HEILBRIGÐISRÁÐHERRAR Í SANDKASSA.

Heilbrigðisráðherra og fyrrverandi heilbrigðisráðherra áttust við í Kastljósi kvöldsins.  Umræðuefnið átti að vera niðurskurður heilbrigðiskerfisins.  Skiptust ráðherrarnir á skotum og kváðust báðir betri.  Þó af nógu sé að taka hef ég sjaldan heyrt eins arfaslappa umræðu og lítt upplýsandi.  Þó allir viti að heilbrigðiskerfið, menntakerfið og stjórnsýslan sé að sligast undan launakostnaði er alltaf verið að tala um tilfærslur og skipulagsbreytingar.  Eini raunhæfi kosturinn er að fá fólk til vinnu sem sættir sig við minna.  Þetta er hinsvegar aldrei rætt.  Meðan stjórnmálamenn fara í endalausa hringi gerist ekkert og niðurstaðan tímaeyðsla.  Eins og Kastljós kvöldsins.

LÁ 


HRIKTIR Í VELFERÐINNI.

Örlög  hins hafnfirzka St. Jósefsspítala eru nú í uppnámi.  Sem er slæmt því sjúkrahúsið er lítið og huggulegt, göngudeildin afkastamikil og þjónustan afbragð.  Vandinn er hve dýr hún er.  Séu laun lækna skoðuð er augljóst að skerfurinn sem þeir taka er stór.  Algengar launatölur sérfræðinga eru 15 hundruð þúsund og hærri.   Fyrirhugaðar uppsagnir og skerðing þjónustu er því væntanlega vegna tregðu lækna að minnka sinn hlut.  Sömu sögu má segja um tannréttingar, þar eru viðvikin hátt verðlögð og illskiljanleg venjulegu launafólki.  Að maður tali nú ekki um skilanefndirnar.  Einhvernveginn hefði maður haldið að svona árferði réttlætti hófstillingu launa.  Nú þarf Ögmundur að koma beint fram og tilkynna læknum óumflýjanlega tekjuskerðingu og þá er aldrei að vita nema allir verði menn að meiri.


TÚPÍLAKAR Í EINARSHÚSI.

Borgarahreyfingin sem stofnuð var til höfuðs spillingu og flokksræði íslenzks samfélags hefur svo sannlega fengið að kenna á mannlegum breyzkleika.  Einn tók listamannalaunin með inn á þing og nú hafa hinir þingmennirnir þrír sagt skilið við upprunann en réttlæta áframsetu sína á alþingi með nýrri kennitölu.  Kennitöluflakkið sem grefur hratt undan samfélaginu er nú líka þeirra skjól.  Sorglegur endir á nýrri von og sóun á framtíðarmöguleikum.  Arfleifð borgarahreyfingarinnar er líka sorgleg og algerlega andstæð hugsjóninni, styrking flokksræðis og þar með spillingar.  Þessi umpólun slær við umpólun Steingríms frá því vetur og er þá mikið sagt.  Annars virðist uppnám í aðsigi á stjórnarheimilinu, icesavefyrirvarar runnu ekki eins ljúflega niður í viðsemjendurna og vonir stóðu til.  Ríkisstjórnin mun þurfa að treysta á eigin meirihluta til að knýja fram þessa umdeildu ríkisábyrgð og þverpólitísk sátt fyrir bí.  Ekki þarf flinka reiknimeistara til að sjá að skuldin er þjóðinni ofviða.  Þessu máli verður því að finna nýjan farveg eigi ekki illa að fara.  Ríkisstjórnina skortir kjark, stjórnarandstaðan er óstjórntæk og manni verður illt af að heyra sjálfstæðismenn tala eins og þeir viti hvað gera skuli.  Sé sú vitneskja til staðar hefði henni betur verið beitt í aðdraganda hruns.  Flóttaleiðin út úr þessu pólitíska súrmeti var að skreppa í Einarshús í Bolungarvík og hlusta á hina þingeysku Túpílaka sem komu öllu niður á jörðina með frábærri músik og hnittinni framsetningu á því eina sem skiptir máli:  Éta, sofa, drekka, ríða og drepast svo þegar þörfinni er fullnægt.  Sem vonandi verður aldrei.

