21.4.2009 | 03:26
SANNFÆRANDI STEINGRÍMUR.
Borgarafundur vinstri grænna á Ísafirði var háður í kvöld. Oft eru svona setur tímaeyðsla en sannlega ekki í kvöld. Formaðurinn var í fanta formi enda aðsókn góð og andi. Útgerðarmenn voru mættir og átti ég von á föstum skotum en ekki ein einasta bomba féll. Hvort Steingrímur hafi sannfært þessa dugnaðarforka um ágæti sitt og stefnu sinnar veit ég ei en vona. Frjálsar handfæraveiðar í atvinnuskyni eru löngu tímabærar við strendur landsins og geta varla haft afgerandi áhrif á fiskistofna. Steingrímur nefndi tæp 9 þúsund tonn og endurskoða að tveimur árum liðnum. Í stóra kerfinu á að innkalla veiðiheimildir á 20 árum, hægt í fyrstu en auka svo hraðann. Endurúthluta svo á byggðalegum grunni og félagslegum. Áhugaverðar tillögur sem vonandi koma til framkvæmda eftir kosningar. Steingrímur kvað upp úr með það að láta hræðsluáróður þeirra LÍÚ-manna ekki flæma sig frá óumflýjanlegu uppgjöri við núverandi kerfi og breytingar á því. Nái minnihlutaflokkarnir meirihluta í kosningunum er þeim ekkert að vanbúnaði og taka vonandi strax til við ofangreint.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2009 | 02:24
RISA, RISA, RISA....
Sá afar hrollvekjandi mynd fyrir stundu, þýzka heimildarmynd um gangverk stærstu matvælajöfra heims. Eina markmið þessara risasamsteypa er hámörkun arðs að kröfu hluthafa sem virðast algerlega óseðjandi. Standi topparnir sig ekki í þessum efnum er þeim umsvifalaust sparkað. Hagkvæmnin ræðst af stærð framleiðslueininga, launakostnaði og aðbúnaði. Risavaxin gróðurhús, akrar, kjúklingabú, kúabú, skipakostur, allt fyrir arðsemina, mannafla skipt út fyrir vélar og tölvubúnað og meðferð hráefnis, ekki síður í lifanda lífi, svo ómanneskjulegur að honum er haldið leyndum. Kúnninn hugsar um verðið fyrst og fremst en uppruni hráefnis og meðhöndlun er honum óviðkomandi. Offors þessara framleiðenda er slíkt að þeir rústa samkeppni með undirboðum og gera íbúa á annars blómlegum markaðssvæðum atvinnulausa. Framfarir eða atlaga, um það er deilt en manneskjulegt er það ekki. Ég held að mannkynið allt þurfi að endurskoða afstöðu sína til þessara mála, íslendingar með sínar verðmætu auðlindir gætu riðið á vaðið. Þó þjóðarfleyið sé enn á strandstað er betra að bíða eftir flæðinu þó annað sé freistandi. Skiptir ekki máli hvort það sé ESB eða AGS, björgunargjaldið mun verða afsal auðlinda. Hræðsluáróður sem víða heyrist um stökk aftur í tímann ætti að vekja okkur til umhugsunar um eitt: Var samfélagið eitthvað verra þá en nú?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.4.2009 | 04:42
KOSTUR Í STÖÐUNNI.
Fyrir þá kjósendur sem ekki geta hugsað sér ríkisforsjá, skattahækkanir og evrópubandalagið eru aðeins þrír kostir í boði í komandi alþingiskosningum. Skila auðu, sjálfstæðisflokkurinn og frjálslyndir. Klessukeyrzla þjóðarinnar á síðasta ári hlýtur að skrifast á sjálfstæðisflokkinn enda sýna skoðanakannanir sögulegt fylgisfall. Spillingarský hefur lengi vomað yfir forystusveit flokksins og von margra um endurnýjun brugðist. Hagsmunavarzla stendur flokknum mjög fyrir þrifum og eflaust margir gegnir flokksmenn sárir yfir viljaleysi þingmanna til lýðræðisumbóta. Margir segja flokkinn ekki stjórntækan og í þeim hópi ekki bara utanflokksmenn. Skattastefna sjálfstæðisflokksins er þó í mörgu skynsöm, í stað aukinnar skattheimtu hvetja fólk fremur til framtaks og búa þannig til nýja skattstofna og störf samhliða. Frjálslyndir taka undir þetta ásamt því að hafna evrópubandalaginu, að sinni a.m.k. Munurinn á þessum tveimur hægriflokkum kristallast í afstöðu til kvótamála. Frjálslyndi flokkurinn hefur, ásamt nokkrum samfylkingarmönnum, verið ötul málpípa breytts fiskveiðistjórnunarkerfis og verra ef rödd hans hyrfi af þingi. Þeir fjölmörgu sjálfstæðismenn sem sjá vilja breytingar í þessum efnum geta kosið frjálslynda flokkinn. Við má bæta að frjálslyndi flokkurinn kom hvergi nærri hruninu, býður ekki upp á skattahækkunarleið vinstri flokkanna og saltar ESB. Bendi á þetta sem kost í stöðunni.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2009 | 04:04
ÞINGLOK.
Þinglok urðu í kvöld. Sjálfstæðismönnum tókst að hindra allar þær lýðræðisumbætur sem stjórnlagaþing, auðlindaákvæði í stjórnarskrá og persónukjör kveða á um. Rök þeirra um fljótfærnisleg vinnubrögð og fumkennd fá sinn dóm að viku liðinni. Evrópunefnd alþingis klofnað í herðar niður og mikil óeining virðist ríkja um þessi mál. Borðliggjandi er að vilji menn einhverja þjóðarsátt í þessum málum er nauðsynlegt að þjóðin kveði fyrst sinn dóm varðandi viðræður eða ekki. Þó sumum finnist þetta skref óþarft er aðferðarfræðin vænlegri til sátta. Kjörtímabilið hefur reynt mjög á þjóðina og traust á stjórnmálamönnum snarminnkað. Samt er unnvörpum sömu andlit í boði og þau fáu nýju flest runnin undan pilsfaldi flokkræðisins. Ég spái minni kosningaþátttöku en áður og ennfremur að fálkinn verði sendur upp í fjall til að plokka af sér lýsnar. Komi svo djúphreinsaður til baka og bjargi Íslandi.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2009 | 02:11
NORÐURÞING EYSTRA.
Þrátt fyrir Steingrím var kjördæmafundur norðurþings í kvöld sá lakasti til þessa. Mikill fjöldi framboða dregur úr slagkrafti svona samkoma, einnig eru spurningar sumar hverjar vanhugsaðar og betur óframsettar. En gjörljóst er að nýju framboðin þurfa meiri skerpu til að gera sig gildandi, ennfremur ósannfærandi að koma fram í nafni einhverrrar hreyfingar og staglast á því að þurfa ekki að vera henni sammála. Möller vill evru og þannig færa allt til betri vegar, Steingrímur tortyggði samninginn við alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ekki annað að skilja á orðum hans en að skila lánsfénu til baka ef illa horfði. Athyglisverð ummæli sem og þau varðandi sjávarútvegsmál en formaðurinn vill sérstakan kvótapott fyrir smábátasjómenn líkt og frjálslyndi flokkurinn. Sú frjálslynda var skýr og stuttorð í málflutningi sínum en einurðina skorti. Hana hefur framsóknarmaðurinn ungi en annað ekki. Oddviti sjálfstæðismanna sat undir þungum skotum varðandi sín persónulegu mál og deila má um smekkvísi þeirra, hinsvegar má fólki vera ljóst að sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið lítið með stjórnmál að gera, hann er úrbræddur klíkuflokkur, hagsmunahengja og raunar spurning til hvers hann er að bjóða fram.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2009 | 03:24
FOKK1, FOKK2, FOKK3...., FOKK1000.
Skuldir sjávarútvegsins, 500 millarðar, eru "aðeins" 2% af heildarskuldum íslenzku þjóðarinnar. Með þessu benda menn á hve lítinn hluta óráðsíunnar má rekja til sjávarútvegs og vilja með því upphefja kvótakerfið. Reyndar er lítil upphafning með skuldum yfirleitt en þessi skuldsetning greinarinnar er ekki til komin vegna lélegrar fiskgengdar eða aflabrests. Meginuppistaðan er kvótakaup. Hitt breiða menn svo yfir, hvert peningarnir fóru sem bankarnir létu í té gegn kvótaveði, tapaðar fjárfestingar um heim allan, verksmiðjur, verzlanakeðjur, fótboltalið og síðat en ekki sízt allar kennitölurnar, Fokk1, Fokk2, Fokk3...., Fokk1000 sem hylja áttu slóðina. Útgerð við Íslandsstrendur er enn arðbær en kvótaframsalið breytir þeim plús í mínus. Annar flötur er á þessu máli öllu. Séu 2% heildarskulda þjóðarinnar 500 milljarðar er þær samanteknar 25 þúsund milljarðar. Það jafngildir nærri því 100 milljóna skuld á hvert mannsbarn og þá eingöngu miðað við höfuðstólinn. Þetta er "hagræðingin" í hnotskurn, snilldin sem fólst í að búa til verðmæti úr takmörkuðum aflarétti og færa örfáum með gjafabréfi sem auðvitað flestir seldu en svo rúllan gæti áframgengið upphófst samvinna banka og útgerða með verðbólgu þessara veiðiréttinda, svo mikilli að draga þurfti sama fiskinn margsinnis úr sjó. Þannig hefur þetta færiband kerfisbundið dregið fé út úr þessari höfuðatvinnugrein þjóðarinnar og útdeilt því á Fokk1, Fokk2, Fokk3...., Fokk1000. Þó merkilegt sé hanga sumir enn í þessum trosnaða kaðli. Megi guð opna augu þeirra og færa þeim ljósið.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2009 | 04:23
ALLT UPP Á BORÐIÐ, BLA, BLA, BLA.....
Allt upp á borðið, við höfum ekkert að fela, fáranlegar ásakanir, tilhæfulaust og ósmekklegt. Yfirlýsingar sjálfstæðismanna allar í þessum dúr og djásnin alltaf jafn hissa þó borðið sé yfirfullt og sífellt stærri maðkar skríða úr felum. Eitt megineinkenni stjórnartíðar sjálfstæðismanna voru einmitt klíkustjórnmál, leyninmakk og fáræði. Kvað svo rammt af þessu að þingið var nánast óþarft. Og áfram tefja þessar skruggur framgang góðra mála eins og stjórnlagaþings. Ég held að lungi íslendinga sé fullsaddur og eðlilegt að fólk leiti orsaka svona hegðunar. Hafa sumir nefnt mútur sem auðvitað eru alvarlegar ásakanir en spyrjum að leikslokum. Bókhald prófkjöra gæti varpað enn skýrara ljósi á samhengi hlutanna. Sé eitthvað að marka yfirlýsingar ættu sjálfstæðismenn að hafa forgöngu um þessi mál.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2009 | 03:16
TIL HAMINGJU, BORGARAHREYFING!
Reykjavík norður átti þennan 3ja dag páskavikunnar. Söguleg skoðanakönnun og aldrei að vita nema rithöfundurinn og leikstjórinn knái, Þráinn Bertelsson, skolist inn á þing. Hann átti nokkur lunkin tilsvör í rökræðum kvöldsins og vildi helst geta spólað 15 ár aftur í tímann og hraðspóla til baka án framsóknar- og sjálfstæðisflokks. Formaður framsóknrflokksins sagði ekki kappsmál fyrir sig að verða þingmaður. Eilítið ankannalegt að slengja þessu fram en að öðru leyti slapp Sigmundur óskaddaður frá þættinum. Ástþór er forsprakki lýðræðishreyfingar sem vill tölvuvæða þingsal og opna ákvarðanavald fyrir almenningi. Sagðist og geta dregið landið upp úr skuldafeninu með aðkomu erlendra aðila hingað, ennfremur fangelsa óreiðumennina og galaði í lokin að flokkarnir og fulltrúar þeirra væru drasl. Sumir segðu fas og framkomu Ástþórs óviðeigandi en flestir hljóta að viðurkenna skerpun hans fyrir þáttinn. Samfylkingarmaðurinn var frasakenndur og langorður, sömuleiðis presturinn fyrir frjálslynda. Stagl hans á líkkistusmíðinni var þó athyglisvert og sömuleiðis mat hans á dauða flokksandstæðinga. Menntamálaráðherra, fulltrúi vinstri grænna, var klöppuð upp eftir hverja málsgrein og einatt óverðskuldað. Frasabull. Áherslumunur stjórnarflokkanna varðandi evrópumálin er greinilega óleystur en þó mátti lesa úr svörum beggja að málamiðlunin lægi um sjálfstæðisflokkinn. Illugi Gunnarsson, fulltrúi þess flokks, var ekki öfundsverður enda flug fálkans í flúkti við fall krónunnar. Afhroð sjálfstæðismanna virðist óumflýjanlegt enda ekkert nýtt í boði, hvorki hold né hugmyndafræði. Í samantekt má segja að borgarahreyfingin hafi verið sigurvegari kvöldsins og breytingarsinnar eygja loks raunhæfan valkost.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 00:53
STÝRÐ ATBURÐARÁS?
Styrkir til stjórnmálaflokka eða frambjóðenda hafa löngum þótt vafasamir. Í þeirra skjóli geta styrkveitendur bundið hendur styrkþegans. Því þótti við hæfi að hámarka slíkar upphæðir við 300 þúsund. Nú er uppi sterkur grunur um tengsl peningagreiðslna og stjórnvaldsákvarðanna, m.ö.o: Risar sem greiða stjórnmálaflokkum fyrir að stýra atburðarásinni í þann farveg sem fellur að þeirra hagsmunum. Og þá er fróðlegt að skoða helztu áherslumál ríkisstjórna umliðinna ára og jafnvel lengur. Stóriðja, ál, hvalveiðar, kvótakerfi, einkavæðing bankanna, opinber útboð og hræringar á fjármálamarkaði. Hvaða hagsmunasamtök standa að baki og hvers vegna er hljómgrunnur þeirra svona mikill og viðvarandi hjá stjórnmálamönnum? Opnun bókhalds stjórnmálaflokka árið 2006 er skref í rétta átt en ganga verður mun lengra, t.d. hvernig lágu þræðirnir fyrir kosningarnar 2003?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2009 | 23:56
PÁSKAR 2009.
Páskalok. Frábærir rokktónleikar á Ísafirði afstaðnir og framkvæmdaaðilum til sóma. Okkar nýstofnaða, stórpólitíska hljómsveit, EKKIÞJÓÐIN, steig á svið á föstudag. Mögnuð upplifun fyrir okkur á sviðinu og vonandi höfum við hjálpað einhverjum ráðvilltum kjósendum úr sal. Í gærkvöld voru svo órafmagnaðir stofutónleikar í Inguhúsi í Bolungarvík. Eftir að sískvaldrandi unglingadeildin var rekin í reyk magnaðist galdur og húsfyllir féll í óminni. Svo er vinnudagur á morgun, klyfjaður góðum páskaminningum, helgin á næsta leyti og meira pólitískt stuð. Hver þarf á kannabis að halda í svona landi?
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)