14.8.2009 | 05:27
TÍMI JÓHÖNNU.
Berast nú tíðindi úr gráa húsinu við Austurvöll að Ísbjargarpakkinn sé nú fullræddur og samkomulag um fyrirvara í höfn. Forsætisráðherra kveður þessa nýju ábót innan samningsrammans sem væntanlega þýðir á mannamáli að hún muni ekki raska ró viðsemjendanna. Sem hlýtur að jafngilda því að aðeins sé um orðalagsbreytingar að ræða sem engu raski efnislega. Og ætli þeir vinstri grænu sem þó sýnt hafa manndóm gegn þessum háðungarsamningi að taka þátt í slíkum leikþætti til bjargar ríkisstjórninni er litlu til að dreifa. Annaðhvort fer hér allt í bál og brand eða fólk hverfur af landi brott. Ekki skil ég hví ríkisstjórnarflokkarnir óttist svo mjög að semja upp á nýtt og telji umorðalaust samþykki slíks skuldabagga styrkja íslenzkt efnahagslíf. Fyrir utan óréttlætið gagnvart þegnunum að ætla þeim svo þungan dóm fyrir annarra sök. Ég harma þessa afstöðu samlanda minna að skipa sér í flokk með öflum sem vilja níða þjóðina og troða henni í svaðið. Ég harma að fólk sem svona hugsar hafi hér tögl og hagldir og ég harma mistök fyrirrennaranna sem mörkuðu þessa heljarslóð. Tími Jóhönnu er þeirra sök.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.8.2009 | 03:45
NÆTURRÖLT Í HAFNARFIRÐI.
Hrökk við um miðja nótt þegar frúin arkaði fram með Lýðsson milli handa og kvað snáðann kominn með barkabólgu. Eins og sönnum sjúkdómafræðingum sæmir kýttum við um sjúkdómsgreininguna og mín skoðun að botnlanginn væri bólginn eins og í föðurnum nýlega. Sú gamla var hörð á sínu og málamiðlun mín um svínaflensu snarlega slegin af borðinu. Á meðan á karpinu stóð versnaði Lýðssyni og var ákveðið að fara í gönguferð, hafnfirzk næturkyrrð þykir góð við bólgum, næst á eftir vestfirzku fjallalofti. Haustanganin var teyguð ótæpilega af hundinum sem svelgdist á af öllu þessu ilmríki. En friður fyllti okkur hjónin og sættist ég barkabólguna og hún á botnlangabólguna. Við heimkomuna voru öll mein farin og Lýðsson farinn að leika á alls oddi. Held að Steingrímur og Jóhanna ættu að bjóða Jan Peter(forsætisráðherra Holllands) & Brown (Englands) á næturrölt í Hafnarfirði og fá þá kumpána til að gleyma Ísbjörginni í eitt skipti fyrir öll.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2009 | 05:20
DRAUMUR SAMFYLKINGAR BÚINN?
Misvísandi skilaboð stjórnmálamanna, hagfræðinga, lögfræðinga, evrópuspekúlanta og ekki-evrópuspekúlanta dynja á þessari ekkisens þjóð og hljóta ein og sér að reka héðan burtu nokkrar prósentur. Af ósætti þingmanna er augljóst að Ísbjörgin er óborgandi og hjartanlega er ég sammála framsóknarmanninum norðlenzka að heiðarlegast sé að tilkynna bretum og holllendingum að alþingi íslendinga hafni þessum samningi og semja verði að nýju. Auðvitað er það áfellisdómur yfir Jóhönnu og Steingrími, nánast frágangssök, en þjóðin verður að teljast meira virði en tvíeykið, jafnvel þó litlu muni. En höfnun Ísbjargar dregur á eftir sér annan dilk, þann að evrópuleiðangur samfylkingar er úr sögunni. Fagna því margir en varla Vilhjálmur Egilsson, málsvari atvinnulífsins, sem átelur hagfræðinga sem telja lánaþörf íslendinga ofmetna. Erfitt er þó að sjá aukna skuldasöfnun auka lánshæfismat þjóðar, jafnvel þó íslenzk sé. Svo er spurningin hvort ekki sé hagstæðast fyrir Ísland, þurfi það fjármagn, að fá lánað úr lífeyrissjóðunum í íslenzkri mynt. En kannski dettur engum í hug að þjóð geti lánað sér sjálf. Bestur er þó Bertelson sem segir fyrr frjósa í víti en hann skipti um flokk. Það hefur kannski blásið soldið á grillinu þegar listamaðurinn yfirgaf framsóknarflokkinn?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.8.2009 | 17:13
SAGNABRUNNAR.
Hagfræðispekúlant að nafni Sibert segir Ísland of lítið til að virka sem þjóðríki. Týnir til ýmislegt og margt af því augljóst og rétt. Fyrir leikmenn er ágætt að rýna í söguna. Þar er allt litrófið, stór ríki og fjölmenn, stór ríki og fámenn, lítil ríki og fjölmenn, lítil ríki og fámenn. Allt hefur þetta gengið sæmilega en auðvitað kostir og gallar í öllu. Ísland er fámennt, afskekkt og að mörgu leyti einangrað. Fákeppni og þrönghagsmunir hafa hamlað mjög þroska og velferð samfélagsins, samgangur stjórnmálamanna og atvinnulífs verið allt of náinn og fært brennidepilinn frá heildarhagsmunum. Verkferlar lýðræðisins hafa reynst máttvana til að skipta út fólki og mannvalið líka takmarkað. Spurningin er hvort þjóðin telji þetta samt skárra borð en áhættan sem felst í afsali sjálfstjórnar, alveg eða að hluta. Þegar öllu er á botninn hvolft segir enginn spekúlant það sama, þegar einn galar já, galar annar nei og sá þriðji kannski, kannski, kannski. Því er sagan oft og einatt besti brunnurinn að sækja í.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2009 | 03:54
AÐHLÁTURSEFNI Á ALÞJÓÐAVETTVANGI.
Eflaust þekkja flestir foreldrar af eigin reynslu einhliða ákvarðanir barna sinna sem tilkynna gistingu, gæludýr eða bíóferð án þess að spyrja kóng né prest. Þannig er þjóðinni nú stillt upp við vegg af bretum sem segja búið að semja um icesave og alþingi eigi bara að segja: Já, vér lútum öll. Sem betur fer virðist þó ríkja einhugur á meðal alþingismanna að samninginn sé ekki hægt að samþykkja fyrirvaralaust. Því má búast við brjáluðum bretum á næstunni og enn eitt íslenzkt ráðherrasett verður aðhlátursefni á alþjóðavettvangi. Hvenær ætlar ráðamönnum hér að lærast þingræðisreglan?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2009 | 03:25
LÁN SEM EKKI SKAL NOTA.
Loksins eru málsmetandi menn farnir að spá í lánsþörf Íslands, til hvers lánin séu og hversu mikilvæg. Þórlindur Kjartansson og Jón Steinsson, hagfræðingur, ámálga einmitt þessi atriði og deila á forgangsröð íslenzkra stjórnvalda hvað þetta varðar. Sé lánsþörf íslendinga ekki svona brýn, væri þá ekki betra að einbeita sér að atvinnulífinu, koma því í gang. Við eigum hiklaust að nýta okkur lágt gengi krónunnar og sækja stífar í fiskveiðiauðlindina næstu tvö árin a.m.k. Með því að banna togveiðar innan 50 mílna og auka kvóta króka- og handfærbáta í 100.000 þúsund tonn væri hægt að ná í gjaldeyri og blása lífi í byggðirnar. Á svona óvissutímum eigum við að beina sjónum að styrkleikum okkar og hætta úrtölum um ónýta krónu, einangrun og vinaleysi. Svoleiðis tal hvorki hjálpar né réttir.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 03:31
BORGARAHREYFING Í VANDA.
Þjóðin átti að fara á þing með Borgarahreyfingunni. Það tókst og þingmenn flokksins verið í mörgu ferskir. Þremur þingmönnum af fjórum hefur þó verið legið á hálsi andstaða gegn ESB-aðild sem stríðir gegn yfirlýstri stefnu flokksins. Öll hafa þó gert grein fyrir skoðanaskiptunum og fært fyrir þeim haldbær rök. Útafstandandi þingmaður flokksins hefur haft í frammi stórorðar yfirlýsingar vegna þessarar afstöðu flokkssystkinanna og með þeim laskað framboðið að óþörfu. Dvelur þessi sami þingmaður við grundvallarstefnu hreyfingarinnar og telur hana ófrávíkjanlega en leyfir sér þó þann tvískinnung að þiggja listamannalaun samhliða þingfararkaupi. Eðlilega vill grasrótin uppræta þennan ágreining og boðaði því til fundar í kvöld. Enginn þingmannanna mætti. Ætlar Borgarahreyfingin, eftir aðeins nokkurra vikna líf sem þingflokkur, að feta í slóð Frjálslynda flokksins sáluga sem á sínum tíma stóð fyrir opnu marki en hitti ekki boltann? Nú reynir á kænsku formannsins og vona ég innilega að honum lánist að rétta við ásýnd hreyfingarinnar áður en það er of seint.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 03:09
KRINGLÓTT HERBERGI.
Í fréttum sjónvarps í kvöld kom fram að einn kröfuhafi gömlu bankanna heimti 600 milljónir vegna vangoldinna launa fyrir forstjórastarf í Straumi-Burðarás. Ótrúlegt hvað þessum pésum tekst að koma sér fyrir í hornum kringlóttra herbergja.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 03:03
STEINGRÍMUR Í KASTLJÓSINU.
Steingrímur vék sér fimlega undan spurningum fréttamanns í Kastljósinu í kvöld og varp ábyrgð icesave á fyrri ríkisstjórn samfylkingar og sjálfstæðisflokks. Reyndar réttilega en ráðherrann er þó í klemmu vegna eigin undirritunar á icesavesamningnum sem gerir honum illa kleift að gagnrýna þetta mjög svo umdeilanlega plagg. Annað atriði, að fyrirvarar komi aðeins "hugsanlega" til umræðu við viðsemjendur, hlýtur að vera fleipur af hálfu formannsins. Verði fyrirvarar eitthvað í líkingu við það sem fram hefur komið kollvarpar það samningnum og Steingrími hlýtur að vera það ljóst. Í samantekt má segja að icesavesamningurinn átti aldrei að fara undirskrifaður til þingsins og sú yfirsjón á eftir að draga dilk á eftir sér.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.8.2009 | 02:17
EVU JOLY Í NÆSTU SAMNINGANEFND!
Þingheimur virðist vera kominn á þá niðurstöðu að samningur Svavars Gestssonar við breta og holllendinga sé óásættanlegur fyrir íslendinga. Um leið og ég fagna þessari niðurstöðu fer um mann áhyggjuhrollur vegna æðstráðenda ríkisstjórnarinnar sem bæði skrifuðu undir þennan samning og ætluðu þinginu til staðfestu. Er dómgreind þessa fólks svo ábótavant að þau uggðu ekki að sér í þessu gríðarlega hagsmunamáli þjóðarinnar? Og þó ég sé ekki sammála formanni sjálfstæðisflokksins um forgangsröð hans á bankaleynd hittir hann naglann á höfuðið varðandi icesavesamninginn, hann er ónýtt plagg og semja þarf upp á nýtt. Sting upp á að Eva Joly leiði þá samninganefnd.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)