurnefnd inngrip. Hinsvegar er það réttur fólks að ráðstafa fé sínu og tíma og svo lengi sem prógrömmin eru ekki að valda skaða á fólk að fá að velja og upplifa. Ýmislegt sem læknar bjóða upp á orkar líka tvímælis og er umdeilt. Lýtaaðgerðir, megrunaraðgerðir, fóstureyðingar, lyfjagjafir og bólusetningar er allt vísindalega viðurkennt en engan veginn hafið yfir gagnrýni. Yfirgnæfandi eru menn þó að reyna sitt besta. En í heimi þar sem fólk hreinlega keppist við að gera einfalda hluti flókna framkallast eftirspurn og henni verður að sinna. Sjálfur hallast ég að einfaldleikanum en komi einhver og segi við mig: "Ég var í detox hjá Jónínu Ben. og fannst það frábært", þá lýt ég kannski höfði en mótmæli ekki.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2009 | 04:01
SKATTLAGNING LÍFEYRIS.
Hugmyndir um skattlagningu lífeyris við innborgun en ekki útborgun eru að mínum dómi góð tekjuleið í harðærinu. Fyrir almenning skiptir þetta litlu og yfirfærsla peninga mestmegnis frá lífeyrissjóðunum til ríkisins sem einmitt þarf sem stendur. Að vísu fölnar hugmyndin eilítið í meðförum sjálfstæðismanna en þó ekki svo að verða óbrúkleg. Þetta, ásamt auknum veiðum, myndi létta þjóðinni róðurinn. Skil reyndar illa tregðu stjórnmálamanna að horfa á sjóinn sem bjargráð, í honum geymum við gullið og höfum alltaf gert og ef menn vilja ekki nýta góssið í þessu ófremdarástandi, hvenær þá?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2009 | 20:57
ALLIR SÁTTIR.
Eftir að hafa heyrt orðaskak framsóknarmanns og samfylkingarmanns vegna 23. september en þá ku ísbjörgin gjaldfalla og jörðin hætta að snúast verði ekkert að gert. Djúp gjá er á milli málsaðila en mín uppástunga þessi: Áhugamenn um að borga icesave stofni samtök sem hafa borgun þessara peninga að markmiði og þá geta áhugasamir skráð sig til þátttöku. Hinir geta þá haldið áfram að borga ekki. Þannig geta þeir sem vilja hlaupa undir bagga með óreiðumönnunum fengið vilja sínum framgengt og friðmælst við alþjóðasamfélagið, hinir hinsvegar staðið á sínu og haldið sínu. Allir sáttir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2009 | 02:15
ÁL EI MEIR!
Á næsta skref Íslands í orkumálum að vera ál eða eitthvað annað? Sitt sýnist hverjum en í hringiðu kreppu og atvinnuleysis eru öll störf eftirsóknarverð. Margir segja störf í áliðnaði of dýru verði keypt og illt fyrir íslendinga að beina nær öllum sínum orkuforða í mengandi stóriðju. Að auki sé okkur ekki stætt á frekari spúun eiturgufa ætlum við okkur að taka þátt í alþjóðlegum forvörnum. En hvað skal koma í staðinn? Augljósast er að veiða meira, lagfæra úrelt og þjóðarfjandsamlegt fyrirkomulag fiskveiða á Íslandsmiðum og bjarga auðlindinni strax undan hamri lánadrottna úti í heimi. Aukin veiði yrði ekki bara atvinnuskapandi á suðurnesjum heldur líka á Húsavík. Þetta nefnir hinn geðþekki bæjarstjóri suðurnesjamanna ekki og þykir mér skrítið. Útflutningur rafmagns og markaðssetning bíla sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en bensíni hljóta að vera áhugaverðir kostir þjóð sem býr yfir álíka auðlindum og við. Svíar hafa sýnt áhuga á metangasi og vindorka er ónýtt á Íslandi enn sem komið er. Sólarorka líka. Einnig gæti ylrækt notið góðs af nánd við rafmagnið. Stóriðjustefna Íslands hefur alltaf verið umdeild en nú er svo komið að hnötturinn setur okkur skorður. Því fyrr sem við sættum okkur við það, því betra. Tími álvera er liðinn.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2009 | 16:05
ÞRÍRÉTTA MÁLTÍÐ.
Samkvæmt yfirlýsingum íslenzkra ráðamanna hangir ríkisstjórnin á bláþræði. Ásakanir á hendur AGS eru farnar að heyrast úr öllum hornum, sjóðurinn sé innheimtustofnun breta og hollendinga en endurreisn Íslands sé aukaatriði. Þetta hefur reyndar verið augljóst lengi en gott að ráðamenn séu loksins farnir að viðurkenna stöðuna. Allt of mikill tími hefur farið til spillis. Kosningar nú myndu litlu breyta enda staða kjósenda lík gesta á veitingastað sem langar ekki í neitt á matseðlinum. Þrír kostir eru því í stöðunni: Þjóðstjórn, utanþingsstjórn eða bylting. Af þessari þrírétta máltíð er forrétturinn komin fram yfir síðasta söludag en reyna mætti aðalréttinn. Smakkist hann ekki er bara að skella sér á desertinn.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.10.2009 | 02:49
HVAÐ ÞÝÐIR EE?
Í snjómuggu kláraðist æfingatímabil hinnar sótsvörtu satíru um "besta heilbrigðiskerfi" í heimi. Leikritið HEILSUGÆSLAN með Elvar Loga Hannesson & Margréti Sverrisdóttur í aðalhlutverkum veitir innsýn í þennan margumtalaða velferðarstöpul sem nú skal skorinn til. Er líf ofmetið í magni en vanmetið gæðum? Hvers vegna eru laun lækna svona há? Og hvers vegna er þjóðin svona þung? Hvað þýðir EE? Leitað verður svara við þessum spurningum og fjölmörgum öðrum. Leikstýring á leiksviði er ný reynsla fyrir undirritaðan og hvað sem hver segir um afraksturinn hefur smitandi elja og galsi leikaranna yljað sálartetrinu og gamanið verið gott. Okkur, aðstandendum þessa verks, hlakkar til að leggja stykkið í dóm þjóðarinnar, fyrst vestfirðinga en síðan koll af kolli uns endað verður í þéttbýlinu. Arndælingum þökkum við samstarfið en þar verða sýningar næstu tvær helgar og hver að verða síðastur að tryggja sér miða. Minni einnig á sýningar á Patreksfirði, Hólmavík og Þingeyri í vikunni. Góða skemmtun.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)