16.2.2009 | 00:21
HEILBRIGÐISMÁL Í HNOTSKURN.
Nýr heilbrigðisráðherra ýtir ráðstöfunum fyrirrennarans af borðinu og fyrirhuguð umbreyting Jósefsspítala verður ekki. Held það sé gott mál enda þó sparnaður hefði ugglaust orðið nokkur. Minni einingar eru mannvænni, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, yfirsýn auðveldari og mistök færri. Stórir útgjaldaliðir heilbrigðisþjónustunnar eru launakostnaður og lyfjakostnaður. Stjórnunarnetið má grisja og spara háar upphæðir. Besta leiðin í því er blandað rekstrarform sem gæti skapað samkeppnisumhverfi og þá myndu óþarfa stjórnunarstöður afleggjast. Einnig þarf að efla kostnaðarvitund heilbrigðisstarfsmanna og lækna þá sérstaklega því iðulega eru það þeir sem setja rúllurnar í gang. Ein leið er þak á lækna, bæði á rannsóknir og ferilverk. Ótækt er að læknar geti tekið sér sjálfir nánast ótakmörkuð laun úr ríkissjóði. Afkastahvetjandi kerfi getur vel átt rétt á sér en þá þarf jafnframt að auka kostnaðarhlutdeild sjúklings, með þessu opnast leið flýtimeðferðar sem sjúklingar geti nýtt sér standi vilji til. Fyrirætlanir nýs heilbrigðisráðherra varðandi lyfjakostnað eru vænar og skylda á lækna til að ávísa ávallt ódýrustu lyfjunum nema annað sé vel rökstutt. Skjaldborg um grunnþjónustu, neyðarþjónustu og öldrunarþjónustu verður einungis við haldið með sparnaði á öðrum sviðum. Lækkun launa, lækkun lyfjakostnaðar, fækkun rannsókna og fækkun stjórnunarstaða er besta leiðin til þess.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2009 | 01:37
GAMALT VÍN Á NÝJUM BELGJUM.
Þrátt fyrir þjóðarskellinn í haust, þrátt fyrir almenn mótmæli og kröftug, þrátt fyrir augljósa ágalla stjórnskipunar og stjórnarskrár, þrátt fyrir ömurlega umgengni ráðherra og vökuleysi, þrátt fyrir vanmátt alþingismanna og hratt versnandi lífskör virðist framgangur nýrra framboða hægur. Í samantekt hefur allur atgangurinn fremur styrkt fjórflokkakerfið en veikt. Framundan eru kosningar og lýkur á meirihlutastjórn framsóknar og sjálfstæðisflokks þó nokkrar. Formannsslagur samfylkingar ýtir svo sannarlega undir þennan möguleika, hugsanlegt brotthvarf frjálslyndra og síðast en ekki sízt fjölmiðlar sem hygla stærstu molunum. Hætt er við að nýtt Ísland verður gamalt vín á nýjum belgjum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2009 | 03:15
GAMLA BRÝNIÐ MÆTT.
Egill Helgason á konu sem reyndar er ekkert skrítið, maðurinn er sjarmur. En konan reit um landbúnaðarmál og þá reglugerðarkreppu sem greinin er í. Í augum margra eru beingreiðslur bænda blóðpeningar og atlaga að jafnrétti. Einföld spurning: Afhverju eiga bændur að njóta beingreiðslna fyrir sínar afurðir frekar en húsgagnasmiður? En í mörgu sjáum við hluti í öðru ljósi nú en fyrir þjóðarskellinn. Mjólkin kemur frá bændum, kjötið líka og án þessa eru mörg heimili illa stödd. Appelsínukassi getur komið í staðinn fyrir stól og kona fyrir borð. Offjárfesting undanfarinna ára á sér líka stað í landbúnaði. Augljósasta dæmið eru vélmennafjós. Önnur bommerta er loðdýraræktin þó hún sé eldri. Yfirgefin gróðurhús eru hryggileg sjón en þau má sjá víða. Ylrækt hefur liðið fyrir hátt raforkuverð en breyttar aðstæður gætu ýtt undir afturgöngu hennar. Úlfakreppa bænda er reglugerðarfargan, t.d. fer andvirði dilks að mestu í sláturleyfishafa og aðra milliliði þannig að á öðrum endanum emjar bóndinn prettur, á hinum kúnninn flettur. Býli án offjárfestingar, heimaslátrað, ódýrari raforka, þetta þrennt gæti glætt landbúnað lífi, gert hann sjálfbæran, mann- og skepnuvænan. Sammála Egilskonu að miklu öruggara sé að kaupa vöruna beint af bændum fyrir utan að vera miklu skemmtilegra. Íslenskur landbúnaður hélt lífi í þjóðinni um aldir, missti svo þetta lykilhlutverk en nú hyllir undir endurkomu á svið. Hyllum þetta gamla brýni og spillum því ekki.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2009 | 22:22
ALLIR AÐ REDDA SÉR.
Einn mikilvægasti eiginleiki mannsins er aðlögun. Breytingar kalla fram þennan fjanda, fyrstir koma, fyrstir fá. Tregða gagnvart breytingum er haldreipi þeirra sem búnir eru að aðlagast og hasla sér völl. Margir sem þannig hugsa halda þó fram frelsishugsjóninni, gangverki framboðs og eftirspurnar. En þegar þeirra eigið viðskiptamódel rennur sitt skeið og stendur frammi fyrir óumflýjanlegum breytingum sporna þeir við, m.ö.o. hafna sömu lögmálum, lögmálum sem komu þeim sjálfum á koppinn. Hagsmunasamtök útgerðarinnar fara fyrir þessum flokki. Hafna enn öllum breytingum á fyrirkomulagi fiskveiða sem augljóslega er samfélagsleg helför. Þeim ætti að vera í lófa lagið að taka þátt í uppbyggingu atvinnugreinarinnar, nýta forskotið og gera það sem öðrum er uppálagt sem stunda atvinnurekstur: Redda sér.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2009 | 03:02
EIGNARÉTTUR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2009 | 04:08
ÓYNDI.
Í öllu kreppustandinu er nauðsynlegt að slá á óyndið. Mörg brúkum við hundinn eða fjölskylduna og hvorutveggja sannlega gott. Einnig er haldgott ark undir stjörnuhimni sem og súrmatur. Hverfi óyndið ekki við þetta má mótmæla eða áslá í heimahúsi. Auðvitað er hægt að drekka sig fullan en búast má við tvöföldu óyndi á leiðinni heim. Svo má reyna að véla sér apótek, hætta að lesa fjölmiðla eða fara í framboð og gerast bjargvættur. Sofa er líka ágætt fyrir þá sem það geta. En séu öll sund lokuð bloggaðu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2009 | 05:12
HVER ER AFSTAÐA SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRA?
Mikið er talað um hjól atvinnulífsins og gangsetningu. Nýlega jók sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi þorskkvótann um 30.000 þúsund tonn og útdeildi til núverandi handhafa. Með pálmann í höndunum gat ráðherrann fest þessar aflaheimildir sjávarbyggðunum og unnt bæjarfélögunum að leigja þær hæstbjóðanda gegn því að landað væri í heimahöfn og fiskurinn verkaður í heimabyggð. Þetta myndi strax færa líf í byggðirnar og jafnframt bæjarfélögunum nýjan tekjustofn. Á þessum nýja grunni gæti atvinnulífið farið í gang og handhafar fyrri heimilda boðið í þessar nýju eða haldið áfram að veiða sitt. En, nei. Ráðherrann hélt tryggð við kerfið sem kollverptist. Kerfið sem búið er að hagræða sínu til Pógóeyja, kerfið sem átti að vernda fiskimiðin og þjóðarhag. Þykist ég viss um að einhverjir snúi sér við í gröfinni yfir þessum ósköpum en ráðherrann ræður engu lengur og sýta það trúlega fáir. Nýr ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fer mikinn í hvalveiðinni en gott væri að vita hug hans til sjávarútvegsstefnunnar í heild. Á löngum stjórnmálaferli er hann enn hulinn, þó veit ég að þegar atkvæði voru greidd 1990 um kvótaframsalið var umræddur jámaður þess.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2009 | 04:26
AFSÖKUNARBEIÐNI, NEI!
Ólíkindalegt að hlusta á þingmenn sjálfstæðisflokks á alþingi í kvöld. Vælandi um aðför og volandi um stefnu minnihlutastjórnar sem tekur ekki bara við vondu búi heldur þrotabúi þeirra sjálfra. Forherðing þessa fólks er algjör og blindan á eigið hugmyndafræðilegt þrot sömuleiðis. Upphrópanir um stjórnarskrá og mikilvægi hennar bylja eins og tómar tunnur eftir 18 ára stjórnarsetu. Plagg sem einmitt sjálfstæðisflokkurinn hefur fótum troðið, gert marklaust og ónýtt með andlýðræðislegum vinnubrögðum. Afsökunarbeiðni á framferði sínu hefði verið nær lagi, auðmýkt og eftirsjá. En, nei. Engu slíku er fyrir að fara enda fær flokkurinn nú að kenna á eigin meðulum og sniðgenginn. Veruleikafirring flokksins er með ólíkindum og óskiljanlegt að fjórði hver íslendingur geti hugsað sér að kjósa þessa hörmung. Von sjálfstæðismanna er að biðja þjóðina afsökunar, endurnýja mannskapinn og taka síðan hugmyndafræðina til endurskoðunar. Tvennt af þrennu gæti dugað.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2009 | 05:12
Í SKATTAPARADÍS.
Orðið hátekjuskattur ýtir mörgum hátekjumanninum út af brúninni. Bara orðið ýfir upp kambinn og menn heita á bjargvættinn, Davíð. Samt var tregða í hans tíð að afleggja hátekjuskattinn endanlega. Vegna þjóðfélagsástandsins kemur þessi skrambi nú sterkur inn í umræðuna og klýfur fólk í fylkingar. Þó greyið skili ekki ýkja miklu er hann táknrænn. Mörgum mun líða betur. Annað mætti laga og það er að samræma tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt. Gjáin á milli þeirra er allt of víð eins og oft vill verða þegar farið er að slá í. Á sokkabandsárum fjármagnstekjuskattsins höfðu fáir viðurværi sitt af slíku andstætt því sem nú er. Því þarf að endurskoða þennan skatt og hækka. Einnig þarf að taka hann inn í útsvar. Fólk hlýtur að sjá að í svona árferði eru skattahækkanir óumflýjanlegar og eðlilegt að byrðunum sé ýtt meira á þá tekjuhærri. Samhliða ætti að afnema öll fríðindi einstakra hópa. Sjálfstæðismenn sem andæfa skattahækkunum geta lítið sagt, öll þessi sporðaköst eru vegna þeirra óstjórnar, þeirra gegnsýrða klíkusamfélags sem kann ekki einu sinni að skammast sín. Skattaparadísin Ísland er fyrst og fremst hugmyndafræði sjálfstæðisflokksins þó aðrir sjái um framkvæmdina.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2009 | 05:02
LÖG ENDURSPEGLA SIÐGÆÐI ÞJÓÐAR.
Lög eiga að endurspegla siðgæði hverrar þjóðar, vilja og væntingar. Eitthvað á þessa leið farnaðist fyrrum samstarfsmanni mínum og lækni, Andrési Magnússyni. Er ég honum hjartanlega sammála. Auðvitað á aldrei að semja lagaramma sem ofbýður almennu siðgæði. Þetta hafa fyrri ríkisstjórnir þó oftsinnis gert sig sek um, þekkt dæmi eru hin alræmdu eftirlaunalög sem sniðin voru að þörfum eins og örfárra manna. Sami aðili kemur við sögu í annarri ólagaklausu sem segir til um starfslok seðlabankastjóra. Þessi ólög gera að verkum að brottrekstur bankastjóranna kostar þjóðina tugi eða hundruði milljóna. Annað tveggja er að kyngja endaleysunni og telja peningunum þrátt fyrir allt vel varið eða semja ný lög, afturvirk sem breyta þessum glórulausu forréttindaólögum í venjulegan 3ja mánaða uppsagnarfrest með halasprota sem útilokar málsókn gegn ríkinu. Með staðfestu skal illt út reka og eyða sem fyrst ólögum sem gera upp á milli fólks.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)