ÆRSLADRAUGUR SJÁLFSTÆÐISMANNA.

Í dag, 28. ágúst 2009, samþykkti ríkisstjórn Íslands og meirihluti alþingis margumtalaða ríkisábyrgð á icesave.   Margir telja að með þessari samþykkt sé ærsladraugur sjálfstæðisflokks frá fyrri ríkisstjórn loks niður kveðinn.   Steingrímur segist með samþykktinni vera að moka skít og sjálfstæðismenn skilja ekki föðurlandssvikin.  Fingraförum samfylkingar er vandlega frá haldið og liðsmenn hennar sakleysið uppmálað.  En viðbrögð breta og hollendinga gætu hæglega verið þau að báðar þjóðirnar segi búið að semja og hnoð alþingis breyta engu.  Og þá mun ærsladraugur sjálfstæðismanna  upp rísa enn á ný, illvígari en nokkru sinni.   Sumarfrí þingmanna gæti því orðið endasleppt. 


REFSKÁK.

Í darraðadansi bankahrunsins ákváðu stjórnvöld að ábyrgjast íslenka innistæðueigendur að fullu og skapa þannig misræmi á milli þeirra og útlendra innistæðueigenda.  Hvers vegna var þetta gert?  Ráðamönnum hlaut að vera ljós hættan á lögsóknum vegna þessa ójafnaðar fyrir utan þá klárlegu fjárhagslegu óvissu sem verið var að gangast undir.  Í þessum suðupunkti hefur þrýstingur hérlendra fjármagnseigenda vitanlega verið mikill, sérlega þeirra umsvifamestu, og stjórnvöld stóðust ekki áhlaupið.   Enda samgangur stjórnmálamanna og viðskiptalífs of mikill þá sem nú.  Og þessi samgangur hefur ugglaust gert að verkum að þjóðarhagur var fyrir borð borinn og viðskiptajöfranir hafðir í forgangi.   Auðsveipni sjálfstæðismanna varðandi ríkisábyrgð á óreiðu landsbankans í Bretlandi og Hollandi vekur upp sömu spurningar.  Afhverju ættu þeir að ganga annarra erinda nú en síðasta haust, er þetta ekki að megninu til sama fólkið? 


Á AÐ ENDURTAKA MISTÖK JÓHÖNNU & STEINGRÍMS?

Nú stendur yfir lokahnykkur umfjöllunar icesave og settur inn nýr fyrirvari um að fyrirvarar skuli bornir undir viðsemjendur til samþykktar.  Sýnir auðvitað óheilindi málsins í hnotskurn en annað stingur einnig í augu.  Ætlar þing að samþykkja ríkisábyrgðina án þess að bera nýjan samning fyrst undir breta og hollendinga?  Á að endurtaka fyrri mistök og forgangsröð Jóhönnu og Steingríms?  Samþykkt þings er bindandi og hvað ætla þingmenn að gera samþykki bretar og hollendingar ekki fyrirvarana?   Sem hlýtur að vera eins líklegt þar eð þeir voru ekki þátttakendur í þessu hnoði.  Ennfremur geta þessar þjóðir litið á samþykkt þingsins sem samþykkt á "gamla samningnum" og hvað þá?  Hverju myndi íslenzk þjóð tapa með því að senda samninginn til yfirferðar breta og hollendinga og þingheim í sumarfrí á meðan?   Ávinningurinn finnst mér að minnsta kosti augljós.


ÓÆSKILEG FAÐMLÖG.

Seint gengur þingmönnum að tileinka sér þá gullnu reglu að of náin tengsl við viðskiptalífið eða bein þátttaka sé varhugaverð.  Best væri að þingmenn tækju aldrei fyrsta sopann í þessum efnum.  Telji menn þetta óþarfa áhyggjur er vert að hafa í huga faðmlög þingheims og viðskiptalífs í aðdraganda bankahrunsins.   Vona þingmenn fari nú að segja satt og fyrirbyggja vandræðalegar uppákomur.    

LÁ 


KÚBA NORÐURSINS.

Framganga alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hlutverk hans í efnahagslegri uppbyggingu var gerð skil í heimildarmynd sem sýnd var í ríkissjónvarpinu eftir að flestir landsmenn voru gengnir til náða.   Þar kom fram fyrrum starfsmaður sjóðsins og kvað tilganginn þann að draga úr lánsþjóðunum mátt og gera þær fjárhagslega háðar fjármagnseigendum um allan heim.  Og ef þess þyrfti væri stjórnmálamönnum einfaldlega mútað til að ganga sjóðnum á hönd.   Af tilburðum sjóðsins hér á Íslandi og áhrifavöldum innan hans, breta og holllendinga, er ábyrgðarlaust að afskrifa ofangreind knésetningarrök.   Ekki skín í neina sanngirni í icesavemálinu né tilslakanir, vaxtastigið miklu hærra en það sem t.d. er tilgreint í tilboði MAGMA Í orkuveituna, ekkert tillit tekið til hryðjuverkalaganna, engu skeytt um greiðslugetu ríkissjóðs  né óvissu um endurheimtur eigna.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spennir hér upp stýrivexti, frestar lánagreiðslum og alþjóðasamfélagið, ESB, leggur líka sitt af mörkum til fjársveltis íslendinga uns ljóst þyki að þjóðin undirgangist skuldbindingar sem hún rís ekki undir.  Hvers vegna "svokallaðir vinir" eða hið "siðmenntaða alþjóðasamfélag" sýni lítilli eyþjóð þvílíka óbilgirni hlýtur að beina sjónum að upphafi þessa pistils, þ.e. að tilgangurinn sem fyrir þeim vakir sé að svipta Ísland fjárhagslegu sjálfstæði.  Og þjóð í greiðsluþroti er engu betur sett en einstaklingar í sömu stöðu, gengið verður á eignirnar, í okkar tilviki framtíðatryggingu barnanna okkar, auðlindirnar.  Hættan á einkavæðingu þeirra og sölu er raunveruleg þó öðru sé fram haldið.   Margir segja samvinnu við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, breta, hollendinga og ESB nauðsynlega, að öðrum kosti verðum við Kúba norðursins.  Fyrir mína parta er það miklu betri kostur en að undirgangast þá ánauð og þrælakistu sem hið svokallaða "alþjóðasamfélag" er að bjóða okkur upp á.   Og sé það yfirlýstur vilji vinstri grænna að auðlindir landsins séu í þjóðareigu ættu þingmenn þar á bæ að íhuga varnaðarorð formannsins frá því í vetur.


ASNAR SAMFYLKINGARINNAR.

Eindreginn ásetningur ríkisstjórnarinnar í að viðurkenna ríkisábyrgð á icesave-skuldunum þrátt fyrir ábendingar um alvarlega annmarka og mikla óvissu.    Leikmenn horfa upp á misvísandi yfirlýsingar þingmanna um ágæti fyrirvara sem búið er að setja í samninginn.  Augljóst er að ríkistjórnarflokkarnir vilja ekki styggja viðsemjendur og í þeirri viðleitni er öllum aðfinnslum vísað á bug.  Til dæmis telja talsmenn ríkisstjórnarinnar 5% vexti ásættanlega en í samningstilboði kanadíska orkufyrirtækisins MAGMA til orkuveitunnar eru vextirnir aðeins 1,5%.  Ratljós samfylkingar er leynt og ljóst ESB og gangi það eftir munum við eflaust sjá marga liðsmenn hennar hreiðra um sig í regluverkinu í Brussel.  Afstaða vinstri grænna er hinsvegar illskiljanlegri.  Skoðanir formannsins á veturnóttum hafa algerlega koðnað niður, svo mjög að umskipting pólitískt skýrir ekki þá kúvendingu.   En sé það metnaðarmál vinstri grænna að vera asnar samfylkingarinnar er þeim að takast það bærilega.

LÁ  


ÞURSAFLOKKINN Á ÞING.

Við eltumst við sauðaþjófa en látum bankaræningja eiga sig, kvað snillingurinn Egill Ólafsson áður en Þursarnir létu vaða á sviðinu í Hljómskálagarðinum í kvöld.  Matarbakki Þursanna er einn sá kræsilegasti í íslenzkri tónlistarsögu bæði hvað tóna og texta varðar.  Megi grúppan lifa lengi enn.  Frá Hljómskálagarðinum var haldið í humar, dásamlegt gúmmelaði sem varla er hægt að skila.   Yfir skeljunum var Ísbjörgin rædd og kom til orðaskipta milli mín og sessunautanna á vinstri kantinum,  vík á milli vina sem seint verður brúuð.  Flugeldasýningar ásamt gleðigöngum eru orðnar helstu sameiningarstundir þjóðarinnar og sprengjur kvöldsins sætti það sem enn stóð út af borði.  Annars er manni að verða ljóst að pólitískar umræður vekja æ minni hrifningu, sem er slæmt á tímum sem þessum, en kannski ástæðan sé sú að leitin að sannleikanum vegi minna en flokkshollusta.  Spurði enda í leigubílnum hvað væri hægri og hvað væri vinstri og ekki stóð á svörum.  Hinsvegar þegar spurt var hvað væri upp og hvað væri niður kom ekkert.   Grímur var þá reyndar farinn.   En nú vil ég Þursaflokkinn á þing.

LÁ  


RÉTTUM VIÐ, KRÓNURASKATIÐ.

Krónan liggur undir miklum ámælum og kannski ekki að furða.  Hversu mörg núll hafa verið skafin af ræflinum síðan lýðveldistofnun veit ég ei en þau eru þó nokkur.   Sem segir okkur að fjármálastjórn hefur oft og einatt verið í molum.   En þó fólk dreymi um nýjan gjaldmiðil myndu margir hiksta ef til kæmi.  Gengisskráningin hér heima er kolröng, það sést best á tregðu útflytjenda að koma hingað með gjaldeyri.  Fái menn helmingi fleiri krónur með því að skipta þeim utanlands er þetta skiljanlegt þó ekki hjálpi það heildinni.   En þyrfti maður að borga 400 krónur fyrir eina evru er kannski hyggilegra að bíða og reyna að rétta við ræfilinn.  Og til þess eru nokkur ráð.  Eitt er skattlagning jöklabréfa þannig að ætli eigendur að leysa þau út gjaldi þeir skatt, helst nógu háan til fráfælingar.  Svínarí, kannski en nú er nauð.   Annað sem styrkja myndi gengið er að veiða meiri fisk og auka gjaldeyristekjur okkar þannig.  Samhliða tryggja heimkomu þessara peninga.   Kreppan mun líka stuðla að styrkingu krónunnar því henni fylgir sjálfkrafa aðhald, meiri sparnaður og minni innflutningur.   Þriðji punkturinn er að hætta úrtölum í garð krónunnar.  Erfitt er að ætla utanaðkomandi aðilum trú sem við höfum ekki sjálf.  Höfum hugfast, hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá mun krónan ríkja hér enn um sinn.   Það er allra hagur að hún styrkist, ekki sízt ef henni skal skipt.   Hættum því þessu einelti og hlaupum með greyinu síðasta spölinn. 

LÁ  


NÚ MUN HRÓÐURINN VAXA.

Andstaða alþingis gegn icesave og innleiðing sjálfsagðra og réttlátra viðbótarákvæða mun auka hróður okkar á erlendri grund.  Þjóð sem ver eigin þegna gegn of miklu skuldaálagi, hafnar skilyrðislausum kröfum lánardrottna og forgangi en lýsir þó yfir ábyrgð hlýtur að áskotnast virðing alþjóðasamfélagsins, ekki sízt smærri þjóða.   Íslenzkir ráðamenn ættu ennfremur að benda bretum og holllendingum á sameiginlega hagsmuni varðandi endurheimtur og samstarf þjóðanna þriggja á þeim grunni.   Óreiðumennirnir sjálfir, eigur þeirra og viðskipti, eru hin réttu skotmörk og eðlilegt og sjálfsagt að plægja þann akur áður en gengið er á annað.

LÁ 


VONANDI HEFUR BJARNI LÖG AÐ MÆLA.

Samkomulag um Ísbjörgu virðst í höfn, ósáttir græningjar eru sáttir, sjallarnir sömuleiðis en ekki framsókn.  Sjálfur aðhyllist ég sjónarmið framsóknar og tel lagalegan grundvöll skuldanna verða að liggja fyrir.  Einnig tel ég þjóna hagsmunum allra samningsaðila að kortleggja eignir Landsbankans og eyða þeirri óvissu áðuren skrifað er undir samning.  Það þætti flestum sjálfsögð kurteisi, ekki sízt í máli sem þessu.  Skil engu að síður þá sýn stjórnarliða að bjarga lífi eigin stjórnar og vilja halda áfram sínu verki.  Sjálfstæðismenn skynja væntanlega hlut sinn í þessu ævintýri öllu og einnig að staða þeirra í stjórnmálum er áþekk ónýtum gjaldmiðli.  En eigi formaður flokksins kollgátuna og þessi útkoma reki breta og holllendinga aftur að samningaborðinu má þjóðin vel  við una.  Þessi útkoma afhjúpar hinsvegar dómgreindarbrest forvígismanna ríkisstjórnarinnar og ranga kortlagningu, því miður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband