22.5.2009 | 03:17
RUGGUM BÁTNUM!
Ósjálfstæði landsbyggðar gagnvart þéttbýlinu hefur stigvaxið og fylgt neikvæðri þróun íbúafjölda. Tækifærin eru annarsstaðar og fólk yfirgefur hreiðrin. Bæjarstjórnir þegja út í eitt og bíða eftir aurum úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Æmta hvorki né skræmta þó sjálfsbjörgin og sjálfræðið fjúki út í veður og vind. Glöggt má sjá vægi landsbyggðarinnar í umræðum um Reykjavíkurflugvöll þar sem hlutverk höfuðborgar átti að víkja fyrir söluhagnaði af byggingarlandi. Landsbyggðarfólk þarf að hrista af sér drómann og krefjast meiri sjálfsstjórnar og réttlátari skiptingu tekjustofna. Í mikilli nánd við auðlindir er þetta hægur vandi. Það er sorglegt að heyra fyrst nú mótbárur frá sveitarstjórnum, loksins þegar vilji stjórnvalda er til breytinga. Landsbyggðarfólk þarf miklu sterkari einstaklinga til málsvarna og sóknar fyrir sín mál, fólk sem ruggar bátnum og kann að segja nei, hingað og ekki lengra!
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2009 | 05:13
HAGSMUNAAÐILA FRÁ SAMNINGABORÐI.
Nýkjörinn þingmaður vesturlands flaggaði því á alþingi í dag hversu ósanngjarnt það væri að taka af mönnum eitthvað sem þeir hefðu keypt og átti þar við aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja. Kvað flestar útgerðir reknar af harðduglegum mönnum og eignaupptaka sú sem firningu fylgir ótæk. Segjum sem svo að kvótinn yrði ekki innkallaður en þess í stað ákveðið að búa til nýjan "aflapott" með nýrri tilhögun úthlutunar. Þá myndu fyrirliggjandi kvótahandhafar telja sig í forgangi og ekki una öðru. Sem segir okkur þetta: Ríkisvaldið stjórnar ekki lengur úthlutun aflaheimilda heldur hagsmunasamtök. Ef ríkisstjórn réttkjörin má eða þorir ekki að fylgja eigin stefnumörkun vegna andstöðu hagsmunaaðila er fokið í flest skjól. Til hvers þá að vera að kjósa ríkisstjórn? Í komandi slag um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar tala margir, m.a. sjávarútvegsráðherra, um endurskoðun í samráði við hagsmunaaðila. Það er fáranlegt enda hafa slíkir sagt að þeir muni aldrei samþykkja firningarleið og vafasamt að þeir munu yfirleitt ganga að neinu nema yfirklóri. Besta ráðið við þessu er að hafa þessi hagsmunasamtök einfaldlega annarsstaðar en við teikniborðið þegar kemur að nánari útfærslu. Ólína Þorvarðardóttir á hrós skilið fyrir einurð sína í pontu alþingis í dag en Jón Bjarnason verður að hætta að spila varnarleik með miklu betri málstað.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2009 | 00:54
HREINT LÝÐRÆÐI.
Mitt lýðræði yrði svona:
1. Láta einkavæðinguna halda áfram að vera einkavæðingu og þannig ætti hið opinbera ekki að taka að sér fallerandi fyrirtæki heldur beina þeim í hendur einkaaðila, t.d. starfsmanna.
2. Hætta að miða lánaafborganir við brenglaðar forsendur og létti lánabyrðar með afskriftum og afnámi verðtryggingar, þannig eflist hvatinn til að borga.
3. Lækka vexti og það veglega, taka mótbárur alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki til greina.
4. Afskrifa jöklabréfin eða skattleggja útleysingu þeirra, bankahrun heillar þjóðar réttlætir þann verknað, höfum í huga að grunnhugmynd bréfanna byggði á spákaupmennsku.
5. Kasta ekki krónunni því hún er það hagstjórnartæki sem mun koma okkur fyrr upp úr öldudalnum og gera okkur samkeppnisfær í komandi markaðsþrengingum erlendis.
6. Afnema bankaleynd og ganga að því fólki sem sölsað hefur undir sig eignir og fjármuni eftir krókaleiðum og láta þjóðina njóta vafans í þeim efnum.
7. Tryggja auðlindir ævarandi í þjóðareign með auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
8. Firna fiskveiðikvótann og núllstilla atvinnugreinina þannig að íþynging lánadrottna heyri sögunni til.
9. Búa til 50.000 tonna kvótapott fyrir króka- og handfærabáta með frjálsri sókn en svæðatengdri.
10. Gleyma ESB.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2009 | 18:14
STJÓRNARSLIT EÐA KYNGINGARÖRÐUGLEIKAR.
Jóhanna heilög vill meina að Ísland gefi evrópusambandinu tóninn varðandi fiskveiðistjórn og verði ráðandi í framtíðartilhögun hennar innan sambandsins. Sagði þetta galvösk í stefnuræðu gærkvöldsins. Skákdrottning vinstri grænna undirstrikaði framtíðarsýn Íslands og ljóst á máli hennar að evrópusambandið hefði þar engu hlutverki að gegna. Afgreiðsla aðildarumsóknar liggur fyrir sumarþingi og af ofangreindum ummælum gerist annað tveggja: Stjórnarslit eða kyngingarörðugleikar.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.5.2009 | 02:43
SILFUR EGILS & SILFUR JÓHÖNNU.
Eftir hundagöngu dagsins blöstu við mér á skermi heima þúsundir íslendinga á Austurvelli. Hverju er nú verið að mótmæla skaut niður í hugann, eitthvað djúsi hlýtur að vera í gangi? Páll Óskar, Diddúarbróðir, færði mér fljótt sanninn. Íslendingar mættir í þúsundatali til fagnaðar vegna árangurs okkar í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Bersýnilega er þjóðin í mikilli þörf fyrir jákvæðar fréttir, hreinlega í spreng. Smitaður af þessu þægilega þyngdarleysi slökkti ég á Silfrinu í kvöld, ákveðinn að láta það fram hjá mér fara. Líklegast er gott veganesti til kátínu og kæruleysis að vera júróvisíonaðdáandi. Prófa það í viku.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2009 | 02:39
NORSKA ÆVINTÝRIÐ.
Ætli við verðum ekki að ganga í evrópubandalagið eftir stigagjöf kvöldsins, fengum stig frá velflestum þjóðum álfunnar. Reyndar ekki að ástæðulausu því íslenzka söngfólkið með Jóhönnu í fylkingarbrjósti, stóð sig firna vel. Annað sætið er stundum svekkjandi en ekki í kvöld, norsarinn var í sérflokki og átti sigurinn vísan. Það hefði líka skapað ákveðin vandamál að vinna. En að því hlýtur þó að koma.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2009 | 03:20
SUMARÞING ÚTI Á TÚNI.
Enn draga skilanefndir bankanna landslýð á asnaeyrunum. Meira en 7 mánuðir eru frá bankahruninu og endanlegt uppgjör ekki í sjónmáli. Há laun skilanefndarfólks hvetur engan til dáða og meiri hagur sumra að verktíminn sé lengri en styttri. Hugsanlega bíða líka margir eftir ákvörðunum að ofan, þ.e. að einhver stjórnmálaforingi taki af skarið og höggvi á hnútinn. Um þetta og skjaldborg heimilanna ætti sumarþingið að snúast, ekki þrástagl um inngöngu eða ekki inngöngu í eitthvað ríkjabandalag. Samfylking hefur lagt þetta mál á oddinn og skeytir litlu um brýnni mál. Önnur vonbrigði varðandi nýmyndaða stjórn er fjölgun ráðherraembætta en það er í trássi við áherzlur beggja flokka fyrir kosningar. Þó trúverðugleiki í stjórnmálum sé uppurinn á hægri vængnum þýðir það ekki að sá vinstri verði ekki að gæta sín.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.5.2009 | 04:31
ÖRLYGSSTAÐABARDAGI HINN SÍÐARI.
Útgerðarmaður og hagfræðiprófessor áttu skemmtileg innslög í kastljósinu í fyrrakvöld. Ólík sýn þeirra á kosti og galla firningarleiðar er lýsandi fyrir sjónarhorn hvors um sig. Útvegsmaðurinn sá hlutina frá eigin hagsmunum og taldi veiðiréttinn klárlega sína eign, hótaði málsókn á hendur ríkinu yrði því hnikað. Prófessorinn nánast brosti að þessari túlkun og kvað eignarétt auðlindarinnar óvéfengjalega undir þjóðarvæng og virtist alls óhræddur við málssókn. Útvegsbóndinn undirstrikaði að firningarleiðin gengi að sínu fyrirtæki dauðu og hann yrði aldrei til viðtals um fyrirbærið. Prófessorinn sagði firninguna vera varfærnislega og gætu sjávarútvegsfyrirtæki ekki höndlað hana væri það vegna rangra ákvarðana og þátttöku þeirra í útrásarfylleríinu, ekki vegna firningarinnar. Þessir menn voru eins og dagur og nótt, með ólíkan bakgrunn og endurspegluðu gjörsamlega óásættanleg sjónarmið. Báðir þó íslendingar. Framhaldið verður hatrammt og orustan um sjávarauðlindina Örlygsstaðabardagi hinn síðari.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2009 | 04:02
JÖKLABRÉFIN BRÁÐNA.
Kvittur um eignarhald jöklabréfanna illræmdu tröllríður nú netheimum. Eigi hann við rök að styðjast ætti brúnin að lyftast, ekki bara á íslendingi heldur og krónunni. Nefnilega að útrásarvíkingar eigi megn bréfanna, skrímslin sem sugu landið inn að beini, slitu úr því hjartað og gáfu útlendingum görnina. Óskitna. Sé orðrómurinn réttur ætti ríkisstjórninni að vera í lófa lagið að brenna þennan haug upp til agna, skila alþjóðagjaldeyrissjóðnum hinu margónotaða framlagi og þrykkja vöxtunum niður í gras. Sé þetta gróusaga er ofangreint samt í boði.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 03:49
ENGINN FÚLSAR VIÐ ÍSLANDI.
Evra eftir 30 ár samkvæmt skilyrðum evrópubandalagsins. Við hljótum nú samt að fá undanþágu. Evrópubandalagið ætlar að hleypa inn Króatíu og staldra svo við hvað varðar fjölgun en auðvitað fúlsa sambandsríkin ekki við Íslandi. Og þó sjávarútvegsstefna evrópubandalagsins sé skýr verður ábyggilega tekið tillit til íslenzkra sérhagsmuna. Við erum bara svo heimsfræg og sérstök eins og glögglega sást í júróvisíonúrtökunni í kvöld. Textinn sem fjallar um útrásarlokin: Er´idda satt, er´idda búið, sendir öðrum þjóðum þau skilaboð að vér íslendingar erum raunsæ þjóð og skiljum áður en skellur í tönnum. Okkar kona bar reyndar af í forkeppninni og eflaust margir sem þora ekki að hugsa þá hugsun til enda.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)