28.7.2009 | 23:48
HVAÐ VARÐ UM X-VAFF?
Samkvæmt stjórnarsáttmála átti aðildarumsókn ESB að fá umfjöllun alþingis og hljóta síðan afgreiðslu og hverjum þingmanni einungis skylt að fylgja eigin samvizku. Með öðrum orðum átti þingræðið að vera ofar framkvæmdavaldinu en það hefur verið langþráð baráttumál núverandi stjórnarflokka. Flokkarnir komu sér saman um að vera ósammála um evrópumálin en leyfa þinginu að útkljá hvort út í aðildarviðræður yrði farið eða ekki. Allir vita nú að sú útfærsla var í anda fyrri ríkisstjórna, leikmynd fyrir kjósendur og mun háðung þingmanna vinstri grænna í þessu leikriti seint líða úr minni. Nýjustu bellibrögð þingmanna vinstri grænna eru innkallanir varamanna þegar sannfæringin er á skjön við það sem framkvæmdavaldið vill og verður. Þá fara menn á fjöll, eins og Steingrímur forðum, svo málin fái sinn framgang. Bera svo við fjarveru eða þegja þegar eftir er leitað. Mikil er niðurlæging þessa eina fjórflokks sem enga ábyrgð bar á hruninu og andæfði óréttlætinu svo kröftuglega, þessa eina fjórflokks sem virkilega gat tekið forystuna og sagt spillingunni stríð á hendur, þessa eina fjórflokks sem hafði hreinan skjöld og bar skylda til að taka kúrsinn. Hvað varð um ræðusnillinginn sem talaði kjark og þor í þjóðina og hafnaði erlendum yfirgangi og kúgun? Og alla hans fylgismenn? Hvað varð um öll búsáhöldin?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2009 | 01:44
TÍÐINDI ÚR BRUSSUBÆ.
Össur utanríkisráðherra sýndi þjóðarstolt/rembing sinn í dag með yfirlýsingu um að ef til þess kæmi þyrfti Ísland ekki á Evrópu að halda. Annað athyglisvert var að orð stækkunarstjóra sambandsins um flýtimeðferð inn í ESB eru ómerk. Þriðji molinn er síðan móttaka umsóknar Íslands inn í evrópusambandið sem mörgum þykir hláleg í ljósi efnahagslegrar stöðu landsins og íbúafjölda. Einnig eru margir umsækjendur á undan okkur í röðinni og vilja eðlilega að hún haldi merkingu sinni. Mörg teikn eru uppi um að þessi fjallaleiðangur samfylkingar nái aldrei tindinum enda vanbúinn með eindæmum. Miklu betra hefði verið að hnýta á milliríkjadeilurnar fyrst og komast aðeins á skrið sem þjóð. Með fljótfærni hefur samfylkingin hugsanlega lokað inni eigin draum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.7.2009 | 01:03
JÓN PIRRAR KRATANA.
Samfylkingarkona vill afsögn Jóns Bjarnasonar vegna orða hans um að ótímabært sé að sækja um ESB-aðild. Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, varð uppvís af því að leyna þingheimi gögnum í lykilmáli fyrir íslenzka þjóð, samgönguráðherra hyglir augljóslega eigin kjördæmi í forgangsröð sinni, félagsmálaráðherra innleiðir austur-þýskar persónunjósnir í viðleitni sinni til að uppræta bótasvik og forsætisráðherra svíkur stjórnarsáttmálann varðandi það að þingmenn fylgi eigin sannfæringu varðandi ESB. Og nú er öllum ljóst að innganga í ESB og öll lánafyrirgreiðsla er háð því að Ísland samþykki alla nauðungarsamninga umyrðalaust. Mæli með áframsetu Jóns en samfylkingin mætti fara að hugsa sinn gang.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2009 | 00:26
DINGULMEIN.
Doði undanfarna daga fann sér loks skýringu í dag. Í öllum dugnaðinum, steypuvinnu, húsamálun og tónleikahaldi upplifði ég dróma og slen en taldi það vesaldóm. Á heimleið eftir konsert í Búðardal fór að draga til tíðinda og næstu tvo sólarhringana lá ég útbelgdur og þaninn, gat hvorki sofið né vakið. Augljóslega var eitthvað í uppsiglingu en eins og sönnum heilbrigðisstarfsmanni sæmir taldi ég víst þetta myndi læknast af sjálfu sér. Konan var hinsvegar á öðru máli og nær dauða en lífi ók hún mér á hátæknisjúkrahúsið. Þar upphófust svo ýmis konar inngrip og tel ég víst að Páli Óskari hefði líkað sum þeirra. En yndislegheitin vantaði ekki og í fyrsta sinn fékk ég morfín og skil nú betur þá sem telja það eftirsótt. Myndavélin á hátæknisjúkrahúsinu var fljót að skanna meinið og niðurstaðan kviðrista og dingulmeinið sem uslanum olli fjarlægt. Vaknaði reifur síðdegis og útskrifaði mig gegn læknisráði sem ekki er til eftirbreytni. Gangurinn hefur þó verið góður og útlit fyrir fullan bata. En varðandi hátæknisjúkrahúsið ætti fremur að hækka laun starfsmanna innan þess veggja en að fara út í nýja húsbyggingu. Starfsfólkið er mikilvægara en innréttingarnar, það upplifði ég á sjálfum mér í dag. Takk, dásamlega starfsfólk Landspítala hátæknisjúkrahúss.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2009 | 00:50
EILÍF ÆZKA.
Einn minna beztu vina er helmingi eldri en ég, næstum 100 ára. Hann þjáist af ýmsum röskunum, m.a. á lund og sykri. Ungur átti hann fegurstu konu Íslands, núna þá raunbestu, hann vann í Sigöldu, sigldi með Fossunum, sá Bítlana í Hamborg, lifði af Halaveðrið, fylgdi Albert, rak veitingastað, fór í útrás til Kína og nú á efri árum garðyrkjumaður síns byggðarlags. Fer vel á því enda maðurinn með græna fingur hvort sem plöntur, dýr eða menn eiga í hlut, allt blómstrar í hans höndum. Þessi maður, þó elliær sé, elur á gleði barnsins og hvergi að sjá á honum bilbug. Hann tilheyrir þeirri kynslóð sem tók við fjöreggi lýðveldisins og sárnar nú mjög afstaða manna gagnvart fullveldi og frelsi, sárnar hvernig ofdekraðir plusskratar vilja framselja land og þjóð og kasta fyrir róða ávinningi sinnar kynslóðar. Hann er framsýnn, elskar homma og fordæmir ekkert nema skordýraníðinga. Sækir fundi votta Jehóva, ekki vegna trúar, heldur til að fá þar biblíumyndir fyrir barnabarn sitt. Þessi maður hefur átt og misst, gefið og kysst, frábær allsgáður, toppar þess á milli og dansar fram á nótt fái hann næði. Sé til eilíf æzka er hún í þessum manni, hann lengi lifi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.7.2009 | 00:48
FORINGI Á GLAPSTIGUM.
Svo virðist að dráttur á frágangi icesave dragi frekar úr stuðningi við samninginn en hitt. Atkvæðagreiðslan stefnir í að verða mjög tvísýn og aftur eru vinstri grænir í aðalhlutverki. Þrýstingur ráðamanna útan úr heimi gerir lítið annað en að hleypa illu blóði í fólk og því sjónarmiði flaggað að inngangan í ESB sé of dýru verði keypt. Óðagot hjálpaði ekki íslenzku þjóðinni í bankahruninu og mun heldur ekki gera það hér. Höfnun icesave mun tryggja Íslandi tíma, betri samningsaðstöðu og sýna viðsemjendum að ganga ekki að neinu vísu. Ákafi samfylkingar til samþykktar vekur upp þá spurningu hverra erinda hún gangi en flokkurinn virðist hreinlega ólmur í að sjá Ísland niðurlægt bæði heima fyrir og á alþjóðavísu. Þátttaka vinstri grænna í þeim leik gæti orðið þeim og þjóðinni skeinuhætt. Síðast fylgdu þeir foringjanum, hvað gera þeir nú?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.7.2009 | 03:43
JAFNAST GALDUR Á STRIKINU Á VIÐ GALDUR Á STRÖNDUM?
Þó nokkrir hafa þegar yfirgefið Skerið og hreiðrað um sig í hlýrri löndum og skuldaminni. Íslenzka sumrið hefur að vísu skotið kreppunni skelk í bringu og þó langir fingur evrópubandalagsins hafi enn ekki náð hér tangarhaldi hafa skorkvikindi þaðan tekið forskot á sæluna. En leitin að betra lífi hefur löngum beint fólki frá heimahögunum og sumum orðið verulega ágengt. Eva norn er ein þeirra brottfluttu, kveðst ekki vera að flýja land heldur neita þáttöku í þeirri niðurlægingu sem hér fer fram. Skil vel sjónarmið hennar að vilja fremur beina lífsafkomunni í aðra samneyzlu en þá íslenzku eftir allt það sem á undan er gengið. Hinsvegar skil ég illa þá fullyrðingu nornarinnar að íslenzk ættjarðarlög hljómi eins í Danmörku og í Þórsmörk. Það er líkt og að fullyrða að galdur á Strikinu jafnist á við galdur á Ströndum. En ekki lái ég fólki að yfirgefa þetta svindlarabæli þó frekar vildi ég út reka svindlarana sjálfa.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2009 | 03:49
AÐ AUSTUR-ÞÝZKRI FYRIRMYND.
Félagsmálaráðherra stendur nú fyrir átaki til upprætingar á "svika"bótaþegum en slíkir ku svína út ölmusu frá hinu opinbera að ófyrirsynju. Sem sagt, þeir sem vita um fólk sem þiggur bætur almannatrygginga á vafasömum forsendum eru beðnir að tilkynna það félagsmálayfirvöldum. Hálf finnst manni þetta lúalegt á þessum kennitölu- og kúlulánatímum, að hygla persónunjósnum. Held að félagsmálaráðherra væri nær að beina sjónum sínum að þeim fjölmörgu sýndarstörfum í ríkisgeiranum sem endalaust virðist fjölga. Þar mætti bregða niður hnífi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.7.2009 | 14:57
TREYSTUM VIÐ Á KÁRA?
Óðum kemur betur í ljós sá bjarnarhrammur sem vomir yfir íslenzkri þjóð samþykki hún ekki samninginn um icesave. Alþjóðasamfélagið, þ.e.a.s ráðandi þjóðir innan ESB, benda á samhengi aðildar að ESB, alþjóðagjaldeyrissjóðsins og áðurnefnds samnings. Skilaboðin eru: Allt eða ekkert. Ísland gekk fram fyrir skjöldu alþjóðasamfélagsins í sjálfstæðisbaráttu Litháens á sínum tíma enda skildum við betur en flestir við hvað var að etja. Nú erum við sjálf í þannig aðstöðu að á okkur standa öll spjót. Göngum við út úr brennunni og biðjum okkur griða eða treystum við á Kára?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2009 | 05:04
SEINNI RIMMAN ER EFTIR.
Þá er fyrri rimman afstaðin, aðildarumsókn í ESB. Niðurstaðan sigur samfykingar, niðurlæging vinstri grænna og sjálfstæðisflokks. Vinstri grænna fyrir að leggja drög að vegferð sem bæði er þeim andstæð og gæti reynst mjög afdrifarík, sjálfstæðisflokks fyrir að byggja upp þann jarðveg sem nú spírar sprotum evrópusinna. Holur tónn sjálfstæðismanna í umræðum dagsins hlýtur að stinga alla fylgjendur flokksins í hjartastað, holur tónn í fólki sem ekki skynjar sinn vitjunartíma. Seinni rimman er um icesave, ríkisábyrgð á þeirri feigðarför, ríkisábyrgð á útrásardraumum fjárglæframanna sem engu eirðu. Í raun var icesave þjófabæli og þó kennitalan hafi verið íslenzk ætti alþjóðasamfélagið fremur að hjálpa íslendingum til klófestingar þessarra svíðinga og gera fé þeirra og eignir upptækt hvar sem til þeirra næst fremur en að afneita öllum leiðum nema ríkisábyrgð íslendinga einna. Vona þingmenn hafni þeirri háðung sem icesavesamningurinn sannlega er og láti reyna á viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Það gæti orðið góð lexía fyrir komandi aðildarviðræður við ESB.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)