1.10.2009 | 02:04
BROTTHVARF ÖGMUNDAR.
Ögmundur hættur. Tvær skýringar, númer eitt icesave, krafa Jóhönnu um einróma afstöðu ríkisstjórnar til þessa vandræðamáls hafi knúið Ögmund til afsagnar. Númer tvö, það sem Steingrímur ýjar að, niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu tæki ekki sízt til eigin stéttarsystkina í BSRB og það sé ráðherranum ofviða. Slagurinn um icesave í sumar bendir ekki til eftirgjafar Ögmundar, hann reis upp á afturlappirnar þá og hvers vegna ekki nú? En sem formaður BSRB til margra ára hlýtur fyrirhugaður niðurskurður heilbrigðiskerfisins að vera Ögmundi afar andstæður. Ég trúi því skýringu tvö þó ekki vilji ég alhæfa. Aðalmálið er að vinstri grænir standi í lappirnar gagnvart icesaveruglinu og láti samfylkinguna ekki kúga sig einu sinni enn. Kosti sú staðfesta líf þessarar ríkisstjórnar, þá það en okinu verður að hafna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2009 | 01:49
"EIGI LEIÐ ÞÚ OSS Í FREISTNI HELDUR HVAÐ?¨"
Siðferði þjóðar endurspeglar þroska hennar og vaxtarmöguleika. Eftir að hafa verið vitni að raðnauðgun siðferðisgilda með einkavæðingunni kviknaði sú von að lærdómur yrði af dreginn. En nei og nú hafa Námsmenn verið staðnir að því að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða námslánum, ungir sjálfstæðismenn flugu með herflokk vestur á firði til að skáka flokkssystur sem átti sér einskis ills von og kusu sinn mann að vonum, þingmaður norðurlands býr á höfuðborgarsvæðinu en skráir lögheimili í norðurþingi sem gerir honum kleift að fá dreifbýlisstyrk upp í nám barna sinna. Meira að segja hinn snaggaralegi menntamálaráðherra eyddi meira en milljón í dekurferð til Kanada. Ekki þarf neinn lækni til að sjá að þessi þjóð er helsjúk. Lækningin er sú sama og guð beitti eigin útvalda þjóð í eyðimörkinni forðum, nýr sáttmáli, ný stjórnarskrá sem inniheldur sama siðferðisboðskap og sömu viðurlög. Með ónýtan vegvísi í farteskinu komumst við ekkert áleiðis. Það sýnir sig rækilega og ekket lát á.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2009 | 01:47
ÓGAGNAVER.
Ummæli brezka forsætisráðherrans að almenningur í Bretlandi eigi ekki að borga skuldir bankanna eru athyglisverð. Skítt með íslenzkan almenning, hann má blæða. Svo heyrist samhliða að fyrirtæki í eigu einnar aðalpersónu icesave sé nú á kafi í byggingarframkvæmdum fyrir gagnaver á suðurnesjum. Gagnaver er ágætt en sé það undir formerkjum stórsvindlara er það ógagnaver.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2009 | 11:34
VINNUM ÞETTA ÞRÁTEFLI.
Allt frá byrjun hefur ríkisstjórn Jóhönnu teflt illa í icesaveskákinni og sorg að okkar fremsta fólk hafi ekki meiri innsýn en þetta. Og nú er pattstaða, alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með okkar mál í salti vegna ófrágenginna mála við skjólstæðinga sína, breta og hollendinga. Sem svo hamlar hér allri endurreisn. Þetta sýnir okkur endanlega að AGS og viðsemjendur okkar í icesave eru eitt og markmið sjóðsins hagsmunir lánadrottna en ekki íslenzks efnahagslífs. Enda fáheyrt að fá lán AGS til þess eins að borga klúbbfélögum þar innanborðs og sitja svo sjálf uppi með skuldina. Svona er refskák alþjóðasamfélagsins, græðgin söm og okkar sjálfra í útrásinni, fyrirvörum sem settir voru af alþingi er hafnað, bretar og hollendingar vilja allt, næstum allt dugir þeim ekki. Og þessi erfðasynd er okkar útleikur. Segjum einfaldlega: Bless alþjóðagjaldeyrissjóður og icesave upp á nýtt. Þá getum við gert sjálf það sem þarf að gera hér heima fyrir, lækkað vexti og sett íslenzka ríkið í greiðslustöðvun við lánadrottna, svarað í sömu mynt og þeir sjálfir. Með þessu verndum við hag íslensks almennings og uppskerum aðdáun allra frjálsborinna manna og þjóða um allan heim.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2009 | 02:09
YFIRLÝSING UM GREIÐSLUSTÖÐVUN.
Íslenzkur kaupsýslumaður, ansi skondinn, kvað sér hljóðs í Silfri dagsins. Sá taldi Íslandi allir vegir færir ef við aðeins myndum virkja markaðsbúskapinn og treysta á okkur sjálf. Meðal hugmynda hans voru 1% vextir, afnám verðtryggingar, hækka ekki skatta, semja við hollendinga og breta á viðskiptagrundvelli og hafna icesave, reka á brott alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skila öllu sem þaðan er komið, semja við álfyrirtækin að geyma hér gjaldeyri, hafna ESB, niðurleggja seðlabankann, útdeila hlutabréfum ríkisfyrirtækja á hvern einasta íslending og fangelsa útrásarkóngana, helst til lífstíðar. Hrunstjórnin og vinstri stjórnin fá falleinkunnir, að mati kaupsýslumannsins hafa hvorugar þokað okkur áleiðis. Í lok þáttar kom svo bandarískur rithöfundur sem endurtók m.a. frávísun icesave og AGS, ýtti að okkur nýjum hugmyndum um iðnaðaruppbyggingu og hvatti til þjóðarsamstöðu um slíkt. Nú hafa málsmetandi aðilar hver af öðrum varað við AGS og borgun icesave en ríkisstjórnin daufheyrist. Fari icesave aftur á núllpunkt opnar það fyrir endurskoðun og þá ættu ráðamenn að hugsa til orða bandaríska rithöfundarins sem segir að á sl. 30 árum hafi jafn í heiminum jafnmörg ríki lýst yfir greiðslustöðvun án þess að vera útskúfuð. Sé yfirlýsing þessa efnis bjargráðið á ekki að hika lengur. Lífskjör barna okkar eru í húfi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2009 | 00:39
SKERPAST NÚ LÍNUR.
Enn einu sinni veldur lífshlaup Davíðs Oddsonar fjaðrafoki og fjölmiðlaheimurinn bugaður af áhyggjum vegna ráðningar hans á blað allra landsmanna, Moggann. Vitaskuld mun innkoma Davíðs skerpa línurnar, Davíð er ekki þekktur fyrir miðjumoð. Fljótt mun koma í ljós hvaða stefnu blaðið tekur, hún gæti orðið óvænt. En hvað sem því líður, Davíð er aftur tekinn til við þjóðlífið og eftirmælin undir honum sjálfum komin. Fjölmiðlafólk sem hræðist hlutdrægni og hagsmunatengsl ætti, með alla þessa reynslu í farteskinu, að stofnsetja nýtt dagblað og sýna almenningi svart á hvítu hlutlausa fjölmiðlun. Óska ég þeim velfarnaðar í því verki og Davíð í sínu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2009 | 00:56
HVAÐ FÓR ÚRSKEIÐIS?!!!!!
Fundur um sjávarútvegsmál er boðaður á Ísafirði á morgun. Fundarboðendur eru SUS, samband ungra sjálfstæðismanna. Auglýstir ræðumenn ætla að varpa ljósi á hamfaraboðskap vinstri manna í sjávarútvegsmálum og spá fyrir um hörmungar sem honum eiga að fylgja fyrir byggðarlögin. Að detta svona fundarhald í hug á sama tíma og fiskimiðin liggja undir hömrum útlendra banka minnir á sértrúarsöfnuð sem heldur í flata jörð. Þó margt úr vinstrinu sé vont held ég að þessum hópi færi betur að líta sér nær og breyta fundarefninu í: HVAÐ FÓR ÚRSKEIÐIS?!!!!!
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2009 | 03:00
BOLTINN FARINN AÐ RÚLLA.
Boltinn er farinn að rúlla og liðirnir að ízkra í íþróttahúsinu á Torfnesi á miðvikudagskvöldum. Margt var um manninn í kvöld og iðuðu menn í sinni. Komu einhverjir langt að, þ.á.m. sveitastjóri Dalabyggðar. Ákvað hann að skella sér vestur eftir að hafa séð samverkamann sinn í Kastljósinu. Kapteininn frá Bolungarvík var einnig mættur, nú grannur og spengilegur en á máli manna mátti heyra að hann hefði verið betri feitur og öruggari á boltanum. Róður kvöldsins var þungur enda áttum við í höggi við aldarfjórðungi yngri menn, þó voru góðir sprettir og sveitarstjórinn sérlega lipur enda varið helginni í göngum. Alla Óshlíðina þráttuðu kapteininn og sveitarstjórinn um sendiráð en glöddust þegar þeir sáu æxlið út frá félagsheimili Bolungarvíkurbæjar málað rautt. Ég gat ekki skemmt þessa barnslegu gleðistund og lét ósagt að þetta væri bara grunnur og æxlið yrði málað blátt eins og önnur æxli.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2009 | 02:16
SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRA Í KASTLJÓSI:
HÖRMUNG.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2009 | 03:09
AÐKOMUHUNDUR VELDUR USLA.
Að búa undir sama þaki og hundur hefur fylgt mér megnið af minni kattatíð og mun sá síðasti eflaust veslast upp á grafarstæðinu. Eitt stykki hundur hefur hingað til dugað en nú veit ég að tvö stykki raska mjög ró barnmargra heimila, ekki sízt sé á dýrunum aldursmunur. Strax á fyrsta degi fóru spariskór og stígvél Lýðssonar og fótboltaskór elstu dótturinnar. Á öðrum degi fengu ófáanleg snuð Lýðssonar að kenna á beittum hvolpstönnunum. Eftir 3ja daginn voru allir boltar sprungnir á heimilinu. Sveitahvolpsins draumur var grútur og alla dagana þurfti að skrúbba skinnið. Fjórði dagurinn, þ.e.a.s. dagurinn í dag, byrjaði með úthlaupi. Úthlaupi af gáleysi. Sá gamli heimsótti vinkonu ofar í bænum en hvolpurinn fór í skólann. Báðir dólgarnir voru handsamaðir en svo virtist að farir annars eða beggja hafi ekki verið sléttar. Tveir einkennisklæddir lögreglumenn sem stikuðu að húsinu báru því vitni. Í skyndingu þustum við krakkarnir með dýrin upp á loft og héldum tröntunum saman svo engu yrði lógað. Lögreglumennirnir sinntu sínum embættiserindum af natni og náðu loks tali af frúnni, tjáðu henni að hvolpurinn hefði valdið usla og lagt nemendur í einelti. Þar sem dýrið var í minni umsjá bið ég þessa forláts og upplýsi í leiðinni að rakkinn er farinn aftur í sveitina. Því ætti morgundagurinn að geta gengið sinn vana gang í Bolungarvík, raskaður af engu nema kvótakerfinu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)