LÁ  


12. SEPTEMBER.

Dagurinn var sprenging.  Tók daginn snemma og mætti í myndatöku.  Var réttu megin við linsuna en fylgdist með leikurum klæðast ýmsum gervum og pósa.  Tilefnið er kynningarmynd fyrir væntanlegt leikrit sem sett verður upp innan skamms.   Leikritið fjallar um besta heilbrigðiskerfi í heimi sem við þurfum nú að fórna vegna bankarána og sjálftöku nokkurra dáðadrengja.   Myndirnar lofa góðu og munu birtast á næstu dögum.  Næst var haldið í barnaafmæli og þaðan fylgst með kindum koma af fjalli ásamt kaffidrykkju.   Rollurnar jörmuðu ákaft í réttunum og áttu ungir sem aldnir  góða stund.  Krabbasúpa, sérlega ljúffeng, var síðan sötruð í Einarshúsi og eftirrétturinn, Ylfa Mist, fór ákaflega vel í maga.  Sprundin las upp úr 100 ára gamalli kossabók og ljóst að í þeim efnum hefur afturför orðið mikil.   Nú ryðst Svarti-Pétur bara beint inn og ekkert kjaftæði.   Á morgun er svo hvíldardagur og ætla ég, aldrei þessu vant, að halda hann heilagan.


SJÓNHVERFINGAR FJÁRMÁLAGEIRANS.

Þeirri list Jóna og Gunna að bæta eHF aftan við nöfn sín hefur heldur betur lífgað við féþúfur sem áður voru lífvana.   Fólk gengur berserksgang í peningamálum, lætur svo haminn falla og byrjar upp á nýtt.  Eigendur bankanna fundu ekki nýjar lánaveitur heldur lánuðu sama féð margsinnis.  Lántakendur, þ.e.a.s almenningur, borga til baka í eigin margfeldi þessa einu, sömu, margnota upphæð.   Minnir á kjúklingabóndann sem seldi 500 kjúklinga sem 500.000 með því að reka þá út að framanverðu, í hálfhring, inn að aftanverðu og aftur út að framan.  Lögmenn hafa þó lítinn áhuga á sjónhverfingum fjármálageirans.  Þeirra ær og kýr eru leki lánabóka og ærumeiðingar í bloggheimum.  Þessi úrkynjun samfélagsins breiðist hratt út, auknar gripdeildir er önnur birtingarmynd.   Á hverjum degi kikna svo heiðvirðir borgarar undan skuldabyrðinni og hætta að borga.  Skilaboðin eru líka öll á þann hátt að heiðarleiki sé bara fyrir fífl.  Ríkisstjórnin lætur þjóðina blæða efnahagslega og siðferðilega fyrir ranga forgangsröð og vetur að ganga í garð.  Ekki kæmi á óvart þó kveiktir yrðu nýjir bálkestir á Austurvelli í norðannepjunni.  

LÁ 


EIRÍKUR FINNUR SIG.

Hvernig getur 120 milljarða umleitan týnst í ráðuneyti og það vegna stjórnarskipta?  Þó einn ráðherra afsali sér lyklavöldum og annar taki við getur það eitt og sér varla afmáð allar skráningar?  Steingrímur sýnir  þó þá viðleitni að boða til fundar um málið.  Umboðsmaður japanana kveðst reyndar búinn að ítreka áhuga japananna en engar undirtektir fengið  sem bendir til misbrests í boðleiðum innan þessa lykilráðuneytis.  Það skyldi þó ekki vera að Steingrímur eigi sér óvildarmenn í eigin húsum?  Allavega er þetta mál allt hið furðulegasta.  Góðu fréttir dagsins eru hugsanlegt framboð Eiríks Finns Greipssonar á Flateyri til bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ í komandi sveitastjórnarkosningum.  Eftir nokkurra ára veru í sama bæ og æ með myndavél á lofti hef ég gott tangarhald á þessum dásamlega manni.   Megi Eiríkur fara fram og hljóta dúndrandi kosningu, engu skiptir fyrir hvaða flokk.  Maður sem grætur þegar hann sturtar niður er í sérflokki.

LÁ   


MILLI SKIPS OG BRYGGJU.

