BRÆÐUR OG SYSTUR MUNU BERJAST...

Hratt kvarnast nú úr sjálfstæðismúrnum.   Ekki veit ég hvað  innmúraðir voru að hugsa en uppskeran sannlega í samræmi við það sem niður fór.    Glundroði er undanfari afhausana og ekki kæmi á óvart að framboðslistar munu breytast, jafnvel gjörbreytast.   Gróðrastíur sérhagsmuna og spillingar gerast ekki betri en þessi brjóstumkennanlegi stjórnmálaflokkur.   Skipulegt undanhald flokksmanna hefur staðið yfir umliðna mánuði en styttist væntanlega í að hver reyni að bjarga eigin skinni.    Og þá munu bræður og systur berjast og bláu blóði úthellt.  Efalítið mun mörgum þykja það hin besta skemmtan.

LÁ   


BORGARAFUNDUR Í KRAGANUM.

Aðeins eru 2 vikur til kosninga og stefnir í stórsigur vinstri flokkanna.  Ekki loku fyrir það skotið að samanlagt skarti þeir 40 þingmönnum.  Framsókn missir að líkum stöðu sína sem lím.   Á borgarafundi kragans varðist nýkjörinn formaður sjálfstæðisflokksins  ásökunum um fjármálaspillingu og mat manna á frammistöðunni eflaust flokkslægt.   Sjálfum fannst mér Bjarni komast þokkalega frá þessu massaða máli en ljóst er að "flokkur allra stétta" má muna fífil sinn fegri.   Útgerðarmenn vilja bætur verði kvótinn fyrndur eða innkallaður en fulltrúi samfylkingar kvað það ótækt þegar um þjóðareign er að ræða.   Við þetta má bæta að víða um land eru byggðir gjaldfelldar vegna kvótaframsals og ekki einu sinni veðtækar.   Hvorki  hafa íbúar þessara svæða fengið bætur né krafist.   Að útgerðir geti ekki aðlagast nýju starfsumhverfi á 20 árum er viljaleysi.    Allar atvinnugreinar ganga í gegnum breytingaskeið, skyndilega er ekki gott að selja húsgögn né teikna hús en sumarbústaðaleigjendur fagna.    Kvikmyndagerðarmaður sem kaupir myndavél þarf að sætta sig við 20% fyrningu árlega.  Formaður sjálfstæðismanna sagði brúnaþungur að fyrningarleið eða uppboðsleið myndi leggja sjávarútveginn í rúst og þar með bankanna.   Ekki sé ég samhengið í þessu en hinsvegar nokkuð ljóst að efnahagsstjórn sjálfstæðisflokksins lagði heila þjóð á hliðina.   Gleymum því ekki að fókksflótta landsbyggðarinnar kölluðu sumir þróun, má ekki nota sama orð um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, þróun?


VONT OG ÞAÐ VERSNAR.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30 kúlur frá einni aðalgrúppunni rétt fyrir lokun.  Löglegt því lögin komu 3 dögum síðar.  En eins og þegar upp kemst um barnaníðing er það sjaldnast á fyrsta verki.  Í skjóli bókhaldsleyndar má álykta sem svo að fleiri kúlur frá fleiri aðilum hafi rúllað þessa slóð þó einungis þessar 30 séu staðfestar.  Athafnafrelsið sem fjármálageirinn naut fyrir tilstuðlan sjálfstæðisflokksins hlaut að mega reikna til endurgjalds.  Eða eins og Lennon orðaði það:  "If you scratch my back I´ll scratch yours".  Ekki yrði ég hissa þó fleiri hagsmunaaðilar hafi fetað sömu braut eða hverra hagsmuna gæta sjálfstæðismenn nú með málþófi sínu á alþingi?  Allt gert til að koma í veg fyrir þann augljósa þjóðarbúhnykk á stjórnarskrá að koma auðlindum landsins óvéfengjanlega í þjóðareigu.   Þessu hafna sjálfstæðismenn og segja tímann nauman, hafa þó haldið úti verklausri stjórnarskrárnefnd í allmörg ár.  Þykir mér líklegt að fyrrum leiðtogar þessa merka stjórnmálaflokks liggi engir ósnúnir í gröfum sínum.

 LÁ

BORGARAFUNDUR NORÐVESTURKJÖRDÆMIS.

Borgarafundur norðvesturkjördæmis reið á vaðið í kvöld.  Aðsóknin í lakara lagi en frambjóðendur þó allir mættir.  Guðbjartur Hannesson kvað vinstri græna óskasamstarfsflokk samfylkingar í næstu ríkisstjórn undir stjórn samfylkingar.  Forsvarsmaður vinstri grænna felldi og hug til Guðbjarts ásamt því að vilja undanskilja norðvesturkjördæmi í því niðurskurðardjammi sem framundan er.  Frambjóðandi lýðræðishreyfingarinnar átti gullkorn kvöldsins, sagðist ekki hafa vit á tilteknu máli en til í spjall væri eftir því leitað.  Sjálfstæðismaðurinn sem sigraði Einar Kristinn virtist ekki bæta miklu við keppinaut sinn og mátti vart á milli sjá hvor er hvað.  Ásbjörn sigurvegari mótmælti þó argaþrasi stjórnmálamanna við feginleik viðstaddra.  Ég er ekki stjórnmálamaður, fullyrti hinn svellkaldi frambjóðandi borgarahreyfingarinnar en sessunautur hans, Sigurjón frjálslyndur Þórðarson flaggaði dauðadómi kvótakerfisins við lítinn fögnuð útgerðarmanna í salnum.  Framsókn lofaði endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og samþykkti jarðgangnagerð í Dýrafirði.   Það gerði Jón Bjarnason reyndar einnig í pólitísku svari sínu.   Ljóst má vera að núverandi stjórnarflokkar hyggjast starfa áfram.  Ofuráherzla samfylkingar á evrópumálin gæti staðið þessu plani fyrir þrifum og vænlegast að draga strax úr þeim þunga.  Leið sem báðir flokkar ættu að geta sæst á er það eina nothæfa úr ranni sjálfstæðisflokksins, nefnilega tvöföld atkvæðagreiðsla.  Þá gætu flokkarnir náð starfsfriði og þakkað hann sjálfstæðismönnum.   

LÁ 


GRÍMUR Í GÍR.

Grímur kom við á skrifstofu vinstri grænna á vesturleið sinni í dag og tilkynnti framboð.  Eftirspurnin mun koma í ljós en verði afdælingurinn ráðherra er topplúga áskilin.   Ég óska honum byrs og brautargengis í baráttunni og verði sami hamur í þjóðmálunum og á slaggígjunni í kvöld er landanum borgið.   Stuðningsmenn fjölmenntu á gluggann og í hvert skipti sem síminn gall var özkrað:  "Grímur, elskan, takk fyrir lánið!  Þú ert dásamlegur!"    Ég held að hann fái mörg atkvæði og ekki bara fyrir kjörþokkann.


Á ÞINGI Í BRUSSUBÆ.

Ísland er komið í evrópusambandið.  Ég sit með 4 löndum mínum á þingi þess arna.  Hinir 750 sitja fyrir sín lönd, ólík lönd með ólíkan kúltúr, ólík viðhorf, ólíka náttúru, ólík tungumál og ólíka hagsmuni.  Bændur í Portúgal kvarta yfir ágangi storka og ég minnist Styrmis sem Siv bjargaði svo eftirminnilega.  Sjómenn í Danmörku vilja drýgja tekjurnar með eftirlitsmyndavélum sem afhjúpa brottkast, ég stend upp og mótmæli, í Bolungarvík eru engir hommar, áheyrnarfulltrúi klerkastjórnarinnar í Írak klappar mér lof í lófa.      Einu sinni var ég í hreppsnefnd, við vorum tvö á móti þremur.  Alltaf með í ráðum en réðum engu.  Máttum tala en enginn hlustaði.  Tími okkar var tímaeyðsla hinna.  Niðurstaðan niðurstaða hinna. Og nú, sitjandi í æðstamusteri Evrópu, er mér hugsað til hreppsnefndarinnar, 40/60.  Hér 1/150.  Á Íslandi búa 300 þúsund hræður, í Evrópu 710 milljónir.  Einhverjar þessara kúlna rúmast að vísu ekki í ESB en samt, íslendingar eru ekki borg í Evrópu, ekki, kaupstaður, ekki kauptún, kannski tjaldstæði.  Engu að síður, nú erum við þjóð á meðal þjóða.  Með góðum hug og vilja geta gestir og gangandi séð okkur fimmmenningana hér í æðstamusterinu í Brussubæ og vinkað.  Eftir aðildina hefur margt breyst.   Við erum alltaf með í ráðum og megum líka nota myntina þeirra og vextina. Stöðugleikinn er frábær og skútan sem áður ruggaði milli himins og heljar líður áfram eins og bátur á kerru.  Auðlindirnar algerlega í okkar eigu þó þær lúti skilmálum og skriffinsku bandalagsins. Þetta er allt spurning um túlkun.  Og hvað fullveldið varðar, þá stendur það algerlega óhaggað, við megum kyrja þjóðsönginn, hífa upp fána og hvetja handboltalandsliðið.  Líka éta kindahausa, klæðast upphlutum og syngja fimmundir.  Enn og aftur, spurning um viðhorf.  Evrópubandalagið er ekki það skrímsli sem allir héldu, það verndar okkur gegn öllum Björgólfunum, Davíðonum og Jónunum.  Bandalagið er ekkert annað en risastórt skemmtiferðaskip. Við njótum ferðarinnar þó við ráðum engu hvert siglt er, okkur er líka sama, skipið getur ekki sokkið.  Alveg eins og Heimdallur.  Alveg eins og Titanic.   Fjandinn, ég gleymdi að rétta upp hönd.         

FLJÚGANDI FÁLKI EÐA Í HREIÐRI?

Guðspjöllin eru máttug en Davíðsspjöll þó máttugri.  Það síðasta í Kastljósi á dögunum skekur landslýð og bloggheimar loga.  Í samantekt hlýtur eitt að vera augljóst:  Eigi Davíð að víkja vegna afglapa hlýtur ráðherrum fyrri ríkisstjórnar að hitna í kinnum.  Hafi Davíð yfirsést í aðdraganda hrunsins, hvað þá með Jóhönnu, Össur, Ólaf Ragnar og Möller?    Eftiráspekingar? Ástarhaturssamband þjóðarinnar við Davíð Oddsson er orðið að þráhyggju.  Þessi fyrrum landsfaðir hillar og hrellir í senn, gefur, tekur, lemur, klappar, tapar, sigrar.    Dáður og fyrirlitinn í sömu andrá.    Sem sagt áhrifamaður.   Vinstri vængur stjórnmálanna vill Davíð Oddsson burt úr seðlabankanum.  Helst tafarlaust.   Ég segi:  Vilji þeir frekar fljúgandi fálka en í hreiðri, þá verði þeim að góðu.


AFTURGANGA DAVÍÐS.

Eina krafan sem eftir stendur á mótmælendur er stjórn seðlabankans burt.  Það hefur ekki gerst og óvissan enn mikil.    Ríkisstjórnin brást, fjármálaeftirlitið brást og seðlabankinn brást, eða hvað?  Hungur almennings eftir blórabögglum er skiljanlegt miðað við það sem á undan er gengið.   En afhverju Davíð?  Sjálfur varðist hann fimlega í kastljósviðtali í kvöld og reyndar gott betur, blés til sóknar.  Mörg atriði sem Davíð nefndi eru í rannsókn og munu eflaust upplýsast að henni lokinni.  Enda sögðu vísdómsmenn 2008 ár bankahrunsins en 2009 ár uppljóstrana.  Davíð skýrði mörg ásökunaratriði í garð æðstu manna seðlabankans prýðilega, m.a. bindiskylduna og gjaldeyrisforðann, einnig viðurkenndi hann að verðbólgustefnu bankans hafi verið ábótavant.  Viðvaranir seðlabankans voru greinilega margar og í tíma og sé útlistun Davíðs rétt má ljóst vera að ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar og sömu þessarar eru í vanda.  Fleira málsmetandi fólk má búast við andstreymi séu bollaleggingar Davíðs varðandi fjárhagslega fyrirgreiðslu ýmiskonar réttar.   Hausar munu fjúka og sumir fagrir.  En þó Davíð sé í huga margra faðir einkavæðingarinnar, er réttlát að saka hann um skipbrot fyrirbærisins?    Davíð má saka um ólýðræðislega stjórnarhætti og einstrengingshátt á sinni valdatíð en er maðurinn krimmi?   Stór hluti þjóðarinnar hefur horn í síðu hans og ákveðinn hópur greinilega gert honum lífið leitt, bæði í vinnu og einkalífi eins og fram kom í kastljósviðtalinu.   Hann hefur því í mörgu stöðu sakbornings og sagði það raunar sjálfur í títtnefndu viðtali.    Komi í ljós að sannleikur Davíðs sé sá eini sanni er það gríðarlegur áfellisdómur yfir fjölmiðlum, mörgum ráðamönnum og ekki endilega bara hérlendis.   Brottrekstur Davíðs úr seðlabankanum er kannski neyðarbrauð ráðvilltrar þjóðar en verði svo sé ég enga leið færa fyrir manninn aðra en þá að ganga aftur.  Og sú afturganga verður fjölmenn.   


ÞINGALDUR

Endurnýjun þingmanna verður greinilega þó nokkur í komandi kosningum.  Mörg gömul brýni eru sjálfhætt og önnur eiga erfitt um vik vegna fortíðardrauga.  Yngri þingmenn hyggjast flestir sækja til endurkjörs og ný andlit spretta velflest úr flokksstarfi eða sveitarstjórnum, gjarnan á fertugsaldri, ekki ósvipað bankakrökkunum sem klessukeyrðu þjóðina með snilld sinni og viskiptaviti.  Æskudýrkun á þingi á sér þó skýringar.  Efniviðurinn er meðfærilegur, goggunarröðin fyrirséð og dómgreind í samræmi við reynslu.   Æðstu ráðamenn hleypa enda ógjarna einstaklingum heimtröðina sem sýna yfirburði.  Slíkir gætu fært þá sjálfa í skuggann.  Því er flokksæzkan afar heppileg ísækja og þeir sem líklegastir eru til að halda þræðinum bornir á gullstól, skaffað lifibrauð, aðgengi, athygli og fjárráð.  Með þessu er klúbburinn pólitískt líftryggður.  Niðurstaðan fyrir samfélagið er óljós þegar vel árar en í skipbroti eins og núna ávísun á mannskaða enda klúbbnum ekki ætlaður síðasti björgunarbáturinn. Nú ríður á að fá fólk á alþingi sem ekki tengist svona flokkadráttum.  Fólk með reynslu úr skóla lífsins og gjarnan metandi á sínu sviði.  Ekki virðist auðvelt að virkja þannig fólk til starfa og er það áhyggjuefni.  Umræður á alþingi undanfarið eru heldur ekki beint til að vekja áhuga, hvað þá yfirburðamanna. En foringjar stjórnmálaflokka gerðu þjóð sinni mikinn greiða með að kalla eftir fulltingi slíkra manna og vonandi er viðleitni núverandi stjórnar til marks um það sem koma skal.Vaxandi vanmátt alþingis og undirgefni gagnvart ráðherrum má refjalítið rekja til uppruna og ungs aldurs þingmanna.  Uppeldi í stjórnmálaflokki miðar að flokkshollustu, ógagnrýnni hugsun og þagmælsku.  Einnig fylgir ofurkapp einatt ungum aldri og það viðheldur rúllunni.  Endurnýjunin verður því einungis á umbúðum, ekki innihaldi.   Ég mæli með að þingaldur verði hækkaður í 40 ár og helst 45 hjá körlum.           

BÖLSÝNI & BJARTSÝNI.

500 milljarðar, 2000 milljarðar....  Töluvert ber í milli bjartsýnustu hagfræðinga og bölsýnustu.  Fyrir leikmenn er erfitt að átta sig á réttunni en fyrir þingmenn nauðsynlegt að ná henni fram sem fyrst.   Yfirtaka bankanna var talin nauðsynleg til varnar fjármálaumsýslu innanlands en gagnvart almenningi alls óljóst hvaða skuldbindingar í raun fylgja.  Sömuleiðis er hula yfir láni AGS, krónubréfum, jöklabréfum og lánum frá öðrum löndum.  Ennfremur mistur yfir fjárútlátum vegna starfsemi fyrrum bankaeigenda erlendis.   Hagfræðingum ber illa saman hvað inn stendur og út, hvað sé til geymslu og hvað sé til nota.     Stjórnvöld verða að koma þessu á hreint og karp þingsins um hvor sé vitlausari, fyrrum forsætisráðherra eða núverandi, er til skammar.   Gefum þessari skammlífu minnihlutastjórn starfsfrið eða látum utanþingsstjórn valinkunnra ganga í hauginn.    Fólkið í landinu á ekki skilið reikistefnu dag frá degi ofan á allt annað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband