Á SJÓ

Fer á sjó í nótt, einskonar starfskynning á vistvænum veiðarfærum.  Með í för er bæjarstjórinn sem ólmur vill vita allt um fisk og fiskveiðar, hafnaði m.a.s. hafnarstjórnarfundi með tveimur ráðherrum og lætur þá eina.   Ekki er ég beint spenntur fyrir volkinu, kýs fremur fast land eins og ráðherrarnir, en vænti þess þó að þekkja muninn á farborða og stjórnborða eftir túrinn.

LÁ    


NÝR HANAKAMBUR

Kambur er aftur kominn á kortið.  Nýtt nafn, ný kennnitala og nýtt fólk.  Markmiðið að halda áfram fiskvinnslu á Flateyri.  Gamli kóngurinn kveður en ekki lengur án arftaka.  Sá fær að vísu ekkert ríkidæmi, sá gamli tekur það með sér, hinsvegar grunn að byggja á.  Arftakinn hefur þegar kvatt sér hljóðs og lýst eftir samstarfsaðilum og opinberri aðstoð.  Gangi það upp er íbúunum borgið, a.m.k. fram að næstu kóngaskiptum.  Nú, ef ekki er trauðla við neinn að sakast, menn reyndu þó.


"BLINDGÖTUR"

Blogga nú í fyrra fallinu enda útkeyrður eftir kappleik kvöldsins þar sem Grímur Atlason, bæjarstjóri, fór á kostum.  Landsliðinu yrði akkur í Grím sem vægi þó ekki upp eftirsjá Bolvíkinga ef af yrði.  Merkilegt við svona boltaat er höndlun manna á leiknum.   Sumir hlaupa sleitulaust meðan aðrir vafra um í hægagangi, einn býður einstaklingsframtak, annar hóphuxun, þriðji baráttu.  Klukkutíma spark endar svo með tapi, sigri eða jafntefli.   Sem hægagangsmanni hef ég stundum næði til að hugsa og mat mitt það að knattspyrnuleikir tapist almennt á svokölluðum "blindgötum" en það eru liðsmenn sem alltaf taka viljann fram yfir verkið.  Kannski  maður ætti að snúa sér að fuglaskoðun..., með Grímsa.

LÁ    


HUGSJÓNADRUSLUR

Mikið hefur okkur fatast flugið í einu:  Að vera afgerandi, blátt áfram og samkvæm.  Tvö pólitísk ungstirni voru í umræðuþætti og höfðu aðspurð ekkert að segja um launahækkanir seðlabankastjóra.  Hvorug hafði kynnt sér málið.  Eiríkur Örn Norðdal skrifaði bók um svona afstöðuleysingja og kallaði fyrirbærið  hugsjónadruslur en þessi núllstillingartilhneiging er sérlega áberandi meðal ungra stjórnmálamanna og ekki til þess fallin að auka áhuga almennings.  En kannski er það einmitt mergur málsins. 


STARFSTILBOÐ

Á öðrum degi sumarfrís var mér boðið starf í Edinborgarhúsinu.  Þriggja tíma daglegt dund við þvott og uppvask.   Þótti eilítið vænt um þetta starfstilboð enda ekki fengið slíkt í mörg herrans ár.  Ákvað þó að njóta hunda og barna í spekt heimavið og letihaugast, á enda útivinnandi elsku sem sér fyrir sínum.  Takk samt fyrir starfstilboðið, Helga Vala, vonandi get ég endurgoldið líku líkt einhverntíma seinna.


HVER ER GLÓRAN?

Í bígerð er að rífa efstu húsin í Bolungarvík, 5 eða sex glæsivillur sem kosta á mölinni 300 milljónir.  Allt vegna snjóflóðahættu sem er þó nánast engin án ábyrgðar.  Í stað húsanna kemur snjóflóðavarnargarður sem hleypur á milljarði eða tveimur.  Hægt væri að manna stöður snjóeftirlitsmanna í nokkrar aldir fyrir þessa upphæð.   Svo má spyrja til hvers að byrgja byggðir sem markvisst er verið að kála með veiðileysu og fækkun starfa?  Hver er glóran?