Ákvarðanir eru yfirleitt markaðar rökum, misgóðum en einhverjum þó.  Atbeini stjórnmálanna virðist þó undanþeginn þessu og næsum ógerningur að sjá fyrir hvaða stefna er tekin næst.  Í dag fréttist af japönum sem vildu þegar í nóvember dæla hingað inn peningum, kaupa einn hrunbankanna og reisa gufuaflsvirkjun.   Samkvæmt talsmanni þeirra var erindinu ekki svarað af þáverandi fjármálaráðherra né núverandi þrátt fyrir ítrekanir.   Sá sem enn situr segir erindið hafa lent á milli skips og bryggju og ekkert í  hans kolli um málið.  Hefur ráðuneytisfólk leynt hann þessu Japansbréfi eða eru hagsmunaaðilar að verki, eina ferðina enn.  Kannski fréttin um þessa umleitan Japanana sé uppspuni en eftir því hljóta fjölmiðlar nú að leita.   Almenningur er hættur að botna í þessari endaleysu allri sem gengur þvert á allt vit, rökhugsun og flokkslínur.   Best væri að taka alþingishúsið upp með rótum, hvolfa því og hella síðan hratinu.   Stjórnmálamenn á Íslandi sitja í horni kringlótts herbergis og fólkið sem kaus þá fyrir ofan garð og neðan.


MÚKKA BJARGAÐ TIL HAFS.

Letin kom að góðum notum í dag.  Mávsunga bar niður á túnflöt heilsugæslunnar og uppi fótur og fit hjá ungviðinu.  Skaut unginn ælunni á björgunarfólkið og varnaði mjög aðkomu.  Lýðsson var sérlega aðgangsharður enda sólginn í lýsi.  Rauðhausinn í hópnum kvakaði um pappakassa en sá hvergi í sjónmáli.  Var það krökkunum á endanum til happs og fuglinum til lífs að undirritaður hafði trassað öskuhaugaferð og bílskottið því úttroðið af kössum í stærðum og gerðum.  Þannig var múkkinn vængsamaður og borinn til hafs.   Eflaust vaggar hann nú alsæll einhversstaðar í haffleti. 


RÍKISSTJÓRNIN HIRÐFÍFL RÁÐGJAFANS.

Þetta er skrítin stjórn.   Vangaveltur um að hinn margumtalaði bandaríski hagfræðiprófessor gegni ráðgjafahlutverki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er fagnaðarefni fyrir þjóðina enda hugmyndir hans í hróplegri andstöðu við stefnu stjórnvalda.  Hann átelur okkur fyrir að treysta ekki krónunni, hann átelur okkur fyrir að losa okkur ekki undan alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hann átelur okkur fyrir lántökur sem ekki skal nota, hann átelur okkur fyrir ónóga tiltekt í stjórnkerfinu, hann átelur okkur fyrir linkind í garð útrásarplebbanna, hann átelur okkur fyrir undanlátsemi varðandi icesave og hann átelur okkur fyrir að trúa stanslausum hræðsluáróðri úr öllum áttum.  Fari ríkisstjórnin að hans ráðum þarf hún að kyngja greipaldini en hvað gera stjórnmálamenn ekki fyrir þjóð sína?

LÁ 


SILFRIÐ FER VEL AF STAÐ.

Hagfræðingurinn Stieglitz átti fyrsta Silfur vetrarins, einnig var Jón Daníelsson með sömu menntun spakur.  Samt voru þeir ósammála í nokkrum grundvallaratriðum og bar gjaldeyrishöftin hæst.   Báðir færðu þó prýðis rök fyrir sínu.  Stieglitz taldi lítil hagkerfi þurfa sveigjanleika og hrósaði krónunni, taldi evruna af og frá og í máli hans skein í gegn vantrú á ESB.   Jafnframt lýsti hann frati á almenna afskriftarleið og skýrði vel.  Einnig átaldi hann að sama fólkið sem hannaði hrunslóðann skuli enn þar statt og veita umsagnir til hægri og vinstri.  Magnaður hagfræðingur þarna á ferð og á Egill þökk skilið að traktera þjóðina með slíkum fagmanni, reyndar ekki í fyrsta sinn.  Af þeim sex gestum sem fram komu voru þau tvö sem sitja á alþingi sýnu slöppust, málflutningurinn þvældur og máttlaus.   Kannski líking Stieglitz um pípulagningarmanninn fari nærri um orsökina en í henni er átalið að þegar pípulögn springur sé sami pípulagningarmaður sendur til viðgerða því sá mun aldrei viðurkenna að hafa ekki vandað til verksins og alltaf kenna öðru um.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband