Færsluflokkur: Bloggar
22.10.2010 | 04:22
LANDI Í KLANDRI.
Hraus hugur við viðtali við landlækni í fréttum kvöldsins. Tjáði hann sig um einkasjúkrahúsið á suðurnesjum og sagði það ógn við heilbrigðiskerfið, tók til rannsóknir sem bentu á skaðsemi slíkra stofnanna. Ennfremur ýjaði landlæknir að atgervisflótta starfsfólks frá ríkisreknu einingunum þegar hinar einkareknu væru í boði. Hef rendar æ verið ósammála því að fólk með faglega löggildingu í læknisfræði megi ekki setja sig niður og hefja rekstur sýnist því svo. Þetta tíðkast allsstaðar og þarf ekki einu sinni stúdentspróf til. Sem er fínt. Segi ennfremur bábilju að einkarekstur geti ekki þrifist með ríkisrekstri og tel fagnaðarefni að á niðurskurðartímum sem þessum skuli heilbrigðisstarfsfólki nú bjóðast nýjar stöður. Eða hvað með allt fólkið sem mun missa vinnu sína í komandi niðurskurði heilbrigðisstofnanna, er betra að allir húki heima? Við þetta má bæta að allt í kringum okkur er blandaður heilbrigðisrekstur, meira að segja í Svíþjóð, og ekki vandamál að fólk deyi drottni sínum sökum fátæktar. Held stjórnvöld og landlæknir þ.m.t. ættu að hætta þessum grenjum gegn einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og hlúa frekar að uppbyggingu einkageirans samhliða þeim ríkisrekna. Þannig fáum við fleiri valmöguleika, atvinnu, samkeppni, þekkingu og jafnvel arð. Óska svo einkasjúkrahúsi suðurnesja velfarnaðar í hvívetna.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.10.2010 | 04:15
KIRKJA MEÐ BUXURNAR Á HÆLUNUM.
Sálgæsla og fræðsla kirkjunnar manna í skólum borgarinnar skal nú afþökkuð og er það mat mannréttindaráðs. Jafnvel sálmasöng skal ýta til hliðar. Þykir mörgum þetta súrt enda löng hefð að baki. En sitt sýnist hverjum um trú og erfitt að sameina sjónarmið undir einn hatt. Þess ber þó að geta að aðskilnaður ríkis og kirkju hefur enn ekki átt sér stað og þjónusta hennar því enn hornsteinn okkar samfélags. Önnur samfélög hafa svo sína hornsteina. Æskilegast væri að efna til þjóðaratvæðagreiðslu um aðskilnað ríkis og kirkju eða ekki. Hún myndi gefa vísbendingu um hvert skyldi halda. Andbyr kirkjunnar nú má eflaust rekja að einhverju leyti til þess að kirkjunnar menn hafa legið undir ámælum fyrir kenndir sínar og ákvarðanafælni. Og vissulega mega sumir fara að hysja upp um sig buxurnar. Gleymum þó ekki boðskapnum, sjálfu fagnaðarerindinu sem reynst hefur þjóðinni svo vel í 1000 ár. Með smá kraftbirtingu gæti það áfram átt með okkur samleið og gert okkur að enn betri mönnum.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.10.2010 | 03:33
SIGURGANGA JÓNS Á ENDA?
Þegar ljóst var að Jón Gnarr myndi velgja gömlu flokkunum undir uggum kættust margir. Meðal annars ég. Eins og fleirum fannst mér virkilega kominn tími á nýjabrum á sviði stjórnmálanna og Jón ekki verri en hver annar. Uppgangur Jóns var ævintýri líkastur og að hann skuli vera orðinn borgarstjóri óraunverulegt. Kannski Jón sé nú að vakna upp í martröð sem hann ekki sá fyrir. Hugsanlega er hrútleiðinlegt fyrir skapandi fólk að vera borgarstjóri. Jafnvel þarf allt aðra eiginleika í svona starf en fyndni. Hroki kom mörgum vel og sjálfvitaháttur. Jón Gnarr er hvorugt. Svo virðist að tvær grímur séu farnar að renna á Jón og önnur ætluð Degi. Krumlur stjórnmálanna eru eflaust óvægnar og þetta kannski vænsti kostur Jóns í stöðunni, hver veit? En framundan er steinsmuga Bezta Flokksins og líf hans í hættu. Sem er vont því flokkurinn var og er enn eitt helsta vonarstrá þjóðarinnar gegn fjórflokknum. Hvet innstu koppa Bezta Flokksins að hugsa nú vel sinn gang því eitt og annað veltur á ýmsu.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.10.2010 | 02:01
ALÞÝÐUÓTTI.
Því fannst mér hryggilegt að heyra Guðrúnu Pétursdóttur fræða landslýð um framkvæmd kosninganna sjálfra. Að ætla frambjóðendum númer í stað eigin nafns er móðgun og réttlætingin að það sé til einföldunar vegna fjölda þeirra er útúrsnúningur. Þvert á móti mun tilhögun sem þessi flækja málin og fæla kjósendur frá þátttöku. Þessari úrlausn, að hver kjósandi velji 25 einstaklinga á stjórnlagaþing með persónunúmeri, gef ég falleinkunn og vildi gjarna sjá henni riðlað. Einfaldast væri að raða frambjóðendum eftir stafrófsröð á kjörseðlinum ásamt kennitölum. Síðan gæti fólk merkt við þá fimm sem þeir helst vildu sjá á þinginu. Þannig aðkoma myndi reka miklu fleiri á kjörstað sem miðað við tilgang stjórnlagaþings hlýtur bæði að vera forsenda og eftirsóknarvert.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.10.2010 | 01:17
VELFERÐ VINSTURSINS.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.10.2010 | 01:52
BJARGRÁÐ & NESJAÞINGMENN.
Verjandi fyrrum forsætisráðherra fyrir landsdómi vill láta málsókn á hendur skjólstæðingi sínum niður falla. Segir alþingi hafa gleymt að skipa saksóknara í málinu jafnhliða samþykkt um málsókn. Svo sem ágæt lausn að formgalli bjargi Geir frá landsdómi. Firningin bjargaði jú Davíð og Halldór, samheldni vinnufélaganna hrunstjórnarráðherrunum og kennitöluflakkið útrásarvíkingunum. Allir hafa einhver bjargráð nema heimilin. Mestu aumingjarnir eru þó listamenn, svo segir nesjaþingmaður. Eflaust má finna drabbara í þeirra hópi sem öðrum en músikhúsið á hafnarbakkanum þolir nesjaþingmaðurinn heldur ekki. Hafi hann þökk fyrir hreinskilnina, sjálfur tel ég tónlistarhús ekki til brýnustu verkefna þjóðar neðarlega í hrunhlíð en léti það óátalið ef áhugamenn slíkrar framkvæmdar stæðu sjálfir að húsinu. Því er ekki að heilsa og afstöðu þingmannsins tel ég reyndar ekki einsdæmi. En séu menn spurðir, ekki sízt þingmenn, hafa allir gaman af ballet.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2010 | 02:36
SKIPT UM FRAMHLIÐ.
Að burðast með brennimark eða kennitölu sligar nú margan íslendinginn. Þó hefur ákveðnum hópi tekist að sigla framhjá þessum merkingum. Með mörgum kennileitum skipta sumir um framhlið að vild og viðhafa eigin reglur og siði . Nýlegar fregnir af arðgreiðslum og afskriftum sýna glöggt hvernig fólk notar slík töfrabrögð til að koma undan fjármunum jafnhliða eigin skuldaafskriftum. Hvernig er þetta eiginlega hægt og hvers vegna látið viðgangast? Ríkisstjórnin og reyndar þingheimur allur hlýtur að geta sammælst um svo augljóst þjóðþrifamál.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2010 | 05:25
UPP MEÐ SPJÓTIN!
Arfavitlaus niðurskurður heilbrigðismála birtist nú landsmönnum ofan á allt annað. Í stuttu máli færast bráðalækningar mestmegnis á suðvesturhornið og litlu landsbyggðarsjúkrahúsunum breytt í heilsugæslur. Bæta á sjúkraflutninga til að gera þetta kleift. Hvernig ráðherra hyggst stytta leiðir og breyta veðrabrigðum er mér hulið. Get ei heldur séð neinn sparnað í svona umróti, að fækka stöðugildum úti á landi með tilheyrandi atgervisflótta, ónýta aðstöðu sem þegar er fyrir hendi og færa niðurgróna þjónustu fyrir íbúana úr heimabyggð. Vítt um landið er prýðis aðstaða og fremur vert að íhuga streymi sjúklinga til landsbyggðar en ekki frá. Vandamál heilbrigðiskerfisins er að minnstu leyti litlu, manneskjulegu einingarnar í borgum og sveitum heldur sú miðstýringarárátta hvurs birtingarmynd er í stórum byggingum og ofvaxinni stjórnsýslu. Þetta sést víða, nefni ráðhúsið, sjónvarpshúsið, landspítala orkuveituna og bráðum tónlistarhúsið. Hættum sífelldum árásum á raunveruleg störf, beinum spjótunum frekar upp.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.10.2010 | 11:42
VON OG ÓVON.
Krafa fólks um að forgangsraða fólki fram yfir fjármagn var hávær á Austurvelli í nótt. Hugsunin sú að fremur sé hlúð að brýnum þörfum einstaklinga en súluritum banka og fjármálastofnanna. Einnig að afskriftir ættu yfir alla að ganga, ekki einungis suma. Einmitt þetta atriði fer mjög fyrir brjóstið á fólki og fullkomlega eðlilegt. Veruleikafirring ríkisstjórnarflokkanna er sú að hafa forgangsraðað ESB, icesave og nú síðast landsdómi í stað fjölskyldna landsins. Veruleikafirring stjórnarandstöðunnar er á hinn bóginn ranghugmyndir um endurkomu í stjórnarráðið. Lausnin er ekki fólgin í endurkomu hrunverjanna, þá fyrst verður allt vitlaust. Þjóðin heimtar sértækar, tafarlausar lausnir á skuldavanda heimilanna, lagasetningu strax þar sem komið er inn á heimilin en ekki óvissuferð hvers og eins upp á óvon. Af mótmælum gærkvöldsins má glögglega sjá að tíðinda sé að vænta. Tímaglas ríkisstjórnar ESB, icesave og landsdóms er runnið út.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2010 | 01:22
EGGJAHRÆRA Á AUSTURVELLI.
Eins og ömurleg hljómsveit gengu mörgæsir þjóðfélagsins milli guðs og þings, ataðar eggjum og tómötum. Steingrímur biður um þolinmæði en Bjarni vill nýja hljómsveit á svið, væntanlega með sjálfum sér sem forsöngvara. Og þegar tveir kostir eru í boði er tamt að taka þann verri. Örþrifaráð allslausra íslendinga á Austurvelli dagsins hittu þó alla þingmenn og fóru ekki í manngreinarálit. Jafnvel guðsmenn fengu að kenna á hrærunni. Vona Steingrímur átti sig á því sem nærtækast er, gulli hafsins og lífeyrissparnaði landsmanna. Hvorutveggja eru mjólkurkýr núsins og þjóðin þarf nytina strax. Taki Steingrímur þennan blús er von að eggjakastinu linni. Stígi Bjarni hinsvegar á stokk verður öllum vísað út og VIP móttakan opnuð á ný.
LÁ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)