LJÓTU ANDARUNGARNIR

Í vor sáði elskan mín fræjum, litlum svörtum belgjum sem, gangi allt upp, umbreytast eins og ljóti andarunginn.   Hver belgur fékk sitt pláss í grænum plastkassa, keyptur var útvalinn jarðvegur með jurtafeiti og plöntuvítamínum og dedúast við gróðursetninguna eins og um hvolpa væri að ræða.   Síðan var herlegheitunum stungið inn í bílskúr enda hljómsveitin í sumarfríi.  Í endaleysu dagsins döfnuðu fræbelgirnir og brátt stungust ljósgrænir stúfar upp úr moldinni.   Líf var að kvikna.   Það varð því mikið fjaðrafok þegar ég settist óvart ofan á nýgræðinginn fyrr í kvöld.  Ég skil ekki hvað gerðist og það veit guð að ekki var um ásetning að ræða.  Reyndi að hughreysta elskuna mína og sagði henni að þessir andarungar hefðu hvort eð er aldrei orðið svanir.  Niðurstaðan varð sú að ég hvarf til bæjarstjórans og lagði fyrir hann álitsgerð um lausagöngu barna í bænum.  Þegar ég kom heim var elskan mín sofnuð.   


FÓRNARLÖMB ÞRÓUNAR

Óbreytt skal það vera, segja útgerðarmenn, allar breytingar eru ígildi kollvörpunar.  En er það ekki einmit það sem við þurfum, kollvörpun?  Hvaða máli skiptir fyrir þjóðina þó allt þetta lið fari á hausinn og bankarnir afskrifi eitthvað af lánunum sínum?  Hverju myndi þjóðin svo sem tapa?  Menn koma í manna stað, einkaframtakið finnur sér alltaf farveg.   Aðgangseyririnn að sjávarauðlindinni er orðinn svo hár að öll hagkvæmni er löngu fyrir bí, ný hugsun, nýtt verklag og nýtt fólk finnur sér vitrænni verkefni og haslar sér skiljanlega völl í öðrum atvinnugreinum.  Eftir stendur sjávarútvegurinn eins og illa umgengin einkaþota, löngu komin af ratsjá.   Best væri að banna strax allar togveiðar og leyfa aðeins vistvæn veiðarfæri eins og línu.  Hvíla miðin á endalausu skrapi.  Sjálfbærni er það sem koma skal og séu togveiðar á skjön við þá framtíðarsýn verða stórútgerðir að lúta sömu lögmálum og önnur fórnarlömb þróunar, punktur.


LJÓSANÆTUR

Bjartasti tíminn er nú í algleymingi.   Alltaf einhver fugl að kvaka, þrestir, stelkir, jaðrökur og spóar.   Jú og einstaka önd.   Á þessum ljósanóttum er svefnþörfin í lágmarki, hitinn stundum þrúgandi og andvökur tíðar.  Þá er annaðhvort að éta svefntöflur eða hugsa.   Eða gera eins og fuglarnir úti og hvísla ástarorðum í eyra elskunnar sinnar og sjá hvort í leynist lífsmark.   Hætta svo þegar fyrstu sólargeislarnir verma bossann.  Flugnasuðið sem síðan tekur við ber nýjum degi vitni og þá er óhætt að sofna.   


DAUÐASYNDIR

Nýjustu ráðleggingar hafrannsóknarstofnunar innibera hnignun fiskimiðanna, auðlindin nær ekki sjálfbærni og friðun eina ráðið.  Minnkun þorskafla úr 180 þúsund tonnum í 130 er gífurlegur áfellisdómur yfir ríkjandi fiskveiðistjórn, aðeins þriðjungur upphaflegs aflamagns stendur eftir.  Margrómuð hagkvæmni kvótakerfisins endurspeglar eina af dauðasyndunum sjö, ágirndina.   Menn moka gegndarlaust upp skammtímahagsmunum, tæma balann og stökkva síðan frá borði.   Andvaraleysi stjórnvalda endurspeglar aðra dauðasynd, munúðina, fara auðveldustu leiðina og nenna ekki að taka til hendinni og fjarlægja óþarfa rusl sem liggur í þjóðbraut.    Hvort tekið verður mark á viðvörum hafrannsóknarstofnunar er reyndar ólíklegt, kannski að hluta.  En sífelld vonbrigði aflamarka hlýtur að stafa af ónýtu veiðistjórnunarkerfi, röngum aflatölum eða hvorutveggja.  Nema vísindi hafrannsóknarstofnunar séu ótæk og ráðleggingar hennar aðalmeinið.  Á hvort skal veðja, hafró eða hagsmunaaðila? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband