"HEIÐURSMANNASAMKOMULAG"

Borgarahreyfingunni er legið á hálsi fyrir að skipta um skoðun og rjúfa "heiðursmannasamkomulag" við samfylkingu um stuðning við aðildarumsókn ESB.  Fyrir utan einn hefur málflutningur þingmanna borgarahreyfingar verið í samræmi við kosningauppleggið og oft á tíðum mjög skorinorður.  Annað sem heillar er einlægni sem atvinnustjórnmálamönnum sárlega vantar.  Nefni því til stuðnings að skyndilega heyrast einföld já og nei-svör í fjölmiðlaviðtölum, eitthvað sem ekki hefur heyrst lengi.  Og varðandi heiðursmannasamkomulag veit ég ekki betur en ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu að leyfa sér að vera ósammála um evrópumálin, annað hefur komið á daginn.  Einnig eru vinnubrögð utanríkisráðherra sérlega ámælisverð, nánast landráðakennd, þegar hann leynir þingheim mikilvægum plöggum bæði varðandi ESB og icesave.  Hvernig á þingmaður að geta tekið vitræna afstöðu til mála þegar lykilupplýsingum er leynt?!   Borgarahreyfingin þarf því svo sannarlega ekki að hafa samvizkubit eða móral yfir einhverju "heiðursmannasamkomulagi" við samfylkinguna, þvert á móti.

LÁ 


NÚ MÆÐIR Á GREYJUNUM SEXTÍUOGÞREM.

Meiri líkur en minni eru á því að alþingi íslendinga hafni tvöfaldri atkvæðagreiðslu um ESB og samþykki að leggja inn umsókn fyrir Íslands hönd og hefja aðildarviðræður.  Gangi þetta eftir blasir við veruleiki sem þótti býsna fjarlægur fyrir örfáum mánuðum, ekki sízt að þetta yrði gert með fulltingi vinstri grænna.  En svo bregðast krosstré sem önnur.  Annað sem poppar nú upp er hrikaleg skuldastaða landsins, 4000 þúsund risakúlur sem er helmingi meira en svartsýnustu ágizkanir í vetur.  Veit ekki hvort Ísbjörgin sé með í þessu en í henni liggja ábyggilega minnst 1000 risakúlur séu öll efin tekin með.  Endurreisn efnahagsins virðist langsótt en líkast vonlaus samþykki alþingi Ísbjargaránauðina athugasemdalaust.  Ólgan er augljós meðal þingmanna og einn kveður formann samninganefndarinnar ekki einu sinni skilja samninginn.   Hvað sem því líður sjá vonandi nógu margir alþingismenn hengingarólina í þessu nauðungarplaggi og stinga undir stól.  Deilan mun að sjálfsögðu ekki hverfa við það en við fáum ráðrúm til að endurstilla miðið.    Annar ótvíræður kostur er sá að evrópudraumurinn fuðrar upp, a.m.k. í bili. 


STERKT LÉTTVÍN EÐA LÉTT BRENNIVÍN?

Skilaboð Jóhönnu voru skýr í þingsal í dag:  Ef ég fæ ekki að ráða er ég hætt!  Skilaboð Davíðs á skjánum voru einnig skýr:  Ef ég fengi ráðið kemur allt til greina.  Samkvæmt spám er tími Jóhönnu kominn en Davíðs liðinn.  Þessa spá ætti að endurskoða því ekki bara sjálfstæðisflokkurinn heldur hægri vængurinn allur er nánast hungurmorða vegna forystuleysis.  Í minni spákúlu sé ég Davíð, fullveldisflokk og töluna 33.   Spurning hvort þetta sé sterkt léttvín eða létt brennivín?


TJALDAÐ TIL EINNAR NÆTUR.

Í komandi viku munu þingmenn taka kúrsinn varðandi ESB næstu árin.  Þessar tvær leiðir, ESB og ekki ESB eru ekki bara umdeildar heldur líka mjög ólíkar.   Afstaða þjóðarinnar er klofin, öllum er það ljóst og fái fólk ekki að tjá hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu munu allskonar þjóðar- og fullveldishreyfingar koma fram og skerpa á málunum.   Niðurstaðan yrði aukin harka og jafnvel hatur.  Þessu myndi tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla  afstýra, þá fengist strax skýr þjóðarvilji sem auðveldara yrði að lúta  fremur en einstefnu samfylkingar.   Það yrði líka slakandi fyrir stjórnarsamstarfið að fá skýrt þjóðarumboð í þessu eldfima máli en tregða samfylkingar gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslu er undarleg miðað við fyrri yfirlýsingar.  Hitt, að enginn viti hvað felist í evrópupakkanum nema sótt sé um aðild, má til sanns vegar færa en vitanlega munu bardagasveitir beggja aðila keppast við að mæra samninginn eða hallmæla og hlutlaus túlkun fyrir almenning vandfundin.   Niðurstaðan mun því alltaf verða áróðursstríð og þegar þar að kemur yrði gott fyrir hvern einasta stjórnmálamann að geta vísað í þjóðarvilja.   Því miður er hætta á að girt verði fyrir þann möguleika í vikunni.  

LÁ   


ÚT MEÐ TANNBURSTANN OG INN MEÐ HÁÞRÝSTIDÆLUNA!

Spilling og þrönghagsmunapólitík sjálfstæðisflokksins stendur nú frammi fyrir afrakstrinum:  Gjaldþrota þjóð á leið í aðildarviðræður við ESB.   Fylgilag flokksins við úr sér gengna sjávarútvegsstefnu lagði grunninn að útrásinni og því viðskiptafæribandi sem nú er stopp.  Stjórnunarhættir og vinnubrögð forystumanna sjálfstæðisflokksins síðastliðinna ára eru loks búin að sanna sig sem hreina spillingu og aðför að lýðræðinu.   Þrátt fyrir þetta situr unnvörpum sama lið á valdastólum hægri manna og ekki að sjá á neinum fararsnið.   Hvar er háþrýstidælan?  


MÚLBUNDIN SAMVIZKA.

Ungur búmaður á þingi tók orf sitt og hatt eftir að hafa sagt frá gangi mála innan ríkisstjórnarinnar varðandi inngöngu í ESB.   Fyrir kosningar voru vinstri grænir einarðastir andstæðingar ESB-aðildar, svo gerðist eitthvað í stjórnarmynduninni og stjórnarsáttmálinn inniheldur tafarlausa umsókn í ESB.  Fyrir kjósendur flokksins er þetta U-beygja og aumt hlutskipti Steingríms að vera orðinn meðreiðarsveinn samfylkingar í þessu máli.   Þjóðarvilji til aðildar liggur langt í frá fyrir og hann þarf að koma fram áðuren lengra er haldið, annað er sóun á fé, tíma, orku og síðast og sízt svæsinn yfirgangur gagnvart almenningi.  Tvöföld atkvæðagreiðsla er leið sem þjóðin getur sætt sig við, bæði þeir sem hliðhollir eru evrópusambandsaðild og hinir sem eru því andvígir.  Hótanir Jóhönnu um stjórnarslit mega ekki hræða fólk frá sannfæringu sinni og þó vissulega séu fáir aðrir kostir fýsilegir er aðildarumsókn, óborin undir þjóðina, óaðgengileg.  Óska bóndanum unga góðrar grassprettu og megi hann fylla hlöður sínar af heyi hverjar sem þær eru.


SIKILEY UNDIR SÓLINNI.

Einkavæðingarnefnd féll á sínum tíma frá eigin verklagsreglum sem kváðu á um dreifða eignaraðild og gagnsæi.  Einn nefndarmanna yfirgaf veizluna, hinir áfram sátu og handsöluðu einkavæðingu ríkisbankanna.   Með þessu hófst formlega umbreyting Íslands úr lýðveldi í banana, úr Söguey í Sikiley.  Grúppurnar sem hömpuðu bönkunum lánuðu hvor annarri fyrir kaupunum og sem lánadrottnar hvors annars var borgun hvorugum kappsmál.   Á síðustu andartökum góðærisins drógu hinir fallandi risar eins marga og þeim framast var unnt að svikaborðinu og krunkuðu úr grunlausum borgurum sparifé, samtökum, sveitarfélögum, öllu sem eitthvað átti aflögu.  Og í stað þess að gefa alþjóðasamfélaginu skotleyfi á gerendurna ætlar ríkisstjórn Íslands að hella öllu einkavæðingareitrinu yfir eigin borgara sem hvergi komu þó nærri.  Og hugsanlega horfa aðgerðarlaus á afskriftir lána sem sízt skyldi afskrifa undir sólinni.   Á meðan gjamma sjálfstæðismenn og átelja vinnubrögð þingmeirihlutans.  Hvaðan skyldu þau nú vera komin?  Og hvers vegna liggja öll þessi skítverk fyrir?   Ísland er í alvarlegri stjórnarkreppu, ríkisstjórnina skortir einurð enda klofin í afstöðu til alþjóðasamfélagsins, stjórnarandstaðan, að borgarahreyfingu undanskilinni, skartar enn sömu spillingarsprotunum og lýðræðið ræður ekki við flokksræðið.  Er sú von borin að æðstráðendur skynji sjálfir sinn vitjunartíma?

LÁ   


ALLSHERJARUPPLAUSN.

Tilboð Björgólfa gengur út á skuldaniðurfellingu vegna kaupa á Landsbankanum í upphafi einkavæðingarinnar.   Að þessi skuld sé enn ógreidd sætir vægast sagt furðu.   Trilljónir og fantasilljónir hafa trillað samhliða feðgunum í orðum og gjörðum umliðin ár og sá yngri enn að.   Venjulegt fólk missir eignir og jafnvel frelsi fyrir peningaóreiðu sem ógnar þó hvorki æru né sjálfstæði.   Láti ríkisstjórnin þessa ósvinnu yfir landið ganga hljóta allir að gera sömu kröfur.    Og þá verður allsherjarupplausn.


FYRIR HVERN VINNUR EIGINLEGA ÖSSUR?

Enn vaggar Davíð Oddsson þjóðarskútunni og má hann vart mæla nema það gerist.  Átelur Davíð mjög ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir undirlægjuhátt gagnvart Ísbjargarævintýrinu og furðar sig á mótstöðuleysi sömu aðila í þessu skítamáli.   Ennfremur telur Davíð upp óbirt gögn og hefur eitt, ánafnað utnríkisráðherra, þegar fangað athygli fjölmiðla.  Í því dregur ensk lögfræðistofa mjög í efa ábyrgð íslenzku þjóðarinnar á Ísbjörginni.  Utanríkisráðherra segir skjalið marklaust og engu breyta.  Hverra hagsmuni ber hann fyrir brjósti, eigin þjóðar eða annarra?  Ég undrast æ meir eindreginn vilja ríkisstjórnarinnar að gangast við þessum ábyrgðum og henda byrðinni yfir á íslenzka skattgreiðendur.   Miðað við umfang þessa máls finnst mér stórfurðulegt að ráðamenn vilji að minnsta kosti ekki staldra við og fresta endanlegri afgreiðslu uns öll gögn eru komin fram og uppgjör bankahrunsins liggi fyrir.   Afhverju þessi asi að gangast undir þennan skuldabagga og samhliða óska eftir inngöngu í ESB?  Hvort sem að Davíð hafi rétt fyrir sér eða ekki eru vafaatriði þessarar ríkisábyrgðar nógu mörg til að kalla á endurskoðun.   Slík ákvörðun myndi aftur gera okkur að þjóð meðal þjóða.  Hunsi þingheimur rétt almennings í þessu máli legg ég traust mitt á forsetann.   Haldi hann að sér höndum er þjóðinni réttur ódrekkandi bikar.  Svar margra við honum verður aðeins eitt:  Fögur er hlíðin en samt mun ég fara....


PERSÓNUKJÖR.

Hugmyndir um persónukjör hafa fallið í góðan jarðveg hjá þjóðinni.  Skilningur almennings á fyrirbærinu er sá að kjósendur flokks gætu þá raðað frambjóðendum að vild og prófkjör og uppstillingar myndu heyra fortíðinni til.   Með þessu yrði valdið fært til hins almenna kjósenda og þingmenn myndu sæta alvöru frammistöðumati, ekki bara úr innsta hring.   Persónukjör á sem sagt að hamla gegn sísetu ónýtra þingmanna og tryggja endurnýjun þegar þörf krefur.   Líkt og nú.  Pælingar í þessa veru að írskri fyrirmynd hafa verið kunngjörðar og bera í sér að persónukjör gildi einungis um fimm fyrstu sæti hvers flokks í hverju kjördæmi.  Flokkarnir munu sjálfir stilla upp í sætin þar fyrir ofan.  Vont en sýnu verra þó hitt að flokkarnir sjálfir munu tilnefna þessa fimm fulltrúa sem að við, kjósendur, getum valið úr til uppstillingar.   M.ö.o fá kjósendur samfylkingar að ráða röð Jóhönnu, Helga Hjörvars, Össurar, Steinunnar Valdísar og Marðar og kjósendur sjálfstæðisflokks geta raðað niður Birgi, Illuga, Pétri Blöndal, Ólöfu Norðdal og Guðlaugi Þór.   Eflaust mjög spennandi fyrir innvígða en hinn almenni flokksmaður getur alveg eins setið heima.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband